Ljósmæðrablaðið - aug 2020, Qupperneq 13
13LJÓSMÆÐRABLAÐIÐ - ÁGÚST 2020
INNGANGUR
Hópmeðgönguvernd kom fyrst fram á sjónarsviðið í
Bandaríkjunum á áttunda áratug síðustu aldar og hefur síðan verið
í stöðugri þróun um allan heim (1-4). Hópmeðgönguvernd felst í
að veita meðgönguvernd til ákveðins hóps barnshafandi kvenna
sem eru með svipaða meðgöngulengd og er meðgönguverndin veitt
af ljósmóður 8-10 sinnum á meðgöngu eða eins og leiðbeiningar á
hverjum stað kveða á um (5).
Erlendis hefur hópmeðgönguvernd verið útfærð með ýmsum hætti.
Síðustu áratugi hefur þetta þjónustuform verið þróað og aðlagað að
mismunandi aðstæðum að frumkvæði þeirra ljósmæðra sem sinna
meðgönguvernd á hverjum stað (5-8). Yfirlit yfir hópmeðgönguvernd
erlendis má finna í fræðslugrein í Ljósmæðrablaðinu (9) en
það sem flestar erlendar útfærslur eiga sameiginlegt er að hver
hópmeðgönguverndartími felur í sér heilsufarsmat, fræðslu og
stuðning og hver hópur er samsettur af konum sem eiga von á barni
á svipuðum tíma. Í erlendum útfærslum nær hópmeðgönguverndin
yfir alla meðgönguna en finna má ýmsar útfærslur á því hversu
lengi hver hóptími er, hvort konurnar sjái sjálfar um ákveðna þætti
heilsufarsmatsins, hvort heilsufarsmatið fari fram í sama rými
og hópsamtalið, hversu margar konur eru í hverjum hópi og hvort
makar eru þátttakendur í hópsamtalinu (2, 10, 11). Meginmarkmið
hópmeðgönguverndar er þó alltaf að bregðast við auknum kröfum
kvenna um virka þátttöku í heilsuvernd, aukna fræðslu og samfellda
þjónustu (12, 13).
Í hópmeðgönguvernd er það stuðningurinn sem gjarnan er talinn
vera mikilvægasti ávinningurinn. Barnshafandi konur sem hafa gott
stuðningsnet eiga auðveldara með að takast á við vandamál sem
kunna að koma upp og fá ráðleggingar (1, 11). Í hópmeðgönguvernd
er það þátttaka í foreldrahópnum sem gefur barnshafandi konum
tækifæri til að mynda tengsl við aðrar barnshafandi konur sem og
ljósmæður í öruggu og styðjandi umhverfi þar sem allir geta tjáð sig.
Í slíkum hópi margfaldast möguleikinn á lærdómi þar sem konur læra
af ljósmæðrum og hvor af annarri. Konurnar koma með ráðleggingar,
deila bjargráðum og læra þannig hver af annarri og veita stuðning
(3, 10). Fræðsla og umræður eru aðallega í höndum ljósmæðra,
en að auki geta aðrir fagaðilar komið að fræðslu til hópsins, svo
sem næringarfræðingar, félagsráðgjafar eða fjölskylduráðgjafar.
Umræðuefnin eru fjölbreytt og tengjast meðgöngu, fæðingu
og tímanum eftir fæðingu. Dæmi um umræðuefni eru eðlilegur
fósturþroski, breytingar á líkama konunnar á meðgöngu og
undirbúningur fyrir fæðinguna en einnig sálfélagslegir þættir svo sem
andleg líðan, samskipti og heimilisofbeldi (mynd 1). Rannsóknir sýna
að verðandi feður vilja vera virkir þátttakendur í barneignarferlinu
en niðurstöður rannsókna sem fjalla um reynslu þeirra af þátttöku í
meðgönguvernd benda til að þeim finnist upplýsingagjöf og fræðsla
beinast að verðandi mæðrum fyrst og fremst og að þeirra væntingar
séu ekki uppfylltar (14). Fáar rannsóknir hafa verið birtar hér á landi
um reynslu verðandi feðra af meðgönguvernd en í einni slíkri kom
fram að verðandi feðrum fannst upplýsingagjöf um fósturskimun á
fyrri hluta meðgöngu aðallega beinast að konunum og að þátttaka
þeirra í ákvarðanatöku um skimun væri takmörkuð (15).
Meðgönguvernd á Íslandi
Á Íslandi var fyrst farið að veita meðgönguvernd 1928 og var það
gert að frumkvæði hjúkrunarfélagsins Líknar (16). Hér á landi hefur
meðgönguverndin verið með hefðbundnu sniði allar götur síðan,
þ.e. hver og ein barnshafandi kona hittir ljósmóður á meðgöngu
eins oft og leiðbeiningar hvers tíma kveða á um og leitast er við að
byggja meðgönguverndina á bestu mögulegu þekkingu (17). Fáar
rannsóknir eru til um reynslu kvenna af meðgönguvernd hér á landi
en vísbendingar eru um að konur séu almennt jákvæðar gagnvart
þátttöku í meðgönguvernd og nær allar þeirra vilja fara eins oft eða
oftar í skoðun en mælt er með (18). Niðurstöður sömu rannsóknar
bentu þó til að fjöldi skoðana hjá tæpum fjórðungi kvenna hafi verið
færri en mælt er með í klínískum leiðbeiningum. Rannsóknir síðustu
ára sýna að konur á Íslandi eru almennt ánægðar með heilsufarsmat
í meðgönguvernd, en telja fræðslu um fæðinguna ábótavant (19). Til
þess að mæta þessari þörf verðandi foreldra fyrir fræðslu hjá ljósmóður
í meðgönguvernd var ákveðið að bjóða upp á hópmeðgönguvernd
á þremur heilsugæslustöðvum á höfuðborgarsvæðinu. Þessi grein
byggir á viðtölum við konur og maka kvenna sem tóku þátt í
hópmeðgönguverndinni á árunum 2017-2018. Rannsóknin hafði að
markmiði að fá innsýn inn í upplifun og reynslu þeirra af þátttöku í
hópmeðgönguvernd.
AÐFERÐAFRÆÐI
Rannsóknin er eigindleg viðtalsrannsókn þar sem hálfstöðluð viðtöl
voru tekin við þátttakendur í rýnihópum (20). Alhæfingagildi er ekki
fyrir hendi í slíkum rannsóknum en þær gefa innsýn í reynsluheim
fólks varðandi ákveðin fyrirbæri og eru oft mikilvæg viðbót við
tölulegar upplýsingar.
Rannsóknin var hluti af stærra verkefni og fékkst leyfi fyrir
henni frá Vísindasiðanefnd (VSNb2017030007/03.01) og var
tilkynning send til Persónuverndar. Leyfi fékkst frá yfirmönnum
heilsugæslustöðva í kjölfarið þar sem rannsóknin fór fram. Öllum
þátttakendum í hópmeðgönguvernd, 32 konum og mökum þeirra,
voru send kynningarbréf í tölvupósti um tilgang rannsóknarinnar sem
er forsenda fyrir þátttöku í rannsókn sem þessari (21).
Hópmeðgönguvernd á þremur heilsugæslustöðvum
á höfuðborgarsvæðinu
Veturinn 2017-2018 var boðið upp á hópmeðgönguvernd fyrir
barnshafandi konur og maka þeirra á þremur heilsugæslustöðvum í
Reykjavík og nágrenni og tóku alls fimm ljósmæður þátt í að veita
hópmeðgönguverndina. Ljósmóðir á viðkomandi heilsugæslustöð
bauð frumbyrjum kynningu um hópmeðgönguvernd og rannsóknina
sem fyrirhuguð var og í kjölfarið var þeim, ásamt mökum þeirra,
boðið að hittast í hóp fjórum sinnum yfir meðgönguna. Konunum
var sagt að þær gætu tekið þátt í hópmeðgönguvernd án þess að
taka þátt í rannsókninni, og að þær gætu hætt í hópmeðgönguvernd
og/eða þátttöku í rannsókninni hvenær sem þær vildu og að það
myndi ekki hafa nein áhrif á áframhaldandi meðgönguvernd þeirra á
heilsugæslustöðinni. Konurnar voru í hefðbundinni meðgönguvernd
fram til 28. viku meðgöngu en þá hófst hópmeðgönguvernd. Þá hittu
þær sína ljósmóður ásamt 3-5 öðrum konum og mökum sem áttu von
á barni á svipuðum tíma. Einnig var önnur ljósmóðir viðstödd þegar
hópurinn hittist og sá hún um að leiða umræður í hóp þegar hver
kona fór afsíðis með ljósmóður fyrir heilsufarsmælingar í einrúmi.
Hóparnir hittust því við 28., 31., 34. og 36. viku meðgöngu í 90
mínútur í senn. Eftir það tók hefðbundin meðgönguvernd við á ný
þar til konurnar fæddu börn sín. Þetta fyrirkomulag er frábrugðið því
sem þekkist erlendis, en þar eru konur annað hvort í hefðbundinni
meðgönguvernd eða í hópmeðgönguvernd alla meðgönguna.
Nýsköpunin í þessari íhlutun fólst því meðal annars í að blanda
þessum aðferðum við að veita meðgönguvernd saman, en slíkt hefur
ekki verið prófað áður. Með því móti er leitast við að nýta kosti úr
hvorri aðferð við að veita meðgönguvernd, þ.e. kostina sem felast í
því að klæðskerasníða meðgönguvernd að hverri konu í hefðbundinni
meðgönguvernd í byrjun meðgöngu og auka svo við þátt fræðslu og
stuðnings um miðja meðgöngu með hópmeðgönguvernd.
Í hópnum fara fram umræður undir leiðsögn ljósmóður.
Umræðuefnin eru fyrirframákveðin (sjá töflu 1) en áherslur ráðast af
áhugasviði og þörfum hópsins. Fræðslan er því ekki stöðluð heldur í
takt við þarfir hvers hóps (11, 22). Í hópmeðgönguvernd er gengið út
frá því að konurnar viti best hvers þær þarfnast og hvaða upplýsingar
þær vilja fá. Hlutverk ljósmóðurinnar er að kanna það, fylgja eftir
og leyfa umræðum að þróast. Þannig er hlutverk ljósmóður ekki að
halda einhliða fræðslu heldur komast að því hvað konurnar og makar
þeirra vita, staðfesta það sem er rétt, leiðrétta misskilning og bæta við
upplýsingum ef þörf krefur. Slík aðferð hentar vel þegar fullorðnu
fólki er veitt fræðsla og þannig skapast andrúmsloft þar sem allir eru
á jafningjagrundvelli en það stuðlar að valdeflingu (1, 11).
Hornsteinn meðgönguverndar á Íslandi er samfelld þjónusta.
Þar er átt við að lögð er áhersla á að konan hitti sömu ljósmóður á
meðgöngunni. Í hópmeðgönguverndinni var samfelld þjónusta áfram