Morgunblaðið - 13.03.2020, Qupperneq 19
varð ekki eins og upphaflega til
stóð. Næstu árin skipti hún reglu-
lega um lit en aldrei skildi ég (og
mun líklega aldrei skilja) hvernig
hægt er að fara í greiðslu og sofa
síðan heila nótt, jafnvel nætur, án
þess að skemma hárgreiðsluna.
Sumir hafa einstaka hæfileika.
Eitt af því sem við áttum sam-
eiginlegt var lofthræðsla og það
var vegna þess sem hún í eitt
skiptið skammaði mig rækilega.
Við vorum þá að keyra niður skarð
í svissnesku Ölpunum þegar mér
varð á að líta af veginum eitt
augnablik þá titrandi við stýrið og
hún sat beint fyrir aftan mig og
passaði upp á að ég horfði á veginn
og ekkert annað.
Árið 1997 urðu mikil tímamót í
fjölskyldunni þegar eiginkona mín
sá auglýsingu í Velvakanda
(Morgunblaðinu), en þá var norski
hluti fjölskyldunnar að leita að
ættingjum sínum hér á landi. Kon-
an mín hringdi strax í símanúm-
erið sem gefið var upp og lét svo
móður sína vita að frændfólkið
hennar í Noregi væri fundið.
Strax við fyrstu heimsókn mynd-
uðust sterk vina- og fjölskyldu-
bönd sem hafa leitt til ótal ferða og
árið 2000 ákváðu bræður tengda-
móður minnar að sækja hana
heim til Íslands. Sú heimsókn varð
öllum gríðarlega dýrmæt og eftir
það lét hún setja inn norska ætt-
arnafnið Halsør.
Tengdamóður minnar verður
sárt saknað eftir 40 ára samfylgd.
Ég votta börnum hennar, barna-
börnum og barnabarnabörnum
mína innilegustu samúð. Megi al-
góður Guð blessa ykkur og minn-
ingu Guðlaugar Halsør.
Sveinbjörn.
Elsku amma Lalla. Við horfum
á eftir þér með söknuð í hjarta og
þakklæti fyrir allar þær stundir
sem við máttum eiga með þér og
þær minningar sem eftir sitja. Þú
varst okkur alltaf svo góð og
kenndir okkur svo margt.
Það eru oft litlu hlutirnir sem
sitja hvað fastast eftir, eins og það
hvernig traust þitt til Drottins
birtist svo sterkt í orðunum „ef
Guð lofar“. Þú treystir því að Guð
væri við stjórnvölinn í lífi þínu og á
þessum tímamótum treystum við
því að þú sért nú í faðmi og umönn-
un Jesú. Þær eru líka dýrmætar
allar bænirnar sem þú kenndir
okkur barnabörnunum þínum og
fórst með með okkur þegar við
vorum lítil og gistum hjá þér. Ég
er þér þakklátur fyrir allt það sem
þú kenndir okkur og fyrir þá
trúarfyrirmynd sem þú hefur ver-
ið mér.
Ég man líka hvað þú varst alltaf
dugleg að hringja í okkur. Þú
sýndir í verki hversu dýrmæt fjöl-
skyldan, og sérstaklega við barna-
börnin þín, vorum þér. Það var
alltaf gott að koma til þín í jólamat
á annan í jólum og njóta dýrind-
ismatarins sem þá var á boðstól-
um. „Græna salatið“ þitt er fyrir
löngu orðinn mikilvægur liður á
jólamatseðli fjölskyldunnar.
Við vorum alltaf velkomin í
heimsókn til þín og þú tókst alltaf
svo vel á móti okkur. Það er ekki
hjá hverjum sem er sem maður
fær að vera með lykla og getur
bókstaflega boðið sjálfum sér í
heimsókn hvenær sem er. Þær eru
margar góðu minningarnar sem
ég á frá heimsóknunum til þín og
að gista hjá þér, bæði frá leikjum
úti í garðinum, rólegheitalestri
inni, góðu spjalli og spilum. Ég
man líka hvað þú varst dugleg að
leggja kapla og kenndir okkur
nokkra góða sem maður grípur
enn reglulega í.
Við vitum að síðustu ár hafa
verið erfið en þú hefur sýnt ótrú-
legan styrk í gegnum þau veikindi
sem hafa herjað á. Við trúum því
og treystum að nú fáir þú að njóta
friðar og hvíldar í faðmi Guðs á
himnum. Megi Guð blessa þig og
minninguna þína elsku amma
Lalla mín.
Benjamín Ragnar
Sveinbjörnsson.
Minningarnar á ég margar um
ömmu Löllu og minningarnar ylja
þó að þær í dag kalli líka fram tár.
Á margan hátt eru þetta góð tár
eins og ég hef getað útskýrt það
fyrir barnabarnabörnum ömmu
Löllu minnar, þó að vissulega séu
þetta sorgartár líka. Ömmu þótti
afskaplega vænt um mig og mér
þótti vænt um hana. Kærleikur
hennar fór aldrei fram hjá mér og
það hjálpar mér að takast á við
sorgina sem ég stend frammi fyrir
nú að hugsa til þess hvernig kær-
leikur hennar birtist með ýmsum
hætti strax frá upphafi. Ekki var
mikið langferðarsnið á ömmu,
þrátt fyrir það var hún ekki lengi
að stökkva upp í flugvél til Dan-
merkur þegar ég kom í heiminn.
Þegar ég varð eldri og fjölskyldan
flutt til Íslands hringdi hún nánast
daglega í okkur, ekki bara til þess
að heyra í mömmu, heldur og til
þess að tala við okkur barnabörnin
og heyra hvað væri að gerast í
okkar lífi. Hún hafði alltaf áhuga á
að heyra um okkur og í okkur.
Þegar ég fór að eldast þá ræddum
við ýmis mál og vorum ekki endi-
lega sammála en gátum skipst á
skoðunum. Það þótti mér vænt
um. Þegar ég svo kvæntist og
stofnaði mína eigin fjölskyldu tók
hún okkur opnum örmum, meira
að segja Mola, hundinn okkar sem
ávallt var velkominn á heimilið í
Keflavík. Og þrátt fyrir að berjast
við málstol og önnur veikindi á síð-
ari árum var eins og hún fengi
aukaorku við það að heyra af okk-
ur barnabörnunum sínum og oftar
en ekki sást glitta í bros og gleði í
augunum þegar barnabarnabörn-
in komu í heimsókn eða fréttir af
þeim bárust henni þó að annar
tjáningarmáti væri oft á tíðum erf-
iður síðustu misserin.
En það eru ekki síst minning-
arnar af heimsóknunum til ömmu
sem ylja og minna á kærleika
hennar í garð okkar barna-
barnanna. Ekki eingöngu dekraði
hún iðulega við okkur og gaf okk-
ur nammi við góð tækifæri, heldur
gaf hún okkur barnabörnunum
það dýrmætasta sem hún gat gef-
ið. Leiðsögn og fyrirmynd um
mikilvægi bænarinnar og trúar-
innar. Einhverjar mínar sterkustu
minningarnar sem ég á um ömmu
mína í dag eru einmitt þegar við
báðum saman. Í gegnum bænina
upplifði ég einnig hinn einlæga
kærleika og þá umhyggju sem
hún átti gagnvart mér. Fyrir þetta
er ég þakklátur. Á degi þegar kær
fjölskyldumeðlimur er kvaddur í
síðasta sinn og með jafn endanleg-
um hætti er fátt jafn mikilvægt og
eiga þessar kærleiksminningar og
finna þakklætistilfinningu í hjarta
sér. Ég bið góðan Guð að blessa
minningu hennar ömmu Löllu.
Davíð.
„Elsku hjartans kellingin mín.“
Þetta sagði amma oft við mig þeg-
ar við töluðum saman. Amma mín
og nafna var yndisleg kona. Hún
var dugleg að passa mig þegar ég
var yngri og þá brölluðum við
margt saman. Það er margt sem
stendur upp úr því hjá mér. Við
fórum til dæmis oft niður í bæ í
Keflavík eða í kaupfélagið að
kaupa mat, t.d. Billy-pítsur eða
sætabrauð, eins var amma dugleg
að kaupa garn til að prjóna úr.
Hún prjónaði fullt fyrir barna-
börnin sín og allar dúkkurnar mín-
ar. Ég var mjög áhugasöm um
prjónadótið hennar og fannst
ömmu það held ég nokkuð gaman.
Allavega tók hún sig til þegar ég
var einu sinni í heimsókn hjá henni
og kenndi mér að prjóna. Ég er
henni mjög þakklát fyrir það, enda
hef ég prjónað margt síðan þá.
Amma kenndi mér ekki bara að
prjóna heldur kenndi hún mér líka
að leggja kapal og spila Svarta-
Pétur. Við sátum ófáum stundum
inni í eldhúsinu hennar og spiluð-
um saman eða þá að amma lagði
kapal og ég fylgdist vel og vand-
lega með til að geta lagt hann
seinna sjálf. Amma kenndi mér
líka margar góðar bænir sem hún
fór alltaf með á kvöldin áður en ég
fór að sofa. Amma var trúuð kona
og fylgdi Guði. Hún hlustaði oft á
útvarpsmessur og kvaddi fólkið
sitt líka oft með orðunum „ef Guð
lofar“, því amma trúði því að allt
lífið væri í höndum Guðs. Amma
hringdi líka reglulega, sérstaklega
eftir heimsóknir okkar til hennar,
til að athuga hvort við hefðum ekki
örugglega skilað okkur heil heim.
Amma átti mikið af dönskum
blöðum og var hún alltaf með putt-
ann á púlsinum þegar kom að
dönsku konungsfjölskyldunni.
Hún átti líka „fjársjóðsbox“ þar
sem hún geymdi fullt af skartgrip-
um sem hún hafði átt í gegnum tíð-
ina og þegar ég hafði verið dugleg
að hjálpa til eða átti skilið smá-
verðlaun fékk ég að fara og skoða
þennan flotta fjársjóð ömmu og
heyra sögur af hlutunum. Amma
var mikil fjölskyldukona og bauð
alltaf í jólaboð annan í jólum og var
alltaf grænt salat á boðstólum,
sem mun ávallt vera hluti af jóla-
hefðinni minni.
Það eru svo margar aðrar minn-
ingar sem ég á um hana ömmu
mína, sem ég mun alltaf geyma í
hjarta mínu.
Elsku amma mín, takk fyrir
allt!
Þín nafna og barnabarn,
Guðlaug María.
MINNINGAR 19
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 13. MARS 2020
þau af siglingaferðum til Got-
lands og Finnlands. Seinna Þegar
pabbi var kominn á Skjól kom svo
mamma með Árdísi systur á
hverju sumri í mörg ár öllum til
mikillar ánægju.
Fráfall mömmu/ömmu núna
markar líka tímamót í okkar lífi
að því leyti að nú eru engir for-
eldrar eða amma og afi að heim-
sækja á Íslandi. En heimsóknirn-
ar öll þessi ár og þau samskipti
sem við gátum haft hafa gefið
ömmubörnunum sterka tilfinn-
ingu um rætur þeirra á Íslandi.
Mínar sterkustu taugar eru og
verða alltaf til Íslands. Það sýnir
sig best þegar Ísland og Svíþjóð
keppa í íþrótt eða söng þá held ég
alltaf með Íslandi.
Elsku mamma, mig langaði að
kveðja þig með þessum línum og
ég veit að þú fyrirgefur þótt ís-
lenskan mín sé orðin dálítið bjög-
uð, en þér var alltaf annt um að
leiðrétta mig góðlátlega til að
hjálpa mér að viðhalda mínu móð-
urmáli og þú gafst mér alltaf ís-
lenska bók um hver jól í þeim til-
gangi.
Ég vil enda á þessari litlu vísu
sem þú sýndir mér, þegar við eitt
kvöldið sem oftar, sátum í eldhús-
inu í Sólheimunum og ræddum
saman. Hún lýsir einfaldri og
hnitmiðaðri lífsspeki sem finnst
mér gott tákn fyrir þín lífsviðhorf.
Aldrei skaltu að leiðum lesti leita í fari
annars manns,
aðeins grafa ennþá dýpra eftir bestu
kostum hans.
Geymdu ekki gjafir þínar góðum vini
í dánarkrans.
(HG)
Elsku mamma og amma, við
söknum þín sárt en minning þín
lifir í hjarta okkar ætíð.
Ágústa, Ívan, Daníel,
Ómar og Mía.
Nú þegar amma Gunna hefur
kvatt okkur sem elskuðum hana
vakna ótal minningar og sár
söknuður. Þegar ég loka augun-
um sé ég hana fyrir mér í eldhús-
inu í Álfheimum eða Sólheimum,
útvarpið stillt á rás eitt, kaffi í
bolla og fíngerð sígaretta í ösku-
bakka við gluggann. Hún brosir
til mín og blikkar mig jafnvel, því
það var oft eins og hún tæki heim-
inn bara mátulega alvarlega. Afi
Óli situr við eldhúsborðið og fylg-
ist með hverri hreyfingu hennar.
Stundum hnussar í henni yfir allri
þessari athygli og hún lætur eins
og hún fari í taugarnar á henni. Á
sama hátt og það hnussar í henni
af og til yfir útvarpsfréttum. En
því fylgir bros til mín og svipur
sem gefur til kynna að við skiljum
báðar hvað hún meinar.
Í návist ömmu Gunnu ríkti
mikil ró. Heima hjá henni var eins
og tíminn lyti öðrum lögmálum en
annars staðar. Eins og þung slög
klukkunnar inni í stofu, klukk-
unnar sem afi Óli trekkti upp
reglulega, hægðu á gangi tímans.
Andrúmsloftið var notalegt,
amma leyfði mér að vera í friði að
lesa bækur, sauma og hlusta á
plöturnar hans Ómars. Allt sem
hún gerði virtist áreynslulaust.
Ég varð aldrei vör við að það væri
mikið að gera hjá henni, að hún
væri að drífa sig að klára eitt-
hvað. Heimilið var fínt og hún var
alltaf vel til höfð, klædd í plíserað
pils, bleika eða fjólubláa peysu,
hárið nýbúið í lagningu. Ef ég var
niðursokkin í það sem ég var að
gera, truflaði hún mig bara til að
gefa mér hafragraut eða slátur og
svo, þegar ég varð eldri, kaffi.
Amma bar ómælda virðingu
fyrir öllum lestri, öllu námi. Þeg-
ar ég fór með þeim afa í bústaðinn
þeirra á Eyrarbakka lá ég uppi á
lofti og las, ótrufluð, heilu dagana.
Ég þurfti aldrei að fara út og
hreyfa mig, ekki ömmu vegna.
Hún vissi sem var að það var
nægilega mikið að hrærast um í
kollinum á mér. Þegar ég var ell-
efu ára gömul byrjaði ég að lesa
sakamálasögur eftir Agöthu
Christie og amma tók upp á því að
lesa þær líka og spjalla við mig
um þær. Ég veit ekki hvort hún
áttaði sig á því hversu stolt ég var
af því að lesa sömu bækur og full-
orðin manneskja. En ég veit að
hún naut lestursins, vegna þess
að hún hafði dálæti á morðgátum
þótt hún hryllti sig gjarnan þegar
hún talaði um þær, en kímdi svo.
Síðustu ár ömmu á Skjóli
kynntist ég henni á annan hátt.
Eftir því sem minnið gaf sig
hlustuðum við meira á tónlist
saman. Elvis, Haukur Morthens,
Ellý Vilhjálms hljómuðu um her-
bergið hennar og hún lokaði oft
augunum, talaði um hvað lögin
væru falleg, brosti eins og hún
væri einhvers staðar annars stað-
ar — einhvern tímann annars
staðar, jafnvel — í örstutta stund.
Það var ljúft að vera nálægt
henni, það breyttist aldrei. Og
hún brosti alltaf þegar hún sá
mig.
Guðrún Elsa Bragadóttir.
Í dag, þegar við kveðjum Guð-
rúnu systur mína og mágkonu, er
margs að minnast.
Oft var þess minnst, og haft
gaman af, þegar ég smákrakki
komst upp á loft í Einarshöfn, þar
sem Guðrún og vinkona hennar
voru að leika sér með lítið bolla-
stell. Ekki fannst þeim ráðlegt að
hleypa mér að borðhaldinu og
lauk því með að ég reiddist og
sópaði niður bollastellinu og möl-
braut það. Ég reyndi svo að bæta
fyrir brot mitt 50 árum seinna
með því að gefa Gunnu lítið boll-
astell og hafði hún gaman af.
Þrátt fyrir þetta bernskubrek
mitt vorum við Gunna mjög náin
og fór alltaf vel á með okkur. Ég
minnist þess að koma við hjá
henni þegar hún vann í Ólabúð á
Eyrarbakka, verslun Ólafs
Helgasonar hreppstjóra. Man
líka eftir henni að afgreiða í Har-
aldarbúð í Reykjavík.
Guðrún og Ólafur bjuggu fyrst
á Njálsgötu 4A í Reykjavík og síð-
ar í Álfheimum og Sólheimum.
Þar komum við Edda oft og mót-
tökurnar alltaf jafn hlýjar og
rausnarlegar. Oft var mannmargt
hjá foreldrum okkar í Einarshöfn
á Eyrarbakka, þegar Gunna,
Ólafur og börnin komu austur til
að gista. Þá gistum við oft líka
með okkar börn og mikill spenn-
ingur í krökkunum að gista í flat-
sæng. Við minnumst margra
gleðistunda með Gunnu og Ólafi
hér innanlands, á Spáni og ekki
síst þegar þau heimsóttu okkur í
Kaupmannahöfn. Gunna var
gestrisin og vildi alltaf hafa fólk í
kringum sig enda ætíð tekið vel á
móti öllum. Hún var snillingur í
matargerð og bakstri. Gunna var
mjög lagleg kona og gætti þess
alltaf að vera vel til höfð. Það
vissu ekki allir að hún var mjög
listhneigð, málaði olíumálverk og
málaði á silki og postulín.
Það hafði mikil áhrif á Gunnu
þegar hún lærbrotnaði og endaði
með að hún gat ekki lengur verið
heima. Þá fékk hún inni á Skjóli
þar sem vel var hugsað um hana.
Hún kvartaði aldrei og sagði allt-
af að sér liði vel. Við náðum að
kveðja hana nokkrum dögum fyr-
ir andlátið og þökkum fyrir að
hafa átt góða systur og mágkonu.
Við vottum börnum hennar og að-
standendum innilega samúð.
Jón Ingi og Edda Björg.
Kynslóðir koma, kynslóðir
fara, þessar línur koma upp í
hugann við fráfall Guðrúnar Sig-
urmundsdóttur. Kveðjustundir
elstu kynslóðarinnar í fjölskyldu
okkar hafa verið margar á und-
anförnum árum. Guðrún var eig-
inkona Ólafs, elsta bróður móður
minnar og systkinanna frá Öl-
versholtshjáleigu í Holtum. Mikil
samheldni var með þeim systk-
inum alla tíð.
Ég var tíu ára þegar þau Ólaf-
ur gengu í hjónaband. Hann hafði
alltaf verið duglegur að koma
austur í Fljótshlíð að heimsækja
móður sína og systkini sem þar
bjuggu. Þegar hann var kominn
með fjölskyldu komu þau oft þeg-
ar tilefni gafst til. Ættingjarnir
að austan höfðu gjarnan viðkomu
hjá þeim þegar farið var til
Reykjavíkur. Ég man eftir heim-
sóknum til þeirra bæði á Njáls-
götuna og í Álfheima. Þau voru
frumbýlingar í Álfheimum, tóku
við íbúðinni ótilbúinni en smátt
og smátt bjuggu þau sér og fjöl-
skyldunni þar fallegt heimili.
Þegar svo foreldrar mínir fluttu
til Reykjavíkur 1962 keyptu þau
íbúð í næsta stigagangi við þau.
Þá urðu samskiptin enn meiri og
aldrei féll á þau skuggi. Ég man
eftir mörgum skemmtilegum
veislum, fermingum og afmælum
hjá þeim hjónum, þá hittist
gjarnan öll stórfjölskyldan. Á
þessum árum voru Álfheima-
blokkirnar barnmargar og léku
krakkarnir sér saman. Börnin
okkar systra minnast þess að þau
léku sér mikið við Ómar frænda
sinn og fóru stundum með honum
í sunnudagaskólann í Langholts-
kirkju.
Guðrún var falleg kona og
hafði hlýja og góða nærveru. Hún
var listfeng eins og heimili þeirra
bar vitni um. Hún málaði fallegar
myndir og allt lék í höndum
hennar. Hún var hæglát og lá
ekki hátt rómur en hafði sínar
skoðanir í ýmsum málum. Guð-
rún vann ekki utan heimilis á
meðan að börnin voru lítil en um
árabil unnu móðir mín og hún
saman á Prjónastofunni Peysan.
Seinna keyptu þau sér aðra
íbúð við Álfheima, handan göt-
unnar. Þau hjónin héldu sig við
Heimahverfið og þegar kom að
því að þau minnkuðu við sig hús-
næði keyptu þau íbúð við Sól-
heima. Foreldrar mínir gerðu
það sama stuttu seinna og keyptu
sér íbúð í næstu blokk. Það var
góð tilfinning að vita af þeim í ná-
grenninu og stundum var
skroppið yfir í kaffisopa eða
hjálpast að ef á þurfti að halda.
Eftir að foreldrar mínir fluttu
austur á Kirkjuhvol var það alltaf
ein af óskum móður minnar þeg-
ar hún kom til Reykjavíkur að
heimsækja bróður sinn og mág-
konu, ekki síður eftir að Guðrún
var orðin ein á Skjóli. Þá gátu
þær spjallað saman um liðna tíð.
Við hjónum héldum áfram að líta
inn hjá henni eftir að móðir mín
kvaddi. Það gerðum við þó of
sjaldan, eitt sinni minnti hún okk-
ur á að það væri langt síðan við
hefðum komið, með réttu. En hún
gerði það á hlýjan hátt eins og
hennar var lagið.
Með þessum fátæklegu orðum
vil ég þakka Guðrúnu fyrir öll
elskulegheitin sem hún sýndi
mér og fjölskyldu minni alla tíð.
Hún hefur átt góðrar heimkomu
von, þau sem farin eru á undan
henni hafa fagnað henni vel.
Við Jón sendum börnum henn-
ar, tengdabörnum, barnabörnum
og öðrum afkomendum innilegar
samúðarkveðjur. Blessuð sé
minning góðrar konu.
Erna M. Sveinbjarnardóttir.
Ástkær bróðir okkar,
ÓLAFUR GUÐJÓN EYJÓLFSSON,
sjómaður og málari,
lést á Heilbrigðisstofnun Vestfjarða
þriðjudaginn 3. mars. Útförin fer fram frá
Ísafjarðarkirkju, laugardaginn 14. mars
klukkan 14.
Systkini hins látna og aðstandendur
Elskulegur bróðir okkar, frændi og vinur,
JÓN INGI SIGURJÓNSSON,
Jonni,
frá Norðurkoti á Eyrarbakka,
lést laugardaginn 7. mars.
Vegna óviðráðanlegra aðstæðna fer
jarðarförin fram í kyrrþey.
Systkini, frænkur
og aðrir aðstandendur
Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma
og langamma,
ÓLAFÍA ÓLAFSDÓTTIR,
Víðivöllum v. Elliðavatn,
lést á Hrafnistu í Reykjavík mánudaginn
9. mars.
Ólafur Kr. Guðmundsson Sigrún Konráðsdóttir
Björn Ingi Guðmundsson
Sigurður V. Guðmundsson Þórdís Guðmundsdóttir
Guðmundur V. Guðmundss. Kolbrún Ýr Sigfúsdóttir
barnabörn og barnabarnabörn