Morgunblaðið - 13.03.2020, Blaðsíða 21
gladdi það hann mikið að hún
skyldi fá nafn móður hans. Svo
kom orkuboltinn Þórdís Amalía í
heiminn og fékk fallega nafnið
Amalía frá Höllu. Í báðum tilvik-
um gat hann varla beðið eftir að
þær kæmu í heiminn og það var
spenntur afi sem kom fyrstur
manna í heimsókn, ásamt ömmu
Höllu auðvitað, tilbúinn að kynn-
ast þeim og knúsa þær. Lenni
sýndi barnabörnunum ávallt
mikla væntumþykju og hafði ein-
lægan áhuga á því sem þau tóku
sér fyrir hendur. Þau Guðbjörg
Anna áttu sameiginlegt að finnast
gaman að spila á hljóðfæri, hann
spilaði alltaf nótnalaust eftir eyr-
anu á píanó og sama getur hún
gert á nokkur hljóðfæri. Þegar
hún var yngri spiluðu þau stund-
um saman og það voru skemmti-
legar stundir. Lenni naut þess að
fara á tónleika með henni og í
seinni tíð horfa á upptökur þar
sem hún spilaði bæði ein og sér og
með skólahljómsveitinni og hann
var virkilega stoltur af henni. Þór-
dís Amalía átti líka einstakt sam-
band við afa sinn, hann hafði gam-
an af grallaraganginum í henni og
alltaf teygði hún sig eða prílaði
upp til að knúsa hann – svo spjöll-
uðu þau um heima og geima.
Ég kveð Lenna tengdaföður
minn með orðum Káins:
Minning þín er mér ei gleymd;
mína sál þú gladdir.
Innst í hjarta hún er geymd,
þú heilsaðir mér og kvaddir.
(Káinn)
Hvíl í friði.
Anna Kapitola.
Elsku afi minn.
Takk fyrir að vera alltaf glaður.
Takk fyrir að vera alltaf brosandi.
Takk fyrir að vera alltaf fyndinn.
Takk fyrir að vera alltaf áhuga-
samur. Takk fyrir að vera alltaf
sterkur. Takk fyrir allt elsku afi.
Þín
Vigdís Halla.
Elsku besti afi Lenni. Við erum
þakklátar fyrir yndislegar sam-
verustundir og kveðjum þig með
miklum söknuði.
Ég sendi þér kæra kveðju,
nú komin er lífsins nótt.
Þig umvefji blessun og bænir,
ég bið að þú sofir rótt.
Þó svíði sorg mitt hjarta
þá sælt er að vita af því.
Þú laus ert úr veikinda viðjum,
þín veröld er björt á ný.
Ég þakka þau ár sem ég átti
þá auðnu að hafa þig hér.
Og það er svo margs að minnast,
svo margt sem um hug minn fer.
Þó þú sért horfinn úr heimi,
ég hitti þig ekki um hríð.
Þín minning er ljós sem lifir
og lýsir um ókomna tíð.
(Þórunn Sig.)
Hjartans kveðjur og knús,
Guðbjörg Anna og Þórdís
Amalía Haraldsdætur.
Elsku afi minn
Þú ert fyrirmynd mín og
margra annarra. Þú varst svo
mikill húmoristi og alltaf með grín
upp í erminni sinni þó þú værir
svona mikið veikur. Ég á eftir að
sakna þín mikið og ég veit að fleiri
eiga eftir að gera það. Við vorum
mikið saman þegar ég var lítill
sem gaf okkur báðum margar
minningar. Allar minningarnar
mínar með þér eru ómetanlegar.
Núna ertu frjáls.
Þinn
Höskuldur Páll .
Ég mun aldrei gleyma hvernig
þú heilsaðir þegar við komum að
heimsækja þig. „Nei hæ“-ið þitt
var alltaf svo glaðlegt. Þú gerðir
mig alltaf glaða ef ég var ekki í
góðu skapi og aldrei máttir þú
missa af góðu partíi ef fólkið þitt
var að hittast. Það var alltaf svo
gaman að hlusta á lögin sem þú
spilaðir á píanóið þegar þú komst í
heimsókn og ég vissi að þú yrðir
stoltur af mér þegar þú heyrðir
mig spila líka.
Takk fyrir öll 10 árin sem við
áttum saman, þú varst frábær afi.
Kristbjörg Sigríður
Þóroddsdóttir afastelpa.
Stærsta hjarta í heimi sagði
loksins stopp og hleypti hvíldinni
að. En elsku bróðir, þú skalt ekki
halda að þú sért farinn. Þú verður
hér áfram. Ekki það að þú sért ei-
lífur, heldur verður minningin um
þig eilíf, tandurhrein og lifandi.
Sumir kalla það meira að segja ei-
líft líf. Þú varst besti vinur minn
og verndari allt frá upphafi. Ég
man enn fallegu, mjúku og heitu
höndina þína leiða mig fjögurra
eða fimm ára gamlan niður Sund-
ið við æskuheimilið við Baróns-
stíginn. Líka man ég þegar við
litlu pjakkarnir neyddumst til að
fara um yfirráðasvæði Tígriskló-
arinnar, strákagengis í Þingholt-
unum, á sunnudegi á leið okkar í
KFUM á Amtmannsstíg. Þá
varst þú í fararbroddi. Alltaf
stærstur og sterkastur og enginn
þorði að atast í okkur litlu greyj-
unum. Þetta eru myndlíkingar en
þannig var þetta alla tíð. Glaður
og gjöfull á allt og alla í kring um
þig. Við bræður áttum langa og
ljúfa samleið. Út um holt og hæð-
ir lífsins, niður í dalina og upp úr
þeim aftur. Eitt stórt mál greindi
okkur þó verulega á um: Hvorir
voru betri, Bítlarnir eða Rolling
Stones? Var Yesterday snilld eða
flopp? Þarna skar á milli bræðra
og var þetta það alvarlegasta sem
okkur greindi á um dagana. Af-
staða þín til lífsins og fólksins í
kring um þig var gæfa okkar sem
þekktum þig og ég held að það
hafi verið gæfa þín líka. Ó, hve
heimurinn liti öðruvísi út, ef við
værum öll eins og þú. Takk fyrir
lífið Lenni. Takk Halla og þið fjöl-
skyldan og takk Sóltúnsfólk fyrir
hve vel þið studduð hann við að
halda reisn sinni á síðustu metr-
unum. Ást og friður.
Haukur.
Komið er að kveðjustund. Kær
frændi minn og vinur er látinn
eftir langvinn veikindi og heldur
nú á leið til annarra stranda.
Gæfa mín var að fá að eiga með
honum samleið frá fyrsta degi.
Við Lenni vorum systrasynir.
Samband systranna var mikið og
náið, samgangur mikill á milli
heimila okkar og hafa Lenni og
bróðir hans Haukur verið mér
sem bestu bræður á lífsins leið.
Hann átti rætur að rekja til
Stokkseyrar í báðar ættir, þar
sem foreldrar hans ólust upp.
Plássið var honum ofarlega í
sinni, enda mátti ekkert sumar
líða án þess að fjölskyldan sækti
Stokkseyri heim.
Táp og fjör einkenndu æskuár
Lenna. Hann stundaði nám við
Menntaskólann í Reykjavík, var í
sumarvinnu í glaðværðinni í hval-
stöðinni í Hvalfirði og lærði tann-
læknisfræði við Háskóla Íslands.
Að námi loknu starfaði hann sem
tannlæknir um árabil, en varð frá
því að hverfa á besta aldri vegna
þungbærra veikinda. Engan
þekki ég, sem tekist hefur á við
hlutskipti sitt og náð að mæta því
af jafnmiklu æðruleysi. Það lýsir
ef til vill best gáfum hans og
skaphöfn. Hann mætti örlögum
sínum jafn hreinskiptinn, æðru-
laus og hjartahlýr sem fyrr. Hann
hefur kennt okkur margt og við
munum sakna hans mikið, en
brosið hans hreina og glettnin
hnitmiðuð geymist í huga okkar.
Lenni var drengskaparmaður í
þess orðs fyllstu merkingu. Hann
var stór og mikil persóna og hafði
öll einkenni foreldra sinna um lip-
urð og ljúfmennsku. Í fjölskyldu-
boðum voru jafnan mikil ærsl og
atgangur, þegar fjölmennur
frændgarðurinn var upp á sitt
besta. Þar var Lenni leiðtoginn:
hugmyndaríkur, útsjónarsamur
og lipur málamiðlari sem oft
þurfti á að halda. Lenni var
óvenjuheilsteyptur, víðsýnn og
frjáls í fasi, enda gæddur heil-
brigðum gáfum og beittu skop-
skyni. Í brjósti hans var hjarta er
jafnan sló með þeim sem ranglæti
voru beittir og hann brást ekki
þeim sem minna máttu sín og leit-
uðu til hans.
Tónlistin átti hug og hjarta
frænda míns og var hann sérstak-
lega liðtækur píanisti. Hann var
einlægur aðdáandi Bítlanna og
naut þess að deila efni þeirra.
Hann sá til þess að allar frum-
útgáfur af heildarverkum þeirra,
hvort heldur sem er á vinyl,
geisladiskum eða DVD, skipa
öndvegi í plötusafninu á mínu
heimili. Í samkvæmum og á
mannfundum var Lenni hrókur
alls fagnaðar. Hann var fé-
lagslyndur í besta lagi, tryggur í
lund og hjálpsamur með afbrigð-
um. Hann var þó innst inni al-
vörugefinn og ráðagóður og víst
er að gott var að leita til hans á
stundum alvörunnar. Margir eiga
honum skuld að gjalda fyrir
greiðvikni og hjálpsemi, en í þeim
efnum taldi hann ekki eftir sér
neina fyrirhöfn.
Lenna verður ekki minnst án
þess að nefna í sömu andrá ein-
staka eiginkonu hans. Fljótt kom
í ljós og síðar hefur sannast að
dómgreind frænda míns hefur
ekki brugðist. Betri lífsförunaut
er vart hægt að hugsa sér honum
til handa, svo einstakt hefur sam-
band þeirra og samleið öll komið
okkur fyrir sjónir. Tryggð og um-
hyggja Höllu í langvinnum og erf-
iðum veikindum frænda míns eru
slík að með eindæmum eru. Þau
tókust samhent á við lífið og er
víst að missir hennar er mikill.
Ævi frænda míns er lokið. Að
leiðarlokum er mér ljúft og skylt
að þakka honum samfylgdina,
glaða æsku og órofa tryggð og
umhyggju. Höllu, börnum, bróð-
ur og öðrum ástvinum sendum
við fjölskyldan innilegustu sam-
úðarkveðjur. Hann mun lifa okk-
ur í minningunni; góðlyndur,
æðrulaus, sterkur og kær.
Ingimundur Sigurpálsson.
Vinur okkar Leonhard Ingi
Haraldsson tannlæknir hefur
fengið hvíldina eftir langa og erf-
iða sjúkralegu. Lenni, eins og
hann var ávallt kallaður, hafði
einstaklega góða nærveru. Hann
stráði hlýju og léttleika á veg
samferðamanna sinna með því
einu að vera bara sá sem hann
var. Hann var algjört ljúfmenni
og heyrðist aldrei hallmæla
nokkrum manni. Hann var líka
mikill húmoristi, orðheppinn og
einstaklega skemmtilegur í góð-
um hópi. Hann var því óvenju vin-
margur, enda félagslyndur með
afbrigðum og áhugasamari um
hag annarra en sinn. Hann átti
bara vini.
Leiðir okkar lágu saman er við
hófum nám í tannlækningum árið
1965. Ekki var það auðvelt í byrj-
un, þar sem tannlæknadeildin var
lokuð vegna húsnæðisleysis, hafði
verið í kjallara Landspítalans við
Hringbraut, en samningurinn við
ríkið var útrunninn og ekki end-
urnýjaður. Við vorum því skráðir
í læknadeild með opna umsókn í
tannlæknadeild. Það gekk að lok-
um upp og við komumst fjórir
(Helgi, Jens, Lenni og Sigfús
Þór) inn í deildina á annað ár.
Þarna áttum við sex frábær ár
saman í krefjandi námi, en alltaf
gaman hjá okkur og átti Lenni
ekki síst þátt í að halda okkur við
gleðihliðina.
Við tókum að okkur stjórn fé-
lags tannlæknanema og meðal
annars tókum við á móti tveimur
tannlæknanemum frá Svíþjóð og
Danmörku og sýndum þeim
mikla kurteisi að íslenskum sið,
fórum meðal annars Þingvalla-
hring á bíl félagsins, eins og bíll
formannsins var kallaður. Svo
var haldið hér norrænt þing tann-
læknanema og m.a. sníkt frábær
móttaka Gylfa Þ. Gíslasonar
menntamálaráðherra í ráð-
herrabústaðnum við Tjörnina.
Eftir að námi lauk fórum við að
vinna hér og þar á stofum tann-
lækna og hjá skólatannlækning-
um Reykjavíkur, en svo fór að
lokum að þrír okkar settu upp
saman eigin stofur (Helgi, Jens
og Lenni) á Rauðarárstíg 18 árið
1975. Einn fór þá strax í sérnám
til BNA (Sigfús Þór). Seinna
1986 keyptum við húsnæði og
settum upp tannlæknastofur í
Skipholti 33.
Strax eftir útskrift vorum við
teknir inn í Tannlæknafélag Ís-
lands og þá settir í félagsheim-
ilisnefnd og áttum við þar gott
samstarf og héldum margar
skemmtanir. Þá var félagið ekki
mjög fjölmennt og kollegar sam-
heldnir og duglegir að skemmta
sér saman.
Á þessum árum þurftu tann-
læknar að sækja sér fróðleik og
viðhaldsmenntun erlendis og lá
leið okkar oft til Köben, þar sem
við sátum á fyrirlestrum og sáum
nýjustu tæki og efni í faginu á
stórri sýningu, sem haldin var á
sama stað í Bella Center á Ama-
ger, en auk þess var þetta hin
besta skemmtun, því við Íslend-
ingar erum duglegir að halda
hópinn.
Margar samverustundir og
skemmtanir hafa fjölskyldur
okkar fjórmenninganna átt í
gegnum árin.
Árið 1996 varð Lenni að hætta
störfum sem tannlæknir af
heilsufarsástæðum og hefur háð
erfiða og mikla baráttu við veik-
indi síðan, en er nú búinn að fá
hvíldina. Halla stóð eins og klett-
ur við hlið Lenna í þessari bar-
áttu allt til loka. Blessuð sé minn-
ing frábærs félaga og vinar og
sendum við Höllu, börnum og
barnabörnum okkar innilegustu
samúðarkveðjur.
Helgi, Jens og Sigfús Þór.
Kveðja frá Tannlækna-
félagi Íslands
Eitt af því dýrmætasta í lífinu
eru góðir vinir og gott samferða-
fólk. Leonhard Ingi Haraldsson
tannlæknir var einn þessara
samferðamanna. Hann lést föstu-
daginn 28. febrúar sl. 76 ára að
aldri.
Reikna má með að mennta-
skólaárin í MR hafi mótað
Lenna, eins og hann var nefndur
meðal vina. Það var öflugt fé-
lagslíf í MR á þessum árum og
1964 var 6-B nokkuð áberandi
enda margir öflugir nemendur í
þessum strákabekk með tveimur
stúlkum. Nokkrir létu sérstak-
lega til sín taka og urðu síðar
þjóðþekktir. Svo stiklað á stóru
má nefna Björn Bjarnason, Stef-
án Baldursson, Svavar Gestsson,
Véstein Lúðvíksson, Ásdísi
Skúladóttur, Heimi Pálsson, Ket-
il Högnason, Einar Sigurbjörns-
son og Sveinbjörn Rafnsson. Í
lok þessa vetrar þegar undirbún-
ingur stóð sem hæst fyrir stúd-
entspróf voru Bítlarnir að halda
innreið sína hér á landi og voru
Bítlalögin sungin á traktorum á
dimmisjón.
Lenni hóf nám við tannlækna-
deild Háskóla Íslands sem lauk
með kandídatsprófi 1971. Í út-
skriftarárganginum voru fjórir
piltar, enda tannlæknastéttin þá
nánast eingöngu karlastétt. Á há-
skólaárunum var Lenni hinn
mesti gleðigjafi og alltaf til í tusk-
ið. Þjóðviljinn birti á þessum ár-
um viðtal við Sigurð Lúðvíksson
þar sem hann lýsir ferð sinni,
Leonhards og Ketils Högnasonar
á þing tannlæknanema á Möltu.
Nú eru þessir frábæru kollegar
komnir yfir móðuna miklu, ásamt
Þjóðviljanum. Góðar minningar
eigum við um þessa þrjá gleði-
gjafa. Eiginkonan, Amalía H.
Skúladóttir, Halla, sem þá var
þegar orðin lífsförunautur
Lenna, var í þessari ferð til
Möltu. Lenni var alltaf vinstra
megin í pólitík og voru þau hjón
samstiga í því eins og öllu því sem
þau tóku sér fyrir hendur.
Leonhard starfaði sem aðstoð-
artannlæknir hjá Halli Hallssyni í
Reykjavík frá júní 1971 til júlí
1975. Skólatannlæknir í Reykja-
vík var hann frá september 1971
og rak eigin tannlækningastofu í
Reykjavík frá júlí 1975 til maí
1996. Hann var virkur í félagslífi
Tannlæknafélags Íslands og tók
að sér ýmis verkefni fyrir félagið.
Starfsferill Lenna varð ekki
langur. Taugalömunarsjúkdómur
fór að láta á sér kræla um fertugt
en sennilega hefur hann borið
sjúkdóminn frá barnsaldri. Hann
varð að ljúka störfum um fimm-
tugt og var þá metinn öryrki. Síð-
ari árin mörkuðust af veikindum
hans, fleiri sjúkdómar lögðust á
hann en Halla, stoð hans og
stytta, sá lengst af um að koma
honum í sjúkraþjálfun og endur-
hæfingu. Síðustu ár hans dvaldi
hann á hjúkrunarheimilinu Sól-
túni. Nokkur hópur kollega,
skólafélagar frá háskólaárunum
og síðar samstarfsmenn, Helgi,
Jens, Sigfús og Sigurjón Ólafsson
studdu sérstaklega við bakið á
honum með heimsóknum og öðr-
um viðvikum. Þótt veikindi hafi
leikið hann grátt var ávallt stutt í
húmorinn.
Á þessum tímamótum vil ég
fyrir hönd Tannlæknafélags Ís-
lands þakka okkar ágæta kollega
Leonhard Inga Haraldssyni sam-
fylgdina, votta eiginkonu hans og
fjórum börnum þeirra ásamt öðr-
um aðstandendum samúð. Bless-
uð sé minning hans.
Svend Richter.
Það kom í minn hlut að rita
nokkur minningarorð um Leon-
hard Inga Haraldsson, einn
bekkjarfélaga okkar úr 6. bekk B
frá MR 1964, og er mér að því
mikill heiður.
Ung sungum við saman „Gau-
deamus igitur“ í bland við Bítla-
lögin á heyvagninum á dimm-
isjón, með Sturlu Þórðarson
undir stýri. Lífið blasti heillandi
við okkur á þeim sólbjarta sum-
ardegi.
Við Lenni, eins og hann var
alltaf kallaður af vinum sínum, ól-
umst upp á Barónsstígnum, hann
á nr. 23 og ég á nr. 24. Við vorum
saman í skóla frá því við vorum í
tíu ára bekk og allar götur síðan
hefur vinátta okkar vaxið með
hverju árinu sem leið og aldrei
borið skugga þar á. Lenni krækti
sér í lífsförunaut á menntaskóla-
árunum sem átti eftir að reynast
honum betri en enginn. Þessi
föngulega snót var Amalía Halla
Skúladóttir sem ólst upp í gamla
pósthúsinu við Brúnaveg og þar
réð ríkjum Hallur Hallsson tann-
læknir. Ég held að það hafi verið
samantekin ráð hans og Höllu að
strákurinn legði fyrir sig tann-
læknanám. Lenni stundaði tann-
lækningar meðan honum entist
heilsa til en hann varð vegna
heilsubrests að leggja borinn á
hilluna einungis 53 ára gamall.
Var oft glatt á hjalla þegar ég sat
í tannlæknastólnum hjá Lenna og
var erfitt að sitja þegjandi meðan
hann reytti af sér brandarana.
Þau Lenni og Halla eignuðust
fjögur mannvænleg börn í „þrem-
ur atrennum“ eins og Lenni orð-
aði það eitt sinn. Ekki fór á milli
mála að fjölskyldan var honum
afar kær. Ekki er hægt að segja
að lífið hafi alltaf farið mjúkum
höndum um minn góða vin en
heilsan var oft ekki upp á marga
fiska.
Má með sanni segja að Lenni
hafi barist og lifað undir merkj-
um gleðinnar og stefnan hafi ver-
ið að kætast meðan kostur var.
Ætíð glaðsinna, spaugsamur og
alltaf manna skemmtilegastur.
Síðustu æviárin voru honum
ekki auðveld, bundinn við hjóla-
stól lengst af og upp á aðstoð ann-
arra kominn. Vissi ég að honum
féll þungt að búa á hjúkrunar-
heimili, ófær um að geta verið
heima hjá Höllu sinni. Halla sá
við því og var meira og minna hjá
honum og stytti honum stundir.
Sagði hann við mig, ekki fyrir
löngu, að hvað sem öðru liði væri
vel um hann hugsað og væri hann
verkjalaus væri engin þörf að
kvarta. Hann væri mest hissa á
því hvað hún Halla nennti að
hanga yfir sér, hundleiðinlegum
karlinum. Við töluðum oft saman
í síma og alltaf var það segin saga
að hann spurði fyrst hvernig
gangur lífsins væri á mínum bæ.
Umhyggjan um farsæld vina
sinna var honum í blóð borin.
Síðustu árin var okkur ljóst
hvert stefndi, en hvað sem því leið
var húmorinn tryggur fylgisveinn
hans þegar við spjölluðum saman.
Lenni hélt upp á 75 ára afmælið
sitt í Sóltúni þar sem hann naut
umönnunar allt til loka. Í veislu-
sal Sóltúns var píanó og Lenni
bað mig að spila fyrir sig þó ekki
væri nema eitt lag. Lagið sem ég
spilaði var það sem mér kom fyrst
í hug: „Gamli góði vinur‘‘ eftir
Magnús Eiríksson. Verður lagið
og textinn, sem segir allt sem
segja þarf, hinsta kveðja til míns
góða vinar.
F.h. B-bekkjar MR 1944,
Sveinn Sigurkarlsson.
MINNINGAR 21
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 13. MARS 2020
„Kallaðu á okkur
fljótt aftur,“ sagði
Erla Kristín, glöð og hress, eftir
síðasta hitting okkar í haust í
Gerðubergi. Okkur var því illa
brugðið er við fréttum ótíma-
bært fráfall hennar.
Þótt liðið væri á annan áratug
síðan við hættum að vinna saman
Erla Kristín
Svavarsdóttir
✝ Erla KristínSvavarsdóttir
fæddist 2. sept-
ember 1957. Hún
andaðist 21. febr-
úar 2020.
Útför Erlu Krist-
ínar fór fram í
kyrrþey að ósk
hinnar látnu.
rofnuðu tengslin
aldrei. Við unnum
allar í Þjóðarbók-
hlöðunni og þar
hófst vinátta okkar
sem hélst æ síðan.
Erla var hámennt-
aður tölvufræðingur
og hornsteinn í
tölvumálum safns-
ins. Mikið var leitað
til hennar og hafði
hún alltaf svör á
reiðum höndum. Á fumlausan
hátt vann hún í völundarhúsi
tölvumála, svaraði spurningum
og leysti hvers manns vanda.
Við áttum margar góðar
stundir saman, bæði á glæsilegu
heimili hennar í Lyngrima og
eins í sumarbústað fjölskyldunn-
ar. Hún var höfðingi heim að
sækja. Heimili Erlu var sérstak-
lega fallegt og hlýlegt og bar
smekkvísi húsmóðurinnar fagurt
vitni.
Erla var frábær og traustur
starfsfélagi en fyrst og fremst
minnumst við manneskjunnar.
Orð duga ekki til að lýsa Erlu.
Hún var einfaldlega einstök
kona, gæfumaður sem skilur eftir
sig góðar minningar. Hún hafði
góða nærveru, var hógvær og
kurteis, yfirveguð og lét fátt
raska ró sinni. Ekki margmál en
lét verkin tala.
Við minnumst látinnar heiður-
skonu með miklum söknuði og
þökkum óbilandi tryggð í gegn-
um árin. Hún var sannur vinur
sem skilur eftir spor í hjörtum
okkar.
Fjölskyldu Erlu sendum við
innilegar samúðarkveðjur.
Svanfríður S. Óskarsdóttir
og Borghildur Stephensen.