Feykir


Feykir - 28.08.2019, Blaðsíða 7

Feykir - 28.08.2019, Blaðsíða 7
Gísla, og tengdasyninum Óskari, föður Þorvaldar, sem stóðu að framkvæmdunum og var virkjunin með þeim fyrstu í austanverðum Skagafirði. Sigurður eldri sá sjálfur um allan útreikning varðandi fallhæð og rennsli en Norð- maðurinn Johan Rönning, sá sem stofnaði samnefnt fyrirtæki í Reykjavík, sá um raflagnir. Virkjunin, sem framleiddi 18 kW og sá íbúum byggðakjarnans á Sleitustöðum fyrir rafmagni, er enn í topplagi að sögn Þorvaldar. Í Byggðasögu Skaga- fjarðar er skemmtileg saga af því þegar nágrannabóndi kom í heimsókn í Sleitustaði, daginn eftir að ljósin kviknuðu þar, og hreifst svo af ljósadýrðinni að hann spurði Sigurð bónda hvort hann gæti nú ekki látið sig hafa rafurmagn svo sem eins og á eina peru. Þorvaldur, sem þá var um fermingaraldur, á góðar minnningar frá þeim tíma sem verið var að byggja virkjunina, sérstaklega minnist hann þess að aðstoðarmaður Johans Rönnings, sem hét því merkilega nafni Júlíus Sesar, kenndi honum á skíði. „Hann var þá einhver frægasti skíðamaður landsins, var í bruni og svigi, maður hafði aldrei séð annað eins og þegar hann fór hér upp í fjallið og skellti sér niður. Manni datt ekki í hug að þetta væri hægt, hann var bara eins og fuglinn fljúgandi. Svo fór ég að spyrja hann eftir því hvort þetta væri mikill vandi að renna sér svona. „Viltu læra?“ spurði hann og ég sagðist vilja það, ég átti nú ekki merkileg skíði held ég, en það fór þannig að hann kenndi mér bæði svig og brun hérna í fjallinu.“ Og fórstu oft á skíði? „Já, já, alveg hreint stanslaust. Þetta var það skemmtilegasta sem maður gat gert. Svo voru fleiri strákar hér á bæjunum í kring sem fóru að koma líka með mér á skíði. Þetta var virkilega gaman. Það var svo mikill snjór í fjallinu og oft mjög góður til að renna sér í. Maður gat sett skíðin á sig langt fyrir ofan girðingu og rennt sér bara nánast alla leið heim,“ segir Þorvaldur. Ráðist í virkjun á Kolku En aftur að virkjuninni. Það var svo árið 1984 sem aftur var hafist handa við virkjunarframkvæmdir á Sleitustöðum. Að þessu sinni var ekki um neinn bæjarlæk að ræða, heldur sjálfa Kolbeins- dalsá eða Kolku eins og hún er einnig nefnd. Þeir sem helst voru í forsvari fyrir fram- kvæmdunum að þessu sinni voru Þorvaldur og Ólafur Jónsson sem giftur var móðursystur Þorvaldar, Þór- veigu. Markmiðið með virkjun- inni var að framleiða næga orku til að sjá heimilunum á Sleitustöðum fyrir orku til upphitunar og annarra þarfa og einnig að anna rafmagnsþörf bifreiðaverkstæðisins. Í greina- gerð um framkvæmdirnar sem Þorvaldur tók saman segir: „Tilhögun framkvæmdanna var í stórum dráttum þannig að grafinn var skurður meðfram ánni, um 400 metra langur (sem varð að sprengja að miklu leyti þar sem fljótlega var komið niður á klöpp) hæðarmunur á þessum kafla var um 10 metrar, sem er fallhæðin.“ Byggður var stíflugarður 1,60 m hár og 25 m langur, þvert yfir ána með rennslisstillibúnaði sem opna má í flóðum ef yfirfallið dugar ekki. Við enda skurðsins að ofan er uppistöðulón sem tekur við krapi og framburði sem áin ber með sér í flóðum. Við neðri enda lónsins er svo annar stíflugarður með hæðarstjórnun og hreinsiloku. Grafinn var 400 m aðrennslisskurður meðfram Kolku og þurfti að sprengja hann að miklu leyti þar sem fljótlega var komið niður á fast. Er hæðarmunurinn eða fallhæðin um tíu metrar. Við endann á skurðinum er svo inntaksmannvirki með hæðarstjórnun og hreinsiloku. Einnig var byggt stöðvarhús, 7,25 x 4,75 m að grunnfleti. Full afköst virkjunarinnar voru 220 kW og var hún gangsett í lok nóvember árið 1985. Þorvaldur segir að ekki hafi allir haft mikla trú á að fram- kvæmdin ætti eftir að heppnast hjá þeim félögum. „Þegar farið var að vinna í því að dýpka ána þá var einn bóndi hérna í Hjaltadalnum sem sagði að þeir gætu nú ýmislegt Sleitu- staðamenn en það væri eitt sem þeir gætu aldrei og það væri að láta vatnið renna upp í móti. Áin er frekar lygn en oft þó nokkuð mikil. Honum leist ekki á það, það væri gert ýmislegt hérna en við gætum alls ekki gert þetta,“ segir Þorvaldur og hlær við. En hvernig gekk svo vinnan við þetta? „Það gekk ágætlega, þetta var ótrúlegt að það skyldi takast. Þetta er alveg heljarinnar stórvirki og gengur alltaf og gengur og skaffar okkur rafmagn, öllum bæjunum hérna, og er búin að gera það í mörg ár og hún mun ganga áfram þessi virkjun.“ Hver voru svo helstu ljónin í veginum? „Það var að fá nóg af vatnsmagni til að geta fengið ána til þess að búa til rafmagn, að búa til rafstöð. Hún var helvítis hausverkur en svo enti það ágætlega. En þetta var mikil vinna.“ Eins og áður segir voru það Þorvaldur og Ólafur Jónsson sem unnu aðallega að fram- kvæmdinni en eigendur hennar eru, rétt eins og fyrri virkjunarinnar, eigendur og ábúendur Sleitustaðabæjanna. „Hann var giftur Þórveigu móðursystur minni. Svo dó hann blessaður hér við virkjunina. Hann missti vélina sína sem hann var að vinna við í lónið og drukknaði. Hann var lærður kennari og kenndi í Keflavík og fleiri stöðum. Hann var feykilega góður kennari og bráðlaginn, virkilega flinkur smiður og gat gert ótrúlega hluti. Átti mikið af tækjabúnaði og smíðaði alls konar muni, bæði fyrir sjálfan sig og aðra,“ segir Þorvaldur og bætir við að það hafi komið sér vel við virkjanagerðina. Fyrst smávirkjana til að selja til RARIK Þegar Þorvaldur er inntur eftir því hvort ekki hafi fengist einhverjir styrkir til byggingar virkjunarinnar segir hann að ekki hafi nú verið mikið um það. „En það reddaðist einhvern veginn. En svo þegar þetta var komið í gang þá fórum við að selja rafmagn inn á netið og höfum gert það í mörg mörg ár. Það gekk nú ekki andskotalaust að fá að selja það til RARIK en það talar enginn um það lengur,“ segir Þorvaldur en haustið 1985 undirrituðu eigendur virkjunarinnar samn- ing þess efnis að RARIK keypti alla umframorku virkjunarinnar auk þess sem virkjunaraðilar skuldbundu sig til þess að afhenda 100 kW á vetrum þegar á þyrfti að halda og hefur svo verið gert síðan. Byggð var sérstök dreifistöð til samkeyrslu við netið og er hægt að stjórna samkeyrslu þaðan. Þar er einnig 200 kW díselvél sem má samkeyra ef vatnsvélina skortir vatn vegna kraps eða annarra ófyrirséðra ástæðna. Þorvaldur getur þess að rafvirki á Akureyri, Árni Bergmann, hafi reynst þeim einkar vel við þessa vinnu. Sleitustaðavirkjun mun hafa verið fyrsta virkjunin í einkaeign sem seldi orku til RARIK og hefur það samstarf tekist með ágætum. Nýlega var svo ráðist í að endurbæta virkjunina og stækka hana til muna með nýjum rafal og túrbínu þannig að afkastagetan nemur nú um 280 kW. „Við vorum að stækka hana alveg heilmikið. Við vorum svo heppin að komast í samband við mann sem heitir Gunnar Hannesson og er mikið í svona virkjunarvinnu. Hann kom mér í samband við mann sem hefur það að atvinnu að búa til rafstöðvar. Hann er frá Austurríki þessi maður og vinnan hans er að smíða túrbínur og rafala og þess háttar og hann kom hingað með tvo syni sína með sér. Þetta er eldklár karl, fullorðinn maður, og hann var svo hrifinn af þessu, hvernig þetta var útbúið allt saman að hann vildi endilega fá að hjálpa til. Og svo hefur hann verið hérna alveg vikum saman og synir hans með honum og hefur verið að hjálpa okkur með búnaðinn. Hann skaffar búnað ef okkur vantar, þá þurfum við bara að tala við hann.“ Að lokum bregður Þorvaldur sér með blaðamanni út að ánni til að skoða mannvirkin sem þar standa. Það er óhætt að fullyrða að þeir Selitustaðamenn hafi verið stórhuga í virkjunar- framkvæmdum sínum, allt frá þvi að fyrstu framkvæmdir hófust þar um miðja síðustu öld. Virkjunin í fjallinu stendur enn sem minnisvarði um þann dugnað og áræðni sem þeir sýndu og hefur á sínum tíma verið mikið stórvirki, rétt eins og sú virkjun sem nú malar gull úr rennsli Kolbeinsdalsár. Stuðst var við umfjöllun um Sleitustaðavirkjun í Byggðasögu Skagafjarðar, VI. bindi og samantekt Þorvaldar G. Óskarssonar, Sleitustaðavirkjun í Skagafirði. Uppistöðulón virkjunarinnar. Inntaksmannvirki og stöðvarhús. Þorvaldur G. Óskarsson á heimili sínu. Byggðakjarninn á Sleitustöðum. Hús Þorvarldar, Smáragrund, stendur fyrir miðri mynd. 32/2019 7

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.