Feykir


Feykir - 28.08.2019, Blaðsíða 8

Feykir - 28.08.2019, Blaðsíða 8
Það er til fullt af fólki í heiminum, og enginn eins. En nánast allir eiga eitthvað eitt sameiginlegt, þó ekki endilega það sama. Það var mörgum sem fannst „Game of thrones“ skemmtilegt, aðrir sem finnst golf skemmtilegt og einhverjir eru með blá augu. En það er til hópur af fólki (og örugglega nokkrir) sem kallar sig ekki hóp því þau auglýsa sig ekki og hafa ekkert sameiginlegt áhugamál. Ég vil kalla þau góða og gáfaða fólkið, það er fólkið sem tekur hlutina skrefinu lengra en kurteisa fólkið og segir engum frá því hvað það gerir, hvorki á samfélagsmiðlum eða í daglegu tali, eða allavega ekki oft og það er ekki ástæðan fyrir því að verkið var framkvæmt. Þau leggja bílnum vel og rétt í stæði, bíða stillt og þolinmóð í röðum, taka utan af rúmum þar sem þau gista svo húsráðandi þurfi ekki að gera það, segja viðmælanda frá því þegar hann er með rjóma eða súkkulaði í munnvikinu, taka langa króka á leið sína til þess að keyra fullt fólk heim af böllum, spyrja um ofnæmi hjá fólki sem ætlar að koma í mat, gefur stefnuljós þegar má taka fram úr, tína upp rusl á förnum vegi henda því þar sem við á. Þessi listi er ótæmandi sem og svo margir aðrir upptalningalistar og mér mun aldrei detta í hug öll þau atriði sem eiga við. Það þarf bara að framkvæma einn af þessum hlutum eða öðrum í líkingu þeirra til þess að komast inn í þennan hóp. Ekki að það sé til neinn formlegur hópur svo ég viti og ef svo væri veit ég ekki alveg hvernig árshátíð hjá þeim hópi gæti verið, en líklega skemmtileg og allir kæmust heilir heim. Heimurinn er fullur af svona fólki, það sést út um allt og finnst í öllum löndum. En það sést enginn munur á því og þessum sem henda rusli út í náttúruna eða leggja illa, sem mættu klárlega bæta sig. Mig langaði bara aðeins að skrifa um þau og þakka þeim fyrir að vera til. Veröldin er betri staður með ykkur. Ég skora á vin minn Jón Frey Gíslason til að skrifa næsta pistil. Vonandi dettur þér eitthvað sniðugt í hug. Góða og gáfaða fólkið Helga Rún Jóhannsdóttir Bessastöðum ÁSKORANDINN palli@feykir.is Helga Rún Jóhannsdóttir. MYND: AÐSEND Málefni fatlaðra á Norðurlandi vestra Húnaþing vestra klýfur sig frá samstarfi Þann 1. janúar 2016 tók gildi samningur milli sveitarfélaga á Norðurlandi vestra; Akrahrepps, Blönduósbæjar, Húnavatnshrepps, Húnaþings vestra og Skagastrandar við Sveitarfélagið Skagafjörð um að það verði leiðandi sveitarfélag í málefnum fatlaðra á Norðurlandi vestra. Samningurinn felur í sér að fötluðu fólki, sem á lögheimili í aðildarsveitarfélögum, sé veitt sú þjónusta sem kveðið er á um í lögum. Nú í árslok rennur samningurinn út og hefur Húnaþing vestra ákveðið að endurnýja ekki núgildandi samning og hefur falið sveitarstjóra að hefja vinnu við næstu skref við yfirtöku málaflokksins. „Það er rétt að árétta, líkt og kemur fram í bókun Byggðaráðs, að Húnaþing vestra er ekki að slíta samstarfi við Skagafjörð um málefni fatlaðra. Heldur er samningurinn við Skagafjörð að renna út og hyggst Húnaþing vestra ekki óska eftir endurnýjun samningsins. Eins og kemur fram í bókun byggðarráðs þá mun sveitarfélagið taka yfir málaflokkinn og mun leitast við að efla þá þjónustu sem þegar er í boði og telur sveitarfélagið sig geta veitt góða samræmda þjónustu til allra íbúa óháð stöðu þeirra. Þar sem ég er nýkomin til starfa hef ég ekki haft tök á að sökkva mér ofan í hvernig staðið verður að yfirfærslunni en mun gera það á næstu vikum,“ segir Ragnheiður Jóna Ingimarsdóttir, sveitarstjóri Húnaþings vestra. Sú ákvörðun Húnaþings vestra að endurnýja ekki samninginn, hefur leitt til þess að öll sveitarfélögin, sem voru aðilar að núgildandi samkomulagi, hafa þurft að endurmeta stöðuna. Á fundi byggðarráðs Sveitarfélagsins Skagafjarðar í síðustu viku kom fram að ráðið telji allar forsendur til þess að Sveitarfélagið Skagafjörður annist þjónustu við fatlað fólk, hvort sem er í samstarfi við önnur sveitarfélög eða eitt og sér. Akrahreppur, Blönduós og Skagaströnd óska eftir áframhaldandi samstarfi um þjónustu við fatlað fólk en Sveitarstjórn Húnavatnshrepps hefur ekki tekið formlega afstöðu til málsins. „Núgildandi samningur byggir á jafnræði í þjónustu innan alls svæðisins, eða eins og segir í núgildandi samstarfssamningi: Þjónusta innan svæðisins er veitt á jafnræðisgrundvelli og byggja ákvarðanir um veitingu hennar á mati á þjónustuþörf. Sá sem metinn er í mestri þörf fyrir þjónustu skal að öllu jöfnu hafa forgang að þjónustu, óháð búsetu. Þá gilda sömu viðmið um þjónustustig á svæðinu öllu. Eðlilega er mismunandi þjónustuþörf á hverju svæði fyrir sig, á hverjum tíma fyrir sig, enda breytist þjónustan í takt við ríkjandi þörf á hverjum tíma. Það er því ekki hægt að segja að samningurinn sé góður eða slæmur fyrir eitthvert eitt sveitarfélag innan svæðisins,“ segir Sigfús Ingi Sigfússon, sveitarstjóri Svf. Skagafjarðar. Samstarfssamningurinn kveður á um þjónustu sem veitt er samkvæmt lögum um þjónustu við fatlað fólk með langvarandi stuðningsþarfir og bera sveitarfélögin ábyrgð á skipulagi og veitingu almennrar félagsþjónustu á forsendum laga um félagsþjónustu sveitarfélaga. „Þar geta áherslur sveitarfélaganna varðandi skipulag og veitingu þjónustu verið ólíkar, s.s. varðandi samþætta þjónustu,“ segir Sigfús Ingi. /PF Ragnheiður Ásta Jóhannsdóttir, Jónína G. Gunnarsdóttir og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir í skynörvunarherbergi Iðju á Sauðárkróki 2017. Mynd: FE 8 32/2019

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.