Sjómannadagsblaðið

Volume

Sjómannadagsblaðið - 30.05.2008, Page 8

Sjómannadagsblaðið - 30.05.2008, Page 8
8 SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ 30. MAÍ 2008 ,,Staðan er að mörgu leyti mjög erfið. Það hafa orðið gríðarlegar sviptingar í efnahagsmálunum og þeir sjómenn, sem hafa tekjur af sölu sjávarfangs, eru á nokkuð öðru róli en aðrir landsmenn. Veiking krónunnar hefur leitt til þess að þeir hafa sumir hverjir borið meira úr býtum og fengið fleiri krónur í vasann. Staða farmanna er hins vegar óbreytt. Hún er afleit sem fyrr,“ segir Árni Bjarnason, forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands og formaður Félags skipstjórnarmanna en hann á von á erfiðum kjarasamningum á komandi mánuðum. Allir kjarasamningar sjómenna eru lausir eða við það að losna en líklegt er að viðræður um nýja samninga hefjist ekki af fullum krafti fyrr en eftir sumarleyfi. Það var í nógu að snúast hjá Árna og hans fólki á skrifstofum FFSÍ og FS þegar tíðindamann Sjómannadagsblaðsins bar að garði. Í undirbúningi var aðalfundur FS sem halda átti síðar í vikunni. Innan vébanda FS er stór hluti skipstjóra og stýrimanna í landinu með þeirri undantekningu þó að enn starfa tvö svæðafélög skipstjórnarmanna. Það eru Verðandi í Vestmannaeyjum og Vísir á Suðurnesjunum. Árni segir að með stofnun FS á sínum tíma hafi þess verið freistað að sameina alla skipstjóra og stýrimenn á landinu í einu félagi og hann vonast til að það muni gerast fyrr en síðar. Sameinist öll félög skipstjórnarmanna í eitt verði FFSÍ óþarft. Til þess hafi verið stofnað á sínum tíma til þess að vera sameiginlegur vettvangur allra skipstjórnarmanna úr hinum ýmsu svæðafélögum sem þá voru starfandi en þær forsendur breyttust ef til yrði landsfélag skipstjórnarmanna. Úr rúmlega 50 kaupskipum í ekkert! Gríðarlegar breytingar hafa orðið á íslenskri kaupskipaútgerð á undanförnum árum. Guðjón Ármann Einarsson, framkvæmdastjóri FS, sem tekur þátt í spjallinu, rifjar það upp að á árunum 1983 til 1984 hafi rúmlega 50 flutningaskip verið í íslenska kaupskipaflotanum og Eimskip eitt og sér hafi þá verið með 25-26 skip. Nú sé ekkert íslenskt kaupskip eftir. ,,Það er búið að flagga öllum þessum skipum út og íslenskir farmenn, þ.e.a.s. þeir sem eftir eru, vinna nú hjá fyrirtækjum sem skráð eru erlendis, aðallega í Færeyjum en einnig víðar,“ segir Guðjón Ármann en þeir Árni telja að nú séu íslenskir skipverjar á kaupskipum, sem dótturfélög Eimskips og Samskipa gera út, um 200 talsins. Þar af sé um þriðjungurinn yfirmenn. Samningar þeirra hafa verið lausir frá því um síðustu áramót en lítt hefur miðað í samkomulagsátt þrátt fyrir nokkuð stífar viðræður á milli FS og Samtaka atvinnulífsins sem fara með málið fyrir útgerðirnar. Auk viðræðna um nýjan kjarasamning yfirmanna á kaupskipunum fer FS með samninga fyrir yfirmenn á sanddæluskipum og undirbúningur vegna viðræðna um kjör yfirmanna hjá Landhelgisgæslunni hafa staðið yfir að undanförnu. Guðjón Ármann segir að útilokað sé að segja fyrir um framhald samningaviðræðnanna eða hvernig þær muni þróast á þessari stundu. Staða íslenskra farmanna sé erfið. ,,Það er, hvað sem öðru líður, ljóst að skipafélögin telja mikinn feng í íslensku sjómönnunum. Verkþekking þeirra og reynsla af siglingum á einu alerfiðasta hafsvæði í heimi er mikils virði og þar af leiðandi gríðarlega dapurlegt hvernig mál hafa þróast hjá okkur Íslendingum, ekki síst í ljósi þess hvernig frændur okkar á Norðurlöndum og reyndar flestar helstu siglingaþjóðir heims hafa brugðist við breyttum aðstæðum.“ ASÍ er á móti íslenskri, alþjóðlegri skipaskráningu Í samtalinu við Árna og Guðjón Ármann kemur fram að Íslendingar hafi algjörlega setið eftir hvað varðar þróunina í kaupskipaútgerðinni. Nágrannaþjóðirnar hafi brugðist við með því að taka upp svokallaðar alþjóðlegar skipaskrár samhliða eigin skipaskrám þegar búið var að flagga velflestum kaupskipum út. Alþjóðlegu skipaskrárnar hafi orðið til þess að útgerðarfélögin hafi séð sér hag í því að skrá skipin í heimalöndunum. ,,Það að flagga skipunum út var engin allsherjarlausn. Margir vöknuðu upp við vondan draum eftir að það hafði verið gert. Erlendar áhafnir reyndust misjafnlega og eigendur skipafélaganna tóku því fegins hendi í flestum tilvikum þegar þeim gafst kostur á að flagga skipunum heim að nýju,“ segir Árni og Guðjón Ármann bætir því við að hér heima séu dæmi um ófullnægjandi verkþekkingu erlendra áhafna vel þekkt. Nú er búið að samþykkja lög um íslenska, alþjóðlega skipaskrá sem Árni og Guðjón Ármann telja að gæti leyst þann vanda sem við er að etja og orðið gæti til þess að íslensk kaupskip verði í framtíðinni gerð út undir íslenskum fána. Vegna andstöðu Alþýðusambandsins muni hins vegar ekkert reyna á málið, að öllu óbreyttu, en skoðun ASÍ sé sú að sé farskip á annað borð undir íslenskum fána skuli gilda þar íslenskir kjarasamningar. Gildir þá einu, að mati sambandsins, þótt viðkomandi skip væri í föstum siglingum milli Japans og Kína, áhöfnin væri alfarið frá Filippseyjum og skipið kæmi aldrei nálægt íslenskri lögsögu. ,,Þetta er afstaða sem á sér enga hliðstæðu hjá þeim þjóðum sem við sperrumst við að bera okkur saman við, s.s. hinar Norðurlandaþjóðirnar.“ Fánaríki geta tekið skipin eignarnámi á ófriðartímum ,,Ég verð að segja eins og er að ég óttast verulega um framtíð íslenskrar farmannastéttar,“ segir Árni. ,,Hún gæti dáið út með þeim mönnum sem nú eru á skipunum. Meðalaldur íslenskra yfirmanna er hár og nýliðunin langt undir því sem hún þyrfti að vera. Það hefur fækkað gríðarlega í Stýrimannaskólanum. Þegar ég kláraði skólann 1973 vorum við 28 sem kláruðum farmanninn og 35 sem útskrifuðust úr fiskimanninum. M.ö.o., útskriftarnemendur árið 1973 voru fleiri en heildarfjöldi nemenda á öllum stigum er í dag.“ Meðal atriða, sem bent hefur verið á vegna stöðu íslenskrar kaupskipaútgerðar, er að ef það komi til ófriðar við Norður-Atlantshaf eða á öðrum siglingaleiðum skipa í eigu íslensku skipafélaganna geti staða Íslands orðið ákaflega erfið. ,,Þetta er e.t.v. fjarlægur möguleiki en ef það skapast ófriðarástand sem nær til siglingaleiðanna í nágrenni landsins eru lögin alveg skýr. Fánaríkin geta tekið flutningaskipin eignarnámi til þess að þau þjóni þeirra hagsmunum sem best,“ segir Guðjón Ármann en getur þess að þótt friðvænlegt sé nú um stundir við norðanvert Atlantshaf sé réttur fánaríkjanna skýlaus í þessum efnum. Það beini sjónum manna að þeirri fráleitu stöðu að eyríki eins og Ísland skuli ekki hafa yfir að ráða eigin kaupskipaflota sem sigli undir íslenskum fána. Aukin þátttaka í olíukostnaði yrði kolfelld af sjómönnum Svo sem að framan greinir hefur staða sjómanna á fiskiskipum heldur batnað upp á síðkastið vegna lækkunar á gengi krónunnar en Árni segir þó að ýmislegt annað komi þar á móti. Sjómenn taka þátt í olíukostnaði útgerðanna í samræmi við kjarasamninginn sem nú er að renna skeið sitt á enda. Samningarnir eru reyndar þannig að sjómenn taka aðeins þátt í kostnaðarhækkunum upp að ákveðnu marki en nokkuð er síðan því ,,þaki“ var náð. ,,Skiptaprósentan er hæst 80% þegar olíuverðið er lágt en í samningum er kveðið á um að skiptahlutfallið lækki niður í allt að 70% ef olíuverðið hækkar. ,,Þakið“ er miðað við 274 dollara fyrir olíutonnið en það er langt síðan því marki var náð og olíuverðið er nú margfalt hærra,“ segir Árni en hann upplýsir að útgerðarmenn hafi nú lagt fram kröfugerð sína vegna komandi kjarasamninga við sjómenn á fiskiskipum og hún sé í 22 liðum. Ljóst sé að ef fallist verður á þá alla þýði það í raun að sjómenn muni borga með sér eða í besta falli vera í sjálfboðavinnu. ,,Meginkrafa útgerðarmanna nú er sú að sjómenn taki þátt í olíuverðshækkununum af fullum þunga. Ég veit að ef sjómannaforystan myndi ljá því máls yrði slíkur samningur kolfelldur í atkvæðagreiðslu af hálfu sjómanna. Það er ekkert skrýtið að útgerðarmenn vilji ræða við okkur um hækkun olíuverðsins en þeir eru hins vegar ekki jafnfúsir til að ræða við okkur um þær upphæðir sem þeir spöruðu þegar olíuverðið var lágt og samningurinn tók í raun aðeins til örfárra skipa í flotanum sem voru að eyða mikilli olíu. Það er því ekki óeðlilegt að ætlast til þess að þeir noti þennan ávinning nú til að mæta hækkun olíuverðs,“ segir Árni en af öðrum kröfum útgerðarmanna, sem sjómannaforystunni líst illa á, er að sjómenn taki framvegis verulega aukinn þátt í tryggingum og sömuleiðis í kvótakaupum útgerðarfélaganna. ,,Ég á von á erfiðum samningaviðræðum. Okkar helsta krafa er sú að tekið verði á málum hvað varðar verðmyndun á fiski og það hefur verið sett ákveðin vinna í gang hvað þann þátt varðar. Að öðru leyti erum við á byrjunarreit. Í ljósi aðstæðna og óvissu í þjóðfélaginu kæmi mér á óvart að kjaraviðræður hefjist af krafti fyrr en í haust.“ Kem ekki auga á mótvægisaðgerðirnar Ákvörðun stjórnvalda um skerðingu þorskkvótans við upphaf fiskveiðiársins olli miklum vonbrigðum enda bitnaði hún harkalega á sjómönnum og útgerðarmönnum. Árni segist hafa lítið orðið var við boðaðar mótvægisaðgerðir stjórnvalda og hann komi a.m.k. ekki auga á að þær hafi gagnast sjómönnum sérstaklega. ,,Ég hef að vísu ekkert sérstaka sjón en ég kem ekki auga á þessar mótvægisaðgerðir. Að vísu má segja að ráðuneytið hafi brugðist rétt og skynsamlega við vegna ábendinga okkar um að rétt væri að grípa til aðgerða til þess að auðvelda mönnum aðgengi að ýsuveiðunum. Stærðarviðmiðunum var breytt og svæði voru opnuð í samræmi við ábendingar okkar. Á móti kemur að við höfum bent á að það geti reynst gríðarlega erfitt og jafnvel óframkvæmanlegt að veiða ekki meira en 130 þúsund tonn af þorski ef veiða á útgefinn ýsukvóta upp á 100 þúsund tonn. Það er hætta á því að ef ýsukvótinn næst að þá verði þorskaflinn töluvert meiri en 130 þúsund tonn einfaldlega vegna þess hvernig háttar til á veiðislóðinni. Ég óttast því að svo geti farið að eitthvað af þorskaflanum skili sér ekki í land,“ segir Árni Bjarnason. Íslensk farmannastétt við það að deyja út – rætt við Árna Bjarnason, forseta FFSÍ og formann FS, og Guðjón Ármann Einarsson, framkvæmdastjóra FS um stöðu íslenskra skipstjórnarmanna Vátryggingafélag Íslands Ármúla 3 108 Reykjavík Sími 560 5000 vis.is Þar sem tryggingar snúast um fólk Til hamingju með daginn, sjómenn!Fí t o n / S Í A

x

Sjómannadagsblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Sjómannadagsblaðið
https://timarit.is/publication/557

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.