Sjómannadagsblaðið - 30.05.2008, Page 15
530. MAÍ 2008 SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ
í nýju og glæsilegu anddyri. „Það er
mikilvægt að fólk skynji strax að það
er komið í aðra veröld. Í þeirri veröld
má upplifa gegnum muni og gripi
hvernig fiskveiðar þróuðust, hvernig
líf sjómanna og fjölskyldna þeirra var
á árum áður,“ segir Sigrún en allir,
sem vettlingi gátu valdið, tóku þátt í
fiskvinnslunni við strendur landsins.
„Í anddyrinu verðum við með
sýningu á verkum Þorleifs
Þorleifssonar sem við nefnum
Handlagni huldumaðurinn. Safnið
fékk fjögur listaverk eftir Þorleif frá
Eimskip en það eru þrívíddarmyndir
frá gömlu höfninni og gerðar úr tré.
Við tókum eftir því hvað verkin vöktu
mikla athygli gesta svo við einsettum
okkur að finna fleiri verk eftir þennan
einstaka hagleiksmann. Fjölbreytileg
flóra listaverka kom í leitirnar. Þá
erum við stolt af 90 ára gamalli
gufuvél sem setur mikin svip á
anddyrið,“ segir hún.
Inn af anddyrinu er Bryggjusalur,
þar er sýningin Lífæð lands og borgar,
um 90 ára afmæli gömlu hafnarinnar í
Reykjavík. Inn í salinn er gengið um
dekkið á gamla Gullfossi. „Þilfarið er
endurgert eftir myndum og líkönum
af skipinu. Frá dekkinu er gengið
niður landgang á bryggju sem er
umflotin sjó þar sem fiskar svamla
um,“ segir Sigrún en þessi sýningar-
salur er afar áhrifamikill.
Þúsund árar
Á efri hæð safnsins eru þrír
sýningarsalir. „Við opnunina um
helgina er sölusýning í Hornsalnum á
málverkum tengdum sjó og strand-
menningu eftir Sigurjón Jóhannsson.
Sigurjón hannaði Bryggjusalinn
með okkur í fyrra en hann og Björn
G. Björnsson hafa verið ráðgjafar
og hönnuðir við sýningarnar okkar
núna,“ segir Sigrún.
Í miðsalnum verður Hákarlasýning í
samvinnu við Byggðasafnið á Reykjum
í Hrútafirði. „Hákarlalýsið var
mikilvæg útflutningsvara, sennilega
fyrsta orkusala okkar til útlanda en
hákarlalýsið var selt sem ljósmeti á
lýsislampa og lýsti upp götur
stórborga eins og Kaupmannahafnar,“
segir Sigrún.
„Jafnframt reynum við í þessum sal
að gefa innsýn í lífið við ströndina
sem var óbreytt í um 1000 ár. Við
nefnum sýninguna Þúsund árar,“
bætir hún við. Íslendingar áttu
einungis litla árabáta og útgerðin var
eins konar heimilisiðnaður bænda og
tómthúsmanna en úti við hafsbrún
mátti sjá stór erlend skip moka upp
fiskinum.
Frá Miðsal er gengið yfir í Langasal
en þar er aðalsýning safnsins. „Þar
sýnum við með munum og myndum
umskiptin sem urðu við framfarir í
bátasmíði og seglabúnaði sem og
komu þilskipanna og síðar togaranna,“
segir Sigrún en með skútuöldinni varð
sjávarútvegur blómleg atvinnugrein
og útflutningur á saltfiski til hinna
kaþólsku landa við Miðjarðarhaf varð
fyrsta stóriðja Íslendinga. Bylting varð
síðan á öllum sviðum í upphafi
tuttugustu aldarinnar en sennilega
skipti koma togaranna hvað mestu
máli.
Reykjavík varð togarabær
„Okkur er hugleikið að sýna fólki
hvað lífið breytist í Reykjavík
við framfarir í sjósókn. Í görðum
tómthúsmanna á 19. öld sem og í
upphafi þeirrar 20. voru breiður af
saltfiski í stað blómabeða,“ segir
Sigrún. Fiskurinn var breiddur út til
þurrkunar á sumrin og störfuðu við
það konurnar og börnin. Í lok nítjándu
aldar fór að gæta meiri iðnvæðingar
við verkunina „Þá voru starfandi
fyrirtæki með fjölda fólks í vinnu við
saltfiskverkunina og var fiskurinn
þurrkaður á stórum svæðum í bænum,
t.d. við Ánanaust og á Kirkjusandi,“
segir hún.
„Stærsta breytingin varð þegar
togararnir komu og Reykjavík varð
togarabær. Fólk flutti í auknum mæli
á mölina. Fyrir unga menn var það
eins og að vinna í happdrætti að
komast á togara,“ segir Sigrún og
bætir því við að þá hafi götur eins og
Bárugata og Öldugata byggst upp en
þar áttu skipstjórarnir stærstu og
fínustu húsin.
Undirbúningur
Sjóminjasafns í heila öld
Þegar gengið er um Sjóminjasafnið
er ótrúlegt til þess að hugsa að slíkt
safn hafi ekki fyrr litið dagsins ljós
í Reykjavík. Sigrún segir að nokkrar
nefndir hjá borg og ríki hafi á
síðustu öld haft þetta viðfangsefni
og borgin jafnvel úthlutað lóð undir
sjóminjasafn – en ekkert gerst. „Það
má segja að undirbúningur að því að
koma á fót sjóminjasafni í Reykjavík
spanni heila öld,“ segir Sigrún og
útskýrir nánar: „Árið 1898 fóru þrír
Íslendingar á stóra sýningu erlendis
og komu heim fullir af áhuga og
töldu mikilvægt að glatkistan gleypti
ekki minjar um sjómennskuna í
gegnum tíðina. Í kjölfarið fylgdu
blaðagreinar og fleira en ekkert varð
úr hugmyndinni. Fyrir sjötíu árum
var Sjómannadagsráð stofnað og
hafði þá tvö meginmarkmið; að koma
upp húsnæði fyrir aldraða sjómenn
og koma á fót sjóminjasafni.“ Um
svipað leyti settu reykvískir sjómenn
upp sýningu á sjóminjum sem þeir
höfðu safnað. Þessir munir fóru síðar
til Þjóðminjasafnsins til varðveislu.
„Vísir að sjóminjasafni var í kjallara
Þjóðminjasafnsins fyrstu árin eftir
stofnun þess en þær minjar fóru
flestar á Sjóminjasafn í Hafnarfirði
sem rekið var í tengslum við
Byggðasafnið. Fyrir nokkrum árum
ákvað Byggðasafnið að taka alfarið
yfir reksturinn og sjóminjunum var
pakkað niður og þær settar í geymslu
en mig langar að geta þess hér að bæði
Þjóðminjasafnið og Árbæjarsafn eru
ákaflega hjálpleg við að lána okkur
muni og stærri gripi,“ segir Sigrún.
Árið 2001 samþykkti borgarstjórn
tillögu frá Vilhjálmi Þ. Vilhjálmssyni
um að kanna möguleika á stofnun
sjóminjasafns í borginni í samvinnu
við hagsmunaaðila. Þetta þýddi að
safnið yrði ekki borgarstofnun heldur
sjálfseignarstofnun. Sigrún var kosin
formaður undirbúningsnefndarinnar
og með henni störfuðu
borgarfulltrúarnir, Vilhjálmur Þ.
Vilhjálmsson og Helgi Pétursson.
Hafnarstjóri og borgarminjavörður
sátu einnig í undirbúningsnefndinni.
Þakklát Faxaflóahöfnum
Sigrún segir að varla sé unnt að hugsa
sér neitt skemmtilegra eða meira
gefandi en að byggja upp safn um eina
aðalatvinnugrein Reykvíkinga um
langan tíma. Stóra skrefið í stofnun
safnsins var stigið á haustdögum árið
2003 þegar nefndinni bauðst húsnæði
á Grandanum. „Ég sá að staðsetning
BÚR-hússins væri alveg kjörin fyrir
safnið en sjálft húsið var nú ekki
glæsilegt og leit hálfpartinn út eins
og draugahús með blaktandi hurðum
og brotnum gluggum,“ segir Sigrún
og hlær. „Þá þurfti að finna voldugan
styrktaraðila til að safnið gæti
eignast húshlutann. Það var Árni Þór
Sigurðsson, formaður hafnarstjórnar,
sem tók af skarið og höfnin keypti um
1800 fermetra af BÚR-húsinu fyrir
safnið. Þetta fyrrum frystihús á sér
áhugaverða sögu sem fiskvinnslustöð
og er að auki staðsett við sjóinn,“
segir Sigrún og bætir því við að síðan
þá hafi verið miklar framkvæmdir
við húsið en það verður brátt með
glæsilegri húsum. „Fjölmörg fyrirtæki
og stofnanir hafa lagt okkur lið
við uppbyggingu sjóminjasafnsins
en við værum ekki mikið safn án
atbeina hafnaryfirvalda í Reykjavík,“
segir Sigrún og er afar þakklát
Faxaflóahöfnum fyrir stuðninginn
við uppbyggingu Víkurinnar-
Sjóminjasafnsins í Reykjavík.