Sjómannadagsblaðið

Árgangur

Sjómannadagsblaðið - 30.05.2008, Blaðsíða 10

Sjómannadagsblaðið - 30.05.2008, Blaðsíða 10
0 SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ 30. MAÍ 2008 Guðmundur Ragnarsson tók við stöðu formanns í Félagi vélstjóra og málmtæknimanna á aðalfundi félagsins í apríl síðastliðnum. Hann segir verkefni félagsins mjög viðamikil en sérstök áhersla sé lögð á kjaramál, þjónustu vegna persónubundinna samninga, faglega símenntun, menntunarmál, bætta orlofsaðstöðu og sterkari sjúkrasjóð. Félagið með 28 kjarasamninga Sérstaða félagsins felst í því að það er með 28 kjarasamninga fyrir félagsmenn sína. Guðmundur segir að kjarabarátta sé þess vegna viðvarandi meginviðfangsefni félagsins. Mikill fjöldi samninga skýrist af því að félagsmenn starfa að fjölbreyttum verkefnum hjá fjölmörgum fyrirtækjum. Aðeins um helmingur vélfræðinga og vélstjóra félagsins er á sjó en þeir starfa flestir samkvæmt einum samningi við útvegsmenn. Aðrir starfa til dæmis hjá Orkuveitunni, Landsvirkjun, Reykjavíkurborg, Hitaveitu Suðurnesja, svo eitthvað sé nefnt. Málmtæknimenn eru svo með aðra samninga, oft við sömu vinnuveitendur. Sem dæmi nefnir Guðmundur að samningaviðræður félagsins við Orkuveitu Reykjavíkur séu nú komnar til ríkissáttasemjara fyrir hönd málmtæknimanna en viðræður fyrir hönd vélfræðinga séu enn á borðum félagins og vinnuveitandans. Sameiginlegir hagsmunir Aðspurður segir Guðmundur að hagsmunir vélfræðinga og málmtæknimanna skarist mjög mikið, bæði í námi og á vinnumarkaði. „Það, sem menn sáu við sameininguna, var að hagsmunir félaganna voru í öllum meginatriðum þeir sömu.“ Hann segir að talsvert margir vélfræðingar starfi í málmsmiðjum og í öðrum fyrirtækjum í málmiðnaðargeiranum og iðnmenntun á sviði vélvirkjunar sé hluti af vélfræðináminu. „Menn eru að vinna við sömu verkefnin á sama stað. Hagsmunirnir eru klárlega sameiginlegir þó menntunin sé misjöfn. Framtíðarsýnin er að námið verði sameiginlegt en menn geti lokið því á mismunandi stigum og fái þá mismunandi prófgráður.“ Hann segir að þetta muni þó ekki gerast sjálfkrafa við nýafstaðna sameiningu Fjöltækniskólans og Iðnskólans. Farskipin farin Guðmundur segir málin varðandi íslenska farskipaútgerð vera afskaplega einföld. „Íslensk kaupskipaútgerð er einfaldlega ekki lengur til. Þær þjóðir, sem fóru þá leið að leyfa skráningu farskipa með erlendum áhöfnum á erlendum kjörum, hafa haldið skipunum skráðum heima en við höfum misst þau. Ég skil ekki alveg lógíkina í þessu. Skandinavarnir, með allar sínar áherslur á félagslega kerfið, hafa getað leyft að útlendingar í áhöfnum geti verið á þeim kjörum sem ríkja í þeirra landi. Af hverju ættum við ekki að geta það líka? Vandamálið með okkar menn, sem starfa á kaupskipunum, skráðum úti í heimi, er óviss réttarstaða þeirra í velferðarkerfinu okkar hér heima þó að þeir séu með lögheimili hér.“ Ekki smíðaður togari á Íslandi síðan 1983 Guðmundur kallar eftir skýrari stefnumörkun frá stjórnvöldum varðandi atvinnumálin. „Það vantar algjörlega að ákveða hvert við stefnum í atvinnumálunum til lengri tíma. Samkvæmt EES samningnum eru fjölmargar leiðir til að veita þróunarstyrki til uppbyggingar í ákveðnum geirum atvinnulífsins en stjórnvöld nýta það ekki. Við ættum að setja okkur það markmið, eins og margar þjóðir hafa gert, að skapa ákveðið mörg störf í málmiðnaðargeiranum og hjálpa fyrirtækjum til uppbyggingar.“ Guðmundur er ómyrkur í máli þegar talið berst að afleiðingum þessa stefnuleysis. „Í dag er þessi iðnaður að hjaðna niður vegna þess að við erum ekki með menntað fólk til að sinna þeim verkefnum sem fyrirtækin þó gætu verið að sinna. Það er kominn af stað vítahringur því að getuleysi fyrirtækjanna hefur leitt til þess að þau geta ekki borgað almennileg laun og þá fer unga fólkið ekki að mennta sig á þessu sviði. Þetta endar auðvitað bara á því að við getum ekki einu sinni gert við skipin okkar sjálf, verkkunnáttan tapast. Við erum eyþjóð úti í miðju Atlantshafi en hér hefur ekki verið smíðaður togari síðan árið 1983. Sem dæmi um þessa þróun má nefna að ég held að það hafi enginn rennismiður lokið sveinsprófi á Íslandi síðasta vetur.“ Guðmundur segir að þó fjármálageirinn sé í raun búinn að setja þetta þjóðfélag á ystu brún skuldsetningar ætlum við að búa áfram í þessu landi og við getum ekki alltaf einblínt á eina atvinnugrein sem vel gengur tímabundið. „Við þurfum alltaf að vera með uppbyggingu á öðrum sviðum atvinnulífsins. Ekki setja alltaf öll eggin í sömu körfuna.“ Finnar góð fyrirmynd Varðandi atvinnumálin segir Guðmundur blikur vera á lofti í sjávarútveginum. „Það var þessi mikli niðurskurður í afla í fyrra og svo er gríðarleg olíuverðshækkun að setja enn frekara strik í reikninginn.“ Það sé hins vegar mikil eftirsókn eftir vélfræðingum í landi með uppbyggingu í orkugeiranum og æ fleiri sæki atvinnu þangað. Fyrir utan orkugeirann og stóriðju og örfá fyrirtæki á borð við Marel sé þó ekki mikið nýtt að gerast í málmiðnaði og greinin sé, eins og flestar aðrar iðngreinar, á fallanda fæti á Íslandi. Hann mælir með því að Íslendingar kynni sér hvernig Finnar hafi staðið að málum. Það þurfi ekki alltaf að vera að finna upp hjólið og aðferð þeirra sé góð fyrirmynd. Finnar gerðu opinbert átak þegar skipaiðnaðurinn hrundi í kjölfar þess að Rússar hættu að kaupa af þeim skip og fleira. Þeir fóru í gegn um öll stig menntakerfisins með það að markmiði að auka samkeppnishæfi landsins til lengri tíma á þessu sviði. Nú eru þeir að uppskera og Finnar eru núna ein sterkasta þjóðin í Evrópu á sviði hátæknimálmiðnaðar. „Við getum kannski aldrei orðið fjöldaframleiðendur en mín sýn er að íslensk fyrirtæki gætu gert út á gæðin og tekið að sér sérstaklega vandasöm verkefni í hátæknimálmiðnaði.“ Hann segist reyndar vera á þeirri skoðun að framboð menntunar á þessu sviði á Íslandi sé gott en það þurfi að sjá til þess að unga fólkið sjái raunverulega framtíð fólgna í menntuninni. Sjómennskan ekki valkostur hjá ungu fólki Guðmundur segir að því miður virðist ungt fólk í dag ekki sjá aðlaðandi framtíð í sjómennsku. Hann segir að það sé eitt mikilvægasta fyrirliggjandi hlutverk félagsins að koma af stað umræðu um þessi mál. „Ég hef miklar áhyggjur af sjómennskunni. Meðan atvinnuástandið er allt í lagi í landi virðist unga fólkið ekki líta á sjómennskuna sem valkost. Ég held að hluti af ástæðunni fyrir því sé að vinnuumhverfið úti á sjó er ekki samkeppnishæft. Ég er ekki viss um að við gömlu mennirnir skiljum þetta til fulls. Ef ungt fólk hefur ekki aðgang að SMS, GSM og góðri nettengingu finnst því það bara vera fast á eyðieyju. Það er ekki auðvelt að taka símann og netið af unga fólkinu í dag og ég held að við verðum að skapa nútímalegar aðstæður að þessu leyti úti á sjó til að greinin verði samkeppnishæf um unga fólkið,“ segir Guðmundur og bætir við að samkvæmt fjarskiptalögunum frá árinu 2000 sé símafyrirtækjunum skylt að veita öllum landsmönnum ákveðna grunnþjónustu á sama verði um land allt. Sjómennirnir hafi gleymst í þessu. Verðið á fjarskiptum úti á sjó útiloki til dæmis fjarnám og endurmenntun þar en hvort tveggja væri annars mjög spennandi kostur. „Útgerðin verður að vakna og átta sig á því að hún er í samkeppni um vélfræðingana og vélstjórana við atvinnulífið í landi og verður því að gera vinnuumhverfið til sjós meira aðlaðandi. Þarna er markaðslögmálið í gangi, á markaðnum hækkar verðið á vöru sem vantar inn á markaðinn. Hvers vegna á markaðslögmálið ekki að virka á þessum launamarkaði líka?“ Tími fjárfestinga- félaganna liðinn Guðmundur segir að núna sé lag að pæla aðeins í þessum hlutum, þegar aðeins hafi hægst um í íslensku efnahagslífi. „Mín skoðun er sú að tími fjárfestingafélaganna sé liðinn og tími framleiðslufyrirtækjanna runninn upp. Í mínum huga er þetta tiltölulega einfalt mál, við erum búin að skuldsetja þetta þjóðfélag svo svakalega að við verðum að fara að framleiða eitthvað til að selja til að fá inn tekjur. Þar munu sjávarútvegur og iðnaður leika lykilhlutverk.“ Stjórnvöld þurfa að marka atvinnustefnu til framtíðar Guðmundur Ragnarsson, formaður Félags vélstjóra og málmtæknimanna

x

Sjómannadagsblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Sjómannadagsblaðið
https://timarit.is/publication/557

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.