Sjómannadagsblaðið

Volume

Sjómannadagsblaðið - 30.05.2008, Page 24

Sjómannadagsblaðið - 30.05.2008, Page 24
24 SJÓMANNADAGSBLAÐIÐ 30. MAÍ 2008 Starfsemi Sjómannadagsráðs á sviði öldrunarmála er afskaplega yfirgripsmikil. Ráðið á og rekur Hrafnistuheimilin í Reykjavík og Hafnarfirði og hjúkrunarheimilin á Vífilsstöðum og Víðinesi á Álftanesi. Að auki hefur Sjómannadagsráð byggt fjölda þjónustu- og leiguíbúða, bæði í Reykjavík og Hafnarfirði. Sjómannadagsráð hefur unnið mikið brautryðjendastarf í málefnum aldraðra hér á landi. Innan Hrafnistuheimilanna hefur safnast mikil þekkin á málaflokknum og nú er svo komið að samtökin og Hrafnista eru leiðandi aðili í málefnum og aðhlynningu aldraðra sem sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu leita í auknum mæti til með ósk um samstarf við Hrafnistuheimilin. Guðmundur Hallvarðsson, formaður Sjómannadagsráðs, segir að auk uppbyggingar þurfi stöðugt að huga að eldra húsnæði og aðlaga það að kröfum nútímans. „Þótt Hrafnista í Reykjavík hafi verið byggð af miklum metnaði fyrir 50 árum hafa miklar endurbætur verið gerðar á húsnæðinu. Nú standa yfir miklar endurbætur á elsta hluta Hrafnistu í Reykjavík sem miðar að því að sameina tvö herbergi í eitt. Við að stækka herbergin úr 9 fermetrum í 25 fermetra herbergi með baði. Við þessar breytingar má gera ráð fyrir því að heimilisfólki á Hrafnistu í Reykjavík muni fækka um rúmlega hundrað manns, en aðbúnaðurinn verður allur annar og betri,” segir Guðmundur. Samstarf við sveitarfélög Framundan eru heilmiklar framkvæmdir á vegum Sjómannadagsráðs, bæði á eigin vegum og í samstarfi við sveitarfélög á höfuðborgarsvæðinu. Sjómannadagsráð fyrirhugar einnig töluverðar framkvæmdir í Hafnarfirði. „Þar má nefna nýjar þjónustuíbúðir á lóð Hrafnistu og einnig við Norðurhlein í næsta nágrenni Hrafnistuheimilisins. Á svæðinu er þegar nokkur byggð á vegum Sjómannadagsráðs við Boðahlein og Naustahlein. Auk þjónustuíbúðanna við Norðurhlein er stefnt að því að reisa þjónustukjarna, sérstaklega fyrir íbúana á þessu svæði,” segir Guðmundur. Á síðustu árum hefur Sjómanna- dagsráð unnið náið með bæjar- yfirvöldum í Kópavogi við undirbúning að nýstárlegu hjúkrunar- heimili og þjónustuíbúðum við Boðaþing í Kópavogi. Þar eru framkvæmdir þegar hafnar. Fyrsta verkefni Sjómannadagsráðs í Garðabæ er samstarf um byggingu hjúkrunarheimilis, 56 leiguíbúða og þjónustumiðstöð í samstarfi við Garðabæ og Álftanes. Undirbúningur er einnig hafinn að heilmiklu landnámi í Fossvogs- hverfinu við Sléttuveg í samstarfi við Reykjavíkurborg. Þar verða byggðar 100 þjónustuíbúðir og félagsmiðstöð. Í þjónustumiðstöðinni er gert ráð fyrir sundlaug sem mun auk þjónustu við eldri borgara á svæðinu líka bæta úr brýnni þörf fyrir sundkennslu grunnskólanna í grendinni. Guðmundur segir að við Íslendingar séum mjög framarlega í umönnun eldri borgara. ,,Þróunin hér og erlendis er sú að draga úr vægi dvalarheimila en auka að sama skapi framboð á þjónustuíbúðum. Þetta er gert til þess að fólk haldi lengur eigin heimili en geti um leið nýtt sér öryggið sem fylgir nábýlinu við Hrafnistu og þá þjónustu sem Hrafnista býður uppá. Daggjöldin Daggjaldakerfi við fjármögnun dvalarheimila hefur löngum verið umdeilt. „Rétt er það,” segir Guðmundur. „Hér á Hrafnistu borguðu menn fyrst að stórum hluta sjálfir og leigðu herbergin. En kjör fólks, sem þurfti á aðhlynningu að halda, voru auðvitað mjög misjöfn. Þar kom því að tekið var upp kerfi þar sem greiðsla kom frá ríkinu með hverjum og einum en síðan var endurgreitt af einstaklingum að hluta og af Tryggingastofnun ríkisins eftir efnahag og getu. En líklega þekkist hvergi á byggðu bóli það sérkennilega viðskiptaumhverfi sem hjúkrunarheimilin, að Sóltúni undanskildu, búa við. Hjúkrunarheimilin selja ríkinu þjónustu sína en kaupandinn, ríkið, ákveður hvað á að borga fyrir hana. Ég er hræddur um að kaupmenn yrðu ekki ánægðir ef þessi viðskiptamáti yrði innleiddur í verslun. Ef þeir þyrftu að fá 100 krónur fyrir smjörlíkisstykki en kaupandinn borgaði ekki nema 50.” Guðmundur segist bæði trúa því og treysta að senn verði breytingar á þessu kerfi. „Nú berast þau boð úr heilbrigðisráðuneytinu að gera eigi þjónustusamninga við hjúkrunarheimilin. Þá myndast gagnkvæm krafa um þá þjónustu sem heimilin bjóða uppá og eftirlit með þeim. Eins og gefur að skilja miðast þjónustan við þau almennu gildi sem ríkja í þjóðfélaginu hverju sinni og stefnumótun yfirvalda í málefnum aldraðra. Í þessu sambandi má benda á sundlaugarnar sem við rekum á eigin kostnað vegna þess að margir hér hafa sagt að þær séu uppspretta andlegrar og líkamlegrar vellíðunar og ekki dregur úr að geta einnig brugðið sér í leikfimi. Sjúkraþjálfararnir segja það einstaka aðstöðu til þess að geta haldið færni aldraðra til hreyfingar að boðið sé upp á sund, heita potta, nuddbekki og leikfimi. Ef þessar breytingar sem ríkið boðar verða að veruleika skapast grundvöllur að eðlilegum viðskiptum milli heimilanna og ríkisins sem greiðir fyrir þjónustuna,” segir Guðmundur Hallvarðsson, formaður Sjómannadagsráðs. Sjómannadagsráð: Brautryðjendur í málefnum aldraðra

x

Sjómannadagsblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Sjómannadagsblaðið
https://timarit.is/publication/557

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.