Morgunblaðið - 19.05.2020, Síða 20
20 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 19. MAÍ 2020
✝ Hörður Sig-tryggsson
fæddist 5. mars
1948. Hann lést 2.
maí 2020. Hörður
var sonur hjónanna
Sigtryggs Ólafs-
sonar frá Brekku í
Glerárhverfi, f. 14.
nóvember 1922, d.
2. nóvember 2004,
og Kristínar Þor-
bjargar Stefáns-
dóttur frá Miðbæ í Svarfaðardal,
f. 11. ágúst 1925, d. 21. maí 2012.
Hörður var ókvæntur og
barnlaus. Systkini hans eru:
Ólafur, f. 23. mars
1945, d. 26. júní
1984. Börn hans
eru Sigtryggur,
Guðjón Þór og Inga
Hafdís. Heimir, f.
16. mars 1952. Börn
hans eru Sigurður,
Kristín og Linda
Ösp. Guðrún Hólm-
fríður, f. 1. desem-
ber 1959. Maki
Stefán Guðmunds-
son, dóttir þeirra er Kristín Jó-
hanna.
Útför Harðar fer fram í kyrr-
þey 19. maí 2020.
Hann minnti mig oft á að hann
væri þorpari og hló. Á Akureyri
eru það meðmæli því þeir allir
eru fæddir utan Glerár og til-
heyrðu Lögmannshlíðarsókn! Sr.
Matthías Jochumsson sagði við
fyrsta bæjarstjóra bæjarins þeg-
ar hann vildi ekki láta ávarpa sig
sem borgarstjóra og varla væri
hægt að kalla hann bæjarstjóra
því Akureyri var ekki nema þorp:
Jæja, þá kalla ég þig yfirþorpara.
Hörður hló gjarnan að þessu þeg-
ar þetta mál bar á góma og ekki
hefði hann haft á móti því að bera
þennan titil, svo ánægður var
hann með sínar heimaslóðir.
Ég kynntist honum lítillega
fyrir árið 1990 en mun betur eftir
að ég flutti sjálfur norður til Ak-
ureyrar 2001 og gerðist kennari.
Tveim árum seinna tók ég við
Hvítasunnukirkjunni sem safn-
aðarhirðir. Þá var Hörður dyra-
vörður og sýndi ágæta trú-
mennsku. Mér er til efs að
nokkur kirkja á Íslandi hafi haft
betri dyravörð. Fyrir þeim sem
komu að dyrunum opnaði Hörður
með brosi, hló og bauð viðkom-
andi velkominn. Hann virtist allt-
af glaður. Stundum hafði hann á
orði að nú væri hann dyravörður
á æskuslóðum, leiksvæðinu sem
honum var svo kært.
Ýmislegt hrjáði hann þó sem
leiddi til örorku og varð til þess
að hann bjó við ótrúlegan skort.
Ég hef aldrei skilið hvers vegna
fólk með örorku er skilið eftir í
skorti og vantandi, en ekki tapaði
hann hlátrinum.
Sambandið við móður hans
gerði hann ánægðan því í hvert
sinn sem samkomu lauk í Hvíta-
sunnukirkjunni skundaði hann í
stutta heimsókn til móður sinnar,
kampakátur.
Iðulega hitti ég hann á Gler-
ártorgi. Þar vann hann þegar
verksmiðjur KEA voru þarna en
hin síðari ár kom hann iðulega til
að hitta kunningja sína og heyra
frá þeim sögur. Það virtist alltaf
vera nokkuð kátt hjá vinahópn-
um því Hörður gladdi þá alla með
hlátri og kímni.
Ég furða mig á að það að missa
fót geti gefið jafn mikinn hlátur
og gerðist hjá honum. Vegna syk-
ursýki var hægri fótur tekinn af
fyrir neðan hné. Þegar hann
vaknaði eftir aðgerðina vildi
minn fram úr rúminu og hreyfa
sig. Þegar hann ætlaði að stíga í
fótinn steyptist hann á andlitið.
Við bramboltið kom starfsfólk
spítalans inn á stofuna. Þar var
Hörður að bramboltast á fætur,
marinn og með ummerki eftir
byltuna en hlæjandi yfir því að
hann hafði gleymt því að búið
væri að stytta fótinn um eina 35
cm!
Nú má segja að líf hans hafi
verið stytt um nokkur ár vegna
veikinda og er ævi hans öll. Í dag,
19. maí 2020, hlýtur hann sinn
reit í Lögmannshlíðarkirkju-
garði. Þó að við heyrum ekki hlát-
ur hans lengur þá verður ekki
erfitt að minnast þessa góða
dyravarðar sem bauð alla vel-
komna í kirkjuna á æskuslóðum
hans með glaðværð og hlátri.
Blessuð sé minning þessa trú-
bróður sem með gleði og hlýju
bauð alla velkomna.
Votta ættingjum samúð og bið
þeim friðar á útfarardegi Harðar.
Snorri í Betel.
Snorri Óskarsson
Hörður
Sigtryggsson
✝ Klara JóhannaOttósdóttir
fæddist í Reykjavík
15. desember 1964.
Hún lést á krabba-
meinsdeild Land-
spítalans við
Hringbraut 28.
apríl 2020. For-
eldrar hennar voru
Ottó H. Karlsson, f.
18. apríl 1946, d.
11. október 2007,
og Guðríður Aðalsteinsdóttir, f.
13. febrúar 1946, d. 31. mars
2003. Systkini hennar eru 1)
Ólafur Þór Ottósson, f. 14.
október 1969, sambýliskona
Helga Björg Sigurðardóttir, f.
28. júlí 1971. Börn þeirra eru
Katrín Alexandra, f. 5. desem-
ber 1989, Ottó Gauti, f. 26. nóv-
ember 1997 og Birgitta Rún, f.
26. ágúst 2001. Katrín og eig-
inmaður hennar Davíð Haukur
Ásgeirsson, f. 22. maí 1990,
eiga Helgu Margréti, Aron
Mána og Helenu Ruth. 2) Aðal-
heiður Björk Ottósdóttir, f. 4.
febrúar 1976. 3)
Ása Hrund Ott-
ósdóttir, f. 10. júní
1980, sambýlis-
maður Sigurþór
Ragnarsson, f. 5.
desember 1980,
dóttir þeirra er
Júlía Gurrý Sig-
urþórsdóttir, f. 2.
febrúar 2013.
Klara bjó alla tíð
í Hafnarfirði. Hún
útskrifaðist sem viðskiptafræð-
ingur frá Háskólanum í Reykja-
vík 15. janúar 2005 og lauk síð-
an mastersgráðu frá sama
skóla í reikningshaldi og endur-
skoðun 13. júní 2009. Hún vann
ýmis skrifstofustörf í gegnum
árin. Hún hóf störf hjá
fyrirtækinu Gísla Jónssyni ehf.,
sem nú heitir Málningarvörur
ehf., í desember 2001 og vann
þar til dauðadags, fyrst við
greiðslu reikninga, launa-
greiðslur og afstemmingar og
síðustu árin sem fjármálastjóri.
Útför fer fram í kyrrþey.
Elsku Klara mín.
Með tár í augum og sár í
hjarta kveð ég þig í dag. Ég trúi
því varla að þú sért farin. Á þess-
ari stundu finnst mér lífið svo
ósanngjarnt og er höggið mikið
fyrir okkur fjölskylduna að
missa þig. Systkini þín misstu
mömmu sína og pabba allt of
snemma og núna þig, stóru syst-
ur. Það var mikið áfall í haust
þegar þú greindist og svo ég líka
í sama mánuði. Veröldin fór gjör-
samlega á hvolf en ég var bjart-
sýn á framhaldið og viss um að
við báðar kæmum heilar út úr
þessu. Við höfðum áhyggjur hvor
af annarri og töluðum um að
þetta væri erfitt og leiðinlegt
verkefni sem þyrfti að klára. En
því miður þá fór það ekki þannig
hjá þér, elsku engill. Þetta gerð-
ist allt svo snögglega. Aðeins 4
dögum áður en þú kvaddir
varstu aðallega að hugsa um að
þú þyrftir að græja launin í
vinnunni. Bara vika í mánaðamót
og þú vildir passa upp á að strák-
arnir fengju rétt útborgað. Það
lýsir því svo vel hvað þú varst
samviskusöm og að vinnan og
strákarnir þar skiptu þig miklu
máli. Þú vildir hafa allt pottþétt.
Þú varst góð systir og alveg
sama hvað okkur vantaði eða
báðum þig um þá var svarið allt-
af já. Þú vildir alltaf gera allt fyr-
ir alla. Þú varst líka góð frænka
og vildir fylgjast vel með frænd-
systkinum þínum, spurðir alltaf
hvað væri í gangi hjá þeim og
gátu þau alltaf leitað til þín ef
það vantaði aðstoð með heima-
námið. Þú varst ekki bara mág-
kona mín heldur góð vinkona
líka. Við náðum svo vel saman al-
veg frá því við kynntumst fyrst,
þegar þú komst í heimsókn upp á
Suðurbraut fyrir 24 árum, og
mun ég geyma allar okkar minn-
ingar um ferðalögin, útlanda-
ferðirnar og spjallið um lífið og
tilveruna. Það er óbærilegt að
hugsa til þess að ég hitti þig ekki
aftur, elskan mín, að þú komir
ekki aftur í hrygg á laugardög-
um eða kíkir í einn kaldan á sól-
ardögum. Jólin og gamlárskvöld
verða ekki eins án þín. Ég er svo
þakklát fyrir að hafa verið með
þér síðustu vikurnar þó það hafi
verið erfitt líka. Þú varst alltaf
svo sjálfstæð og baðst aldrei um
aðstoð en þáðir hana undir það
síðasta þegar sjúkdómurinn var
farinn að ágerast. Ég er líka
þakklát fyrir að hafa haldið í
höndina þína síðasta kvöldið,
kysst þig og sagt þér að ég elsk-
aði þig. Ég ætla að trúa því að
mamma þín og pabbi hafi tekið á
móti þér. Það er örlítil huggun
að hugsa til þess að þú sért með
þeim núna því þú saknaðir þeirra
svo mikið. Takk fyrir allt, elsku
engill, og hvíldu í friði. Sakna þín
sárt.
Þín mágkona og vinkona,
Helga.
Í dag kveðjum við vinkonu
okkar hana Klöru sem andaðist á
Landspítalanum 28. apríl síðast-
liðinn. Fyrstu kynni okkar af
Klöru voru í Öldutúnsskólanum í
Hafnarfirði. Það tókst með okk-
ur vinátta sem hélst alla tíð. Við
vinkonurnar höfum verið saman
í saumaklúbb í nær 40 ár og hitt-
umst mánaðarlega yfir vetrar-
tímann. Við erum kannski ekki
margar sem getum státað af því
að vera myndarlegar í höndun-
um, enda var tilgangur hans að-
allega að hittast og eiga góða
stund saman. Klara var hins veg-
ar einstaklega myndarleg í hönd-
unum og lítið mál fyrir hana að
henda í eina peysu, kjól eða húfu.
Og naut systurdóttir hennar,
hún Júlía Gurrý, m.a. góðs af því.
Við brölluðum kannski ekki
mikið saman fyrir utan sauma-
klúbbskvöldin sem haldin voru
reglulega. Við upplifðum þó bæði
gleði og sorg saman, fórum í
nokkrar mjög skemmtilegar
sumarbústaðarferðir ásamt því
að skella okkur í borgarferð
haustið 2018 til Edinborgar. Var
þessi fyrsta ferð okkar utan sam-
an líklega ein eftirminnilegasta
ferð sem nokkur okkar hefur far-
ið í. Hún byrjaði kannski ekki al-
veg eins og við hefðum viljað þar
sem við misstum næstum af flug-
inu þar sem búið var að loka hlið-
inu þegar við komust þangað.
Ekki var ástæðan sú að við hefð-
um verið of seinar á flugvöllinn
heldur þurftum við að spjalla svo
mikið í fríhöfninni. Sumar okkar
voru farnar að leggja drög að
gistingu í Keflavík því ekki vild-
um við fara heim með skottið á
milli lappanna. Allt endaði þetta
nú vel og skemmtum við okkur
stórkostlega. Við ræddum það
gjarnan öðru hvoru í sauma-
klúbbnum að skella okkur í aðra
slíka ferð, en sú ferð hefur þó
ekki enn verið farin.
Það er ekki hægt að segja að
við höfum slakað á í skemmt-
analífinu þegar við vorum yngri
og fannst Klöru 80’-tímabilið
ekki leiðinlegt. Það rifjast upp
hjá okkur margar skemmtilegar
minningar um þennan tíma, eins
og t.d. þegar við vorum mikið að
flýta okkur í partí eða á ball og
þá var kannski ekki mikill tími til
að strauja allt saman sem átti að
fara í, þannig að Klara leysti það
vel með því að strauja bara þann
hluta skyrtnanna sem sást. Það
var mikið hlegið að því þegar far-
ið var úr jakkanum og sá hluti
sem ekki sást var allur krump-
aður.
Klara var traust og góð vin-
kona. Hún var kannski ekki
mjög málgefin en tók til orða
þegar hún taldi sig hafa eitthvað
að segja. Það var í lagi því við
hinar tókum þetta bara á okkur.
Við eigum eftir að sakna þess að
hafa hana ekki lengur með okkur
þegar við hittumst að nýju eftir
þennan erfiða vetur þar sem
veikindi hennar höfðu mikil áhrif
á okkur allar. Við gleðjumst þó
yfir þeim tíma sem við áttum
með henni og vitum að henni líð-
ur mun betur nú.
Dimmt er hvert rökkur er dags-
bjarminn þrýtur,
dapur sá mökkur er lífinu slítur.
Þá nóttin er gengin og árdagur ómar,
þá ymur hver strengur og morgunninn
ljómar.
Ó, gætu þeir séð sem að syrgja og
missa
þá sannleikans gleði sem óhult er
vissa,
að bönd þau sem tengja’ okkur eilífð
ná yfir,
að allt sem við fengum og misstum
það lifir.
En alltaf það vekur hið innsta og
hlýja,
er alfaðir tekur og gefur hið nýja.
Faðir í hendur þér felum við andann,
fullvís er lending á strönd fyrir
handan.
(Ólöf Sigurðardóttir frá Hlöðum)
Elsku Heiða, Óli og Ása, við
saumaklúbburinn sendum ykkur
og fjölskyldum ykkar okkar inni-
legustu samúðarkveðjur.
Elva, Guðfinna, Guðrún,
Hulda og Ólöf.
Klara Jóhanna
Ottósdóttir
✝ Sigurjón Þor-bergsson
fæddist 17. janúar
1934. Hann lést 1.
apríl 2020.
Foreldrar hans
voru Þorbergur
Pétur Sigurjóns-
son og Jónína
Gunnarsdóttir.
Systkini hans voru
Freysteinn, Gunn-
ar, Bragi, Einar,
Ásmundur, Guðrún, Kristinn
og Stefán lifa einir eftir.
Eftirlifandi maki Sigurjóns
er Þórunn Gunnþórsdóttir,
fædd 1. júlí 1950. Þau gengu í
hjónaband 1974.
Synir þeirra eru
Þorbergur Pétur
og Jóhannes Elías.
Maki Þorbergs er
Amy Sigurjónsson.
Kona Jóhanns er
Mitzi Sigurjóns-
son. Börn Þor-
bergs eru Eirún
Rebekka, Elín
Lilja og Eva Vikt-
oría. Börn Jóhann-
esar Lúkas Jósef og Luis Sig-
urjón.
Útför Sigurjóns hefur farið
fram. Minningarathöfn verður
auglýst síðar.
Það var haustið 1983 að áhuga-
hópur vann að stofnun húsnæðis-
samvinnufélags að norrænni fyr-
irmynd. Einn í hópnum var Jón
frá Pálmholti, formaður Leigj-
endasamtakanna. Þegar hann
kom á einn undirbúningsfundinn
var með honum lágvaxinn og hlý-
legur maður og ljós yfirlitum.
Hann lét ekki mikið til sín taka í
fyrstu en það átti eftir að breyt-
ast. Þar var kominn Sigurjón
Þorbergsson.
Þann 26. nóvember það ár var
endanlegur stofnfundur haldinn á
Hótel Borg og nú þurfti nafn á fé-
lagið. Í stofndrögum var lagt til
að félagið héti: Húsnæðissam-
vinnufélag Reykjavíkur og ná-
grennis. Þá stóð upp Sigurjón
Þorbergsson og stakk upp á nafn-
inu: Húsnæðissamvinnufélagið
Búseti. Nafnið fékk yfirgnæfandi
stuðning.
Fimm árum síðar upp á dag
var fyrsta hús Búseta, að Frosta-
fold 20 í Reykjavík, vígt með við-
höfn. Það var dregið um staðsetn-
ingu íbúða í húsinu með
lýðræðislegum hætti, en húsið
var 8 hæðir. Meðal kaupenda að
búseturétti voru Sigurjón og
kona hans, Þórunn Gunnþórs-
dóttir. Þau drógu töluna átta. Á
þessum stað var ekki hægt að
komast nær almættinu.
Fyrstu ár Búseta voru enginn
dans á rósum. Baráttan fyrir því
að fá þetta búsetuform viður-
kennt með löggjöf tók 7 ár. Fljót-
lega eftir stofnun félagsins var
skipuð laganefnd til að vinna að
þessu verkefni. Þá munaði heldur
betur um Sigurjón og útsjónar-
semi hans. Þegar við höfðum sett
saman fyrsta texta að lögum
fengum við þann góða mann
Ragnar Aðalsteinsson til að
semja frumvarp að lögum um
húsnæðissamvinnufélög og það
var síðan þáverandi félagsmála-
ráðherra, Alexander Stefánsson,
sem tók málið upp í ríkisstjórn.
Þar hvorki gekk né rak og end-
anlega var það í ráðherratíð Jó-
hönnu Sigurðardóttur sem lög
um búsetuformið voru samþykkt.
Þá var komið árið 1991.
Á þessum baráttuárum Búseta
var stuðningur Sigurjóns við mál-
staðinn ómetanlegur. Svo þurfti
að prenta og fjölrita ýmis gögn og
blöð. Þá var ekki lakara að eiga að
fyrirtæki Sigurjóns, Letur, eitt
sérstæðasta fyrirtæki landsins og
vagga ungskáldanna. Saga Let-
urs verður ekki rakin hér en verð-
ur vonandi skráð sem merkur
kapítuli í rótarmenningu okkar.
Það er dýrmætt fyrir minn-
ingabankann að eiga þar minn-
ingar um ótal gjöfular stundir
með heiðursmanninum, Sigurjóni
Þorbergssyni. Alltaf fór maður
ríkari frá því borði. Þar var ekki
hávaðinn eða fyrirferðin. Lítillæt-
ið dyggðin.
Kæra Þórunn, Þorbergur og
Jóhannes og fjölskyldur. Innileg
samúð.
Reynir Ingibjartsson.
Sigurjón Þorbergsson bókaút-
gefandi er allur.
Ég kynntist Sigurjóni fyrst í
kringum 1988, hjá mormónasöfn-
uðinum í Reykjavík, en í þá daga
sá ég mér leik á að spila á þver-
flautu með mormónatrúboðunum
er léku á gítar og píanó. Var þá
Sigurjón þegar orðinn með virk-
ustu félagsmönnunum þar og
gast mér vel að honum.
Varð þetta til að ég lét prenta
fyrstu ljóðabók mína hjá honum.
Var það árið 1989 (og hafði þá
megnið af ljóðunum þegar birst í
Lesbók Morgunblaðsins). Hann
rak bókaútgáfuna Letur og var
þá gjarnan kallaður Sigurjón í
Letri. Var mælt að ljóðskáld hæfu
gjarnan útgáfuferil sinn hjá hon-
um.
Við fylgdumst hvor með öðrum
í gegnum tíðina og kallaði hann
mig með tímanum stórskáld!
Í bókinni birti ég kvæði sem
var innblásið af lestri Mormóns-
bókar og hafði birst áður í tímariti
safnaðarins þar. Heitir kvæðið
Mannakorn. Þykir mér nú við
hæfi að kveðja Sigurjón með því,
en þar segir svo í einu erindinu:
Staðfastur vertu sem dalur.
Vertu ei skoðunum falur.
Láttu ei læki þig tæra
né jarðskjálfta vantrúar hræra.
Tryggvi V. Líndal.
Sigurjón
Þorbergsson
Ástkær eiginkona mín, móðir okkar,
tengdamóðir, amma og langamma,
GYÐA GUNNLAUGSDÓTTIR,
Sléttuvegi 11,
lést á hjartadeild Landspítalans við
Hringbraut þriðjudaginn 5. maí.
Útförin hefur farið fram í kyrrþey að ósk hinnar látnu.
Sérstakar þakkir fær starfsfólk á hjartadeild LSH við Hringbraut
fyrir einstaka umönnun.
Hörður G. Pétursson
Pétur Rúnar Harðarson Björg H. Hávarðardóttir
Bryndís Harðardóttir Bragi Björnsson
Kristjana Gyða Pétursdóttir Davíð Sveinsson
Gyða Steinarsdóttir Tryggvi Svansson
Hörður Pétur Steinarsson
og langömmubörn
Ástkær móðir okkar, tengdamóðir, amma
og langamma,
SIGRÍÐUR K. THORS
húsfreyja,
lést miðvikudaginn 13. maí á hjúkrunar-
heimilinu Mörk.
Útförin verður auglýst síðar.
Ágústa Stefánsdóttir
Margrét Þ. Stefánsdóttir Jón Magnússon
Inga L. Stefánsdóttir
barnabörn og barnabarnabörn