Morgunblaðið - 22.05.2020, Side 27
ÍÞRÓTTIR 27
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 22. MAÍ 2020
Samuel Umtiti, varnarmaður
spænska knattspyrnufélagsins Barce-
lona, er til sölu í sumar, en hann hefur
einungis byrjað níu leiki í spænsku 1.
deildinni á tímabilinu. Umtiti er 26 ára
gamall og gekk til liðs við Barcelona
frá Lyon sumarið 2016. Hefur hann tví-
vegis orðið Spánarmeistari með liðinu
og tvívegis bikarmeistari. Spænski
miðillinn Sport greinir frá því að
Barcelona hafi lækkað verðmiðann á
leikmanninum úr 50 milljónum evra
niður í 25 milljónir evra. Ensku félögin
Arsenal og Manchester United eru
m.a. sögð áhugasöm um leikmanninn.
Hollendingurinn Jaap Stam hefur
verið ráðinn knattspyrnustjóri FC
Cincinnati í Bandaríkjunum. Gerir
hann tveggja ára samning við félagið.
Stam gerði garðinn frægan sem leik-
maður og lék m.a. með Manchester
United og AC Milan. Hefur hann síðan
stýrt Reading á Englandi og FC Zwolle
og Feyenoord í heimalandinu. Sagði
hann upp hjá Feyenoord í október á
síðasta ári.
Thomas Bach frá Þýskalandi, for-
seti Alþjóðaólympíunefndarinnar IOC,
segir það ekki koma til greina að
fresta Ólympíuleikunum í Tókýó á nýj-
an leik. Geti þeir ekki farið fram á
næsta ári verði þeim einfaldlega af-
lýst.
Danski knattspyrnumaðurinn Eddi
Gomes sem lék með FH-ingum
keppnistímabilið 2018 er kominn aftur
til Danmerkur og búinn að semja við
HB Köge í B-deildinni út yfirstandandi
tímabil. Gomes, sem var fyrirliði Dana
í knattspyrnukeppni Ólympíuleikanna í
Ríó sumarið 2016, lék með Henan
Jinaye í Kína frá 2015 en var í láni hjá
FH og missti talsvert úr vegna
meiðsla. Hann spilaði áður með HB
Köge 2013-14 og síðan með Esbjerg
eitt tímabil áður en hann fór til Kína.
Hamarsmenn í Hveragerði hafa
samið við bandaríska körfuboltamann-
inn Anthony Lee um að leika með
þeim í 1. deildinni næsta vetur. Lee er
24 ára bakvörður og þreytir frumraun
sína í atvinnumennsku á Íslandi, en
hann kemur úr Kutztown-háskóla, þar
sem hann skoraði 27 stig að meðaltali,
tók 7 fráköst og gaf 5 stoðsendingar á
síðasta tímabilinu.
Knattspyrnumaðurinn Jordon Ibe
mun ekki ljúka tímabilinu með enska
úrvalsdeildarfélaginu Bournemouth,
en félagið ætlar ekki að framlengja
samning hans sem rennur út 30. júní.
Ibe hefur ekki náð sér á strik á fjórum
árum hjá félaginu, sem keypti hann af
Liverpool fyrir 16 milljónir punda árið
2016.
Dönsku knattspyrnufélögin sem
leika í úrvalsdeild karla tilkynntu hvert
á fætur öðru í gær að engin smit af
kórónuveirunni hefðu
greinst í þeirra herbúðum.
Allir leikmenn ásamt
starfsfólki liðanna
gengust undir
skimun fyrr í vik-
unni. Þá staðfesti
FC Köbenhavn að
Ragnar Sigurðsson
landsliðsmiðvörður
væri búinn að jafna sig
af meiðslum og væri klár
í slaginn fyrir fyrsta æf-
ingaleikinn eftir hléið sem
er gegn OB í dag. Keppni í
deildinni hefst á ný 28.
maí.
Eitt
ogannað
VALUR
Bjarni Helgason
bjarnih@mbl.is
Íslandsmeistarinn Guðný Árnadóttir
var sex ára gömul þegar foreldrar
hennar þurftu hálfpartinn að múta
henni til þess að mæta á fyrstu knatt-
spyrnuæfingar sínar.
Það tók hana hins vegar eina til
tvær æfingar að falla fyrir fótbolt-
anum og síðan þá hefur hún skarað
fram úr í þeirri íþrótt.
Guðný, sem verður tvítug í ágúst,
var lykilmaður í hjarta varnarinnar
hjá Val á síðustu leiktíð og lék alla
átján leiki liðsins í Pepsi Max-
deildinni þegar liðið varð Íslands-
meistari í ellefta sinn, en hún er upp-
alin hjá Sindra á Hornafirði og gekk
til liðs við Val frá FH eftir tímabilið
2018.
„Maður er búinn að bíða ansi lengi
eftir því að hefja leik og það er því
mikil spenna fyrir því að byrja tíma-
bilið loksins,“ sagði Guðný í samtali
við Morgunblaðið. „Við finnum ekki
fyrir neinni pressu þannig séð, far-
andi inn í mótið sem Íslandsmeist-
arar. Markmiðið er fyrst og fremst
að njóta þess að spila og hafa gaman
af því sem við erum að gera. Per-
sónulega hefur mér gengið vel hvað
æfingar varðar og við fengum mjög
gott æfingaplan frá þjálfarateyminu
fyrir hvern einasta dag á meðan ekki
var hægt að mæta á æfingar.
Við reyndum að hittast stundum
tvær til þrjár saman til þess að létta
lundina og æfa saman, sem var ágæt-
is tilbreyting. Þar sem Valsliðið
komst ekki í æfingaferð til Spánar
eins og til stóð vegna ástandsins í
heiminum ákváðum við svo að gera
okkur glaðan dag á Suðurlandinu,
þar sem við fórum meðal annars í
fjallgöngu og hellaskoðun. Við gist-
um þar á Hótel Stracta, sem var
mjög fínt, og þetta þjappaði hópnum
klárlega saman fyrir komandi
sumar.“
Spennandi sumar fram undan
Síðasta sumar háðu Valskonur
harða baráttu við Breiðablik um Ís-
landsmeistaratitilinn en Guðný á von
á því að fleiri lið muni blanda sér í
baráttuna í sumar.
„Það er orðið frekar langt síðan
maður sá liðin í deildinni spila og þess
vegna er erfitt að spá fyrir um það
hvernig sumarið á eftir að þróast. Að
mínu mati eru mörg lið sem gætu
gert tilkall til þess að verða Íslands-
meistarar og ég á ekki von á því að
þetta verði tveggja hesta kapphlaup
eins og á síðustu leiktíð.
Selfoss og KR eru bæði búin að fá
til sín mjög öfluga og reynslumikla
leikmenn sem hafa verið fastamenn í
landsliðinu undanfarin ár. Svo hefur
Fylkir líka fengið til sín mjög efni-
lega en jafnframt góða leikmenn og
það geta þannig séð öll liðin í deild-
inni stolið stigum hvert af öðru. Ég á
þess vegna von á mikilli spennu og
skemmtun í sumar.“
Meira inni í hlutunum
Guðný á von á því að ákveðnar
breytingar muni eiga sér stað þegar
kemur að leikskipulagi og öðru hjá
Val þar sem Margrét Lára Viðars-
dóttir, fyrirliði liðsins frá síðustu leik-
tíð, hefur lagt skóna á hilluna.
„Stærsti munurinn frá því fyrir ári
er auðvitað bara sá að ég þekki stelp-
urnar betur núna. Þjálfarateymið er
það sama og á síðustu leiktíð og það
hefur því lítið breyst í þeim efnum.
Heilt yfir er ég komin meira inn í
hlutina núna og ég veit hver stand-
ardinn er hjá félaginu. Maður er
kominn betur inn í hópinn og þá get-
ur maður farið að láta meira að sér
kveða í klefanum og tekið meiri
ábyrgð.
Margrét Lára var frábær síðasta
sumar og það er vissulega sjónar-
sviptir að henni. Það er erfitt að finna
leikmann eins og hana og nánast ekki
hægt. Við munum því þurfa að gera
ákveðnar breytingar á leik okkar til
þess aðlagast brotthvarfi hennar. Að
sama skapi höfum við fengið öfluga
leikmenn til okkar og breiddin í
hópnum er góð, þannig að við eigum
að geta ráðið við þetta.“
Lítið annað að gera
Guðný ólst upp á Hornafirði og það
tók hana ekki langan tíma að falla al-
gjörlega fyrir fótboltanum.
„Ég æfði fótbolta frá sex ára aldri
með Sindra á Hornafirði og það má
alveg segja að maður hafi fengið sitt
fótboltauppeldi þar. Við vorum með
gott lið í okkar flokki og það hjálpaði
manni mikið. Það var lítið annað að
gera en að vera í fótbolta og það var í
raun það eina sem maður gerði á
Hornafirði á þessum tíma.
Ég var ekki spennt fyrir því að
mæta á æfingar í fyrstu og mig lang-
aði alls ekki að fara. Mamma og
pabbi þurftu að múta mér með alls
kyns verðlaunum til þess að fá mig til
þess að mæta. Það tók hins vegar
ekki langan tíma fyrir mig að falla
fyrir fótboltanum og eftir fyrstu æf-
ingarnar var þetta svo gott sem kom-
ið.“
Löng keyrsla á æfingar
Árið 2013 byrjaði miðvörðurinn að
æfa með FH í Hafnarfirði en hún var
þó keyrð um langan veg á æfingar
fyrstu árin, þar sem fjölskyldan flutt-
ist búferlum frá Hornafirði til Víkur í
Mýrdal.
„Í maí 2013 fluttum við fjölskyldan
á Vík í Mýrdal og þá byrjaði ég að
æfa með 3. flokki FH. Ástæðan fyrir
því að ég byrjaði að æfa með FH var
einfaldlega sú að pabbi er mikill FH-
ingur. Mamma og pabbi voru svo
dugleg að keyra mig bæði á æfingar
og í leiki á bæði vorin og haustin, en á
sumrin bjó ég hjá ömmu minni sem
býr í Hafnarfirði.
Þar sem við bjuggum á Vík komst
ég ekki á allar æfingar og á veturna
nýttum við í raun öll tækifæri sem
gáfust til þess að fara í bæinn og ná
bæði æfingum og leikjum. Ég var í
skóla á Vík og þess vegna gat ég lítið
sem ekkert æft í bænum á virkum
dögum en ég fór á frjálsíþrótta- og
fótboltaæfingar hjá Kötlu eins og ég
gat á þessum tíma.“
Guðný lék fyrsta landsleik sinn í
janúar 2018 þegar hún kom inn á sem
varamaður í seinni hálfleik gegn Nor-
egi á æfingamóti á La Manga á
Spáni. Leiknum lauk með 2:1-sigri
Noregs en varnarmaðurinn ætlar sér
í atvinnumennsku á næstu árum.
Háleit markmið
„Ég var búin að vera aðeins viðloð-
andi landsliðið þegar ég var í FH og
markmiðið var svo auðvitað að tæki-
færunum myndi fjölga eftir kom-
una í Val. Ég ætla mér að stimpla
mig inn í landsliðið í framtíðinni
og það mætti því segja að þetta sé
allt á áætlun eins og staðan er í
dag.
Atvinnumennskan hefur lengi ver-
ið draumur hjá mér og það er nokkuð
sem ég vil gera síðar á ferlinum. Ég
er með háleit markmið þegar kemur
að fótboltaferlinum og ég stefni á að
reyna fyrir mér erlendis eftir eitt til
tvö ár ef allt gengur að óskum,“
sagði Guðný Árnadóttir enn fremur
í samtali við Morgunblaðið.
Mútað til að byrja að æfa
fótbolta á Hornafirði
Guðný Árnadóttir finnur ekki fyrir
pressu fyrir tímabilið hjá Val Var
keyrð á æfingar hjá FH frá Vík í Mýrdal
Morgunblaðið/Eggert
Valskona Guðný Árnadóttir festi sig vel í sessi í vörn Vals í fyrra. Hlíðar-
endaliðið byrjar titilvörnina gegn KR á heimavelli föstudaginn 12. júní.
Körfuknattleiksmaðurinn Martin
Hermannsson er orðaður við gríska
stórliðið Panathinaikos á vefmiðl-
inum Sportando. Hefur góð frammi-
staða Martins með Alba Berlín
undanfarin tvö ár vakið athygli, en
hann hefur verið einn besti leik-
maður þýska liðsins síðan hann kom
frá Chalons-Reims í Frakklandi. Pan-
athinaikos hefur sex sinnum unnið
Evrópudeildina, sterkustu keppni
álfunnar, og 37 sinnum orðið grískur
meistari. Var liðið úrskurðaður
grískur meistari í gær, er tímabilinu
var aflýst vegna kórónuveirunnar.
Martin orðaður
við risafélag
Ljósmynd/Euroleague
Stórlið Martin Hermannsson er
orðaður við stórliðið Panathinaikos.
Miklar líkur eru á að bandaríska
NBA-deildin í körfubolta fari af
stað á nýjan leik um miðjan júlí.
Verður þá einungis úrslitakeppnin
leikin og staðan eins og hún var
þegar tímabilinu var frestað vegna
kórónuveirunnar látin standa sem
lokastaða. ESPN greinir frá því að
leikið verður á tveimur stöðum;
annars vegar Disneylandi í Orlando
og hins vegar í Las Vegas. Verði
leikið í júlí fá liðin nægan tíma til að
undirbúa sig, þar sem æfingasvæði
félaga hafa verið opnuð aftur síð-
ustu daga.
Úrslitakeppni
NBA í júlímánuði
AFP
NBA Los Angeles Lakers er í topp-
sæti Vesturdeildarinnar í NBA.