Skessuhorn


Skessuhorn - 23.08.2020, Blaðsíða 18

Skessuhorn - 23.08.2020, Blaðsíða 18
MIÐVIKUDAGUR 23. SePTeMBeR 202018 Allt frá því kórónaveiran breiddist út um heimsbyggðina í byrjun árs fór áhrifa hennar að gæta hjá fólki í fjölmörgum atvinnugreinum, úti um allan heim. Þeirra á meðal er sviðslistafólk, til dæmis tónlistar- fólk sem aflýsa þurfti öllu sem það var vant að gera til að hafa í sig og á. Í þeim hópi er Reynir Hauksson gítarleikari frá Hvanneyri. Hann hefur um árabil búið og starfað í Granada á Spáni þar sem hann hef- ur unnið fyrir sér sem Flamenco gítarleikari. Þekktur fyrir orku- mikinn og tilfinningaríkan flutn- ing í bland við skemmtilegar sög- ur og spjall á milli laga um líf hans í Andalúsíu. Undir lok síðasta árs gaf hann út sóló plötu með tónlist sinni; el Reino de Granada. Til að fylgja plötunni úr hlaði var á fyrri hluta þessa árs fyrirhugað heilmik- ið tónleikaferðalag með hljómsveit og dönsurum til að kynna plötuna, en því var frestað vegna Covid. Árið hefur því heldur betur ver- ið óvenjulegt fyrir tónlistarmann- inn. eftir margra vikna einangrun á Spáni fyrri hluta árs, komst hann til Íslands í lok maí. Þegar önnur bylgja faraldursins hófst síðsum- ars sá hann sína sæng út reidda og fór að leita sér að vinnu við eitt- hvað allt annað. Tilviljun réði því að hann ákvað að fara hressilega út fyrir þægindarammann. Þrátt fyrir að hafa aldrei stigið fæti inn í slátur- hús sótti hann um starf í haustslátr- un dilka hjá Kjötafurðastöð Kaup- félags Skagfirðinga á Sauðárkróki, þar sem hann mun verða út þessa sláturtíð. Skessuhorn sló á þráð- inn til tónlistarmannsins á Krókn- um. Fróðlegt að heyra hljóðið í atvinnu gítarleikara sem nú vinnur á kjötsög á Króknum. Júlí mánuður hinna stóru blekkinga „Þetta er búið að vera skrítið ár og allar áætlanir mínar ruku út í veð- ur og vind þegar kórónaveiran fór að breiðast út. Ég er því líkt og fjöldi tónlistarfólks búinn að vera atvinnulaus megnið af árinu. Við höfðum ráðgert heilmikið tónleika- ferðalag með söngvurum, döns- urum og hljóðfæraleikurum til að kynna nýju plötuna mína, en þær fyrirætlanir runnu allar út í sand- inn. Frá því í lok mars og út apríl var útgöngubann á Spáni. Úti á götum sá maður bara hermenn sem gættu þess að allir færu að settum reglum. Ég nýtti þann tíma til æf- inga og náði að fínslípa ýmislegt sem ég hafði ekki náð fyrr. Svo komst ég loks til Íslands í lok maí. Fyrst í stað var lítið að gera fyr- ir mig hér heima en júlímánuð- ur var eiginlega tími hinna stóru blekkinga. Var kominn með tutt- ugu bókanir á ýmsa tónleika, en svo var öllu skellt í lás aftur um versl- unarmannahelgina. Ég sá því mína sæng út reidda og fór að skoða með önnur verkefni, ég yrði að reyna að vinna fyrir mér. Fyrir tilviljun las ég svo frétt í einhverjum fjölmiðli, líklega í Bændablaðinu, um að það vantaði fólk í sláturhúsin. Nýsjá- lendingar sem höfðu mannað stöð- ur farandverkafólks við haustslátrun komu ekki, vildu ekki stóla á ferða- lög því þeirra biði inngöngubann í landið sitt færu þeir í burtu. Það sárvantaði því fólk í sláturhúsin. Hér í þetta stærsta sláturhús lands- ins, á Sauðárkróki, vantaði marga og ég sótti um. Óli á Hvítárvöllum er umboðsmaður KS í Borgarfirði. Hann kom mér í samband við for- svarsmenn sláturhússins fyrir norð- an og þeir voru tilbúnir að taka óvanann mann,“ segir Reynir. Heimtökustjórinn Aðspurður segir Reynir að það sé gaman að starfa í sláturtíð á Sauð- árkróki. „Ég var í fyrstu mátaður inn í nokkur störf hér í sláturhús- inu áður en það rétta fannst. Próf- aði m.a. úrbeiningu, var um tíma að hengja framlappirnar á bandið fyrst eftir að skrokkarnir koma úr bana- klefanum og svo var ég um tíma í fláningunni. Ég var síðan fenginn í að sjá um heimtökukjöt fyrir bænd- ur sem leggja hér inn lömb. Líklega var það niðurstaðan í ljósi þess að ég er Íslendingur og get því haft sam- skipti við bændurna. Við sem störf- um í heimtökunni mætum fyrstir á morgnana, eða klukkan fimm. Okk- ar hlutverk er að taka skrokkana úr kælingunni; saga og pakka kjötinu eftir óskum bændanna. Bændurnir svo ýmist sækja kjötið til okkar eða við komum því á bíla sem flytja það heim til þeirra.“ Aðspurður segist hann ekki óttast um fingurna, at- vinnutækin sín, í ljósi þess að hann er að vinna við kjötsögun. „Míró vinur minn er mest í að saga. Þrátt fyrir langan starfsaldur hefur hann haldið öllum sínum fingrum,“ segir Reynir og eyðir þar með kjötsagar- umræðunni um gítarleikarann. Míró er manískur vinnuþjarkur „Hér líkar mér mjög vel að vera og það er alltaf mikið í gangi. Samt er ég ekki búinn að kynnast nærri öllu fólkinu sem hér starfar, enda eru vegna smitvarna settar hömlur á að við séum að umgangast alla. Hér í heimtökunni starfa ég með aldeil- is frábærum samstarfsfélaga. Hann heitir Míró og kom fyrst hingað á Krókinn frá Serbíu fyrir nítján árum. Míró er karl á sjötugsaldri og hreint út sagt manískur til vinnu. Hann mætir hingað í kjötsalinn tveimur tímum áður en hann á að mæta, raðar verkfærum upp fyrir sig og gerir allt klárt fyrir vinnu- daginn. Svo er hann bókstaflega á hlaupum allan daginn. Hann er svo duglegur að yfirmennirnir hér leyfa honum að hafa frjálsar hendur með vinnufyrirkomulagið og alla skipu- lagningu. Hann vinnur svo hratt að það er alveg ævintýralegt að fylgjast með honum. Hann er bókstaflega gull til vinnu og yfirmennirnir sýna mikla kænsku að leyfa honum að sjá um skipulagninguna. Míró hef- ur eiginlega gengið mér í föðurstað hér norðan heiða,“ segir Reynir og er hæstánægður með selskapinn. Túlkar spænskuna Reynir segir að langflestir starfs- menn í sláturhúsinu nú í haust komi frá Póllandi. „Ætli það sé ekki um 80% af starfsfólkinu Pólverjar, nokkrir Rúmenar og einnig Írar, auk okkar Íslendinganna sem eru aðeins fleiri en hér hafa verið und- anfarin haust. Þótt Míró sé Serbi, er hann búinn að vera hér svo lengi að hann er búinn að læra pólsku og túlkar því fyrir mig þegar Pól- verjarnir skilja mig ekki. Hann tal- ar svona blöndu af pólsku og rúss- nesku. Svo komu hingað spænskir eftirlitsdýralæknar í haust og þá var ég fenginn sem túlkur þegar þeir voru að fara yfir allar nýju reglurn- ar vegna Covid.“ Slegið á létta strengi á kvöldin Aðspurður segist Reynir taka upp gítarinn þegar vinnudeginum lýkur. „Ég hef verið að spila fyrir fólkið í verbúðinni þar sem ég bý. Það eru nokkrir aðrir Íslendingar og auðvi- tað tekur maður upp gítarinn. Ég hef verið að kenna þeim að slá Fla- mengótaktinn og er þannig kominn með meðleikara. Þetta er því bara mjög skemmtilegt hjá mér en vissu- lega allt, allt öðruvísi en allt sem ég hef prófað í lífinu fram að þessu.“ Hann kveðst reikna með að slátur- tíðin verði út október eða jafnvel fram í byrjun nóvember. „Það er svo mikið af óvönu fólki í þessari slátur- tíð núna, þannig að menn þora ekki að reikna með að slátrun ljúki á sama tíma og önnur haust.“ Reynir segir launin í sláturtíðinni vera þokkaleg. „Allavega kvarta ég ekki.“ Lifi sláturhúsin! „Ég er alveg að fíla þetta starf, fólk- ið hér og bæinn. en vissulega sakna ég pínulítið flamengólífsins úti á Spáni. en það er eitthvað spírítískt við að vinna í sláturhúsi. Dauðinn er náttúrlega allt umlykjandi; lömb- in þagna, skrokkarnir flæða um færi- bönd, hver hönd á línunni vinnur ákveðin handtök, smám saman að- skilur skrokkurinn sig og deilist í innmat, blóð, gærur og kjötskrokka. Úr verður næring fyrir okkur fólkið. Þessi vinna er árstíðavinna sem alltaf hefur verið unnin á haustin. Það er spírítískt að finna hvernig líf lambs- ins slokknar og upplifa að afurðir þess verða til að viðhalda lífi í okkur mannfólkinu. Þess vegna, þrátt fyr- ir ljótleikann, er þetta fallegt þegar upp er staðið. Ég segi því „Lifi slát- urhúsin“,“ segir tónlistarmaðurinn og heimtökumeistarinn Reynir að endingu .mm/ Ljósm. úr einkasafni. Reynir í sínu náttúrlega umhverfi; að spila Flamengo tónlist. Dansarinn heitir Alejandra P. De Àvila. Tónlistarmaður án verkefna í kóvid ákvað að fara hressilega út fyrir þægindarammann „Það er skemmtilegt að starfa í sláturhúsi“ Mættur í morgunsárið til vinnu, hér framan við Kjötafurðastöð KS á Sauðárkróki. Reynir ásamt Miró sem gekk honum í föðurstað norðan heiða. Þeir félagar, Reynir og Míró, í salnum þar sem þeir saga og pakka heimtökukjöti fyrir bændur.

x

Skessuhorn

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skessuhorn
https://timarit.is/publication/1096

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.