Morgunblaðið - 13.07.2020, Blaðsíða 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 13. JÚLÍ 2020
Nýja í Suðurgarði
– ógleymanleg kona
Nýja í Suðurgarði var mjög sér-
stök kona. Mjög smávaxin, með
staurfót frá veikindum í æsku, og
alveg óhemju dugleg til allra verka.
Ekki mjög orðheppin og átti til að
tala áður en hún hugsaði.
Einhverju sinni hafði hún verið í
heimsókn hjá kunningjafólki sínu í
bænum og höfðu þau hjón verið að
breyta ýmsu á heimili sínu. Mikið
gekk á hjá Nýju þegar hún kom
heim og fór að
lýsa þeim breyt-
ingum. Meðal
annars sagði hún
svo frá:
„Það er veggur
þar sem var ekki.
Það er búið að
færa hann.“
Í annað sinn
kom hún heim að
Þorlaugargerði og var mikið niðri
fyrir. Hafði þá verið hjá Einari
Guttormssyni lækni sem hafði gefið
henni hormónasprautu. Og þegar
Nýja sagði frá þeirri læknis-
heimsókn hljóðaði hún þannig:
„Ekki veit ég hverjum fjáranum
hann Einar læknir var að sprauta í
mig. Ég held að það hafi verið mor-
móni.“
Barnmargt var jafnan í Suður-
garði á dögum afa míns og ömmu.
Einhverju sinni höfðu krakkarnir
verið að atast í heimilishundinum
sem kúrt hafði í makindum hjá afa
mínum í eldhúsinu og varð til þess
að hundurinn rauk upp geltandi. Og
þá varð Nýju að orði:
„Hvern fjandann voruð þið að
djöflast í hundinum eins og hann
var góður hjá honum afa sínum.“
Þótt Nýja í Suðurgarði væri ekki
há í loftinu, var hún einstaklega frá
á fæti og það þótt hún væri með
staurfót.
Oftast fóru Ofanbyggjarar ferða
sinna í bæinn fótgangandi þar sem
ekki var margt um bíla í þá daga.
Okkur ungum mönnum fyrir ofan
hraun hraus ekkert hugur við því að
rölta í bæinn og heim aftur, nema
helst eftir að skyggja tók, og vildum
þá helst ekki vera einir á ferð. Á
miðri leið voru nefnilega bækistöðv-
ar Olnbogadraugsins sem gert hafði
Ofanbyggjurum marga skráveifuna
gegnum tíðina. Kennarinn minn í
Barnaskólanum, Vigfús Ólafsson frá
Gíslholti, hafði líka gert sitt með
sögum sínum af honum og fleiri
draugum til að auka heldur á myrk-
fælnina. Því var reynt eins og kost-
ur var að fá samfylgd á leiðinni. En
versti kosturinn var að fá Nýju í
Suðurgarði til þeirrar samfylgdar.
Hún var svo hraðgeng að við lá að
maður þyrfti að hlaupa við fót til að
hafa við henni. Og auðvitað datt
henni ekki í hug að stoppa til að
bíða eftir þeim sem dróst aftur úr.
Því var það oftar en ekki að maður
kom móður og másandi úr slíkum
gönguferðum. Gönguferð frá Suður-
garði niður í miðbæ tekur um hálf-
tíma á eðlilegum gönguhraða. En
ég er þess næsta fullviss að sú leið
hefur aldrei tekið Nýju meira en
fimmtán til tuttugu mínútur. Þessi
gönguhraði er þeim mun athygl-
isverðari þegar tekið er tillit til þess
að Nýja var með staurfót og þar að
auki ekki nema 160 cm að hæð. Það
var með ólíkindum hve þessi smá-
vaxna, bæklaða kona gat farið hratt
yfir. Hún hefði sómt sér vel í kapp-
göngu á Ólympíuleikum þótt stíllinn
hafi verið nokkuð annar en þar má
sjá.
Þannig háttar til í Suðurgarði að
eldhúsglugginn snýr móti norðri og
sér vel úr honum til mannaferða á
Höfðaveginum sem tengir byggðina
fyrir ofan hraun við bæinn. Þá voru
einnig aðaldyrnar í Suðurgarði
lengst af móti norðri.
Nýja var ákaflega forvitin og sæi
hún til mannaferða uppi á leitinu
neðan við Ofanleiti, fýsti hana að
vita hverjir þar væru á ferð. Ekki
sást alltaf nógu vel gegnum rúðu-
glerið þannig að hún varð að gera
sér upp ferð út á hlað til að kanna
þetta nánar og notaði þá jafnan
ferðina til að skvetta úr vaskafatinu
í leiðinni. Á þessum árum var nefni-
lega ekki sá munaður á bæjum að
hafa vask í eldhúsinu, heldur var
þvegið upp í stóru vaskafati og
vatninu síðan skvett út á hlaðið. Og
Nýja var búin að koma sér upp
ákveðnu verkferli við að fara með
fatið og skvetta úr því. Hún tók fat-
ið báðum höndum, stikaði með það
úr eldhúsinu, fram í forstofuna,
opnaði útihurðina með hægri oln-
boganum, á fullri ferð, steig yfir
þröskuldinn og skvetti úr fatinu út
á hlað í sama skrefi og hún tók yfir
þröskuldinn. Þetta var svipuð tækni
og handboltamenn nota þegar þeir
skjóta í skrefinu sem kallað er. Og
Nýja var orðin svo þrautþjálfuð í
þessari tækni að hún þurfti aldrei
að stoppa í þessu ferli, fyrr en kom-
ið var út á hlað og búið að tæma
vaskafatið. Þá gafst líka tóm til að
horfa norður á veg og kanna hverjir
væru þar á ferð.
En eitt sinn fór heldur illa og ég
varð fórnarlambið í það skiptið. Ég
var sem oftar á leið að Suðurgarði,
stytti mér leið yfir túnið og framhjá
ljósastaurnum eins og venjulega og
var kominn heim á hlaðið þegar
ósköpin dundu yfir. Líklega hafa á
sama tíma verið mannaferðir á veg-
inum fyrir neðan Ofanleiti því að í
þann mund sem ég var að stíga upp
á stéttina, þeyttust útidyrnar upp,
Nýja birtist með fatið í fanginu og
skvetti innihaldi þess beint yfir mig.
Mér brá að sjálfsögðu illa við
þetta og stóð þarna eins og illa
gerður hlutur, rennvotur og hálf-
kjökrandi. En Nýju datt ekki í hug
að biðjast afsökunar enda taldi hún
sig ekki hafa gert neitt rangt.
„Hvern fjandann þurftir þú að
vera að þvælast þarna,“ sagði hún.
Fór síðan aftur inn og skellti á eftir
sér.
Sögur af Bjarnhéðni Elíassyni
Einn af litríkari persónuleikum
bæjarfélagsins í Vestmannaeyjum
var Bjarnhéðinn heitinn Elíasson.
Bjarnhéðinn var bóndasonur af
Rangárvöllum, fæddur árið 1921 að
bænum Oddhóli á Rangárvöllum og
voru foreldrar hans Elías Steinsson
og Sveinbjörg Bjarnadóttir sem
bjuggu þar og var Sighvatur
Bjarnason í Ási móðurbróðir hans.
Hingað til Eyja kom Bjarnhéðinn
ungur maður og byrjaði sjóróðra,
bæði á bátum og togurum auk þess
sem hann festi hér ráð sitt, gekk
inn í eina af helstu familíum bæjar-
ins og kvæntist Ingibjörgu frænku
minni Johnsen.
Sjálfur lýsti hann brúðkaupi
þeirra og aðdraganda þess á eftir-
farandi hátt:
„Hún Ingibjörg tilkynnti mér það
á sunnudegi að nú værum við að
fara að gifta okkur. Mér var sagt að
fara í sparigallann, síðan drifinn út
og hent upp á vörubílspall í rign-
ingarhraglanda og keyrt upp að
Ofanleiti þar sem séra Kolbeins gaf
okkur saman. Og síðan hef ég verið
hér.“
Mikill keppnismaður
Ég kynntist Bjarnhéðni ungur að
aldri og kunni vel við hann þótt
talsverður aldursmunur væri á okk-
ur eða rúmir tveir áratugir. Tildrög
þessa kunningsskapar voru þau að
ég kom stöku sinnum heim að Ás-
nesi, Skólavegi 7, til að leika mér
við stjúpson Bjarnhéðins og frænda
minn, Árna Johnsen. Svo æxlaðist
það einhvern veginn þannig að ég
hætti að leika mér við Árna en fór
að leika mér við Bjarnhéðin í stað-
inn.
Þessi kunningsskapur okkar hélst
í yfir 30 ár, allt til dauðadags Bjarn-
héðins, og bar sjaldan skugga á þó
svo að orðbragðið hafi stundum gef-
ið mönnum tilefni til að ætla að ekki
væri allt með felldu um samskipti
okkar tveggja.
Flaggað 1. maí
Þau Bjarnhéðinn og Ingibjörg,
frænka mín, drógu yfirleitt fána að
húni lögskipaða fánadaga og sömu-
leiðis í hálfa stöng ef dauðsföll voru
í bænum eða jarðarfarir. Flestir
vita að þau hjón voru einhverjir
dyggustu stuðningsmenn Sjálf-
stæðisflokksins hér í bæ og þótt víð-
ar væri leitað.
Af þeim sökum má líka nokkuð
augljóst vera að einn hinna lögskip-
uðu fánadaga fékk alveg að eiga frí
á flaggstönginni að Skólavegi 7. Það
var 1. maí.
„Mér dettur ekki í hug að fara að
flagga á einhverjum helvítis komm-
únistadegi,“ sagði Bjarnhéðinn þeg-
ar ég færði það eitt sinn í tal við
hann af hverju fáninn væri ekki við
hún, jafnvel þingmaðurinn í Geysi
flaggaði.
„Djöfulsins kommúnistadagur og
ekkert annað,“ var sama svarið,
margtuggið upp með enn fleiri
óprenthæfum orðum.
Ekkert stoðaði þótt ég reyndi að
rekja sögu þessa dags fyrir honum
og meðal annars að benda á að
fyrstir til að halda þennan dag há-
tíðlegan hefðu verið Bandaríkja-
menn.
„Það er helvítis haugalygi í þér,
þetta kemur beint frá Rússunum,“
sagði Bjarnhéðinn og sat sem fast-
ast við sinn keip.
Því fór svo að fáni var ekki dreg-
inn að húni á þessum degi eins og
þó tíðkaðist á því heimili um aðra
merkisdaga í almanakinu.
Nú gerðist það eitt sinn þann 1.
maí, að ég var á rölti í bænum, var
reyndar að koma úr verkalýðskaffi í
Alþýðuhúsinu, því húsi sem Bjarn-
héðinn Elíasson steig ekki fæti sín-
um inn í til annars en að spila brids.
Þegar ég kem að Skólavegi 7 veiti
ég því strax eftirtekt að ekki er
flaggað þar og kom það ekki sér-
lega á óvart en dettur í hug að líta
þar við, ekki þó til að ræða fánamál.
Nú vill svo til þegar ég geng í
bæinn að engan mann er þar að
finna á hæðinni. Grunaði mig að
húsbóndinn hefði fengið sér hádeg-
islúr en dettur í hug hvort ekki
muni rétt að bæta úr þeirri
gleymsku og vanrækslu heimilis-
fólks að flagga ekki á lögskipuðum
fánadegi. Svo ég fer í forstofuna og
finn þar fánann góða, fer með hann
rakleiðis út að stöng og flagga og
fer síðan aftur inn.
Það var sem mig grunaði að
Bjarnhéðinn hafði fengið sér mið-
degislúr en var nú afhvíldur og vildi
tefla. Var taflið tekið fram og teflt
um hríð. Þá birtist í eldhúsdyrum
Árni Óli í Suðurgarði og kastar
kveðju á okkur. Hann hefur á orði
að ekki sé það oft sem flaggað sé á
þessum degi að Skólavegi 7.
„Það hefur ekki verið flaggað hér
á þessum degi og verður ekki flagg-
að hér á þessum degi,“ segir Bjarn-
héðinn með alvöruþunga.
„Nú, annað sýnist mér,“ segir
Árni Óli. „Ég fæ ekki betur séð en
hér sé flagg við hún.“
„Helvítis kjaftæði er þetta,“ segir
Bjarnhéðinn. „Ég veit ekki hverjum
ætti að detta það í hug á þessu
heimili.“
Svona til vonar og vara gengur
hann fram að glugga og sér þá sem
er að fáni blaktir við hún í norðan
andvara.
„Hver bara djöfullinn er þetta,“
segir hann. „Er hún Ingibjörg orðin
snarhringlandi vitlaus!“
„Heyrðu!“ segir hann svo allt í
einu og augnaráðið og málrómurinn
benda til þess að hann hafi allt í
einu uppgötvað einn mikinn stóra-
sannleik. „Já, já, ég held að ég viti
hver hér hefur verið að verki. Ég
held ég viti hver sökudólgurinn er.“
Og í þeim töluðum orðum snarast
hann út á skyrtunni, út að flagg-
stöng og dregur fánann niður. Á
Skólavegi 7 er nefnilega ekki flagg-
að þann 1. maí.
Endurminning-
ar ofanbyggjara
Bókarkafli | Í bókinni Vestmannaeyja fjallar
Sigurgeir Jónsson um æskuslóðir sínar í byggðinni
fyrir ofan hraun, búskaparhætti og fólkið sem þar
bjó og rifjar upp kynni af sérstæðum persónum.
Bridsmakkerar Bjarnhéðinn Elíasson og Sigurgeir Jónsson.
Ógleymanleg Árný Sigurðardóttir,
Nýja í Suðurgarði.