Morgunblaðið - Sunnudagur - 05.07.2020, Blaðsíða 4
HEIMURINN
4 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 5.7. 2020
Hópíþróttaunnendur hafa löngum veltþví fyrir sér hversu mikið það hefurað segja að spila á heimavelli. Töl-
fræði yfir sigra og töp liða á heima- eða útivelli
segir sitt.
Tímabilið 2018-19 unnu heimaliðin í ensku
úrvalsdeildinni 47% leikja sinna en töpuðu 34%
þeirra. 19% leikja lauk því með jafntefli. Þetta
forskot heimaliðanna hefur þó minnkað jafnt og
þétt í gegnum árin; fyrir rúmum 100 árum
unnu heimaliðin 65% leikja sinna.
Í Bandaríkjunum er heimavöllurinn einnig
mikilvægur. Heimaliðið í NBA-deildinni vann
71% leikjanna í deildinni en þar kemur jafntefli
auðvitað ekki til greina og vann útiliðið því 29%
leikjana.
En þessar tölur gefa ekki skýra mynd af því
hvers vegna heimaliðinu gengur betur. Gæti
það verið vegna þess að leikmenn leggja meira
á sig fyrir framan áhorfendur sína? Fá þeir
aukinn kraft frá þeim? Eru dómarar undir
áhrifum áhorfenda? Eða líður leikmönnum ein-
faldlega betur á sínum heimavelli, óháð áhorf-
endum?
Taka minni áhættu
Þegar kórónuveirufaraldurinn skall á heims-
byggðinni fóru flestar íþróttadeildir í dvala. Á
síðustu vikum hefur leikur verið hafinn á ný en
nú án áhorfenda. Hefur það gefið greinendum
færi á að skoða hvað gerist þegar áhorfendur
eru teknir úr heimavallarjöfnunni.
Þýska úrvalsdeildin í knattspyrnu var ein sú
fyrsta til að fara aftur af stað, 16. maí, og er
keppni nú lokið. Í deildinni var leikið fyrir lukt-
um dyrum á heimavöllum liðanna. Sigurhlutfall
heimaliðanna fór úr 43% í 33% og markaskorun
þeirra úr 1,74 mörkum í leik í 1,34. Heimaliðin
hafa bæði tekið færri skot og verið ólíklegri en
áður til að skora úr hverju þeirra.
Þvert gegn innsæi knattspyrnuaðdáenda
leggja menn ekki minna á sig þegar leikið er
fyrir tómum velli. Að sögn greiningafyrirtæk-
isins Impect tóku leikmenn í þýsku deildinni
fleiri spretti og annars konar hlaup með mikilli
áreynslu þegar leikur hófst á ný.
Hins vegar virðast leikmenn taka minni
áhættu þegar áhorfendur vantar. Þeir gefa
fleiri sendingar en, eins og áður sagði, eru skot-
in færri. Í grein New York Times er því velt
upp að fyrir framan áhorfendur reyni leikmenn
að leika kúnstir sem veki hjá þeim ánægju.
Þegar enginn er í stúkunni er hins vegar hugs-
að um úrslit leiksins og því minna um áhættu-
samar, en jafnframt skemmtilegar, sendingar,
skot og upplaup.
Gera áhorfendum til geðs
Því hefur löngum verið haldið fram að dómarar
eigi mestan, eða jafnvel allan, heiðurinn af yfir-
burðum heimaliðsins í hópíþróttum. Rannsókn
á leikjum fyrir luktum dyrum á Ítalíu árið 2007
rennur stoðum undir þá kenningu. Nokkur lið
léku þá fyrir tómum leikvangi vegna óláta
stuðningsmanna sinna.
Í leikjum með áhorfendum fengu heimaliðin
fleiri aukaspyrnur, fleiri víti, lengri uppbótar-
tíma ef þau voru undir og styttri ef þau voru yf-
ir. Á meðan fengu útiliðin fleiri gul og rauð
spjöld. Í leikjum án áhorfenda hvarf þessi mun-
ur að mestu.
Það sem er áhugavert við rannsóknina er að
hún sýndi ekki fram á neinn mun á fjölda skota
liðanna né nákvæmni skotanna þegar leikið var
fyrir framan og án áhorfenda sem er á skjön við
tölurnar frá þýsku deildinni.
Tölfræði úr þýsku deildinni rennir þó stoðum
undir þá kenningu að dómarar verða fyrir áhrif-
um áhorfenda. Dæmdar voru fleiri aukaspyrnur
á heimaliðin án áhorfenda og fengu þau einnig
fleiri gul spjöld en ella. Þá virðast dómarar
dæma fleiri aukaspyrnur á bæði liðin líkt og
þeir treysti sér frekar til að fylgja reglunum
staðfastlega er áhorfendur bregðast ekki við öll-
um ákvörðunum þeirra samstundis. Heimaliðin
fá þó dæmdar á sig fleiri aukaspyrnur.
Ólíklegt verður að teljast að dómarar dæmi
vanalega viljandi með heimaliðinu. Líklegra er
að þeir dæmi ómeðvitað til að geðjast áhorf-
endum.
Fjölmörg dæmi eru um rannsóknir sem
sýna fram á vilja mannfólksins til fylgja
straumnum. Fólk svarar spurningum, sem
undir venjulegum kringumstæðum eru mjög
auðveldar, vitlaust ef aðrir í kringum það
svara líka vitlaust.
Líklega eru dómarar undir þessum áhrifum.
Ekki furða enda mörg þúsund manns sem
fagna ákvörðun í aðra áttina en reiðast
ákvörðun í hina. Þýski dómarinn Deniz Aytek-
in sagði ZDF til að mynda að púlsinn hjá hon-
um færi ekki jafn hátt á leikjum undanfarið og
fyrir kórónufaraldurinn.
Úrslitakeppnin ekki söm
Áhugavert verður að sjá hvernig heimaliðum í
öðrum deildum og öðrum íþróttum mun vegna
á þessum síðustu og verstu tímum með enga
áhorfendur. Í þeirri umræðu hefur verið nefnt
að slakari lið muni fara verr út úr þessum að-
stæðum þar sem þeir reiði sig meira á áhorf-
endur og heimavöllinn en betri liðin.
Neðsta lið ensku úrvalsdeildarinnar er Nor-
wich City en liðið hefur nælt sér í 15 stig á
heimavelli (öll fyrir kórónufaraldurinn) og sex
á útivelli. Liðið þarf á kraftaverki að halda til
að bjarga sér frá falli (sjö stig eru frá öruggu
sæti) í þeim sex leikjum sem liðið á eftir. Að
missa forskot heimavallarins hjálpar ekki þar
á bæ.
Þá verður spennandi að sjá hvað gerist í at-
vinnumannadeildum þar sem spiluð er úr-
slitakeppni. Lið eins og Milwaukee Bucks og
Los Angeles Lakers hafa lagt mikið á sig til að
náefstu sætum sinnar deildar í NBA-deildinni
en fá nú ekki að njóta heimavallarréttarins.
Engir áhorfendur verða og liðin fá ekki einu
sinni að leika sínu eigin gólfi.
Tólfti maðurinn?
Tölfræði úr þýsku úrvals-
deildinni í knattspyrnu sýnir
að áhorfendur skipta höfuð-
máli í yfirburðum liða á
heimavelli í hópíþróttum. Í
NBA-deildinni missa liðin
heimavallarréttinn.
Böðvar Páll Ásgeirsson bodvarpall@mbl.is
Trent Alexander-Arnold skorar beint úr aukaspyrnu
fyrir Liverpool á dögunum. Enginn er í stúkunni.
AFP
Margir leikmenn í þýsku úrvalsdeildinni hræðast stuðningsmenn Borussia Dortmund, gula vegginn.
Óseyrarbraut 12, 220 Hafnarfirði | Klettagörðum 5, 104 Reykjavík | stolpigamar@stolpigamar.is
Gámaleiga
Er gámur lausnin fyrir þig?
Við getum líka geymt gáminn fyrir þig
568 0100
stolpigamar.is
HAFÐU
SAMBAND
Búslóðageymsla z Árstíðabundinn lager z Lager z Sumar-/vetrarvörur
Frystigeymsla z Kæligeymsla z Leiga til skemmri eða lengri tíma