Morgunblaðið - 10.11.2020, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - 10.11.2020, Blaðsíða 15
15 MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 10. NÓVEMBER 2020 Minnisvarði Þó að geirfuglinn sé horfinn úr lífríki Íslands stendur enn bronsstytta á Valahnjúki á Reykjanesi og horfir í átt til Eldeyjar. Þar er talið að síðasti geirfuglinn hafi verið drepinn árið 1844. Styttuna gerði bandaríski myndlistarmaðurinn Todd McGrain. Margir hafa talið verkið nauðalíkt styttu af geirfugli sem Ólöf Nordal gerði og stendur í flæðarmálinu við Skerjafjörð. Eggert Á milli Reykjavíkur og Kaup- mannahafnar eru rúmir tvö þús- und kílómetrar. Lítrafjöldinn af olíu sem þarf til að komast milli borganna skiptir svo talsvert fleiri þúsundum, hvort sem farið er með skipi eða flugvél. Hvað þá ef farnar eru báðar leiðir. En meira um það síðar. Í dag geta Íslendingar, líkt og íbúar annarra EES-ríkja, dregið upp símann og pantað sér áfengi heim að dyrum í gegnum netverslun. Þökk sé nútímatækni og greiðum samgöngum má búast við að sendillinn berji fljótt að dyrum, jafnvel innan sólarhrings. Og það þótt við búum á af- skekktri eldfjallaeyju. Þannig nýta þúsundir Íslendinga nú fjöl- breytta flóru netverslana á hverjum degi. Landsmenn geta til dæmis pantað vín frá Ítal- íu, viskí frá Írlandi og handverksbjór frá Tékk- landi. Eitt geta neytendur hér þó almennt ekki pantað, en það eru íslenskar vörur. Vegna lýð- heilsusjónarmiða er Íslendingum óheimilt að starfrækja netverslun með áfengi hér á landi, líkt og erlendir samkeppnisaðilar þeirra geta án takmarkana. Ef lítið handverksbrugghús í Borgarfirði vill selja Íslendingum gæðaframleiðslu sína í lok- uðum umbúðum hefur það því einungis tvo kosti. Annars vegar má keppast um verulega takmarkað hillupláss í áfengisbúð ríkisins, en þar er lítið sem ekkert svigrúm fyrir litlar vörulínur, auk þess sem komast þarf í gegnum þunglamalegt inntökuferli. Hins vegar má senda vörurnar með flugvél eða skipi í annað EES-ríki, t.d. til Kaup- mannahafnar. Þar stoppa þær stutt, enda send- ar rakleiðis til baka, aðra tvö þúsund kíló- metra, og seldar Íslendingum í gegnum danska netverslun. Hvar nákvæmlega lýðheilsan í þessu óþarfa kolefnisspori liggur er óljóst. Öllu ljósari eru aftur á móti afleiðingar óbreytts kerfis. Þær hafa kristallast í baráttu brugghússins Steðja, sem opnaði á dögunum netverslun með vörur sínar, meðal annars til að sleppa þessari glórulausu krókaleið. Þrátt fyrir að vera í samræmi við EES-reglur og almenna skynsemi er málið nú á borði lögreglu. Á þriðja tug handverksbrugghúsa starfa nú í öllum landshlutum, framleiða vandaðar íslenskar vörur og tryggja um 200 manns störf í heimabyggð. Mörg þeirra reiddu sig á heimsóknir ferðamanna, sem nú eru á bak og burt. Með heimild til sölu í íslenskri net- verslun, án ferðalagsins til Köben, og heimild handverksbrugghúsa til beinnar sölu á fram- leiðslustað, mætti því styrkja afkomu fjölda smáfyrirtækja og verja tugi starfa um allt land. Hið sama á við um veitingastaði, þar sem heimild til að selja vel valin vín, pöruð með heimsendum mat gegnum netverslun á tímum Covid, gæti gert herslumuninn. Dómsmálaráðherra birti fyrir skömmu drög að nýju frumvarpi um jafnræði í netverslun og heimild smábrugghúsa til sölu á fram- leiðslustað. Málið hefur líklega aldrei verið mikilvægara. Auk þess að minnka óþarfa nei- kvæð áhrif núverandi kerfis gæti það bjargað rekstri fjölmargra fyrirtækja, og þar með tryggt störf. Reykspúandi ójafnræðið sem nú ræður ríkjum í nafni lýðheilsu þjónar hins veg- ar engum. Eftir Höllu Sigrúnu Mathiesen » Auk þess að minnka óþarfa neikvæð áhrif núverandi kerfis gæti það bjargað rekstri fjölmargra fyrirtækja, og þar með tryggt störf. Halla Sigrún Mathiesen Höfundur er formaður Sambands ungra sjálfstæðismanna. Reykspúandi lýðheilsa Talsmaður framhalds- skólanema óskast! Ábyrgan aðila vantar sárlega til að tala fyrir hagsmunum unga fólks- ins, m.a. til að tryggja aðgang þess að kennslu í skólum, auknum félagslegum sam- skiptum og til að tryggja al- menna velferð þess. Nú hafa framhaldsskólanemar setið heima í fjarnámi síðan um miðjan mars ef frá eru taldar nokkrar vikur í september. Íþróttir og aðrar tómstundir hafa verið stöðv- aðar en hins vegar hreyfir enginn mótmælum við því að þessi sami hópur sinnir hlutastörf- um, jafnvel í auknum mæli nú á tímum Covid. Hvernig ætlum við að halda úti skólastarfi ef núverandi ástand heldur áfram næstu sex mánuði, 12 mánuði, 24 mánuði eða jafnvel lengur? Starfi leik- og grunnskóla á höfuð- borgarsvæðinu hefur verið að mestu haldið áfram og nefndi sviðsstjóri skóla- og frí- stundasviðs Reykjavíkurborgar í byrjun október að fjórir starfsmenn hefðu veikst, en að það hefði gerst utan vinnu. Kannski er ástæða þess að lokun framhaldsskóla var ekki andmælt í haust sú að unga fólkið þarf ekki gæslu foreldra yfir daginn? En nú harðnar í ári og áhrifa heimavist- unar í heimsfaraldri kann að fara að gæta. Það þarf ekki leita lengi að heimildum til að skilja afleiðingar félagslegrar einangrunar og minni hreyfingar á heilsu og velferð, en hing- að til hefur áhættuhópurinn hins vegar verið eldra fólk. Dr. Vivek H. Murthy, fyrrverandi landlæknir Bandaríkjanna, benti á að ein- manaleiki og lítil félagsleg tengsl gætu stytt lífaldur sem nemur því að reykja 15 sígar- ettur á dag og hefðu jafnvel meiri áhrif en þættir tengdir offitu. Stjórnvöld og stjórnendur skólanna myndu seint úthluta unga fólkinu sígarettupakka en hvað eru þau raunverulega að gera með því að hafa fram- haldsskóla lokaða? Við þurfum líka að velta því upp hvernig gengur að halda unga fólkinu við efnið nú þegar fjarkennsla hefur tekið yfir. Er slegið af kröfum til að halda nemendum í námi, fá þeir þá kennslu og að- hald sem ella væri ef það væri skólasókn? Hvernig munu þeir koma undirbúnir fyrir frekara nám eða störf á almennum vinnumarkaði? Grunnskólarnir munu halda áfram að útskrifa nemendur úr 10. bekk, en hvað gerist ef núverandi að- stæður gera það að verkum að nemendur ílengjast í námi? Geta framhaldsskólarnir þá tekið við svipuðum fjölda nýnema og síðustu ár? Það er löngu ljóst að baráttan við Covid heldur áfram og enginn veit hvenær henni lýkur. Við eigum hins vegar mikið undir að unga fólkið okkar verði virkt á atvinnumark- aðinum í framtíðinni. Stjórnvöld þurfa að tryggja að unga fólkið geti sótt skóla og ver- ið félagslega virkt með skynsamlegum tak- mörkunum. Við erum farin að skilja að við erum öll almannavarnir. En almannavarnir ná yfir meira en einungis Covid. Eftir Völu Pálsdóttur »Hvernig ætlum við að halda úti skólastarfi ef núverandi ástand heldur áfram? Vala Pálsdóttir Höfundur er formaður Landssambands sjálfstæðiskvenna. Sígarettur eða skólasókn?

x

Morgunblaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.