Morgunblaðið - 11.12.2020, Side 4
4 FRÉTTIRInnlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 11. DESEMBER 2020
Sigurður Bogi Sævarsson
sbs@mbl.is
Gamla íbúðarhúsið á Höfða á Höfða-
strönd í austanverðum Skagafirði,
fræg sviðsmynd úr bíómyndum Frið-
riks Þórs Friðrikssonar, fæst nú gef-
ins gegn því að vera tekið niður og
reist á nýjum stað, sem gerast þarf
fyrir 1. júní næst-
komandi. Umrætt
hús var byggt árið
1892 og aldurs og
laga vegna má því
ekki rífa það né
breyta nema
Minjastofnun sam-
þykki.
Núverandi eig-
endur hússins sjá
sér ekki fært að
sinna viðhaldi á húsinu eða endurgera
og því er það nú falboðið. „Mér finnst
sennilegt að nýr eigandi að húsinu
finnist fljótlega. Engar kröfur eru
gerðar um hvert húsið fer en endur-
gerð eru skilyrði sett,“ segir Guð-
mundur Stefán Sigurðsson, minja-
vörður Norðurlands vestra.
Kostnaður hlaupi
á tugum milljóna króna
Húsið á Höfða er tveggja hæða og
tæpir 53 fermetrar að flatarmáli. Það
er úr timbri og klætt með bárujárni
og pappa. Ekki hefur verið búið í hús-
inu lengi og það aðeins notað sem
geymsla síðustu áratugi. Húsið er því
í slæmu ástandi og þarfnast umfangs-
mikilla viðgerða og endurbóta. Það er
þó engu að síður gerlegt og til slíks
bjóðast til dæmis styrkir úr húsafrið-
unarsjóði.
Ljóst er að kostnaður við endur-
bætur á húsinu mun hlaupa á tugum
milljóna kr. „Á heildina litið er ástand
hússins slæmt og kallar á mjög um-
fangsmiklar viðgerðir svo nærri
stappar endurbyggingu,“ segir í
greinargerð um húsið sem Hjörleifur
Stefánsson arkitekt gerði árið 2016.
Óðal minninganna
Síðasta vetur fauk hluti þaksins af
húsinu á Höfða og var þá farið í
bráðabirgðaviðgerð. Róttækari að-
gerða er hins vegar þörf. „Við flutn-
ing á húsinu koma sjálfsagt ýmsar
leiðir til greina. Í svona verkefnum
hefur þó stundum verið slegið grind
eða ramma utan um byggingar og
þær stífaðar af, áður en þær eru hífð-
ar af grunni,“ segir Guðmundur
minjavörður.
Einhverjar frægustu sviðsmyndir í
íslensku bíói eru af Höfðaströnd. Í
kvikmyndum Friðriks Þórs Friðriks-
sonar bregður gamla bænum á Höfða
fyrir og stundum Málmey og Þórðar-
höfða, sem talinn er til eyjanna á
Skagafirði. Faðir Friðriks Þórs, Frið-
rik V. Guðmundsson, var á sínum
tíma bóndi á Höfða og ættbogi leik-
stjórans er frá þessum stað.
„Ég þarf að kanna þetta mál, þetta
eru tíðindi,“ sagði Friðrik Þór í sam-
tali við Morgunblaðið í gær um að
Höfðahúsið fengist nú gefins gegn
skilyrðum. „Höfði er óðal minning-
anna og umhverfið yfirgefur mig
aldrei … Ég var mörg sumur í sveit á
Höfða og í kvikmyndum, sem eru að
hluta til sjálfsævisögulegar, notar
maður alltaf sitt eigið umhverfi að
einhverju leyti,“ segir Friðrik enn-
fremur. Þannig er upphafsatriðið í
Börnum náttúrunnar frá 1991, tekið á
Höfða, myndin Bíódagar frá 1994 var
að stórum hluta filmuð á Höfða og
einnig nokkrar stiklur í myndinni
Mamma Gógó frá 2010.
Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Hús Gamla íbúðarhúsið á Höfða er áberandi og blasir við þegar ekið er út austanverðan Skagafjörð til Siglufjarðar.
Höfðinn fæst gefins
en verður að flytja
Bygging frá árinu 1892 Sviðsmynd úr bíói Friðriks
Málmey Blasir við frá Höfða og sést oft í kvikmyndum Friðriks Þórs.
Baldur Arnarson
baldura@mbl.is
Ragnar Árnason, prófessor emeritus
í hagfræði við Háskóla Íslands, segir
aukinn fjárlagahalla auka líkurnar á
því að efnahagsáhrifin af kórónu-
veirufaraldrinum dragist á langinn.
Tilefnið er að nú er gert ráð fyrir
55 milljörðum króna meiri halla í fjár-
lögum en áætlað var í haust. Sam-
kvæmt frumvarpinu verður heildar-
afkoman þannig neikvæð um tæpa
320 milljarða á næsta ári en það eru
um 870 þúsund á hvern landsmann.
„Næsta ár er kosningaár. Fjárlög-
in sem eru í uppsiglingu draga dám af
því. Og vegna þess að næsta ár er
kosningaár er viðbúið að raunveruleg
útgjöld verði í hærri kantinum, og
jafnvel yfir fjárheimildum ársins, sér-
staklega vegna þess að kosningarnar
eru fyrir áramót, og þeir sem koma til
með að ráða útgjöldunum fram eftir
ári þurfa ekki endilega að taka afleið-
ingunum af því sem kemur í ljós þeg-
ar árið er liðið.“
Skuldasöfnunin dýrkeypt
Ragnar segir aðspurður að skulda-
söfnunin þrýsti á að hafa skatta háa,
ef ekki verður ráðist í niðurskurð á
opinbera kerfinu.
„Það blasir við að vegna þessarar
skuldasöfnunar, sem þarf bæði að
borga vexti af og greiða niður, verður
að gera annaðhvort; skera niður út-
gjöld eða fara í skattahækkanir.“
Spurður hvort efnahagshorfurnar
fyrir árin 2022-25 hafi batnað, í ljósi
þess að bóluefni er komið í umferð,
segir Ragnar horfurnar ekki hafa
breyst mikið síðan fjármálaáætlun
var kynnt í byrjun október. Almennt
séu horfurnar í efnahagsmálum Ís-
lands og heimsins fyrir árin 2022-25
ekki góðar. Þannig muni ríki heims
þurfa að verja næstu árum í að ná
jafnvægi eftir
mikil útgjöld og
lántökur vegna
faraldursins.
Ástandið sé
ekki ósvipað því
sem var í kjölfar
bankahrunsins
2008 og 2009.
Þegar kórónu-
kreppan reið yfir
tíu árum síðar
hafi ríki Evrópusambandsins enn
ekki verið komin upp úr þeirri efna-
hagslægð. Lítil ástæða sé til að ætla
að Evrópusambandið verði eitthvað
fljótara til að þessu sinni. Því séu
horfur á efnahagsframförum næstu
ár umfram þá stöðu sem var fyrir
kórónukreppuna ekki góðar.
Fram undan sé þó hagvöxtur sem
sé eðlilegt í ljósi þess að þjóðarfram-
leiðsla Íslands og annarra landa hafi
dregist saman um ríflega 10%.
„Gróft séð má áætla að sá sam-
dráttur muni ganga til baka að hálfu
leyti á næsta ári og síðan að mestu
leyti á árinu 2022 en ekki þannig að
við förum aftur fram úr landsfram-
leiðslunni 2019. Á Íslandi eru horfur
slakari en ella væri, enda eru hér þeg-
ar komnir ofurskattar og alþjóðleg
samkeppnishæfni landsins hefur
versnað stórlega undanfarin ár.“
Launastigið orðið of hátt
„Launastigið er enda orðið of hátt
til að landið geti verið samkeppnis-
hæft á erlendum vettvangi. Við það
bætast auknar ríkisskuldir. Þótt við
komumst upp úr holunni, sem
kórónukreppan skilur eftir sig á
árinu 2022, sem er mjög líklegt, verð-
ur það einungis til þess að við náum
aftur jöfnuði miðað við fyrra ástand.
Þ.e.a.s. áður en komið er að því að
greiða vexti af þessum nýju lánum.
Þess vegna eru yfirgnæfandi líkur
á því að við verðum annaðhvort að
skera niður opinber útgjöld eða
hækka skatta. Það þarf að eiga sér
stað mjög mikill hagvöxtur, umfram
það sem þarf til að komast upp úr hol-
unni, til þess að við getum forðast
þessa tvo kosti. Sá hagvöxtur er ekki
fyrirsjáanlegur,“ segir Ragnar.
Hann telur aðspurður að myndun
vinstri stjórnar næsta haust kunni að
festa þessi háu ríkisútgjöld og þar
með hærri skatta í sessi.
„Reynslan bendir til þess. Vinstri-
stjórnin 2009-2013 … hækkaði skatta
og ríkisútgjöld mjög mikið, og þótt
Sjálfstæðisflokkurinn hafi stjórnað
fjármálaráðuneytinu nær allar götur
síðan hafa þessar skattahækkanir og
aukning á ríkisútgjöldum ekki gengið
til baka. Því er hætt við að hið nýja
þrep, sem við erum að stíga upp á,
gæti orðið varanlegt, sérstaklega ef
vinstristjórn verður mynduð eftir
kosningar.“
Dýpkar áhrif kórónukreppunnar
Hagfræðiprófessor segir aukna skuldasöfnun ríkissjóðs kalla á hærri skatta eða niðurskurð útgjalda
Nema þá til komi mikill hagvöxtur sem ekki sé útlit fyrir Háskattastefnan hafi verið fest í sessi
Ragnar
Árnason
Rekstrarform heilbrigðisstofnana er
ekki til fyrirstöðu þegar kemur að
samningum við ríkið. Þetta segir í
svari heilbrigðisráðuneytisins við
skriflegri fyrirspurn Morgunblaðs-
ins. Bent er á í svarinu að af tæp-
lega 2.900 hjúkr-
unarrýmum á
landsvísu reki
ríkið 17%, sveit-
arfélög 39,5% og
einkaaðilar og
sjálfseignarstofn-
anir 48,9%.
Einnig er bent
á að um mitt ár
2019 hafi verið
gerður samning-
ur við fyrirtækið
Sóltún heima ehf. um rekstur hjúkr-
unarheimilisins Sólvangs í Hafnar-
firði í kjölfar útboðs.
Sömuleiðis er lögð á það áhersla í
svörum ráðuneytisins að fara þurfi
eftir lögum um opinber innkaup
þegar gengið er til samninga um
rekstur hjúkrunarrýma og að jafn-
réttis þurfi að gæta.
Erindið til skoðunar
Í svörum ráðuneytisins er stað-
fest að erindi frá Önnu Birnu Jens-
dóttur f.h. Sóltúns og Teits Gísla-
sonar f.h. Heilsuverndar hafi borist
ráðuneytinu. Þau hafi verið til skoð-
unar og rétt sé að þeim hafi enn
ekki verið svarað. Fyrirspurn
Morgunblaðsins laut meðal annars
að því hvort vilji væri fyrir hendi til
að nýta sér þau hjúkrunarrými sem
boðin hafa verið m.a. á Oddsson-
hóteli og í Urðarhvarfi. Í svari heil-
brigðisráðuneytisins segir að gera
þurfi mun á langtímaúrræðum og
skammtímaúrræðum. Til skamms
tíma hafi verið brugðist við brýnum
vanda Landspítala vegna faraldurs-
ins í haust með fjölgun hjúkrunar-
rýma tímabundið í samstarfi við
rekstraraðila heibrigðisstofnana og
hjúkrunarheimila. Markmið Land-
spítalans um útskriftir einstaklinga
hafi náðst með færni- og heilsumati
þeirra sem lokið höfðu meðferð á
spítalanum.
Þá hafi verið sett á fót með samn-
ingi Sjúkratrygginga Íslands og
Hlíðaskjóls ehf., sem er í eigu Eirar,
sérstök deild fyrir íbúa hjúkrunar-
heimila á höfuðborgarsvæðinu sem
smitast höfðu af Covid-19.
„Í þessu ljósi hefur ekki verið
þörf á að ráðast í sérstaka samninga
fyrir þjónustu eins og um er spurt
til að mæta bráðavanda,“ segir í
svari ráðuneytisins.
Einkarekstur
ekki fyrirstaðan
Helmingur rýma nú í einkarekstri
Svandís
Svavarsdóttir
Friðrik Þór
Friðriksson