Morgunblaðið - 11.12.2020, Blaðsíða 36
36 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 11. DESEMBER 2020
Funahöfða 7, 110 Reykjavík | Sími 577 6666
KIEL/ - OG FRYSTITJEKI
., '*-�-,�rKu Kæli- & frystibúnaður
í allar gerðir sendi- og flutningabíla
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Þessi bók gerist handan tímans og handan
skápsins, en samt ekki á jörðinni,“ segir
Hildur Knútsdóttir leyndardómsfull um skáld-
söguna Skóginn sem hún sendi nýverið frá sér.
Um er að ræða lokabindi þríleiksins sem hófst
með Ljóninu 2018 og var fram haldið í Norn-
inni í fyrra, en allar þrjár bækurnar hafa verið
tilnefndar til Íslensku bókmenntaverðlaun-
anna. Aðspurð segir Hildur hugmyndina að
bókaflokknum hafa kviknað sem þríleik. „Hinn
stóri sögubogi þríleiksins, sem byrjar í fyrstu
bókinni og endar í þriðju bókinni, hverfist um
íbúð í risinu á Skólastræti 5 þar sem ákveðnir
atburðir gerast á 79 ára fresti,“ segir Hildur
og tekur fram að sérkennilegur skápur í hús-
inu hafi verið kveikjan að öllu.
„Mig hafði lengi langað til að skrifa sögu
sem gerðist í Reykjavík fyrr á árum og hef
einnig lengi verið heilluð af gömlum og skökk-
um húsum. Þegar þessi íbúð var til sölu 2016
laug ég því að fasteignasala að ég væri áhuga-
samur kaupandi og fékk fyrir vikið að skoða
húsið. Þá rakst ég á þennan sérkennilega skáp.
Í húsinu eru á einum stað tvennar boga-
dregnar dyr sem líta nákvæmlega eins út.
Aðrar dyrnar liggja út úr herberginu, en hinar
opnast inn í þennan skrýtna skáp sem kveikti í
mér,“ segir Hildur og tekur fram að titlar þrí-
leiksins vísi meðvitað í Narníubækur C.S.
Lewis sem nefnast Ljónið, Nornin og Skáp-
urinn. „Mér fannst viðeigandi að snúa upp á
titil þriðju bókarinnar þar sem heimurinn sem
leynist handan skápsins á lítið sameiginlegt
með Narníu,“ segir Hildur og tekur fram að
það hafi verið töluverð áskorun að skrifa Skóg-
inn fyrst með ung börn heima í leikskólaverk-
falli og síðan í öllu rótinu sem fylgt hefur kóf-
inu. „Þetta er því erfiðasta bók sem ég hef
skrifað.“
Þegar allt er upp á líf og dauða
Þríleikur Hildar hverfist um Kríu. Í Ljóninu
er hún að byrja í MR 2017 og fer að rannsaka
undarlegt mannshvarf sem varð 1938, þ.e. 79
árum áður. Nornin segir frá Ölmu sem er
dótturdóttir Kríu og gerist sú saga árið 2096
og endar með því að Kría fórnar sér fyrir Ölmu
og fer inn í skápinn dularfulla. Skógurinn
fjallar um veröldina sem liggur handan skáps-
ins og þar fær Kría loks svör við þeim ótal
spurningum sem hafa ásótt hana frá
menntaskólaárunum í MR.
„Í þessari nýjustu bók hefur mér tekist að
skrifa unglingabók sem fjallar um konu á tí-
ræðisaldri,“ segir Hildur kímin og tekur fram
að hún hefði viljað lesa þríleikinn þegar hún
var unglingur. „Mér finnst mjög skemmtilegt
að lesa og skrifa um ungt fólk. Það er eitthvað
mjög heillandi við unglingsaldurinn og ungt
fólk. Þegar við erum unglingar eru enn svo
margir möguleikar til staðar, því við erum enn
ekki farin að loka neinum dyrum. Á unglings-
árunum erum við líka að taka ákvarðanir um
það hvernig manneskjur við ætlum að vera. Á
sama tíma er allt upp á líf og dauða þar sem til-
finningarnar eru svo sterkar þegar kemur að
vinum og ástinni. Mér finnst sem höfundi
miklu skemmtilegra að skrifa um drama í lífi
persóna sem upplifa hlutina sem drama í stað
þess að sýna yfirvegun þeirra sem eldri og lífs-
reyndari eru.“
Hildur á aðra unglingabók í jólabókaflóðinu,
en það er Hingað og ekki lengra! sem hún
skrifaði í samvinnu við Þórdísi Gísladóttur.
Þær hafa áður skrifað tvær bækur saman um
unglingsstrákinn Dodda í bókunum Doddi:
bók sannleikans! sem kom út 2016 og Doddi:
ekkert rugl! sem kom út 2017. „Við Þórdís
fréttum fyrir nokkrum árum að unglingar
væru að kvarta undan því að þau vantaði
skemmtilegt og styttra lesefni sem ekki væri í
formi þykkra fantasíubóka. Við svöruðum kalli
og skrifuðum um Dodda sem gerist í samtím-
anum. Við fengum síðan ábendingu um að
gaman væri að fá sambærilegar samtímasögur
um stelpur og þannig urðu Vigdís Fríða og vin-
konur hennar til,“ segir Hildur og tekur fram
að það sé algjör draumur að skrifa bækur með
Þórdísi.
„Það er eintóm gleði. Við byrjum alltaf á að
hittast og leggja línur hvað varðar söguþráð og
persónur og síðan skrifum við kaflana til skipt-
is og breytum og lögum hvor hjá annarri. Af
því að við erum báðar að skrifa bækur einar
líka þá eru egóin ekkert að þvælast fyrir okkur
í þessu samstarfi, sem er frekar þægilegt.
Þannig verður þetta bara hreinræktuð
ánægja,“ segir Hildur og tekur fram að það sé
alltaf svo gaman að sjá hvaða bolta Þórdís
grípi í skrifunum og kasti til baka til sín.
Hryllingssaga í samtímannum
„Það er mjög gott að geta gripið í svona
framhjáhaldsverkefni meðfram öðrum þyngri
verkefnum sem maður er að vinna einn,“ segir
Hildur og upplýsir að þær Þórdís séu þegar
farnar að leggja drög að framhaldsbók um
Vigdísi Fríðu og vinkonur hennar sem komi
vonandi út á næsta ári. Spurð hvort hún sé
byrjuð að skrifa næstu bók ein svarar Hildur
því játandi og tekur fram að þar verði um að
ræða stutta hryllingssögu sem gerist í samtím-
anum.
„Erfiðasta bók sem ég hef skrifað“
Hildur Knútsdóttir lýkur þríleik sínum með Skóginum sem gerist handan tímans Unglingabók
um konu á tíræðisaldri Gott að eiga framhjáhaldsverkefni Langar næst að skrifa hryllingsbók
Morgunblaðið/Eggert
Möguleikar „Þegar við erum unglingar eru enn svo margir möguleikar til staðar,“ segir Hildur.
Magnús Orri Aðalsteinsson hlaut
fyrstu verðlaun í ritlistakeppni
Ungskálda 2020 fyrir ljóðið „Sálar-
laus hafragrautur“ en vegna
Covid-19 voru úrslit kunngjörð í
beinni útsendingu á facebooksíðu
Akureyrarbæjar fyrr í vikunni.
Veitt voru verðlaun fyrir þrjú efstu
sætin. Önnur verðlaun hlaut Stefán
Elí Hauksson fyrir „Rauðhetta og
naflinn“ og þriðju verðlaun hlaut
Alda Rut Sigurðardóttir fyrir „Bið-
in eftir“. Einnig voru veitt sérstök
hvatningarverðlaun að þessu sinni
en þau hlutu Jódís Hinriksdóttir
fyrir „Orðin sem mig skorti og
dropi af hollensku viskí“ og Egill
Andrason fyrir „ÍGRUNDAGAR“.
Í frétt frá bænum kemur fram að
aldrei hafi fleiri sent inn verk til
þátttöku í ritlistakeppninni, sem
hefur það að markmiði að efla rit-
list og skapandi hugsun hjá ungu
fólki á aldrinum 16-25 ára. „Alls
bárust 100 verk frá 48 höfundum.
Um er að ræða afar fjölbreytta
flóru ritverka: Ljóð, ör- og smásög-
ur, ljóðabálka og heila barnabók.“
Vinningsljóðið má lesa á vef
Akureyrarbæjar, akureyri.is.
Magnús Orri nýtt Ungskáld Akureyrar
„Viðtökur hafa verið þannig að þetta er vonandi komið til
að vera sem hluti af vetrardagskrá okkar,“ segir Anna
Bergljót Thorarensen, forsprakki Leikhópsins Lottu, um
sýningu hópsins sem nefnist Ævintýri í Jólaskógi – vasa-
ljósaleikhús og sýnd er í Guðmundarlundi í Kópavogi.
Að sögn Önnu er sýningin um 45 mínútna löng og leikin
undir berum himni. „Áhorfendur ferðast í litlum 20
manna hópum með vasaljós sem gerir þeim kleift að elta
jólaskraut til að finna fjóra ólíka staði þar sem persónur
úr jólafjölskyldu okkar Íslendinga, þau Grýla, Leppalúði,
Hurðaskellir og Skjóða, taka á móti gestum og segja
þeim sögu,“ segir Anna og tekur fram að með því að leika
úti undir berum himni fyrir litla hópa sé hægt að virða
bæði samkomutakmarkanir og sóttvarnir.
„Fram til jóla munum við sýna 12 sýningar á dag, en
sýningar hefjast ekki fyrr en farið er að skyggja. Fyrsti
hópurinn leggur af stað kl. 17 og síðan nýr hópur á tíu
mínútna fresti,“ segir Anna og tekur fram að nú þegar sé
orðið uppselt á fyrstu 200 sýningarnar og því líklegt að
sýningum verði bætt við milli jóla og nýárs og sennilega
einnig sýnt í byrjun janúar fram á þrettándann.
„Tvö hundruð sýningar hljómar sem mikið, en þá ber
auðvitað að hafa í huga að það komast mjög fáir á hverja
sýningu,“ segir Anna og fer ekki dult með það að kófið
hafi reynst Leikhópnum Lottu, sem er frjáls atvinnu-
leikhópur, mjög erfitt.
„Síðasta vetur þurftum við að hætta sýningum á Hans
klaufa fyrir fullu húsi vegna samkomutakmarkana og í
sumar gátum við aðeins sýnt Bakkabræður fyrir brot af
þeim fjölda sem venjulegar mætir á sýningar okkar,“ seg-
ir Anna og bendir á að það kosti alltaf jafnmikið að fram-
leiða eina sýningu. „Til að lifa af sem leikhópur neydd-
umst við því til að aflýsa vetrarsýningu okkar í ár,“ segir
Anna og vísar þar til Mjallhvítar sem til stóð að frumsýna
í Tjarnarbíói í janúar. „Fjárhagur leikhópsins þolir það
ekki að við sýnum þriðju sýninguna okkar í
Covid-ástandi. Í stað þess að fara á hliðina fjárhagslega
ákváðum við að bíða þennan faraldur af okkur og vonum
að næsta sumar verði komið eðlilegra ástand,“ segir Anna
og bendir á að hópurinn hafi skorið allan rekstur niður og
sé ekki lengur með skrifstofu og geymsluhúsnæði undir
búninga og leikmynd á leigu, heldur geymi allt í bíl-
skúrum heima hjá leikurum. „Þetta er auðvitað ekki gam-
an, en við ætlum okkur að þrauka þetta ástand af til að
bjarga Lottu,“ segir Anna sem að lokum hvetur áhorf-
endur vasaljósaleikhússins til að klæða sig eftir veðri og
vera vel skóaðir í skóginum.
„Við verðum alltaf mjög ánægð þegar áhorfendur
mæta á mannbroddum,“ segir Anna og tekur fram að
skógurinn sé því miður ekki kerrufær. „Við hvetjum fólk
líka til að hafa nesti meðferðis og fá sér heitt kakó og
piparkökur að lokinni jólagöngu í skóginum,“ segir Anna
sem ásamt þeim Andreu Ösp Karlsdóttur, Sigsteini
Sigurbergssyni og Stefáni Benedikt Vilhelmssyni
aðstoðar Grýlu, Skjóðu, Hurðaskelli og Leppalúða við að
segja sögur sínar í skóginum. Allar nánari upplýsingar og
miðapantanir eru á vefnum tix.is. silja@mbl.is
Vasaljósaleikhús Lottu
Aðstoða jólafjölskylduna við að segja sögur Draga
tímabundið saman seglin til að þrauka Covid-ástandið af
Morgunblaðið/Júlíus
Jólagleði Anna Bergljót Thorarensen stýrir Lottu.