Lögmannablaðið - 2018, Qupperneq 15
LÖGMANNABLAÐIÐ TBL 02/18 15
frestur til matsgerðar og hafna yrði kröfum þeirra um
frekari frestun málanna. Freistuðu matsbeiðendur þá
þess að leggja fram yfirmatsbeiðni en Hæstiréttur staðfesti
synjun héraðsdóms þar um, m.a. á þeirri forsendu að þær
fyrirsjáanlegu tafir sem yrðu á meðferð málsins vegna
framkvæmdar yfirmats væru úr hófi að teknu tilliti til
meginreglunnar um hraða málsmeðferð og rétt annarra
aðila samkvæmt 1. mgr. 70. gr. stjórnarskrárinnar.
Taldi Viðar að ekki ætti að leggja aðilum til lasts að nota
þau úrræði sem löggjöfin býður upp á og benti á að drátt
á því að matsbeiðni yrði lögð fram og að matsvinna tefðist
ætti ekki að rekja til matsbeiðenda. Gagnrýndi hann þó
einkum dóma Hæstaréttar fyrir skort á fyrirsjáanleika. Máli
sínu til stuðnings benti hann á dæmi úr dómaframkvæmd
þar sem Hæstiréttur lét átölulaust að matsvinna tók fleiri
ár heldur en raunin var í þeim málum sem Viðar vísaði til.
Nauðsynlegt væri að festa ríkti hér um og fyrirsjáanleiki
þannig að lögmenn gætu ráðlagt umbjóðendum sínum.
Ragnar Ómarsson fjallaði um ástæður þess að matsvinna
tefjist og að í sumum tilvikum sé lögmönnum eða aðilum um
að kenna. Þekkti hann dæmi þess að lögmenn hefðu ekki
tilkynnt matsmanni um að hann hefði verið dómkvaddur
fyrr en allt að átta mánuðum eftir skipun. Oft væri erfitt
að finna tíma fyrir matsfund sem hentaði lögmönnum og
aðilum, það tæki tíma að afla gagna og tilkynna aðilum um
framkomin gögn sem vildu stundum í framhaldinu bera
þau undir sérfræðinga. Þá geti greiðsla fyrir matsgerðir
dregist en dæmi séu um að hún hafi dregist um nokkur
ár. Ekki mætti svo gleyma því að matsvinna er almennt
aukastarf svo að matsmenn hafa ekki sömu möguleika og
lögmenn að nota allan sinn tíma í matið sjálft. Að lokum
taldi hann til bóta ef tilgreint væri í skipun hvenær mati
skyldi lokið en kveðið sé á um það í lögum nr. 91/1991.
Ásmundur Helgason sagði það meginreglu að aðilar hafi
rúman rétt til að afla gagna en dómarar beiti hagsmunamati
á áðurnefndum tveimur meginreglum réttarfars. Því seinna
sem matsbeiðni kemur fram því meiri kröfur séu gerðar til
þess að drátturinn sé réttlætanlegur. Þá skipti máli hvernig
matsbeiðandi hefur haldið á málinu, hvort málarekstur
hans hafi verið afdráttarlaus, og hversu tímafrek matsvinna
fyrirsjáanlega verður. Að lokum skipti máli hver sé staðan
á rekstri dómsmálsins.
Þegar fundarstjóri opnaði fyrir fyrirspurnir úr sal steig
Skúli Magnússon héraðsdómari í púltið og sagði að
málið væri ekki jafn flókið og framsögumenn vildu
meina. Aðilar færu með máls forræði en ekki forræði á
tímalengd enda sé það hlutverk dómarans að passa upp
á tíma lengdina.
Sakamál í stafrænum heimi
Sigríður Hjaltested héraðs dómari stýrði rök stólum um
rannsókn sakamála í stafrænum heimi. Þátttakendur
voru Kolbrún Benediktsdóttir varahéraðssaksóknari og
Vilhjálmur H. Vilhjálmsson lögmaður. Í upphafi var rætt
um skilgreiningu stafrænna brota, hvort þau væru ný eða
eingöngu ný birtingarmynd brota. Sem dæmi var tekið að
maður sem „flassar“ á Laugavegi gerist sekur um sama brot
og maður sem sendir typpamyndir af sér. Oft sé þannig um
sömu brot að ræða en aðrar verknaðaraðferðir, sbr. einnig
dóm Hæstaréttar í máli nr. 441/2016 þar sem ákærði var
sakfelldur fyrir tilraun til nauðgunar þrátt fyrir að hafa
aldrei hitt brotaþola en hann reyndi að þvinga hann til
samræðis með hótunum um að dreifa nektarmyndum
sem hann hafði komist yfir með samskiptum við brotaþola
í gegnum Snapchat undir fölsku nafni. Þátttakendur
voru sammála um að ákvæði hegningarlaga ættu að geta
staðist tímans tönn og lifa af þróun tækninnar. Þá voru
þau Kolbrún og Vilhjálmur sammála um að breyta þurfi
ærumeiðingakafla hegningarlaga, enda sé vinna hafin þar
að lútandi, og að viðhorfsbreyting hafi orðið hjá lögreglu í
garð tölvubrota sem ýti þeim ekki frá líkt og hún gerði áður.
Rætt var um nútímatækni og hversu langt rannsakendur
mættu ganga hvað þvingunarúrræði varðar. Voru þátt-
takendur sammála um að úrskurð þyrfti til að skoða
innihald síma sem hafi verið haldlagður og að unnt væri að
krefja sakborning um að opna síma með fingrafari sínu eða
andliti, bjóði síminn upp á slíkt, liggi fyrir úrskurður um
leit. Upp hafa samt komið tilvik þar sem tölvur sakborninga
hafi verð svo vel læstar að tæknideild lögreglu hafi ekki
getað opnað þær og þurft að láta þar við sitja.
Að lokum var lítillega rætt um nýjar aðferðir við rannsókn
sakamála. Annars vegar persónugreiningu (e. profiling) og
hins vegar gervigreind en til eru forrit sem t.d. meta hversu
miklar líkur eru á að ákærði brjóti af sér aftur. Forritið sé
notað af dómstólum einhverra ríkja Bandaríkjanna við
ákvörðun refsingar en því meiri líkur sem forritið telur á
að ákærð brjóti af sér aftur því harðari er refsingin. Voru
þátttakendur á einu máli um að slíkt forrit væri ekki til bóta.
Létt var yfir rökstólunum og var orð manna að þessir
fulltrúar andstæðra póla sakamálaréttarfarsins væru óvenju
sammála.
Auður Björg Jónsdóttir lögmaður