Tölvumál - 01.01.2019, Blaðsíða 27
27
Til þess að koma í veg fyrir framleiðslustopp hafa mörg fyrirtæki boðið
fyrirbyggjandi viðhald sem þýðir að íhlutum er skipt út áður en þeir bila.
Ákvarðanir um það hvaða íhluti er skipt um og hvenær byggja á mikilli
sérþekkingu og reynslu. Ókosturinn við fyrirbyggjandi viðhald er sá að í
flestum tilfellum er íhlutum skipt út of snemma. Þrátt fyrir að það komi í
veg fyrir framleiðslustopp, þá getur það þýtt sóun á íhlutum sem ekki eru
fullnýttir.
Hlutanetið og nýjar skýjalausnir veita aðgang að gögnum í rauntíma og
gera mögulegt að bjóða snjallari viðhaldþjónustu. Fyrirbyggjandi viðhald
byggir á spálíkönum og með þeim má finna hagstæðasta tímapunktinn
til að skipta út íhlutum og nýta þá nánast allan sinn líftíma.
SNJALLARA VIÐHALD
Við innleiðingu á snjallara viðhaldi hefur Marel aðallega notast við tvær
aðferðir; fyrirbyggjandi viðhald byggt á reglum og fyrirbyggjandi viðhald
byggt á vélanámi (e. machine learning). Gögn eru greind í rauntíma frá
skynjurum í vélum þar sem fylgst er t.d. með hitastigi, þrýstingi og rakastigi.
Með reynslu og þekkingu á vélunum má skilgreina reglur sem nýttar eru
til að fylgjast með heilsu vélanna.
Sem dæmi má nefna kerfi sem verður vart við að hitastig fer yfir 28°C á
sama tíma og straumur frá kælieiningu fer undir 0.5A. Kerfið veit þá er
kælieiningin við það að gefa sig og ráðleggur viðskiptavini að skipta um
íhlutinn áður en vélabilun kemur upp. Þróun slíkra lausna krefst góðs
samstarf við sérfræðinga Marel sem hanna og þjónusta lausnirnar þar
sem reglurnar byggja að miklu leyti á þekkingu á lausnunum.
FYRIRBYGGJANDI VIÐHALD BYGGT Á
VÉLANÁMI, GERVIGREIND OG
SPÁLÍKÖNUM
Enn snjallari leið í fyrirbyggjandi viðhaldi er að nýta samhliða vélanám,
gervigreind og spálíkön til að spá fyrir um bilanir í vélum. Hjá Marel erum
við að stíga fyrstu skrefin í að nýta þessa tækni í lausnum fyrir viðskiptavini
en þar liggja mikil tækifæri. Með því að nýta IoT og aðra tækni má skapa
snjallari þjónustulausnir, nýta íhluti enn betur og koma í veg fyrir
framleiðslustopp. Með vélanámi má búa til líkön sem lýsa eðlilegri hegðun
véla með því að byggja bæði á rauntímagögnum og gögnum sem safnað
safnast upp með tímanum. Með slíku líkani má t.d. fylgjast í rauntíma
með almennri heilsu tiltekins skynjara í SensorX röntgenvélum frá Marel.
Skynjarinn er einn mikilvægasti íhlutur vélanna. Með því greina í rauntíma
ástand hans skapast mikilvægt svigrúm til að láta viðskiptavin vita þegar
komið er að því að skipta hlutnum út þegar kerfið metur sem svo og
koma þannig í veg fyrir kostnaðarsamt framleiðslustopp auk þess að
fullnýta hlutinn út líftíma hans.
FRÁ HUGMYND AÐ VERULEIKA
Snjallt viðhald hófst sem tilraunaverkefni í Marel þar sem lítill en fjölbreyttur
hópur sérfræðinga með þekkingu á sviði gagnavísinda, verkfræði og
forritunar, ásamt nokkrum helstu sérfræðingum Marel í matvælavinnslu
vann saman að þróun.
Staðreyndin er sú að það verða ekki öll IoT þróunarverkefni að veruleika.
Kannanir sýna að aðeins 20% verkefna skila þeim árangri sem lagt er
upp með í upphafi. Mikið var því lagt upp úr því að nálgast verkefnið rétt
og skilgreina áður en ráðist var í tæknilegar útfærslur.
Þróun í raunverulegu umhverfi eru mun vænlegri til árangurs en ímyndaðar
aðstæður. Hópurinn fór því fljótt í samstarf við einn af þróunarviðskiptavinum
Marel. Tvær vélar voru tengdar við skýið og gat hópurinn strax byrjað að
safna gögnum. Markmið hópsins var að vera sveigjanlegur, þróa lausnina
hratt, fá endurgjöf frá viðskiptavininum snemma í ferlinu og geta þannig
lært og aðlagað lausnina á stuttum tíma. Tilraunaverkefnið sannaði sig
strax á fyrsta árinu. Á fáeinum mánuðum smíðaði teymið frumgerð að
tölvuskýi, hóf að safna gögnum í rauntíma og smíðaði fyrsta spálíkanið.
Þar að auki fékkst á þessum stutta tíma staðfesting frá viðskiptavininum
á því að lausnin væri strax að skapa raunveruleg verðmæti. Með þessa
hvatningu í farteskinu hefur Marel mikinn hug á því að halda áfram að
þróa og fjárfesta í framtíðarlausnum sem byggja á IoT tækni.
FRAMTÍÐIN ER RÉTT AÐ BYRJA
Í framtíðinni mun þróun IoT lausna vafalaust ganga mun lengra. Sjá má
fyrir sér að tækin og kerfin muni með tímanum geta tekið ákvarðanir sjálf
og stýrt öllu framleiðsluferlinu inni í verksmiðjum. Hvernig sem þróunin
verður þá er víst að Marel mun áfram leggja áherslu á að nýta tækniframfarir
og gagnavinnslu til þess að þróa lausnir sem umbylta matvælaframleiðslu,
auka nýtingu á verðmætum auðlindum, minnka sóun og stuðla að
sjálfbærari og hagkvæmari matvælaframleiðslu um allan heim.