Dagfari - Oct 2017, Page 14
14
ljúfa löð. Fórnarlömb stríðanna skipta þá í raun engu máli, þau eru
nauðsynlegur fórnarkostnaður [collateral damage] í eltingarleiknum
við vonda karlinn. Ein ástæða þess að svona einfeldningslegur
málflutningur fær að vaða uppi í fjölmiðlum er að Vesturlandabúa varðar
í raun ekkert um stríðin sem verið er að heyja í þeirra nafni. Þau eru eins
og þriðja flokks afþreying sem menn fylgjast með í dag en er gleymd á
morgun. Þá verður söguþráðurinn auðvitað að vera einfaldur og laus við
blæbrigði.
Í löndunum sem fyrir ófriðnum hafa orðið er stríðið hins vegar ekki
gleymt. Þar eru margar kynslóðir fólks enn að vinna úr áföllunum sem
stríðin hafa valdið þeim. Þetta vita stjórnvöld á Vesturlöndum og því
hafa þau tekið upp sterkar síur gagnvart innflytjendum. Hryðjuverk eru
fjarri því að vera alvarleg ógn við hin friðsömu samfélög Vesturlanda
en samt óttast stjórnvöld þau frekar en allt annað. Óttinn stafar af
niðurbældum minningum um skaðann sem Vesturlönd hafa valdið á
samfélögum í þriðja heiminum, ekki síst ríkum þar sem Islam er ríkjandi.
Þess vegna eru hryðjuverk múslima það sem Vesturlandabúar óttast
mest þó að í raun séu hryðjuverk annarra hópa, t.d. hægriöfgamanna,
mun algengari og mannskæðari. Það sem Vesturlandabúar óttast er
hins vegar að hryðjuverkin minni okkur á skaðann sem samfélög í
Írak, Sýrlandi, Jemen, Afganistan, Líbýu og fleiri löndum hafa orðið
fyrir af völdum Vesturlanda. Þess vegna einkennist orðræða fjölmiðla
um hryðjuverk af því að þeir benda á allar aðrar orsakir en þessar fyrir
þessum glæpum. Það þarf fyrir alla muni að greina orsakir hryðjuverka
í Islam sem trúarbrögðum, í félagslegum vandamálum innflytjenda
eða bara að skilgreina þau sem óskiljanleg voðaverk. Umfram allt má
alls ekkert tengja þau við þann skaða sem Vesturlönd hafa unnið á
samfélögum í fjarlægum löndum án þess að þurfa nokkurn tíma að
hugsa um afleiðingarnar.
Sverrir Jakobsson