Bæjarins besta - 07.02.2001, Page 10
10 MIÐVIKUDAGUR 7. FEBRÚAR 2001
Frá Morse til ljósleiðara
– spjallað við Sveinbjörn Björnsson, þjónustustjóra hjá Símanum á Ísafirði, sem er ekki
gamall maður en man þegar ekki var hægt að tala nema í fimm síma í einu í Súðavík
Sveinbjörn Björnsson
hefur unnið hjá Landssíma
Íslands frá stofnun. Þar áður
vann hann hjá Pósti og
Síma sem áður hét Póst- og
símamálastofnunin. Hann
er menntaður loftskeyta-
maður og má segja að
menntun hans sé að hluta
til úrelt. Þannig eru menn
löngu hættir að nota Morse
skeytasendingar og eru loft-
skeytamenn sjaldnast um
borð í flugvélum og skipum
í dag.
Sveinbjörn og kona hans
hafa lengi haft áhuga á
dansi og hafa tekið nem-
endur 10. bekkjar Grunn-
skólans á Ísafirði í hrað-
námskeið fyrir þorrablót í
hátt í tuttugu ár. Sveinbjörn
hefur verið meðlimur í Litla
Leikklúbbnum frá því hann
fluttist til Ísafjarðar fyrir
meira en 25 árum. Þar hefur
hann aðallega séð um
stjórnun ljósa og reynir að
eigin sögn að halda sig réttu
megin við sviðsljósið.
Menn höfðu
ákveðinn stíl
Sveinbjörn er Akureyr-
ingur að uppruna. Hann
kynntist Hlíf Guðmunds-
dóttur eiginkonu sinni fyrir
norðan, en þar kenndi hún
um tíma. „Hún flutti með
mér suður þegar ég fór í
Loftskeytaskólann. Námið
tók tvö ár og hún vann við
kennslu eins og hún er
menntuð til á meðan ég var
að læra. Þegar ég var orðinn
loftskeytamaður fór ég
mjög fljótlega að vinna hjá
Póst- og símamálastofnun
og hef unnið hjá sama
vinnuveitanda síðan, eða í
þrjátíu ár.
Áður en ég fór að vinna
hjá Pósti og Síma fór ég í
tvo túra á togara sem loft-
skeytamaður. Þar hlustaði
ég á fiskifréttir sem sendar
voru út með Morse merkja-
sendingum fimm sinnum á
dag. Ég efa stórlega að ég
gæti skilið þetta merkjamál
í dag, en á þeim tíma var
maður nokkuð slyngur í
þessu.
Þegar menn eru vanir því
að hlusta á Morse, verður
það eins og annað tungu-
mál. Maður telur ekki pípin,
heldur heyrir maður hljóm-
inn og lærir að þekkja orðin
í sundur. Þeir voru margir á
sínum tíma sem gátu skilið
sendingar þó margir væru
að senda í einu og gátu
meira að segja heyrt hver
var að senda. Menn höfðu
nefnilega ákveðinn stíl,
einskonar rithönd. Núna
hljómar þetta allt eins og
einn hrærigrautur í mínum
eyrum.“
Neyðin er besti
kennarinn
„Ég fór í símvirkjanám og
kláraði það um miðjan áttunda
áratuginn. Þá hafði símstöðin
á Ísafirði verið án tæknimanns
í ár og var ég hvattur til að
flytja vestur og taka starfið að
mér. Ég gerði það, flutti vestur
með fjölskyldu mína og hef
verið hér síðan. Hlíf kona mín
er Bolvíkingur, en það var ég
sem plataði hana til að snúa
aftur vestur. Það var nú ekki
erfitt að sannfæra hana um
ágæti þess að flytja til Ísafjarð-
ar, jafnvel þó hún sé Bolvík-
ingur.“
Grænn á bakvið eyrun stóð
Sveinbjörn einn í brúnni á Ísa-
firði. „Ég var eini tæknimað-
urinn á þessum tíma og var
nýútskrifaður símvirki. Það
þykir ekki heppilegt að menn
vinni án leiðsagnar þegar þeir
eru nýskriðnir úr skóla og
reynslulausir, en það þurfti ég
að gera.
Neyðin er eflaust besti
kennari sem hægt er að fá og
lærði ég nokkuð hratt hvernig
hlutirnir virkuðu. Að mér vit-
andi tókst mér ekki að klúðra
neinu stórvægilegu, enda var
ég duglegur að hringja suður
og leita aðstoðar ef ég hljóp á
einhverja veggi í starfinu. Ég
passaði mig alltaf á því að róa
ekki svo langt út að ég rataði
ekki til lands aftur.
Á þessum tíma þurfti ég að
sjá um viðhald og viðgerðir á
nokkurn veginn öllu sem við-
kom fjarskiptum á svæðinu.
Ég þurfti að sjá um útvarps-
og sjónvarpssenda, tengja
síma, gera örlítið við símtæki
og fleira.“
Framtíðin liggur
um ljósleiðara
Gífurlegar tæknilegar fram-
farir hafa verið á sviði fjar-
skipta á þeim tíma sem Svein-
björn hefur starfað hjá Sím-
anum. „Þegar ég kom vestur
á sínum tíma var mjög tak-
markað samband frá sím-
stöðvum á svæðinu. Í Súðavík
voru sextíu símanúmer, en
eingöngu fimm gátu talað í
einu. Þá var oft sem ekki var
hægt að ná sambandi, en sam-
böndunum fjölgaði þó fljót-
lega.
Ég held að lagning ljósleið-
arans sé mesta framfaraspor í
fjarskiptum sem stigið hefur
verið á Vestfjörðum. Mögu-
leikar í notkun hans eru næst-
um óendanlegir og er flutn-
ingsgetan gífurleg. Það er í
raun endabúnaðurinn sem er
flöskuhálsinn, strengurinn
sjálfur getur flutt gífurlegt
magn upplýsinga.
Í strengnum sem liggur
vestur eru átta leiðarar. Varnar-
liðið á tvo þeirra en hina sex á
Síminn. Hver þessara strengja
getur flutt þrjár sjónvarpsrásir
með þeirri tækni sem til er í
dag, en í framtíðinni er líklegt
að flutningsgetan margfaldist.
Menn eru að gera tilraunir
með sendingar á mismunandi
lituðu ljósi í gegnum leiðar-
ann. Takist þær tilraunir vel,
gæti það þýtt margföldun á
flutningsgetu.
Það er engin spurning að
framtíð fjarskipta liggur í
ljósleiðara. Þróunin hefur ver-
ið gífurleg að undanförnu og
sér ekki enn fyrir endann á
henni.“
Spennandi tímar
Sveinbjörn var æðstur
tæknimanna þar til hann söðl-
aði um fyrir þremur til fjórum
árum. „Þá flutti ég mig yfir á
þjónustudeildina. Þegar stofn-
uninni var skipt upp í tvö
fyrirtæki, Íslandspóst og
Landssímann, varð ég þjón-
ustustjóri hjá Símanum. Ég er
að vissu leyti æsti maður fyr-
irtækisins á Vestfjörðum en
hef þó ekkert yfir tæknimönn-
unum að segja. Þeir heyra ekki
undir mig, enda hef ég nóg
annað á minni könnu.
Það er ekki hægt að segja
annað en að ég hafi upplifað
spennandi tíma í starfi. Fram-
farirnar hafa verið svo miklar
og það er gaman að geta tekið
þátt í þeim.“
Nýta hverja mínútu
Hjónin Sveinbjörn og Hlíf
hafa afskaplega gaman af því
að dansa. „Við erum forfallnir
dansfíklar og grípum alltaf
tækifærið ef okkur býðst að
fara á þorrablót eða harmo-
nikkuball þar sem dansaðir
eru gömlu dansarnir.
Við höfum alltaf viljað
breiða út boðskapinn. Þess
vegna buðumst við til þess
fyrir sextán árum að kenna
nemendum 10. bekkjar
Grunnskólans á Ísafirði að
dansa. Kennslan fer fram ár-
lega, alltaf stuttu áður en
þorrablót er haldið og fá
krakkarnir það heimaverkefni
að dansa við foreldra sína.
Lokaprófið er síðan á blótinu
sjálfu þar sem við hjónin sjá-
um afrakstur erfiðis okkar.
Yfirleitt standa krakkarnir
sig með mikilli prýði. Þeir
virðast hafa gaman af þessu
og á meðan svo er höldum við
þessu áfram.
Kona mín á ættir að rekja
til Grunnavíkur. Að sjálfsögðu
förum við á þorrablót Grunn-
víkinga á hverju ári og döns-
um þá dátt. Við komumst ekk-
ert alltof oft á böll þar sem
hægt er að dansa gömlu
dansana. Því nýtum við hverja
mínútu til að dansa þegar okk-
ur gefst tækifæri.“
Ferst betur að
stjórna sviðsljósinu
en að vera í því
Lengi hefur Sveinbjörn ver-
ið ljósamaður hjá Litla Leik-
klúbbnum á Ísafirði. „Ég hef
meira að segja farið á nám-
skeið til að læra þessa kúnst
betur. Þetta eru mikil vísindi
og merkileg og ég held að
menn séu aldrei búnir að læra
þetta til fullnustu.
Þó ég hafi aðallega séð um
ljósin, hef ég stundum neyðst
til að leika eitthvað. Það er nú
einu sinni þannig í svona
áhugaleikhúsum að menn
þurfa að geta hlaupið í hvaða
störf sem er. Ég reyni þó að
forðast sviðið eins og ég get.
Mér er meinilla við að vera í
sviðsljósinu, mér ferst betur
að stjórna því.“
Fjölnota salur
„Í Edinborgarhúsinu verður
unnið mikið menningarstarf
þegar það verður tilbúið. Þetta
hús er það sem lengi hefur
vantað í menningarlífið í bæn-
um og fórum við þess vegna
út í kaup á því. Við byrjuðum
með tvær hendur tómar og
þurftum að skrifa upp á per-
sónulegar ábyrgðir til að eiga
fyrir útborgun.
Peningamálin eru þó
komin vel á veg núna. Við
höfum drífandi stjórn í Ed-
inborg og hefur að öðrum
ólöstuðum Jón Sigurpáls-
son verið manna dugleg-
astur í að ná endum saman.
Ef ekki hægist á fram-
kvæmdum tel ég líklegt að
húsið verði tilbúið eftir eitt
eða tvö ár. Stóri salurinn í
húsinu krefst mestrar
vinnu, en hann verður að
glæsilegu leikhúsi þegar
fram líða stundir. Ætlunin
er að hafa hann fjölnota
svo hægt verði að nota
hann undir fleira en bara
leiksýningar.“
Margt líkt með
ljósabúnaði og
lífinu sjálfu
Sveinbjörn er sæmilega
ánægður með ljósakost
Litla Leikklúbbsins. „Flot-
inn hefur dugað ágætlega
hingað til. Vissulega getur
maður alltaf notað fleiri
kastara. Þegar nýi salurinn
í Edinborgarhúsinu kemst
í lag þarf helst að tífalda
fjölda ljósa. Það er þó með
ljósabúnað eins og annað í
lífinu, maður verður að
nota það sem maður hefur,
en má ekki gráta það sem
maður hefur ekki.“
06.PM5 19.4.2017, 09:2110