Vinnan


Vinnan - 01.09.1945, Blaðsíða 25

Vinnan - 01.09.1945, Blaðsíða 25
BÆKUR Folke Bernadotte: Leikslok Arni Jónsson frá Múla þýddi Víkingsútgáfan, 1945 Bók þessi fjallar að talsverðu leyti ura fjörbrot þýzka nazismans og hin fálm- kenndu hálmstrártök nazistaforingjanna, þegar þeir sáu, að öll von var úti. Höfund- ur bókarinnar, Folke Bernadotte greifi, sonur núverandi konungs Svía, var sendur margar ferðir seinni hluta síðastliðins vetrar á vegum Rauða krossins til Þýzka- lands í því skyni að reyna að fá danska og norska fanga leysta úr hinum illræmdu fangabúðum nazista, flytja þá til Svíþjóð- ar og hafa þá þar í haldi, unz stríðinu lyki. Vegna erindis síns varð Folke Berna- dotte að ganga á fund ýmissa helztu leið- toga nazista, svo sem Ribbentrops, Himml- ers o. fh, og er frásögn greifans byggð á dagbók hans frá þessu tímabili. Það skal ekki dregið í efa, að frásögn greifans muni vera samvizkusamleg og rétt, það sem hún nær, en hitt er harla ósenni- legt, að hinir þýzku leiðtogar hafi leyft honum að svipast grandgæfilega um bak við tjöldin í hinu grátbroslega pólitíska brúðuleikhúsi þeirra, og virðist bókin þess vegna vera fremur yfirborðskennd að því er viðvíkur lokum hins blóðuga hildarleiks í Evrópu. En erindi sitt rak hann af fá- dæma dugnaði, þrautseigju og lægni. Síðasti kafli bókarinnar er skýrsla Walt- er Schellenbergs, yfirmanns þýzku upplýs- ingastofnunarinnar. Schellenberg mun hafa verið Bernadotte mjög innan handar við að fá málum sínum framgengt við naz- istaleiðtogana, og hver veit nema hann þyggi höfuð sitt að launum fyrir og hefur margur þegið minna. Miguel de Cervantes: Don Quixote Maja Baldvins þýddi. Prent- verk Odds Björnssonar, 1944 Með þýðingu þessari hafa íslenzkir les- endur fengið ofurlitla nasasjón af einu öndvegisskáldriti heimsbókmenntanna, en því er þannig tekið til orða, að eins og bókin liggur fyrir á íslenzkunni, er hún aðeins stutt endursögn frumritsins, en þessi endursögn er gerð af Leighton Barr- ett, og hefur þýðandinn snúið endursögn- inni úr ensku. Enda þótt hér sé um mjög stytta útgáfu að ræða, hefur söguþræðinum ekki verið raskað að mun, en hins vegar felldar úr margar innskotssögur og sumar mjög skemmtilegar. Eru slík vinnubrögð, að endursegja heimsfræg skáldrit, vægast sagt mjög hæpin, því að oft er mikið af töfrum bókarinnar fólgið í stíl höfundarins, svo sem er um þessa bók, og auk þess þarf endursegjandinn að vera gæddur óbrigð- ulu skyni á það, hverju sé óhætt að sleppa og hvað beri að taka með. Það kann mjög að orka tvímælis, hvern- ig þessi endursögn er af hendi leyst. Að vísu er það svo, að margar innskotssögur frumritsins spilla heildarsvip þess, að minnsta kosti að áliti nútíðarbókmennta- fræðinga, þótt slíkir útúrdúrar væru al- gengir í bókmenntunum, þegar þessi skáld- saga var skrifuð, en bókin um riddarann sjónum-hrygga, Don Quixote, hefur öðlazt slíkan virðingarsess í heimsbókmenntun- um, að manni finnst það allt að því helgi- spjöll að hrófla við henni. En hinn íslenzki þýðandi, frú Maja Baldvins, á hér enga sök á. Hún hefur þýtt endursögnina af stökustu vandvirkni og samvizkusemi, og málfarið er kjarnyrt og svipmikið. Það er tæplega vanzalaust, að við skul- um ekki eiga þetta öndvegis-skáldrit á ís- lenzku, þýtt óstytt beint úr frummálinu, spænskunni, ásamt ýtarlegum formála um höfundinn og bókmenntalegum og menn- ingarsögulegum skýringum. •— Að vísu er ekki um marga að ræða til þess að vinna slíkt verk, en við eigum þó að minnsta kosti einn sérfræðing í spænskri tungu og bókmenntum, Þórhall Þorgilsson bóka- vörð. EMBL A Arsrit, er flytur ritverk kvenna Prentsmiðjan Hólar, 1945 Enn er nýtt tímarit á ferðinni, og eru það konur, sem að því standa. Tilgangur þess er að birta fornar og nýjar ritsmíðar kvenna og á það að koma út einu sinni á ári. Fyrsta hefti þessa tímarits er nýlega komið út, er fjölbreytt að efni og fer mjög myndarlega af stað, enda hefur okkur karl- mönnunum aldrei verið það hulið, að ís- lenzkum konum væri fleira til lista lagt en að hnoða brauð. Ritstýrur ársritsins eru Valborg Bentsdóttir, Karólína Einarsdóttir og Valdís Halldórsdóttir. Þessi fyrsti árgangur hefst á ljóðum eft- SÍF;' ' ■ ir frú Theodóru Thoroddsen, og séu þau kvæði ný, verður ekki séð, að henni sé mikið farið að förlast tungutak og Ijóða- þróttur. Þá á Hulda skáldkona þarna kvæði, um Ingólf fagra, sem getið er um í Vatnsdælu, en eitthvað held ég að ritstýrurnar hefðu getað valið betra úr ritum Torfhildar gömlu Hólm, en kaflann, sem þær birta úr skáldsögunni um Jón biskup Arason. Fríða Einars á í þessu hefti tvö frum- samin kvæði og eitt þýtt. Frúin hefur áður birt kvæði eftir sig, meðal annars í Helga- felli, og er því orðin talsvert kunn, sem skáldkona. Ljóðasmekkur hennar er fág- aður og orðavalið ekki hversdagslegt. Hins vegar finnast mér ljóð hennar ekki nægi- lega hnitmiðuð, en allt um það virðist mér hlutur hennar í þessu hefti einna drýgstur. Þá kemur og fram á þessu skáldakvenna- þingi önnur skáldkona, Halldóra B. Björns- son, sem virðist ekki vera neinn viðvan- ingur í listinni, þó að fátt hafi birzt eftir hana á prenti. Hún á þar aðeins eitt kvæði, Þokumyndir, sem mér finnst mjög vel gert, og til þess að gefa lesendum Vinnunnar ofurlitla hugmynd um efni Emblu, tek ég mér það bessaleyfi, að birta hér þetta kvæði: Dansandi þokudís úr Kölduskál djarflega heilsar ljósri norðurátt svífandi hærra í örum yndisleik, orðin að skýjadís við loftið blátt, dansandi þokudís úr Kölduskál. Mosinn, sem forðum óx við Álfastein, er orðinn grugg á botni í Dýjalind. Horfinn til fulls? Að engu verður ei, með ári hverju sýnir nýja mynd mosinn, sem forðum óx við Álfastein. Sofinn er fugl í lyngi, mús í mó, maður frá orfi gekk til hvíldar ■— þey! skógálfur sendir skugga-fingur-koss skjálfandi blárri fjólu og gleym-mér-ei. Sofinn er fugl í lyngi, mús í mó. Hljóðlega sveimar minning ein og ein andvaka, meðan sóley blundar rótt. Hálfnumdu líkast Ijóði úr týndri bók, lesnu við opinn glugga um miðja nótt, hljóðlega sveimar minning ein og ein. Sumarkvöld gestur gisti þennan dal. Gullregn um efstu heiðartinda féll. Hér leynast töfrar enn um brekku og bæ, bjarmar af ævintýri um hæð og fell. Sumarkvöld gestur gisti þennan dal. Þögninni einni segjum okkar sorg. Sungin var gleðin út í vind, sem blés. Spor lágu brott úr dalnum annan dag, dögg féll af greinum lítils reynitrés. Þögninni einni segjum okkar sorg. VINNAN 199

x

Vinnan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Vinnan
https://timarit.is/publication/1513

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.