Börn og menning - 2019, Blaðsíða 25

Börn og menning - 2019, Blaðsíða 25
Frá svartadauða til snjalltækni Helga Birgisdóttir Bækur Rotturnar Ragnheiður Eyjólfsdóttir Vaka-Helgafell, 2018 Rotturnar er þriðja ungmenna- bók Ragnheiðar Eyjólfsdóttur. Fyrri bækurnar tvær, tvíleikurinn Skuggasaga, eru fantasía þar sem gömlu og nýju er blandað saman og nútímapersónur ferðast aftur til fornra tíma. Í Rottun- um heldur Ragnheiður sig hins vegar kirfilega við nútímann og spánnýjustu tækni og vísindi. Við sleppum þó aldrei undan fortíðinni og hún leikur lykilhlutverk í fléttu bókarinnar, þó ekki skuli látið uppi hér með hvaða hætti. Rotturnar eru hópsaga: Fylgst er með nokkrum ung- lingum, þeim Hildisif, Flexa, Garúnu og Garra, sem hafa fengið sumarvinnu í vinnubúðum úti á landi sem tengjast spennandi íslensku fyrirtæki. Við fyrstu sýn virðist sagan ætla að feta hina hefðbundnu unglinga- bókabraut þar sem einblínt er á ástir og almenna komp- lexa meðalunglingsins en þegar krökkunum er smalað saman í lítinn kofa í afdölum og þau beðin að sinna ákveðnu sérverkefni er fljótlega ljóst að eitthvað annað og meira er á seyði. Áður en þau vita af hefur þeim verið smalað saman lengst inn í fjall – sem reynist vera eins konar skel utan um hátæknilega byggingu – og fljótlega rennur það upp fyrir krökkunum að fullorðna fólkið hefur sannarlega ekki hagsmuni þeirra að leiðarljósi heldur ræður gróða- fíknin öllu. Öfugt við fyrri bækur Ragnheiðar eru engir galdrar og engin fantasía í Rottunum heldur er bókin vísindaskáldsaga þar sem hið óvanalega og ótrúlega er skýrt með vísunum í nýjustu tækni og vísindi. Krakkarnir í bókinni þurfa að berjast fyrir eigin lífi og limum, spurt er stórra spurninga um siðferði – hvað má og hvað má ekki og hvenær – ef einhvern tíma – eigum við að gefa upp vonina. Þetta eru stórar spurningar og virð- ast ef til vill háleitar en eru einmitt þær sem við stönd- um frammi fyrir í dag, á tímum hátækni, mengunar og alls þess sem ógnar náttúrunni. Þá kemur svartidauði, sá lífshættulegi sjúkdómur, við sögu og minnir okkur á að nauðsynlegt er að bera virðingu fyrir fortíðinni. Frásögnin í Rottunum er drifin áfram af atburðum – hraða og spennu – og persónurnar eru málpípur ákveðinna staðalímynda eða gilda og eflaust mismun- andi með hvaða persónu lesendur finna sig. Persónu- sköpunin er ansi góð og Ragnheiði tekst að láta mörg sjónarhorn og skoðanir koma fram þótt vissulega sé persónugalleríið fremur klisjukennt. Krakkarnir neyð- ast til að taka ákveðin þroskastökk vegna þeirra að- stæðna sem þeir eru í og þær aðstæður eru á köflum ansi ótrúlegar og farsakenndar. Engu að síður er sagan æsispennandi og grípur lesandann – og þannig á það líka að vera. Höfundur er íslenskufræðingur.

x

Börn og menning

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Börn og menning
https://timarit.is/publication/1541

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.