Fréttabréf Ættfræðifélagsins - nov. 2020, Side 12
12http://www.ætt.is
Fréttabréf Ættfræðifélagsins í nóvember 2020
aett@aett.is
Þorsteinsson hinn helminginn. Ekki fengu fyrra
hjónabandsbörn Þorsteins neinn arf eftir hann, hvorki
í löndum eða lausum aurum.
Drangshlíðarætt
Jón bóndi í Drangshlíð var sonur Björns hins ríka
á Sólheimum, Jónssonar. Móðir Jóns var Steinunn
Jónsdóttir, Kjartanssonar á Grund. Kona Jóns var
Þuríður Guðmundsdóttir í Steinum Jónssonar. Börn
Jóns og Þuríðar voru Ingveldur, f. 1793, Steinunn, f.
1795, Guðmundur, f. 1798, Björn, 1799 Hjörleifur, f.
1802, Kjartan, f. 1806 prestur í Skógum og Vilborg,
f. 1807.
Þorsteinn Þorsteinsson giftist seinni konu sinni,
Sesselju Árnadóttur árið 1846. En árið 1849 gift-
ist Jón Collin, sonur Þorsteins, Kristínu Árnadóttur,
sem var systir Sesselju. Árið 1852 átti Guðrún, dótt-
ir Þorsteins son með Birni Árnasyni sem var bróðir
þeirra Sesselju og Kristínar.
Smælki
Át konubanann
Á Hugljótsstöðum á Höfðaströnd bjó um 1690
Gísli nokkur, er varð nafntogaður fyrir manngjöld
þau er hann þáði fyrir konu sína. Svo var mál með
vexti að kona hans gekk til kinda að kveldi og réðst
þá á hana mannýgur griðungur af öðrum bæ, hafði
hana undir og gekk af henni dauðri. Gísli fór á fund
þess er nautið átti, og krafðist bóta fyrir konu sína.
Bað eigandinn hann þá að hafa nautið sér til matar,
því það hefði fyrirgert lífinu. Þessu boði tók Gísli
með þökkum og át svo konubana sinn.
Að neðan…
Eftirfarandi vísu orti Jóhannes Jónasson á
Skjögrastöðum á Múlasýslu um prest á Austurlandi.
Sumir vilja meina að það hafi verið séra Magnús
Blöndal Jónsson, bróðir Bjarna frá Vogi:
Mikið er hve margir lof ´ann,
Menn sem aðeins hafa séð ´ann.
Skrýddur kufli Krists að ofan,
klæddur skollabuxum neðan.
Sagan segir að maður nokkur sem heyrði vísuna
hafi viljað leyfa fólkinu sína að heyra hana þegar
hann kom heim, en eitthvað skolaðist nú úr henni
hjá honum og hljóðaði vísan þá svona:
Mikið er hve margir lof ´ann
að ofan
Menn sem ekki hafa séð hann
að neðan!
Hrakningar
Vitað er að íslenskir sjómenn hröktust stundum
allt til Grænlands, svo var um hann Guðfinn afa
minn. Einnig eru til frásagnir um sjómenn sem
hröktust til Íslands. Óskar Clausen segir frá einni
slíkri sjóferð í riti sínu Sögur af Snæfellsnesi. Þá
rak fimm menn á bát af selveiðiskipinu Túnsbergi,
sem var á veiðum við austurströnd Grænlands. Þeir
villtust í þoku frá skipinu, en þegar létti til sáu þeir
hvorki skip né land og voru rammvilltir. Þeir réru
og réru og komust loks í land í Keflavík undir Jökli
eftir átta sólarhringa róður. Þeir höfðu haft fæði til
fjögurra daga, en vildi það til að þeir veiddu tvo
seli. Skinnin höfðu þeir fyrir segl þegar kæla var,
en spikið átu þeir, nema einn þeirra, sem ekki gat
bragðað það, en hann var líka kominn að dauða
þegar í land var komið. (ritstjóri)