Hinsegin dagar í Reykjavík - Aug 2017, Page 52
einfeldnin varðandi transmálefni. Þetta
var svo „svart-hvítt“. Annaðhvort var
málið að fara í kynleiðréttingu, og þá í
skurðaðgerð á kynfærunum, eða þú varst
„bara“ transvestite – svona hobbí fígúra.
Ég fór að aggítera fyrir því að málið væri
ekki svona einfalt og talaði mikið fyrir því
að um væri að ræða litróf þar sem allur
skalinn væri undir.
Þegar ég svo var kosin formaður félagsins
átti ég nokkur samskipti við þá nýstofnað
teymi Landspítalans sem hafði með
málefni trans fólks að gera. Hafa ber í
huga að á þessum árum var enn verið
að tala um trans í samhengi geðrænna
sjúkdómsskilgreininga. Það sem
aðallega skiptir máli í þessu samhengi er
skilgreining Landspítalateymisins á því
hvað það væri að vera trans. Hún gekk
í stórum dráttum út á að ef manneskja
fyrirliti kynfæri sín, gæti ekki horft á þau
og hataði þau, þá væri viðkomandi trans
og ætti þar með rétt á aðstoð kerfisins. Í
ljósi minna rannsókna og eigin vitundar
gekk þetta einfaldlega ekki upp. Ég var
sannfærð um að oft væri verið að þvinga
einstaklinga í aðgerð sem myndi ekki
leiða til lausnar fyrir þá.
Hafandi fæðst með typpi og verandi
listamaður fór ég auðvitað að rannsaka
þetta líffæri. Ég fór að teikna typpi og
mála, rétt eins og listamaður rannsakar
fjölda annarra fyrirbæra. Ég hóf ítarlega
skoðun á þessum líkamshluta, sem
auðvitað var viðleitni til að sættast við
sjálfa mig sem „typpa-veru“. Ég vildi
sýna að konur gætu verið fallegar og
eðlilegar, jafnvel með typpi og það væri
í rauninni alveg sjálfsagt. Ég setti þetta
upp í listrænu samhengi: „konur með
typpi“. Þetta varð því ákaflega persónuleg
sýning og ég gat ekki séð hana fyrir mér
á neinum öðrum stað en í samhengi
Hinsegin daga, því hinsegin samfélagið
á Íslandi hefur átt hvað stærstan þátt í
því að ég hef getað sæst við sjálfa mig
og lifað því lífi sem mér er mikilvægt og
nauðsynlegt.
Finnst þér umhverfi trans fólks á Íslandi
í dag ennþá einkennast af svart-hvítum
viðhorfum?
Það hefur margt gerst í málefnum trans
fólks, ekki bara á Íslandi. Það virðist vera
mikil vitundarvakning og þekking og
umburðarlyndi hefur aukist til muna
bara í minni tíð. Hér á Íslandi hefur
viðhorfið breyst mikið, ekki síst þegar
kemur að fagfólki sem sér um málefni
trans fólks á vegum Landspítalans. Það
hafa svo sannarlega bæst við gráir tónar
í umræðuna og við höfum þokast langt
áleiðis. Viðhorfið er í raun allt annað og
betra nú en t.d. þegar ég var að koma út
fyrir tuttugu árum.
Í lýsingu á sýningunni sagði meðal
annars að hinsegin myndlist væri á
mörkum þess að teljast sæmileg, hvað
þá fyrir alla! Hvað áttirðu við með þessu?
Ég held að hinsegin myndlist geti verið
fyrir alla, hvað svo sem það er, en í okkar
samfélagi í dag er myndræn framsetning á
kynfærum ekki fyrir alla. Sérstaklega þykir
það ósæmandi fyrir börn. Hvort það er
gott eða slæmt skal ósagt látið. En ég get
allavega sagt að þeir foreldrar sem komu
með börn sín á sýninguna sendu þau strax
út og vildu ekki láta þau sjá verkin. Það
sem ég meinti var að þessi sýning væri
einungis fyrir þá sem væru vaxnir upp úr
því að sjá eitthvað „ljótt“ og „ósæmilegt“
við kynfæri og ég vildi ekki troða þessum
verkum upp á fólk sem ekki vildi sjá þau.
Viðfangsefni myndverka þinna er oft kyn
og hvað aðskilur kynin. Við fyrstu sýn
eru mannslíkamar einnig áberandi. Er
þetta leið fyrir þig til að tjá hugsanir sem
annars væri erfitt að tjá með orðum?
Klárlega. Ég hef oft rætt um það uppi í
Listaháskóla að ég valdi myndlist sem
minn tjáningarmáta vegna þess að ég á
betra með að tjá mig með myndum en
orðum. Myndir segja líka meira eins og
orðatiltækið segir – myndir segja meira
en þúsund orð. Myndmál er al-mannlegt,
alþjóðlegt, og eins og allir vita sem tala
fleiri en eitt tungumál er oft ekki hægt
að segja ákveðna hluti á einu tungumáli
sem hægt er að tjá með öðru. Myndmálið
getur sagt svo miklu meira og nákvæmar
en orðin ein. Orð ná einfaldlega ekki yfir
allt. Þess vegna erum við t.d. stöðugt að
búa til nýyrði, ekki síst þegar kemur að
trans tilveru. Slík tilvera hefur ekki verið
viðurkennd á Íslandi til þessa og þ.a.l.
skortir orð og orðræðu um það.
Hinsegin listamenn eru oft stimplaðir
sem slíkir og umræða um þá snýst
oft, og kannski aðallega, um hinsegin
sjálfsmynd þeirra. Rekast einhvern
tímann saman innra með þér þau
sjónarmið að vilja annars vegar deila
reynslu þinni í gegnum listsköpun og
hins vegar ósk um að trans reynsla þín sé
ekki það eina sem fjallað er um?
Hér er ég til dæmis í viðtali – en
væntanlega ekki fyrst og fremst sem
listamaður heldur sem trans eða trans-
listamaður. Oft hefur það reynst mér
þungbært að vera listamaður og vilja
tala um list mína sem slíka en umræðan
fer oft út í að ræða um mig sem trans og
þá reynslu. Ég reyni yfirleitt ekki að stýra
þeirri umræðu, leyfi henni bara að renna
áfram. Það er mér líka mikilvægt að ræða
trans málefni. Ég hef verið talsmaður
trans fólks og er stolt af því. Umræðan er
nauðsynleg og ég hef oft óskað þess að
einhver eins og ég hefði tekið af skarið fyrr
svo að ég hefði notið þess að alast upp
sem venjuleg manneskja í samfélaginu
þrátt fyrir að vera trans. Það hefur verið
mitt markmið með því að tala opinskátt
um mig sem trans að skapa þá tilveru fyrir
þau sem á eftir mér koma.
En að vera trans og vera listamaður er
tvennt. Þetta er eins og að vera rauðhærð
og vera læknir. Auðvitað er hvort tveggja
óaðskiljanlegur hluti af tilverunni en
eitt hefur í raun ekkert með hitt að
gera. Á einhvern hátt endurspeglast líf
listamannsins alltaf í listsköpuninni en
ég fjalla að sjálfsögðu um margt annað
og meira en að vera trans. Listin var mér
ómetanleg aðstoð við að sættast við
mig sem manneskju, og já, sem trans
manneskju, í baráttunni við að vera í
afneitun og í skápnum. Ég nota listina
til að komast frá hinu og þessu og til
að komast til botns í hlutunum. Ég hef
þ.a.l. fjallað talsvert um tilveru trans
manneskjunnar í minni list en fyrst og
fremst fjalla ég um lífið eins og það kemur
mér fyrir sjónir. Núna fjallar mín list fremur
um almennar mannlegar tilfinningar og
upplifun.
Undanfarna tólf mánuði hafa tvær
fréttir skapað feiknamiklar umræður
um stöðu íslenskrar myndlistar og
listamanna á Íslandi, annars vegar salan
á Ásmundarsal Listasafns ASÍ og hins
vegar kaup og kjör listamanna sem setja
upp sýningar á opinberum listasöfnum.
Sem starfandi listamaður, hver er þín sýn
á þennan málaflokk?
Mér þykir, eins og flestum
myndlistarmönnum, mikil eftirsjá af
Ásmundarsal. Rýmið var frábært sem
og staðsetningin og Ásmundarsalur
hefur verið mikilvægur vettvangur fyrir
íslenska myndlist í áratugi. Við vonuðumst
mörg til þess að hægt væri að halda
áfram myndlistarstarfsemi þar en nú
hefur Marshallhúsið verið opnað með
Kling og Bang og Nýlistasafninu og því
ber svo sannarlega að fagna. Nýir tímar
og nýr vettvangur. Það eru spennandi
tímar framundan og ég held að það sé
bara gott að vera ungur og upprennandi
myndlistarmaður í dag. Ísland er í tísku
og umheimurinn hefur tekið eftir því að
hér er kraumandi sköpunargáfa nánast
alls staðar og þá er sama hvort um ræðir
myndlist, ritlist, tónlist, kvikmyndalist eða
annað.
Varðandi hugmyndir um laun til
handa listafólki þegar það vinnur að
sýningarhaldi þá sé ég það sem mjög
jákvætt skref. Það er jú þannig að þegar
unnið er að slíkum viðburðum þá fá
flestallir laun fyrir sína vinnu nema oftast
nær myndlistarmennirnir sjálfir og það er
ekki sanngjarnt. Myndlistin er jú það sem
fólk er að koma til að sjá.
52