Fræðaþing landbúnaðarins - mar. 2011, Blaðsíða 370
| FRÆÐAÞING LANDBÚNAÐARINS 8, 2011370
Ástæður þess að magn FFS í mjólk eykst geta verið margvíslegar. Þannig hefur verið
sýnt fram á að stórir fitudropar eru óstöðugari og því viðkæmari gagnvart sundrun,
auk þess sem hlutfall stórra fitudropa eykst við tíðari mjaltir (Wiking, 2005).
Jafnframt hefur verið sýnt fram á að FFS í mjólk hækkar þegar mjólkin er sótt með
mjaltaþjóni (Slaghuis ofl., 2004). Hérlend rannsókn hefur einnig sýnt fram á tengsl á
milli fjósgerða, þá væntanlega fyrst og fremst mjaltatækni, og magns FFS í mjólk
(Torfi Jóhannesson ofl., 2006). Þá hafa rannsóknir sýnt að harkaleg meðferð
mjólkurinnar, langar mjólkurlagnir, tíðar mjaltir og stórir mjólkurtankar geta valdið
sundrun á fitu og þar með aukið magn FFS í mjólkinni (Thomson ofl., 2005).
Mjólkurdroparnir eru einnig viðkvæmari gagnvart sundrun eftir því sem mjólkin er
heitari (Wiking, 2005) þar sem hvatinn Lípasi á auðveldara með að kljúfa niður fitu
við hærra hitastig. Hérlend rannsókn hefur einnig sýnt að við lága nyt, sem og í lok
mjaltaskeiðs eykst magn FFS í mjólk (Snorri Sigurðsson, 2010), sem er ennfremur í
samræmi við erlendar niðurstöður (Thomson ofl., 2005). Þá skiptir orkuástand og
erfðir kýrinnar máli gagnvart framleiðslu á gæðum próteins í mjólk (Coulon ofl.,
2001) og þar með gæðum himnanna sem umlykja fitudropana.
Lausar fitusýrur í mjólk hér á landi er bæði mældar í tanksýnum og kýrsýnum. FFS er
gefið upp sem mmól/l og hafa verið settar gæðaflokkunarreglur hérlendis um leyfilegt
hámarksmagn FFS í mjólk. Fyrsti gæðaflokkur er margfeldismeðaltal mánaðarins á
FFS ≤1,1 mmól/l, annar gæðaflokkur margfeldismeðaltal mánaðarins á FFS >1,1
mmól/l og ≤1,8 mmól/l og þriðji gæðaflokkur >1,8 mmól/l m.v. margfeldismeðaltal
mánaðarins fyrir FFS (reglugerð nr. 52/2010). Þá eru notaðar viðmiðunarreglur
þannig að ef magn FFS í mjólk fer yfir 0,7 mmól/l þá er ástæða fyrir viðkomandi
mjólkurframleiðanda að staldra við og skoða hvort allt sé í lagi með
framleiðslueininguna (Snorri Sigurðsson, 2010). Rannsóknarstofa mjólkuriðnaðarins
sér um þessar mælingar hér á landi og eru mælingarnar samstilltar við norskan
gagnagrunn.
Beint meðaltal FFS í tankmjólk árið 2010 reyndist vera 0,61 mmól/l en árið 2009 var
það 0,69 mmól/l svo að um verulega lækkun var að ræða. Líkt og fyrri ár er munur á
milli mjaltakerfa og var meðaltal FFS frá mjaltaþjónum 0,83 mmól/l en frá öðrum
mjaltakerfum 0,57 mmól/l.
Árið 2010 mældust 79,1% faldmeðaltala allra búa undir 0,7 mmól FFS/l en árið voru
ekki nema 61,5% búanna undir 0,7 svo að um verulega bætt gæði mjólkur var að ræða
árið 2010 en árið 2009. Ástæðuna er vafalítið að finna í aukinni þekkingu á því
hvernig hægt er að minnka magn FFS í mjólk auk þess sem verðskerðingarákvæðið,
sem tók gildi 1. janúar sl., hefur vafalítið haft verulega hvetjandi áhrif á aðgerðir
innan búanna til þess að lækka magn FFS í mjólk. Árið 2010 reyndust ekki nema
3,0% búanna vera með faldmeðaltal yfir 1,0 og ekki nema 1,2% búanna yfir 1,1
mmól/l sem eru viðmiðunarmörk verðfellingar.