Víkurfréttir - 17.03.2021, Page 16
Fermingin
markar tímamót
í lífi margra
Þá er búið er að ferma árganginn sem átti að fermast í fyrra en það gekk treglega
vegna veirufaraldursins. Við lifum á fordæmalausum tímum. Ekkert er eins og áður
var. Allt er breytt vegna kovid. Aldrei hefðum við getað ímyndað okkur að ósköp
venjulegar og ágætlega fjölmennar fermingarveislur yrðu ekki haldnar fyrir rúmu
ári. Börnin sem fermdust árið 2020 þurftu sum að hætta þrisvar við veisluna sína.
Nú er vor í lofti. Nýr fermingarundirbúningur er kominn á fullt skrið í
kirkjum landsins og hópur unglinga bíður spenntur eftir fermingardegi
sínum og auðvitað fermingarveislunni. Dagurinn er einn af þessum
eftirminnilegu dögum í lífi margra. Áður fyrr var oft talað um, að eftir
ferminguna værum við krakkarnir komnir í fullorðinna manna tölu.
Víkurfréttir fengu að kíkja í heimsókn í fermingarfræðslu hjá Keflavíkurkirkju
í síðastliðinni viku og áttu spjall við nokkur fermingarbörn sem hér fer á eftir.
Daníel Örn Gunnarsson:
„Jesús er mjög
góð fyrirmynd“
„Ég læt ferma mig til að játa trú
mína á Guð. Þegar ég var lítill fór
ég stundum í sunnudagaskóla
með ömmu og hugsaði út í alla
söguna í kringum Jesú. Mamma
sagði mér stundum sögur af Jesú
en amma var sterk í því að kenna
mér bænir. Nú legg ég augun aftur,
var bænin sem amma fór með okkur systkinunum fyrir svefninn. Við vorum oft í heim-
sókn hjá ömmu um helgar sem átti þá mjög stórt hús. Ég man að mér fannst afslappandi
að fara með bænir fyrir háttinn. Ég er kristinnar trúar og finnst þægilegt og góð tilfinning
að trúa. Jesús er mjög góð fyrirmynd fyrir okkur mennina. Ég er búinn að læra mikið um
hann í vetur. Hann var sallaróleg manneskja, hjálpaði fólki andlega og veitti því öryggi.
Það er búið að vera mjög gaman í fermingarfræðslunni með krökkunum og prestarnir eru
æðislegir. Ég bið sjálfur bænir, einhverjar frá því í æsku. Fermingarundirbúningurinn er
búinn að styrkja mig í trúnni. Ég er mjög spenntur fyrir fermingardegi mínum og finnst
mjög spennandi að halda veislu og hitta allt frændfólkið mitt. Ég fór fyrir stuttu og keypti
jakkaföt sem ég verð í á fermingardaginn. Ég ætla í klippingu en ekkert annað. Mamma er
að undirbúa veisluna og hún má bara ákveða allt nema mig langar að fá kjúklingaspjót. Ég
treysti henni og systur minni fyrir veislunni.“
Guðný Þóra Sigurðardóttir:
„Búin að læra
margt nýtt“
„Ég er að fermast því ég trúi á Guð
og því að Jesús hafi verið til. Ég er
að staðfesta skírnina. Ég er fegin
að mamma og pabbi létu skíra mig
þegar ég var lítið barn. Ég lærði
Faðir vorið þegar ég var lítil og
skoðaði barnabiblíuna. Í dag er ég
aftur farin að biðja bænir, núna
þegar ég skil meira hvað kristin trú er. Það er margt búið að gerast í fermingar-
fræðslunni, ég er búin að læra margt nýtt og svo er bara mjög gaman hjá okkur. Gullna
reglan um að koma vel fram við aðra er mjög góð. Allt sem þér viljið að aðrir menn gjöri
yður, það skuluð þér og þeim gjöra. Jesús var hjálpsamur og ekki hræddur við álit annarra.
Fræðslan í vetur hefur kennt mér hvað dagarnir þýða, hvað gerðist til dæmis á föstu-
daginn langa eða á jóladag. Þetta er bara búið að vera mjög gaman, margt skemmtilegt gert
eins og að fara í Vatnaskóg saman. Prestarnir eru mjög skemmtilegir. Ég hlakka mjög til
veislunnar, það verður kökuveisla og kökuskreytingaþema í bleikum lit og regnbogalitum.
Amma Þórunn ætlar að baka aðaltertuna. Ég og frænka mín ætlum að hjálpa til. Þetta
verður svona eiginlega allt heimagert held ég og það kemur fullt af fólki. Ég held ég verði í
hvítum samfestingi, er samt ekki alveg búin að ákveða það. Mamma greiðir mér en hún er
hárgreiðslumeistari, mjög klár. Ég verð með krullur og fléttur en við eigum eftir að ákveða
það saman. Kannski verð ég með eitthvað smá í andlitinu, fæ gelneglur en samt vil ég vera
náttúruleg. Ég ætla að hafa gaman og njóta dagsins.“
Kristján Pétur Ástþórsson:
„Gullna reglan
er góð“
„Ég trúi á Guð og vil hafa hann
inni í lífi mínu. Þegar ég var lítill
þá voru mamma og pabbi að
kenna mér bænir þegar ég var að
fara að sofa til að minna mig á að
Guð væri með mér. Það hjálpar
mér að komast í gegnum hluti
og ég veit að Guð vakir yfir mér.
Ég er búinn að læra mjög mikið
um Jesú og hvernig við getum
hagað okkur við fólk. Gullna reglan er góð. Mér finnst ég farinn að fatta hvernig allt tengist
í lífinu. Jesús átti auðvelt með að fyrirgefa öðrum og hann var besta útgáfan af manneskju.
Ég hef lært margar ráðgátur og dæmisögur í vetur í fermingarfræðslunni. Það er búið að
vera mjög gaman að læra allt. Ég er spenntur fyrir fermingardeginum og veislunni með
fullt af fólki. Ég mun örugglega halda ræðu. Við mamma og pabbi erum búin að vera að
plana veisluna sem verður matarveisla. Við gerum þetta saman. Ég fékk mér jakkaföt og
verð í þeim. Þetta verður skemmtilegur dagur.“
Fjóla Margrét Viðarsdóttir:
„Að verða betri
manneskjur“
„Sko, þegar ég var yngri þá var
amma alltaf að fræða mig og hún
vissi allt. Mér fannst það bara
mjög spennandi að heyra um Jesú.
Amma kenndi mér Faðir vorið og
sagði mér sögur af honum. Ég trúi
100% á Guð. Jesús var rosalega
góð manneskja og gerði allt fyrir
alla, hvort sem þeir voru góðir eða
slæmir. Hann er góð fyrirmynd um hvernig við eigum að vera við aðra. Mér finnst mjög
áhugavert að læra um líf Jesú. Ég sýni öllum virðingu og vil fá virðingu. Mér finnst ferm-
ingarfræðslan kenna okkur hvernig við getum orðið betri manneskjur. Ég hlakka mikið til
fermingardagsins og mig langar að hafa fullt af kökum, ég er bara þannig. Ég hlakka til að
sjá frændsystkini mín í veislunni og ég vona svo innilega að Covid haldi sig á mottunni.
Vinkona mín reyndi þrisvar að halda fermingarveislu í fyrra en svo gáfust þau upp. Ég
verð í ljósbleikum kjól á fermingardaginn og í hvítri kápu, með kross um hálsinn og með
kross armband. Ég er að pæla í því hafa hárið krullað og í smá snúð að aftan og vera með
blóm í hárinu. Annars ætla ég að vera náttúruleg, ekki neitt máluð í framan.“
Marta Eiríksdóttir
martaeiriks@gmail.com
Ljósmyndir: Marta Eiríksdóttir og JPK
16 // vÍkurFrÉttir á suðurNEsJuM Í 40 ár