Náttúrufræðingurinn

Volume

Náttúrufræðingurinn - 2020, Page 41

Náttúrufræðingurinn - 2020, Page 41
Tímarit Hins íslenska náttúrufræðifélags 261 ALMENNT UM STARA Starategundin á Íslandi, Sturnus vulgaris vulgaris, (2. mynd) er víða algeng. Náttúruleg útbreiðsla er frá Mongolíu í austri til Íslands í vestri en að auki hefur starinn verið fluttur til Ástr- alíu, Nýja-Sjálands, Norður-Ameríku, ýmissa eyja í Karíbahafi, til Mexíkó, Argentínu, Suður-Afríku og til Fídji- eyja. Tegundin er staðfugl í Evrópu vestan- og sunnanverðri, og í Suðvestur- Asíu, en stofnar í norðausturhluta Asíu eru farfuglar sem fljúga bæði suður og vestur þegar haustar og dveljast þar yfir veturinn. Þannig koma til dæmis hund- ruð þúsunda ( jafnvel milljónir) fugla til Englands til vetrardvalar.2 Starar hafa því dreifst víða og orðið ágeng tegund í mörgum löndum. Þekkt- ast er hversu hratt þeir fjölguðu sér í Bandaríkjunum eftir að 100 fuglum var sleppt fyrir um 130 árum í Central Park í New York. Vegna hins mikla fjölda í Bandaríkjunum eru starar þar álitnir plága – sem veldur óþrifnaði í borgum, aukinni smithættu vegna ýmissa sníkla sem þeir bera, samdrætti í uppskeru og fækkun innlendra fugla sem hafa tapað varpstöðum sínum í samkeppni við starana.5 Búsvæði stara eru opin svæði á gras- lendi, tún og engi, skógar og svo eru þeir einnig víða í þéttbýli. Þeir eru fyrst og fremst skordýraætur en éta líka önnur liðdýr og orma, sem og korn og ávexti. Þeir leita í fjörur eftir æti, sömuleiðis í öskuhauga og skólpræsi.6 Starar gera gagn með því að halda niðri óæskilegum skordýrum en mikil fjölgun staranna í mörgum löndum hefur víða orðið til þess að fækkað hefur í innlendum stofnum sumra fuglategunda. Í Evrópu hefur störum þó fækkað undanfarna áratugi eins og mörgum öðrum tegundum fugla og þá sérstaklega skordýraætum, og er aðalástæðan sú að gengið er á búsvæði þeirra.2,7 Tegundin er mjög félagslynd (3. mynd). Starar eru þekktir fyrir hóp- myndun (e. murmurations) þar sem fuglarnir sýna listir sínar þegar degi er tekið að halla og þeir eru að safnast á náttstað.8,9 Segja má að þetta mikla sjónarspil sé eitt af undrum náttúr- unnar. Þúsundir ( jafnvel upp í milljón) fuglar safnast saman og sýna ótrúlegar fluglistir þar sem sveimurinn virð- ist hreyfast sem heild en jafnframt í bylgjum sem orsakast af því að fugl- arnir fljúga mishratt innan hópsins og þéttleiki þeirra breytist í sífellu. Sveimurinn skiptist sífellt upp í minni hópa sem svo sameinast aftur og að lokum leysist stóri hópurinn upp þegar fuglarnir setjast á jörðina, í tré eða á mannvirki. Á norðurhveli eru svona hópar einkum áberandi á haustin. Fuglarnir safnast saman af stórum svæðum, mest síðdegis, og setjast svo á ákveðna hvíldarstaði, gjarnan í grenilundum eða háum byggingum.6 Þekktasti staðurinn í Reykjavík er í Skógræktinni í Fossvog- inum, í svokölluðum Svartaskógi þar sem þúsundir stara safnast saman rétt fyrir sólsetur á haustin og veturna. Nýleg samantekt10 þar sem gögn frá mörgum löndum voru greind bendir til að þessi hegðun sé fyrst og fremst viðbrögð við hættu, því það að vera í stórum og hreyfanlegum hópi minnkar líkurnar á að lenda í klóm ránfuglanna. Í annarri rannsókn11 kom í ljós að upp- runi bylgnanna sem myndast í hópnum tengdist beint förufálka í veiðihug, og að afránshættan minnkaði í réttu hlutfalli við það hversu miklar bylgjurnar voru. Á Íslandi settust starar fyrst að í Hornafirði um 1940, byrjuðu að verpa í Reykjavík upp úr 1960 og hafa síðan breiðst út víða um land. Mest er af þeim á Suðvesturlandi, einkum í þéttbýli.6 Starinn er staðfugl og talið er að í stofn- inum séu nú um 10 þúsund pör.6,12 Á vet- urna fjölgar í stofninum því þá bætast í hann farfuglar.13 3. mynd. Starasveimur yfir Ingólfsfjalli 14. ágúst 2017. Í hópnum eru 1307 starar, sennilega allur Selfossstofninn. – Starling murmuration in S-Iceland. Ljósm./Photo: Jóhann Óli Hilmarsson.

x

Náttúrufræðingurinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.