Náttúrufræðingurinn

Volume

Náttúrufræðingurinn - 2020, Page 62

Náttúrufræðingurinn - 2020, Page 62
Náttúrufræðingurinn 282 Ritrýnd grein / Peer reviewed Hálendið í hugum Íslendinga 2. hluti: Hugmyndir og viðhorf Íslendinga til víðerna Rannveig Ólafsdóttir og Anna Dóra Sæþórsdóttir Áhersla á verndun víðerna hefur farið stigvaxandi á opinberum vettvangi hér á landi síðastliðin ár. Í lögum um náttúruvernd nr. 60/2013 og í landsskipulags- stefnu 2015–2026 er þessi áhersla ítrekuð. Í landsskipulagsstefnunni er sveitar- félögum sem land eiga að miðhálendinu meðal annars gert að útfæra stefnu um verndun víðerna í skipulagsáætlunum sínum. Til grundvallar þeirri stefnu á að liggja kortlagning á umfangi víðerna. Skilgreining á hugtakinu víðerni hefur hins vegar lengi verið umdeild, einkum þar sem bæði viðhorf og upplifun fólks um víðerni er mjög mismunandi. Það getur því reynst torvelt að ákvarða hvað nákvæmlega á að varðveita. Meginmarkmið þeirrar rannsóknar sem hér er skýrt frá var að meta hugmyndir og viðhorf Íslendinga til víðerna. Spurn- ingakönnun var send á úrtak landsmanna og var þar meðal annars stuðst við ákveðnar sviðsmyndir. Hver þátttakandi valdi milli mynda sem hann taldi passa best og síst við hugmynd sína um víðerni. Niðurstöður sýna að ummerki um mannvist í hvaða mynd sem er, fyrir utan fornminjar, dregur úr víðernisupplifun Íslendinga. Í hugum þeirra felst gildi víðernis einkum í tækifæri til að upplifa kyrrð og ró á svæðum með fábrotna og einfalda innviði. Niðurstöður sýna enn fremur að í hugum flestra eykur formleg staða sem náttúruverndarsvæði á gildi víðernis, en orkuvinnsla og uppbygging innviða og þjónustu við ferðamenn skerðir gildi víðernis. INNGANGUR Víða um heim fer verðmæti víðerna (e. wilderness) vaxandi, meðal annars vegna þess að sífellt fleiri ferðamenn hafa áhuga á að sækja slík svæði heim, en einnig vegna þess að víðernum fækkar ört á heimsvísu. Efnahagslegir þættir eru því í vaxandi mæli notaðir sem rök fyrir varðveislu víðerna.1,2 Viðhorf manna til víðerna og upplifun af því hvað er víðerni er á hinn bóginn mjög mismunandi3 og því getur reynst erfitt að skilgreina hvað nákvæmlega á að varðveita. Erlendis hefur umræðan um hugtakið víðerni og skilgreiningu þess staðið lengi og fjöldinn allur af greinum og skýrslum verið ritaður án þess að sameiginleg alþjóðleg skilgrein- ing hafi náðst.4 Þessi staðreynd sýnir hversu flókið og umdeilt hugtakið er. Hvergi getur maður eins hjartanlega og eins fullkomlega sökkt sér niður í að njóta náttúrunnar og uppi á fjöllunum. Í byggð- inni rekur maður sig alltaf á mannaverk og mannabýli, og það er ekki trútt um stundum, að manni finnist þess konar smásmíði hálft um hálft eins og einhvers konar blettir á náttúrunnar stóru bók, eins og náttúran væri hreinni og svipmeiri, ef væru þau ekki.* * Gestur Pálsson, 1970. Sagan af Sigurði formanni, Almenna bókafélagið, Reykjavík. 239 s. Náttúrufræðingurinn 90 (4–5) bls. 282–293, 2020

x

Náttúrufræðingurinn

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Náttúrufræðingurinn
https://timarit.is/publication/337

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.