Morgunblaðið - 02.01.2021, Side 66
66 MORGUNBLAÐIÐ TÍMAMÓT 2.1. 2021
Ég sit á hörðum skrifstofustól sem ég keypti í
vor þegar það var ljóst að ég yrði að koma
mér upp skrifstofuaðstöðu heima við. Þetta er
ódýrasta týpan úr Ikea og þó að hann hafi
dugað ágætlega þá er eins og bólstrunin í
sætinu hafi hreinlega horfið þannig að ég sit á
hörðu bretti og finn fyrir súlunni í miðjunni
undir miðjum sitjanda mínum. Ég vona að
sætið láti ekki undan þannig að ég sitji á súl-
unni einni en það væri kannski eftir öllu á
þessu mjög svo sérstaka ári. Ég finn léttan
verk í bakinu, líklega vöðvaspennu eftir álags-
tíma í námi og starfi. Ég hef stússast í ýmsu í
haust, lagt allt sem ég á í sölurnar til þess að
standa mig vel á mínu lokaári í klínískri sál-
fræði í háskólanum, verið í starfsþjálfun á
Landspítalanaum, stýrt Bataskólanum í
skertu starfshlutfalli, skrifað áramótaskaup,
leikið í sjónvarpsþáttum, haldið fyrirlestra og
uppistand, reynt að vera þokkalegur faðir
(viðmiðið er þokkalegur), reynt að muna eftir
því að hringja í pabba og mömmu við og við
og reynt að koma vel fram við eiginkonu
mína, látið hana vita hvað ég elska hana og
svo hef ég reynt að stunda útihlaup líka svo
ég verði ekki of líkamlega slappur og frá-
hrindandi. Útlitið skiptir mig miklu máli, jafn-
vel þó að það sé ekki lengur upp á marga
fiska. Ég er ekki einmana en samt set ég
bangsa út í glugga. Stundum næ ég ekki al-
veg andanum, sérstaklega þegar ég óttast að
standa mig ekki í öllum þessum hlutverkum.
Þá finn ég tíma til þess að setjast á mýkri stól
og æfa öndun og núvitund. Svo hef ég verið
að rifja upp skákina eftir að hafa horft á sjón-
varpsþætti um skákkonu, teflt við símann
minn og yfirleitt tapað en stundum líka unnið,
ef ég stilli styrkleikastigið nógu lágt. Maður
þarf að stefna lágt í lífinu, annars tapar mað-
ur á hverjum degi. Svo reyni ég að fylgja öll-
um viðmiðum og fyrirmælum yfirvalda. Geng
með grímu í vinnunni, spritta mig reglulega,
heilsa engum, faðma engan nema syni mína
og sonarson sem virða ekki regluna um að
faðma ekki neinn, hjálpað fólki að takast á við
kvíða en er sjálfur stundum kvíðinn. Ég veit
ekki af hverju ég er kvíðinn, sem er auðvitað
óásættanlega ófaglegt fyrir verðandi sálfræð-
ing. Nú veit ég allt um veirur og bakteríur,
bóluefni og veldisvöxt. Þetta eru ekki upplýs-
ingar sem ég hef nokkru sinni sóst eftir. Ég
forðaðist náttúrufræði í menntaskóla og
skráði mig í eðlisfræðideild eingöngu til þess
að þurfa ekki að lesa um veirur og amöbur og
frumulífæri, osmósu og lífefnakeðjur. Skóla-
gangan einkenndist af forðun frekar en
áhuga. En núna veit ég allt um þetta. Og ég
veit að ég er 90% veirur og bakteríur, 5%
mosi og 5% misskilningur. Ég er gangandi
veiru- og bakteríubú. Ég reyni að taka ábyrgð
á minni þarmaflóru en ég óttast að þarmaflór-
an beri ábyrgð á mér. Afsakið hvað ég er
ófullkominn, segi ég stundum við heiminn.
Stundum fæ ég bakflæði á kvöldin, reyni að
kenna streitunni um en sannleikurinn liggur í
mataræðinu og ásókn minni í draslfæði.
Draslið er mitt kókaín. Ég finn til í iljunum af
því að ég er of þungur fyrir þær, þær eru að
kvarta og senda mér skilaboð um að hlífa sér.
Stundum fæ ég hausverk en hann tengist því
að ég þoli ekki ilmvötn. Ég fæ ekki hausverk
af svitalykt, ekki að ég elski svitalykt, hún á
bara betur við mig en ilmvatn. Kannski er
hægt að skilgreina persónu mína þannig að ég
sé meira í ætt við svitalykt en ilmvatnsilm.
Ég verð að taka það í sátt alveg eins og mað-
ur verður að taka sjálfan sig í sátt. En ég er
hvorki pungfýla né táfýla og ég er ekki
mygla, ég er heiðarleg svitalykt, þannig verð
ég skilgreindur í minningargreinunum.
Næsta ár verður algjört himnaríki. Út úr
marglitum blokkarbyggingum munu heyrast
setningar eins og: Fyrirgefðu mér bróðir og
Ég stend með þér systir. Veðrið verður betra
og daglega munum við fá fréttir af hundum
(stórum, ekki smáhundum) sem hafa á ein-
hvern óskiljanlegan hátt lært að hlæja upp-
hátt. Fuglarnir munu hækka lögin sín um tví-
und og fólk klæðast appelsínugulum fötum,
vegna þess að appelsínugult er blanda af
rauðum sem er litur ástarinnar og gulu sem
er litur vonarinnar. Ég léttist um 20 kíló og
fæ spékoppa, það verður engin magapína,
enginn kláði í endaþarmi og þegar fólk kaupir
skó þá munu þeir einfaldlega passa og nýir
skór munu ekki skapa hælsæri. Þetta er
kannski frekar jákvæð framtíðarsýn en hey,
má maður ekki láta sig dreyma?
Líkurnar á því að árið 2021 standi undir
væntingum eru 1 á móti 1014 [tíu í fjórtánda
veldi] en 1014 er áætlaður fjöldi tenginga
taugafrumna í heilanum. Fyrir þá sem hræð-
ast stærðfræði má orða þetta þannig að lík-
urnar á því á árið 2021 standi undir vænt-
ingum séu litlar. Ástæðan er fyrst og fremst
ég. Ég hef oftar en ekki klikkað á hlutunum
og það er ekkert sem bendir til þess að ég
hafi lært neitt á þessu ári sem er að líða sem
breytir því. Ég er eins og lélegasti pókerspil-
ari í heimi. Svona maður í gervileðurjakka
með aðeins of stórt nef og kvíðafulla barta
sem vekur frekar hlátur þegar hann gengur í
salinn og fólk hvíslast á um í pásunni: Hvað er
hann að pæla? Hann er hræðilegur í póker.
Hvernig dettur honum í hug að hann komi til
með að vinna allt í einu núna?
Einhvern veginn rúllar þetta samt áfram af
gömlum vana. Við erum svolítið eins og mosi
sem hefur áhyggjur af því að komi aldrei
sumar aftur. (Það eru óþarfa áhyggjur, sum-
arið kemur einu sinni á ári að meðaltali og
áhyggjur breyta engu um það). Ég ætla mér
ekki stóra hluti á næsta ári, en samt jú, ég
hefði áhuga á því að reyna að vera 5% minna
pirrandi. Það er verðugt markmið sem margir
yrðu þakklátir fyrir. Ef mér tekst líka að
hlæja 3% oftar og 0,5 desibili hærra þá væri
ég fullkomlega sáttur. Veiran eltir okkur inn í
nýja árið og ég kem til með að elta sjálfan
mig. Enginn losnar við sjálfan sig, ekki svona
í fljótu bragði að minnsta kosti.
Þegar ég var ungur maður og bjó einn í
herbergjum eða varla íbúðarhæfu húsnæði
sagði mér einhver að það væri róandi að baka.
Ég hafði engar forsendur til þess að rengja
það. Og mér var gefin bók sem heitir Af bestu
lyst – uppskriftir að hollum og ljúffengum
réttum. Ég sérhæfði mig í tveimur brauðum:
Annars vegar morgunbollum og hins vegar
sólkjarnabrauði. Ef allt fokkast upp á nýja
árinu þá get ég huggað mig við það að ég get
alltaf bakað brauð og slegið þar með tvær
flugur í einu höggi: Slegið á óþarfa tauga-
veiklun í sjálfum mér og slegið um mig með
brauðgerðinni og sagt við aðra, hefur þú bak-
að brauð í dag? Þetta sýnir að maður er ekki
eins ósjálfbjarga og glataður og maður held-
ur. Maður er alltaf 15% skárri en maður
reiknar með. Samúð mín með árinu er tölu-
verð.
Ljósmynd/Þorsteinn
Morgunbollur eru svarið
Líkurnar á því að árið 2021 standi undir væntingum eru 1 á móti 1014 [tíu í fjórtánda veldi] en 1014 er áætlaður
fjöldi tenginga taugafrumna í heilanum. Fyrir þá sem hræðast stærðfræði má orða þetta þannig að líkurnar
á því á árið 2021 standi undir væntingum séu litlar
ÞORSTEINN GUÐMUNDSSON
er leikari, rithöfundur og verkefnisstjóri.
Ef allt fokkast upp á nýja árinu þá get ég
huggað mig við það að ég get alltaf bakað
brauð og slegið þar með tvær flugur í einu
höggi: Slegið á óþarfa taugaveiklun í sjálfum mér
og slegið um mig með brauðgerðinni og sagt við
aðra, hefur þú bakað brauð í dag?
TÍMAMÓT: ENGINN LOSNAR VIÐ SJÁLFAN SIG, EKKI SVONA Í FLJÓTU BRAGÐI AÐ MINNSTA KOSTI
’’