Morgunblaðið - Sunnudagur - 14.03.2021, Page 10

Morgunblaðið - Sunnudagur - 14.03.2021, Page 10
VIÐTAL 10 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 14.3. 2021 Nú er maður kannski farinn að hljóma eins og öldungur, kannski ég sé pólitískur öldungur, ég er búinn að vera í þessu í 35 ár …“ Lærdómar á sjó og ráðuneyti Þú byrjar náttúrlega bráðungur. „Jújú, mér lá á og ekki bara í pólitíkinni, ég var tæpra 16 ára þegar ég fór fyrst á togara. Við erum sem betur fer ekki að senda svo ungt fólk á sjó lengur, en það var samt sem áður mjög þroskandi, kenndi manni að vinna og kenndi manni leikreglurnar. Á sinn hátt gerð- ist það svo í stjórnmálunum líka.“ Það hefur þá verið lærdómsríkt þegar þú verður ráðherra 2013 og það ekki í auðveldu ráðuneyti? „Jú, það má alveg segja það, en mér leið mjög vel í heilbrigðisráðuneytinu, þótt það reyndi oft á. Maður er svo nálægt fólki í því og allt öðru vísi átök en t.d. hér í þessu ráðuneyti. Hér stýrast þau mjög af ólíkum hagsmunum, en í heilbrigðismálum snúast málin meira um líðan og tilfinningar náungans. Kvikan er nær þér og það kallar á aðra nálgun. Þetta var mjög heillandi og gefandi. Verkefnin auðvitað af ýmsum toga, allt frá fyrstu áætlun á sviði geðheilbrigðismála yfir í að leggja drög að byggingu nýs Landspítala. Ég nefni líka verkefni eins og að gerbreyta og einfalda greiðslukerfi sjúklinga, sem bæði dregur úr kostnaði og álagi á okkar veikasta fólk. Við breyttum líka fjármögnunarkerfi heilsugæslunnar, þannig að fjármagn fylgdi sjúklingi, buðum út rekstur tveggja nýrra heilsugæslustöðva, enda ekki vanþörf á. Og þetta, að skjólstæðingur heilsugæslunnar ráði fjárveitingum til viðkomandi starfsstöðvar, gerbreytti hugsun kerfisins á þann veg, að það sótti í að þjónusta fólk í stað þess að bíða eftir því að það kæmi til þeirra. Að kerfið væri fyrir fólkið, ekki öfugt.“ Þú fórst líka í miklar kerfisbreytingar. „Jú, ég sameinaði heilbrigðisumdæmin. Ég held ég hafi fækkað ríkisforstjórum um átta, sem var ekki alls staðar vinsælt þá, en ég held það vilji enginn vinda ofan af því núna.“ Arfur og breytingar Svo fórstu í menntamálaráðuneytið, var það ekki gaman fyrir gamlan kennara? „Ég stoppaði nú stutt þar, innan við ár, en það var mjög gaman. Ég þekkti til í ráðuneyt- inu sem sveitarstjórnarmaður, en lærði mikið af því að koma þangað. Þetta er fjölbreytilegt og skemmtilegt svið, en þar vannst mér ekki tími til veigamikilla breytinga. Þar eins og hér tekur maður auðvitað margt í arf.“ Var erfðagóssið hér í landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu mikið? „Jú, maður erfir eitt og annað. Ég nefni gömul deiluefni eins og 16 ára gamalt mál um ófryst kjöt eða dómsmál um makrílkvóta, deil- ur milli veiðiréttarhafa og fiskeldisfyrirtækja o.s.frv. Það eru bara örlög þeirra ráðherra sem hér sitja að reyna að sigla þessu þann veg að það sem sé sem mest sátt um niðurstöðuna, en það verða seint allir sáttir.“ Nú eru ráðuneytin ekkert annað en skrif- stofur ráðherra, en ef þú ert að fá svona margt í arf, ráðuneytið er fyrir löngu búið að marka stefnu, getur það ekki verið óþægilegt? „Jú, það getur verið óþægilegt í málum sem maður hefur aðra pólitíska afstöðu til. En það er ekkert sem kemur í veg fyrir að það sé skipt um stefnu, ef þar að baki er pólitísk samstaða. Það getur hins vegar tekið óheyrilega langan tíma og maður þarf að velja sér slagina. Meðal annars af þeirri ástæðu lagði ég höf- uðáherslu fyrst eftir að ég kom í ráðuneytið á að einfalda regluverkið. Við hentum 12-1300 reglugerðum út úr safninu og einhverjum tug- um lagabálka, fækkuðum stjórnsýslunefndum og ótrúlegt en satt, þá gengur allt ennþá.“ Magn og gæði Betur má ef duga skal. „Alveg rétt, því þótt það sé langt liðið á kjör- tímabilið, þá erum við ekki hætt að grisja. Oft á tíðum snýst þetta um hve lestað kerfið er orðið af þeim verkefnum sem á það er hlaðið. Við ættum að fara varlegar í lagasetningu, vanda hana og hafa frekar færri lög en fleiri. Það má nefnilega gæta sín á því að meta verk ráðherra af þeim fjölda mála sem þeir koma í gegn um þingið. Ég er ekki á þeim stað. Gæðin skipta meiru en magnið og það er betra að lagaramminn sé einfaldur frekar en flókinn.“ Það hjálpar varla í aðdraganda kosninga, að slá máli á stefnuna eða meta árangurinn með því að telja fjölda mála eða horfa á útgjöldin eins og meira sé alltaf betra? „Nei og það er galið að gera það. Það er þó tilhneigingin af því að umræðan verður oft yfirborðsleg. Mótast stundum meira af tilfinn- ingum en staðreyndum. Tökum bara þetta sívinsæla mál, veiðigjöld- in. Við gerðum grundvallarbreytingar á þeirri gjaldtöku 2018, m.a. með því að færa álagn- inguna nær í tíma og færa útreikninga gjalds- ins frá veiðigjaldsnefnd, sem var skipuð af ráð- herra og ég lagði niður, og til skattsins. Það er bara bundið í lög frá Alþingi hvernig þau eru ákvörðuð og skatturinn reiknar þau svo út. Þessi litla en veigamikla breyting virðist ekki hafa skilað sér út í umræðuna, af því að fólk ræðir um álagningu veiðigjalda á sjávar- útveginn eins og það sé ekki lögbundið, heldur geðþóttaákvörðun eftir því hvernig liggur á blessuðum ráðherranum. Umræðan um innflutning á ófrystu kjöti getur verið svipuð, eins og þar hafi ráðherrann val. Það liggja einfaldlega fyrir dómar um það að íslensk stjórnvöld hafi ekki uppfyllt þær skuldbindingar sem Alþingi samþykkti á sínum tíma. Þetta er ákvörðun sem var upphaflega tekin fyrir 15 ár- um en menn skirrðust við að framfylgja henni með þeim afleiðingum að það lá fyrir dómur Hæstaréttar um ótakmarkaða skaðabótaskyldu íslenska ríkisins. Það kom í minn hlut að bregð- ast við þessari stöðu og ljúka þessu máli. Í fiskeldinu logaði allt þegar við komum hingað inn, en við erum búin að endurskoða löggjöfina þannig að okkur hefur tekist að skapa greininni skilyrði til að byggjast upp á vísindalegum grunni. Umræðan er fyrir vikið orðin yfirvegaðri en áður. Við eigum að geta nýtt gæði landsins og sjávarins til þess að skapa verðmæti en af fyllstu ábyrgð.“ Umræða á villigötum Gaman að þú skyldir nefna það! Nú er þing- maður Reykvíkinga, Katrín nokkur Jakobs- dóttir, búin að leggja fram tillögu um auðlinda- ákvæði í stjórnarskrá. Hver er skoðun ráðherrans á því? „Ég get vel sætt mig við ákvæðið eins og það er sett fram þarna, geri það vissulega. Þetta er engan veginn það versta sem ég hef séð um þessi efni. Mér finnst hins vegar umræðan um sjávar- útveg stundum vera komin handan raunveru- leikans. Þetta er atvinnugrein sem hefur alltaf skilað sínu til samfélagsins og lagði í raun grunninn að velsæld og velferð þjóðarinnar. Hún leggur til gríðarleg verðmæti. Við sáum eftir hrun hverju sjávarútvegurinn skilar, við sjáum það aftur núna í kórónukreppunni að greinin heldur í horfinu og skilar sínu inn í samfélagið. Sýnir mikla aðlögunarhæfni og um leið óumdeilda styrkleika íslenska fiskveiði- stjórnunarkerfisins. Hér gösla sumir fram og segja að sjávar- útvegurinn skili engu í sameiginlega sjóði þeg- ar skattaspor sjávarútvegsins er um 80 millj- arðar króna á hverju ári. Umræðan um þessa atvinnugrein virðist því miður oft litast af van- þekkingu eða fordómum.“ Talandi um stórútgerðina. Þú ert fæddur á Dalvík, sjálfur sjómaður, varst á liðinni öld stjórnarformaður Samherja í tvö ár o.s.frv. Þú hefur sætt töluverðri gagnrýni upp á síðkastið í tengslum við Samherja, finnst þér hún ósann- gjörn eða kannski skiljanleg? „Það þýðir í raun ekkert að velta sér upp úr henni, maður snýr ekki tímanum til baka. Ég hef ekkert að fela í þessum málum. Ég gekk fram í því, þegar ég varð ráðherra þessara málaflokka, að draga fram upplýs- ingar og tengsl mín við Samherja. Ég vildi gera algjörlega hreint fyrir mínum dyrum af því ég hef ekkert að fela um það. En ég stjórna ekki umræðunni og þeir sem það kjósa geta málað upp einhverja mynd af andstæðingi sínum sem þeir vilja að fólk trúi. Við því er fátt að gera nema benda á stað- reyndir málsins.“ Heldurðu að það hái þér í þínum störfum sem sjávarútvegsráðherra að hafa þennan bakgrunn, að hafa verið sjómaður, hafa þessi persónulegu tengsl? „Sumum finnst það sjálfsagt. En ef einhver sem tengdur hefur verið sjávarútvegi má ekki vera sjávarútvegsráðherra, getur þá bóndi ekki orðið landbúnaðarráðherra eða læknir heilbrigðisráðherra? Á það að vera krafan að aðeins þeir sem ekki hafa starfað við mála- flokkinn megi koma að honum? Það er auðvit- að alveg galið.“ Kjördæmi og kosningar Ein spurning úr allt annarri átt: Hér í sjáv- arútvegsráðuneytinu eru gömlu kjördæmin enn við lýði hvað varðar skiptingu landsins. Við þekkjum það líka, nú í aðdraganda kosn- inga, að menn skipta landsbyggðarkjör- dæmunum hiklaust í skýrt afmörkuð svæði. Getur verið að það sé eitthvað bogið við kjör- dæmin? „Já. Þau eru of stór. Ég er ekki talsmaður þess að gera landið að einu kjördæmi, en þessi kjördæmaskipan er gölluð. Landsbyggðarkjördæmin eru alltof víðfeðm til þess að þingmenn geti ræktað sam- bandið við það fólk sem þeir eru fulltrúar fyrir. Ég þarf að sinna svæðinu allt frá Siglufirði, austur um og alveg suður til Djúpavogs. Það má heita útilokað að gera það eins og maður vildi, hvað þá fyrir ráðherra. Svo er áherslu- munur milli svæða, þó ekki væri nema vegna landfræðilegra aðstæðna og ólíkra byggð- arlaga.“ Kvarta kjósendur undan þessu? „Ég er skammaður alls staðar fyrir að hafa verið of mikið á einhverjum öðrum stað en ég er staddur á það sinnið,“ segir Kristján og hlær. „En það er alveg rétt, að maður hefur mætt alltof sjaldan á alla staði. Það eru réttmætar ákúrur.“ Fyrst við erum farnir að tala um kjördæmi og kosningar, hvað með þig? Ætlar þú að gefa kost á þér á lista fyrir kosningarnar í haust? „Allt hefur sinn tíma. Ég hef hugsað þetta og búinn að gera það upp við mig að þetta sé orðið gott eftir 35 ára þjónustu í stjórnmálum og ætla því ekki að leita endurkjörs í haust. Ég stend stoltur upp frá þeim verkum, allt frá því ég byrjaði sem bæjarstjóri á Dalvík 1986, á Ísafirði og Akureyri, sem óbreyttur þingmaður og síðar sem ráðherra. Sumum finnst það kannski væmið, en ég meina hvert orð þegar ég segi að ég meti allt það traust sem mér hefur verið sýnt af mikilli auðmýkt og þakklæti.“ Og hvað svo? „Þótt maður sé ekki lengur í brúnni, þá er maður áfram í áhöfninni, verð bara á dekkinu áfram og vinn mín verk. Treysti því að menn stilli upp almennilegum lista, enda fullt af fínu fólki.“ Þú ert ekki gamall maður, 64 ára gamall … „Hvað ég ætli að gera, meinarðu? Ég hef aldrei gert mér neina rellu út af því hvað við tekur, alla mína tíð. Það kemur eitthvað, lífið kemur alltaf til manns.“ Þú ferð ekki bara á netaverkstæðið í fjör- unni heima á Dalvík? „Ja, ég get bætt troll og allt hvað heitir, það er ekki vandamálið. Ég hef aldrei kviðið því að verða verklaus; ég hef aldrei verið verklaus og ætla ekki að fara að taka upp á því núna.“ ’ Umræðan um sjávarútveg fer stundum handan raun- veruleikans. Þetta er atvinnu- grein sem hefur alltaf skilað sínu til samfélagsins og lagði í raun grunninn að velsæld og velferð þjóðarinnar. Skóflan munduð fyrir fyrstu skóflustunguna að menningarhúsinu á Akureyri. Morgunblaðið/Margrét Þóra Kristján Þór ávarpar landsfund Sjálfstæðis- flokksins sigurárið 2013. Morgunblaðið/Ómar Bæjarstjórakandídatar á Akureyri keppa í bjölluspurningum hjá kvenfélaginu Baldursbrá. Morgunblaðið/Kristján Birgir Ármannsson þingmaður Reykvíkinga og Kristján Þór stinga saman nefjum á þingi. Morgunblaðið/Golli Átak hagsmunasamtaka um betri merkingar matvæla innsiglað með handabandi við Friðrik Ármann Guðmundsson, Frikka Meló, yfir kjötborðið í Melabúðinni. Morgunblaðið/Hari

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.