Morgunblaðið - Sunnudagur - 14.03.2021, Page 24
24 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 14.3. 2021
KNATTSPYRNA
22:47FLÝTIVAL FYRIR
BÍÓKVÖLD
LJÓS DEYFÐ
HEIMABÍÓ Í GANG
DYRUM LÆST
Bíókvöld
kerfi virkt
SAMSTARFSAÐILI
Sérsniðið öryggiskerfi fyrir þitt
heimili, enginn binditími.
Ég held að það séu bara tveireða þrír knattspyrnustjórarmeð hærra sigurhlutfall í úr-
valsdeildinni. Það er það sem ég geri,
ég vinn. Ég er hingað kominn til að
færa West Ham sigra og koma liðinu
úr fallsæti.“
Þannig komst David Moyes að
orði þegar hann tók öðru sinni við
stjórn Lundúnaliðsins í árslok 2019.
Hvorki hafði gengið né rekið síðustu
mánuðina undir stjórn Chile-
mannsins Manuels Pellegrinis og
staða Hamranna þröng, þeir voru að-
eins einu stigi fyrir ofan fallsvæðið.
Ýmsir hleyptu brúnum þegar Mo-
yes lét þessi orð falla. Og lái þeim
hver sem vill. Hann var að sönnu far-
sæll sem stjóri Everton í heil ellefu
ár, frá 2002 til 2013 – svo farsæll
raunar að honum var treyst til að
taka við keflinu af landa sínum Sir
Alex Ferguson hjá Manchester Unit-
ed. Það fór eins og það fór. Næstu ár
rann Moyes áfram á rassinum niður
flughála brekkuna. Real Sociedad
sagði honum upp störfum eftir tæpt
ár. Næsti áfangastaður var Sunder-
land sem féll á hans vakt vorið 2017 –
í fyrsta sinn sem Moyes þurfti að
bíta í það súra epli. Eftir það sagði
hann starfi sínu lausu.
West Ham var í ógöngum í kjall-
ara úrvalsdeildarinnar veturinn á
eftir og fékk Moyes að hirðinni í nóv-
ember. Honum tókst að halda liðinu
uppi og vann í leiðinni sinn 200. sigur
í úrvalsdeildinni, aðeins sá fjórði í
sögunni á eftir Sir Alex, Arsène
Wenger og Harry Redknapp. Þann-
ig að okkar maður fer ekki með fleip-
ur; hann vinnur sigra. Eigi að síður
var Moyes ekki boðinn framhalds-
samningur um vorið.
Í því ljósi kom endurráðning hans
til West Ham fyrir rúmu ári mörgum
í opna skjöldu. Aftur tókst Moyes á
hinn bóginn að rétta skútuna af og
stýra henni án teljandi áreynslu upp
í sextánda sæti, að hlið Gleðibank-
ans. Og að þessu sinni fékk hann að
halda áfram með liðið.
Guði sé lof og öllum góðum vætt-
um, ljúka stuðningsmenn West Ham
sundur einum munni enda lið þeirra
ekki fimmta neðst á yfirstandandi
leiktíð – heldur fimmta efst. Og með
leik til góða á liðin fyrir ofan. Vinnist
hann færðust Hamrarnir upp í fjórða
sæti sem myndi skila þeim þátt-
tökurétti í Meistaradeild Evrópu á
næstu leiktíð, í fyrsta skipti í sögu fé-
lagsins.
Piltarnir frá 86
West Ham er að sönnu á framandi
slóðum. Félagið hefur aldrei orðið
enskur meistari en besti árangur
þess er þriðja sætið 1985-86. Leik-
mennirnir úr því liði hafa ákveðna
költstöðu hjá félaginu og ganga í
daglegu tali undir nafninu Piltarnir
frá 86. Má þar nefna Tony Cottee,
Alan Devonshire, Frank McAvennie,
Paul Goddard og Phil Parkes. Enska
bikarinn hefur West Ham unnið í
þrígang, síðast 1980, og Evrópu-
keppni bikarhafa einu sinni, 1965,
eftir frækinn sigur á þýska liðinu
1860 München, 2:0. Útherjinn Alan
Sealey gerði bæði mörkin og Bobby
Moore lyfti bikarnum í leikslok. Þeir
létust báðir langt fyrir aldur fram.
Moore úr krabbameini en Sealey úr
hjartaáfalli, eins og bróðursonur
hans, markvörðurinn Les Sealey,
sem einnig lék fyrir West Ham en þó
lengst af fyrir Luton.
Hvort núverandi lið West Ham
verður framvegis þekkt sem Pilt-
arnir frá 21 mun tíminn leiða í ljós en
virtustu sparkskýrendur hefðu verið
reknir á staðnum hefðu þeir spáð því
fyrirfram að Moyes yrði í toppslag
með lærisveina sína í vetur. Ekkert
lið hefur komið meira á óvart – og þá
erum við að tala um í jákvæðum
skilningi. Um það geta allir verið
sammála.
Allt er því hægt
Í ljósi gengisins í vetur hlýtur West
Ham að setja stefnuna á Meistara-
deildarsæti. Manchester City er auð-
vitað hlaupið á brott með dolluna
sjálfa en það er ekki bara fjórða sæt-
ið sem er laust; vinni West Ham leik-
inn sem það á inni yrði liðið aðeins
tveimur stigum á eftir Leicester City
í þriðja sætinu og þremur stigum á
eftir Manchester United í öðru sæt-
inu. Allt er því hægt.
West Ham sækir Rauðu djöflana
einmitt heim í Leikhús draumanna í
kvöld, sunnudagskvöld, í rétt-
nefndum sex stiga leik. Það sem sig-
ur þar myndi færa Moyes fróun. Og
aldrei hefur hann snúið upplitsdjarf-
ari aftur á Old Trafford.
Enda þótt alltaf sé skemmtilegra
að horfa upp töfluna má West Ham
gæta sín á liðunum fyrir neðan sig.
Everton er aðeins tveimur stigum á
eftir og Tottenham Hotspur, sem
hefur heldur betur verið að hressast
í síðustu leikjum, þremur. Fimm stig
eru í ríkjandi Englandsmeistara,
Liverpool, sem sofa um stund mikl-
um þyrnirósarsvefni.
En hvaða menn eru þetta eigin-
lega sem valdir eru að þessum enda-
skiptum hjá West Ham?
Gamla brýnið Łukasz Fabiañski
er öryggið uppmálað í markinu og
löngu búinn að hrista af sér nafnið
sem áhangendur Arsenal gáfu hon-
um á sinni tíð, Flabbihandski.
Englendingurinn Craig Dawson,
lánsmaður frá Watford, kom sterkur
inn í hjarta varnarinnar um áramótin
og hefur, auk þess að verjast eins og
uxi, skorað þrjú mörk í deildinni og
eitt í bikarnum. Það stórsá á net-
möskvunum eftir skallamark hans
gegn Leeds um daginn. Ítalinn An-
gelo Ogbonna hefur oftast verið hon-
um við hlið en einnig Frakkinn ungi
Issa Diop. Paragvæinn Fabián Bal-
buena er einnig til taks.
Óárennilegt miðjupar
Tékkinn Vladimír Coufal er fyrsti
kostur í stöðu hægri bakvarðar en
hann kom frá Slavíu í Prag í byrjun
tímabilsins. Hinn enski Ben Cress-
well hefur leikið alla 27 deildarleiki
vetrarins í stöðu vinstri bakvarðar.
Á miðjunni heldur varafyrirliðinn
Declan Rice áfram að vaxa og dafna.
Hann hefur heldur ekki misst úr leik
í vetur og kemur vel til álita þegar
Gareth Southgate velur byrjunarlið
sitt fyrir fyrsta leik á HM í sumar.
Slík er staða þessa 22 ára pilts.
Tékkinn Tomáš Soucek myndar
eitt öflugasta miðjupar deildarinnar
með Rice; hefur verið algjör lykil-
maður í liði West Ham eftir að hann
kom frá Slavíu í Prag fyrir rúmu ári,
fyrst sem lánsmaður en var síðan
keyptur. Hann hefur gert átta mörk í
27 deildarleikjum og munar um
minna.
Englendingurinn og fyrirliðinn
Mark Noble hefur leikið minna en
áður á þessu tímabili en reynsla og
leiðtogahæfileikar Hr. West Ham
vega þungt í hópnum – enda félagið
búið að semja við hann til eins árs í
viðbót. Leiktíðin 2021-22 verður
hans síðasta á Lundúnavangi.
Af framliggjandi mönnum má
nefna Spánverjann Pablo Fornals,
Alsíringinn Saïd Benrahma, sem
kom frá Brentford í haust, Argent-
ínumanninn Manuel Lanzini, Úkra-
ínumanninn Andriy Yarmolenko og
Englendinginn Jarrod Bowen. Nú
síðast hefur enski lánsmaðurinn frá
Manchester United, Jesse Lingard,
komið eins og stormsveipur inn í lið-
ið, gert fjögur mörk í sex leikjum.
Fyrsti kostur í fremstu línu er
enska heljarmennið Michail Antonio
sem gert hefur sjö mörk í 17 leikjum.
West Ham gat leyft sér þann munað
að selja Fílabeinsstrendinginn Sé-
bastien Haller til Ajax í janúar enda
hentar hollenska deildin honum af
snemmfengnum vitnisburði líklega
betur en sú enska. Svo sem ekki sá
fyrsti og ábyggilega ekki sá seinasti.
AFP
AFP
Ekki sem West
Hamskipti
West Ham United hefur komið allra liða mest á
óvart í ensku úrvalsdeildinni í knattspyrnu í vet-
ur og eygir í fyrsta sinn von um Meistaradeild-
arsæti undir stjórn endurfædds Davids Moyes.
Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is
Declan Rice, Tomáš Soucek,
Saïd Benrahma og Jesse
Lingard fagna marki gegn
Leeds United á dögunum.
Skotinn David Mo-
yes hefur unnið
þrekvirki með lið
West Ham í vetur.