Morgunblaðið - Sunnudagur - 25.04.2021, Page 4
FRÉTTIR VIKUNNAR
4 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 25.4. 2021
Skoðið fleiri innréttingar á
innlifun.is
Suðurlandsbraut 26 Sími 587 2700
Opið 11-18 virka daga, 11-16 laugardaga innlifun.is ALVÖRU ELDHÚS
Þ
rátt fyrir að enn sé langt í land
með að Íslendingar verði
bólusettir og mesta sótt-
hættan ekki úr sögunni hefur aukins
áhuga á ferðum til Íslands þegar
orðið vart, ekki síst meðal Banda-
ríkjamanna, þar sem bólusetning
hefur gengið ákaflega vel.
Yfirvöld höfðu áhyggjur af því að
maður, sem rauf sóttkví eftir komu
frá Póllandi í lok mars, skuli hafa
valdið hópsmiti meira en tveimur
vikum síðar, svo mögulega hafi veir-
an getað grafið um sig um hríð, án
þess að upp kæmist.
Íbúar í Árbæ hvetja til þess að Ár-
bæjarlón verði fyllt á ný, ekki síst
með tilliti til fuglalífs þar í kring.
Jafnframt er bent á að við fyllingu
lónsins hafi stjórnendur Orkuveitu
Reykjavíkur sniðgengið fjölda laga
og reglna.
Þrautum stúdenta við Háskóla Ís-
lands virðist seint ætla að linna. Nú
er komin fram prófatafla, þar sem
gert er ráð fyrir að nemendur komi
og taki próf. Isabel Alejandra Diaz,
forseti stúdentaráðs, segir að margir
þeirra séu orðnir vanir rafrænu
námi og vilji frekar taka heimapróf.
Fyrirætlanir Reykjavíkurborgar um
stórfelldar hraðatakmarkanir á
nánast öllum götum borgarinnar
mæltust misvel fyrir. Bent var á að
þegar þrengt er að umferð á stofn-
og tengibrautum leiti umferð í aukn-
um mæli út í íbúðargötur.
Eldgosið í Geldingadölum átti
mánaðarafmæli á mánudag. Jarðeðl-
isfræðingar segja það hluta af stærri
atburðarás, sem erfitt sé að segja
fyrir um þróunina á eða hve lengi
muni standa.
. . .
Íslensk erfðagreining kynnti ýmsar
rannsóknarniðurstöður sínar,
tengdar Covid-19. Þar kom m.a.
fram að um þriðjungur fólks fyndi
fyrir einkennum mánuðum síðar,
þótt ýmis langvinn einkenni eins og
skert lyktarskyn gengju til baka.
Þá hefur miklu miðað áfram við
smitrakningu.
Fólk í ferðaþjónustu er mis-
bjartsýnt á sumarið, en það telur
raunhæft að gera ráð fyrir að um
650-800 þúsund erlendir ferðamenn
komi til landsins á komandi sumri.
Ferðavilji er töluverður víða er-
lendis og bókanir farnar að glæðast,
en óvissa talsverð.
Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (AGS)
fer lofsamlegum orðum um efna-
hagsleg viðbrögð íslenskra stjórn-
valda við heimsfaraldrinum, en þar
hafi sterk staða í upphafi hans kom-
ið sér vel. Hins vegar sé óvissa um
efnahagshorfur nokkur og ýmsar
blikur á lofti. Gott er að eiga slíka
sérfræðinga að til þess að segja oss
það.
12 þúsund manns eða svo voru
bólusettir í vikunni, en í henni var
loks hafist handa við að bólusetja 60
ára og eldri. Sóttvarnalæknir hefur
lagt áherslu á að heilbrigðisstarfs-
fólk eða mögulegt heilbrigðisstarfs-
fólk og aðrir þeir, sem hafa átt
hvítan slopp um dagana, hafi algeran
forgang í bólusetningu.
Katrín Jakobsdóttir forsætisráð-
herra og Bjarni Benediktsson fjár-
málaráðherra hafa tekið frumkvæði
um gervigreindaráskorun.
. . .
Ríkisstjórnin kynnti áform um að af-
létta öllum takmörkunum innan-
lands vegna kórónuveirufaraldurs-
ins fyrir 1. júlí. Það byggist á þeirri
forsendu að þá verði lokið bólusetn-
ingu allra yfir 16 ára aldri í landinu.
Gangi það kraftaverk eftir má vel
trúa öðrum.
Eyþór Arnalds gluggaði í skýrslu
Reykjavíkurborgar um afleiðingar
mikilla hraðatakmarkana, sem
áformuð eru, og fann þar tölfræði á
afviknum stað. Samkvæmt henni
munu árlega eitt þúsund mannár
fara í súginn vegna nýrra umferð-
artafa í borginni. Þúsund ár, Dagur
ei meir!
Lilja Alfreðsdóttir menningar-
málaráðherra vill að Danir skili af-
ganginum af íslenskum handritum
til Íslands og sagði 4. iðnbyltinguna
kalla á slíkar fórnir, fornsögunum
yrði að koma á stafrænt form. Aftur?
Héraðsdómur Reykjavíkur dæmdi
Sigurð Andrésson verktaka til að
greiða undirverktaka sínum ríflega
100 milljónir króna vegna vanefnda.
Athygli vekur að verktakinn var
gerður persónulega ábyrgur þrátt
fyrir að þar hefðu hlutafélög í hans
eigu komið við sögu og ábyrgðin því
takmörkuð nema annað verra komi
til.
Samtök atvinnulífsins telja að
breyta verði fjármálastefnu stjórn-
valda, svo mikið hafi breyst und-
anfarin misseri að allar forsendur
séu breyttar.
Kristófer Már Kristinsson, leið-
sögumaður og kennari, lést, 72 ára
að aldri.
. . .
Sumardagurinn fyrsti kom og fór
án sérstaks lúðrablásturs.
Sveitarfélagið Árborg fékk nærri
níu þúsund umsóknir um 52 lóðir,
sem auglýstar voru á Selfossi. Þar
stefnir í 7% fjölgun íbúa á þessu ári,
en um 10-11% fjölgun á ári næstu ár.
Guðni Th. Jóhannesson forseti Ís-
lands og Lilja Alfreðsdóttir
menntamálaráðherra lögðu horn-
stein að Húsi íslenskunnar, án þess
þó að nokkur fyndi að því flatneskju-
lega heiti.
Ný sóttvarnalög voru samþykkt
á Alþingi í skjóli nætur.
Gervigreind er notuð við upp-
steypu meðferðarkjarna Nýja
Landspítalans.
Ríkisútvarpið tapaði 209 millj-
ónum króna í fyrra, sem er nú
bara óvenjuvel sloppið.
Um eitt þúsund manns eru á bið-
listum… eftir því að komast í golf-
klúbba. Að mati færustu sérfræð-
inga er þörf á nýjum 18 holu
golfvelli á sjö ára fresti ekki að
seðja golffíkla landsins.
Þórarinn Sævarsson eigandi
Spaðans lýsti því yfir að hann ætl-
aði sér að setja Domino‘s á haus-
inn á næstu fimm árum. Þeir
hljóta að hafa skilið sneiðina.
. . .
Sóttvarnalæknir er með enn
strangari reglur í smíðum en
nokkru sinni, en þar verða m.a.
skilgreind hááhættusvæði í út-
löndum. Hann og aðrir þeir, sem
fá aukin völd samkvæmt ný-
breyttum sóttvarnalögum, fögn-
uðu þeim mjög og telja mikið
framfaraskref.
Sveitarstjórn Dalabyggðar hefur
samþykkt breytingu á að-
alskipulagi svo heimilt verður að
reisa vindorkuver.
Reykjavíkurborg er að breyta
ásýnd Austurvallar, sem mun
opna hann til muna og auðvelda
næstu búsáhaldabyltingu mikið.
Húsvíkingar hafa ekki getað sofið
yfir spenningi vegna Ósk-
arsverðlaunahátíðarinnar að-
faranótt mánudags, en að sögn
mun hátíðin að miklu leyti hverf-
ast um Húsavík þetta árið.
Lóan var kosin fugl ársins, þótt
hún dvelji hér ekki nema hluta
ársins, enda lostæti.
Vorboðinn ljúfi er þó ekki einn um
hituna lengur, því eimreiðin á
Miðbakka er einmitt sett út í upp-
hafi sumars og vekur vonir um að
sumarið verði snjólétt.
Um sama leyti var blómaker sett
í bílastæði fatlaðra þar skammt
frá, enn ein skemmtileg vorhefð
Reykjavíkurborgar.
Gleðilegt sumar eða þannig
18.4.-23.4.
Andrés Magnússon
andres@mbl.is
Vorinu og sumarkomunni var fagnað með ýmsu móti í vikunni. Til dæmis með þessu blómlega blómakeri, sem komið var fyrir í stæði fatlaðra í Reykjavík.