Morgunblaðið - 10.05.2021, Qupperneq 17
MINNINGAR 17
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 10. MAÍ 2021
✝
Valdimar Ingi-
bergur Jón
Oddur Þórarinsson
fæddist í Reykjavík
19. október 1950.
Hann lést á Lands-
spítalanum 2. maí
2021.
Foreldrar hans
voru Guðrún Krist-
ín Sigurjónsdóttir f.
1920, d. 2018 og
Þórarinn Jónsson f.
1917, d. 1987.
Systkin Valdimars eru 1)
Hólmfríður f. 1942 gift Jóni Þóri
Jóhannessyni. Börn Hólmfríðar
eru Þórarinn, Steindór Kristinn,
Sigurjón, Guðrún Kristín og
stúlka sem lést stuttu eftir fæð-
ingu. 2) Ingibergur Jón Oddur
f.1945 d.1947. 3) Elísabet Guðrún
f.1957. Börn Elísabetar eru
Guðný Björg, Þórunn Kristín,
Bryndís Jenný og Eydís Sjöfn.
Valdimar ólst upp í Reykjavík.
Hann var kennari að mennt og
starfaði sem grunnskólakennari
í Reykjavík, á Þing-
eyri og Eyrar-
bakka. Á sumrin
starfaði hann hjá
Samskip. Síðar
starfaði hann í 35 ár
samfellt hjá Sam-
skip sem launa-
fulltrúi og síðustu
árin sem öryggis-
fulltrúi.
Valdimar sat í
stjórn Óháða safn-
aðarins í Reykjavík í áratugi og
var gjaldkeri safnaðarins í 30 ár.
Útför Valdimars fer fram í
dag 10. maí 2021 frá kirkju
Óháða safnaðarins við Háteigs-
veg í Reykjavík kl. 15. Vegna að-
stæðna í þjóðfélaginu verður ein-
ungis nánustu ættingjum og
vinum boðið að vera viðstaddir
athöfnina en streymt verður frá
henni á:
http://www.ohadisofnudurinn.is/
ingi/
Streymishlekk má finna á:
https://www.mbl.is/andlat
Með sorg og söknuði kveð ég
besta frænda minn.
Engan hefði órað fyrir því að
þetta myndi enda svona, en þú
tókst þessu öllu af miklu æðru-
leysi.
Ég er svo innilega þakklát
fyrir að hafa átt svona góðan
frænda í mínu lífi og barna
minna. Nokkrum dögum áður en
Ingi kvaddi fór ég á spítalann og
Ingi spurði mig út í lífið eftir
dauðann. Við áttum saman langt
spjall og Ingi bað mig að lofa því
að ég keypti mér íbúð og passaði
upp á sjálfa mig. Það lýsir mann-
inum sem hann hafði að geyma,
enda hugsaði hann vel um alla
fjölskyldumeðlimi sína og var
alltaf til staðar. Ég bað hann að
láta mig vita þegar hann væri
kominn í ljósið. Hann skellihló
en lofaði því fyrir mig.
Ingi var stór hluti af lífi fjöl-
skyldunnar og var ætíð boðinn í
allar veislur innan hennar. Hann
mætti í þær allar og það á slag-
inu. Hann kom fjölskyldunni oft
saman og hélt iðulega upp á af-
mælið sitt með pítsuveislum,
sælgæti og ís.
Ingi frændi var talnaglöggur
maður. Á afmælisdögum var
hann iðulega búinn að reikna út
hve marga klukkutíma og mín-
útur hann hafði lifað. Þegar
hann starfaði sem launafulltrúi
hjá Samskipum kunni hann
kennitölur allra samstarfsmanna
utan að.
Þegar hann var yngri fannst
honum mikilvægt að það væru
pylsur í matinn á laugardögum.
Ekki nóg með það heldur þurfti
remúlaðið að vera í dós, en alls
ekki í brúsa. Mamma hans tók á
það ráð að skella remúlaðinu úr
brúsa yfir í dós þegar hann sá
ekki til.
Á laugardögum var einnig
alltaf horft á fótbolta og mátti
varla anda meðan á leiknum
stóð. Það var alltaf svo gaman að
fylgjast með því þegar hans lið
skoraði, því þá spratt hann, þessi
stóri maður, á fætur og öskraði
fagnaðaróp. Það var semsagt líf
og fjör alla laugardaga hjá Inga
og fjölskyldu. Hann smitaði
áhuga á fótbolta út frá sér. Hann
átti skrá um úrslit allra leikja í
ensku deildinni, alveg aftur um
tugi ára.
Hann var tilfinningavera og
einstaklega góður við börnin mín
og annarra fjölskyldumeðlima.
Ingi frændi var alltaf númer eitt
í augum barnanna. Hann gaf öll-
um börnum fjölskyldunnar jóla-
og afmælisgjafir og fengu börnin
óskir sínar uppfylltar.
Þegar ég var unglingur átti
Ingi bláan Ford Cortina sem var
mjög flottur bíll. Eitthvað fannst
okkur lyktin í bílnum orðin skrít-
in og Ingi var búinn að leita alls
staðar og enginn skildi hvað var
í gangi. Ég aðstoðaði Inga við
leitina en þá kom í ljós úldinn
kálhaus, sem hafði fallið úr pok-
anum undir sætið nokkrum vik-
um áður. Fjölskyldan hló að
þessu í mörg ár á eftir.
Margar minningar mínar um
Inga litast af gleði og hlátra-
sköllum, en einhvern veginn
fylgdi hlátur honum hvar sem
hann kom að.
Ég er svo þakklát fyrir hann
Inga. Hann hafði alla tíð mikla
trú á mér og stappaði í mig stál-
inu þegar ég þurfti á því að
halda. Takk fyrir að hafa alltaf
verið til staðar fyrir mig og mína
fjölskyldu elsku frændi. Við
munum sakna þín gífurlega en
minningarnar lifa.
Þín frænka,
Guðrún Kristín.
Hann Ingi frændi minn
kvaddi allt of snemma.
Ingi frændi var einn mesti
fjölskyldumaður sem ég þekki.
Hann missti aldrei af atburðum í
fjölskyldunni og var ávallt mætt-
ur tímanlega í skírnarveislur, af-
mæli, fermingar og hvað annað
sem var í gangi hjá skyldmenn-
um hans. Ingi frændi átti engin
börn en samt má segja að hann
hafi átt hlut í okkur öllum. Öllum
afkvæmum systra sinna tveggja.
Það eru ekki allir ömmubræð-
ur sem fá boð á alla viðburði fjöl-
skyldunnar en það fékk Ingi og
get ég varla ímyndað mér hvern-
ig það verður að hafa hann ekki
lengur með.
Ég kunni að meta það við
Inga að hann hélt iðulega upp á
afmælið sitt og bauð okkur öllum
að koma saman. Hann sá til þess
að fjölskyldan hittist reglulega.
Ingi var talnaglöggur og kunni
alla afmælisdaga fjölskyldunnar
upp á hár.
Það verður kannski ekki sagt
um Inga að hann hafi alltaf verið
með heimilisstörfin á hreinu en
hann kunni að hlæja að eigin
mistökum og var opinskár þegar
kom að þeim. Þær eru þó nokkr-
ar sögurnar sem hann sagði mér
af heimilishaldinu, eins og þegar
hann var að elda mat og gleymdi
sér svo yfir fótboltanum með
þeim afleiðingum að reykskynj-
arinn og þar með allt kerfið í
byggingunni fór í gang.
Ingi var mikill lestrarhestur
og ég minnist þess að hafa eitt
sinn gefið honum bók sem mér
þótti mikið varið í. Ég er nokkuð
sannfærð um að Ingi hafi ekki
verið sammála mér um ágæti
hennar og höfundarins en hann
las þó bókina og kláraði hana
meira að segja á undan mér.
Hann hlúði vel að sínu fólki og
vildi okkur öllum svo hjartanlega
vel.
Elsku Ingi, ég mun sakna þín.
Þín frænka,
Vigdís Fríða.
Elsku Ingi frændi er nú fall-
inn frá eftir hugrakka baráttu
við erfið veikindi. Valdimar Ingi-
bergur, móðurbróðir okkar, var
svo sannarlega einstakur maður
og eigum við margar góðar,
fyndnar og skemmtilegar minn-
ingar um hann.
Okkur eru minnisstæð öll
afmæliskortin sem Ingi gaf okk-
ur í barnæsku en í þau ritaði
hann hvað við værum búnar að
lifa í marga daga og þótti okkur
það mjög merkilegt að vita.
Ingi var mikill fjölskyldumað-
ur þó hann hafi aldrei eignast sín
eigin börn. Hann bjó mestalla
ævi sína með ömmu okkar og
var því okkur sem afi. Hann
mætti í allar veislur, öll jól og
alla páska til okkar og bauð okk-
ur reglulega í sumarbústað
ásamt öðrum ættingjum. Þessar
sumarbústaðaferðir eru okkur
eftirminnilegar en þar spiluðum
við Uno og sögðum draugasögur.
Ingi var ótrúlega góður og
gjafmildur við systrabörn sín og
afkomendur þeirra en fyrir hver
jól lögðumst við systurnar yfir
bókatíðindin svo við gætum látið
Inga frænda vita hvaða bók væri
mest spennandi enda þótti Inga
skemmtilegast að gefa góða bók.
Ingi var mikill bókaunnandi og
þótti sjálfum ekkert betra en að
fá nýjar bækur um jólin og átti
því endalaust mikið af bókum.
Ingi hafði gaman af ræðu-
mennsku og var það ánægjulegt
að fá að sjá hann blómstra í
ræðusamtökunum Powertalk
þegar hann var félagi þar í nokk-
ur ár. Hann mætti í allar afmæl-
isveislur í fjölskyldunni og var
duglegur að heiðra fólk með
ræðuflutningi á stórviðburðum
og flutti sérstaklega fallega
ræðu í brúðkaupi Bryndísar.
Hann var einnig duglegur að
halda upp á afmælin sín og hélt
stórar, flottar veislur á stóraf-
mælum. Okkur þótti því mjög
sorglegt þegar hann varð að
fresta veislunni í tilefni sjötugs-
afmælis síns síðasta haust sök-
um Covid-samkomutakmarkana.
Sú veisla var því miður aldrei
haldin.
Ingi var rosalegur íþrótta-
áhugamaður og mikill stuðnings-
maður sinna manna. Á seinni ár-
um lagði Ingi stund á golf og
ferðaðist mikið með systrum sín-
um.
Þegar við setjumst hér niður
og hugsum til baka er þakklæti
okkur efst í huga. Ingi var góður
maður, heiðarlegur, sanngjarn
og traustur. Hann mun alltaf
eiga sérstakan stað í hjarta okk-
ar.
Kom, huggari, mig hugga þú,
kom, hönd, og bind um sárin,
kom, dögg, og svala sálu nú,
kom, sól, og þerra tárin,
kom, hjartans heilsulind,
kom, heilög fyrirmynd,
kom, ljós, og lýstu mér,
kom, líf, er ævin þver,
kom, eilífð, bak við árin.
(Valdimar Briem)
Guðný Björg, Þórunn
Kristín, Bryndís Jenný og
Eydís Sjöfn.
Elsku Ingi frændi. Kveðju-
stundin er runnin upp og kom
allt of fljótt. Það er erfitt að
skrifa þessi orð því þú hefur alla
tíð átt mikilvægan stað í mínu
lífi. Í æsku sofnaði ég út frá sög-
um sem mamma sagði mér um
þig og þau ævintýri sem þú lent-
ir í sem barn. Þegar ég óx úr
grasi varstu ekki einungis
frændi minn heldur myndaðist á
milli okkar náin vinátta og við
áttum mörg sameiginleg áhuga-
mál.
Þú hafðir mikinn áhuga á tón-
list og mín fyrstu kynni af Bítl-
unum voru inni í herberginu
þínu í Gnoðarvoginum. Seinna
meir kynntir þú mig fyrir Queen
sem þú hélst mikið upp á. Í kjöl-
farið fylgdi Billy Joel að
ógleymdri Bonnie Tyler en lagið
„It’s a heartache“ sem hún söng
verður ávallt í huga mínum lagið
hans Inga frænda.
Við höfðum báðir mikinn
áhuga á bókmenntum og þótt þú
hafir einungis verið þrettán ár-
um eldri en ég man ég ekki eftir
jólum öðruvísi en að í pakkaflóð-
inu væri gjöf til mín frá Inga
frænda sem innihélt bók.
Þú hefur því byrjað ungur að
gefa frændsystkinum þínum
bækur. Líklega hefur kennarinn
sem bjó innra með þér ráðið för
og þú viljað tryggja að frænd-
systkinin yrðu bókelsk. Seinna
meir fór ég sjálfur að skrifa sög-
ur og er ég viss um að allar bæk-
urnar sem þú gafst mér í gegn-
um árin hafi stuðlað að því.
Síðasta bók sem ég sendi frá
mér var barnabók byggð á sög-
unum sem mamma sagði mér af
æskuævintýrum þínum og veitti
vinnan við bókina mér ómælda
gleði. Þegar ég gaf hana út á 70
ára afmælisdegi þínum í fyrra og
færði þér að gjöf fann ég sterkt
hversu vænt þér þótti um hana.
Í mínu hjarta er bókin þakklæt-
isvottur fyrir allar ógleymanlegu
stundirnar sem þú hefur gefið
mér með bókagjöfum liðinna ára.
En við áttum ýmislegt annað
sameiginlegt. Við höfðum báðir
gaman af leikhúsi og í mörg ár
sóttum við leikhúsin í félagsskap
hvor annars. Þótt við færum
ekki saman á sýningarnar seinni
árin þá ræddum við oft um það
sem var í gangi hverju sinni.
Það áhugamál sem hins vegar
batt okkur traustustu böndunum
voru íþróttirnar. Við vorum báð-
ir félagar í fótboltaklúbbnum
Madonnu og áttum margar
ógleymanlegar stundir í þeim fé-
lagsskap. Þar verður skarð þitt
aldrei fyllt og þín sárt saknað.
Við vorum einnig báðir Vals-
arar og studdum félagið af ein-
urð þótt þar hafi ég ekki komist
með tærnar sem þú hafðir hæl-
ana enda varst þú án efa stuðn-
ingsmaður Vals númer eitt. Það
snerti mig því djúpt að sjá
hvernig Valsmenn endurguldu
hollustuna og stóðu við hlið þér í
þinni baráttu og hvernig þeir
minntust þín með virðingu þegar
þú varðst að játa þig sigraðan.
Síðustu vikur voru þér erfiðar
en ég dáist að styrknum sem þú
hafðir til að skilja við líf þitt eins
vel og þér var unnt. Síðasta dag-
inn sem þú dvaldir heima sat ég
hjá þér á Skúlagötunni og við
ræddum saman okkar viðkvæm-
ustu mál í fullri einlægni. Þetta
samtal mun ég varðveita með
sjálfum mér alla ævi.
Elsku Ingi frændi, ég vil
þakka þér fyrir alla væntum-
þykjuna sem þú sýndir mér, vin-
áttuna og allar ógleymanlegu
stundirnar. Ég mun ylja mér við
minningarnar þar til við sjáumst
næst.
Þinn frændi og vinur,
Steindór.
Ég kveð í dag Inga frænda.
Við vorum systkinasynir, faðir
hans Þórarinn og móðir mín El-
ísabet komu úr stórum systk-
inahópi sem áttu öll tengingu við
Njarðargötu 27.
Við Ingi vorum frændur,
bestu vinir og samstarfsmenn
hjá Samskipum í áratugi. Þar
kynntist ég honum best og sá
hvaða mann hann hafði að
geyma.
Ingi frændi var einstakur
maður, hann var heiðarlegur og
nákvæmur og sýndi alltaf sam-
starfsvilja og þjónustulund.
Þessir þættir í fari hans komu
sér vel alls staðar og ekki síst
fyrir Samskip þar sem hann
vann lengst við launadeild, sá
um utanumhald og útreikninga
launa og gerði það þannig að
hvorki hallaði á fyrirtækið né
starfsmenn svo rétt væri staðið
að málum samkvæmt samning-
um, sem gerði það að verkum að
mistök við þá vinnu voru fátíð.
Hann mundi allar kennitölur
starfsmanna sem skiptu hundr-
uðum hverju sinni og ávann sér
virðingu og vinskap starfmanna
sem og eigenda fyrirtækisins.
Hann hætti störfum hjá Sam-
skipum vegna aldurs 69 ára
gamall.
Hann var húsbóndahollur og
hjálpsamur með eindæmum og
stóð alltaf með sínu fólki, systr-
um sínum tveimur og fjölskyld-
um þeirra, móður sinni og föður
en hann hélt heimili með þeim.
Þegar faðir hans dó langt um
aldur fram þá bjó hann áfram
með móður sinni þar til hún lést.
En það má ekki gleyma
íþróttafélaginu Val, Ingi var
Valsari í húð og hár og elskaði
fótbolta og þá sérstaklega þegar
Valur átti leik og gæti ég sagt
margar sögur af dálæti hans á
þeim. Ef þeir töpuðu leik þá tók
hann það mjög nærri sér og átti
þá stundum erfitt þegar hann
mætti til vinnu þar sem fjöldi
manns beið þess að geta talað
illa um hans menn og kom það
fyrir að hann missti stjórn á
skapi sínu, með þeim afleiðing-
um að hann átti frekar bágt
þann daginn en að sama skapi
dýrðlega daga þegar þeir unnu
leiki.
Ingi átti marga góða vini hjá
Samskipum sem eyddu með hon-
um stundum utan vinnutíma við
ýmislegt en helst var það á golf-
vellinum þar sem hann naut sín
með þeim og var þá alltaf hrókur
alls fagnaðar í þeim vinahópi.
Ingi frændi hjálpaði mér við
ýmislegt sem ég var ekki nógu
góður í og var það sérstaklega
íslenskukunnátta hans sem ég
leitaði eftir. Hann fór yfir allt
sem ég skrifaði fyrir hönd Sam-
skipa og fjölskyldu minnar til að
ég gæti verið öruggur um að
ekkert væri hægt að finna að
framsetningu og réttritun. Varla
var hægt að finna betri íslensku-
mann en hann og ég man hvað
ég var ánægður þegar hann
hældi mér þegar mér tókst vel
upp við skrif, enda hafði ég lært
mikið af honum.
Ef ætti að lýsa Inga frænda í
fáum orðum að þá væru þau
þessi:
Ljúfmenni, samviskusamur,
vandvirkur, minnugur og vinur
vina sinna, hann var sem sagt
drengur góður!
Það er því mikill missir að
honum en um leið ánægjulegt og
gott að hafa átt hann að og geta
notið samvista við svo góða
manneskju sem Ingi frændi var
og kann ég honum miklar þakk-
ir.
Ég votta systrum hans og
fjölskyldum þeirra og öllum öðr-
um sem þótti vænt um hann
samúð mína.
Blessuð sé minning Inga
frænda.
Finnbogi Gunnlaugsson.
Lífið er mikil óvissuferð og
það má með sanni segja að besta
leiðin til þess að undirbúa sig
fyrir dauðann er að lifa lífinu.
Ingi frændi var einn af þeim
mönnum sem aldrei lenda upp á
kant við samferðamenn sína.
Hann var friðarins maður og
hugsaði um velferð vina sinna og
fjölskyldu umfram allt annað.
Hann lifði einföldu og inni-
haldsríku lífi sem er kannski lyk-
illinn að því að láta sér líða vel.
Hann var einstaklega samvisku-
samur og stóð við allt sem hann
lofaði. Það bar ekki mikið á hon-
um þó svo að líkamsburðirnir
væri miklir en samferðamenn
hans vissu samt alltaf af návist
hans. Dæmi um þetta er þegar
Valur varð Íslandsmeistari í
handbolta árið 1992. Ingi fór á
alla leiki liðsins það árið eins og
venjulega, hann átti sinn stað í
stúkunni þar sem hann sat á öll-
um leikjum. Þegar síðasti leik-
urinn var búinn, Valur meistari
og mikill fögnuður í gangi kom
besti handboltamaður Vals fyrr
og síðar hlaupandi til hans,
faðmaði hann að sér og sagði:
„Við vitum alltaf af þér þarna í
stúkunni.“ Þetta gladdi hjarta
þessa stóra manns.
Þegar ég var barn og ungling-
ur bjó ég stundum í langan tíma
hjá ömmu og afa. Samband okk-
ar Inga var náið og við eyddum
miklum tíma saman. Hann
kenndi mér skák og var alltaf
tilbúinn til þess að taka í spil,
tefla eða spila fótbolta ef því var
að skipta. Vinátta okkar og
frændsemi hélst óslitin alla tíð
enda var hann eins og bróðir
minn í raun og veru.
Ég vann einnig með honum
hjá Samskipum og eru margar
óborganlegar minningar frá
þeim tíma. Vinnusemi hans og
nákvæmni í öllu sem hann gerði
var ótrúleg. Ég leysti hann
stundum af og til þess að ekkert
kæmi honum á óvart eftir fríið
tók ég mynd af skrifborðinu dag-
inn sem hann fór í frí til þess að
ég gæti stillt þessu rétt upp að
því loknu. Heftarinn var á vinstri
hönd og gatarinn á þá hægri.
Það er sárt að kveðja þennan
góða dreng en ég er viss um að
hann er á yndislegum stað í
Blómabrekkunni meðal þeirra
sem næstir honum eru og undan
eru gengnir.
Ég horfi og hlusta á hið himneska tóm
er hugurinn færist mót skýjum.
Sálin hún kveður með seiðandi hljóm
og svífur nær heimkynnum nýjum.
Þórarinn Ívarsson.
Sunnudagurinn 2. maí sl. var
sá fegursti á nýju sumri, gróand-
inn með öllum sprotum sem alls
staðar gægðust upp. Þann sama
dag er sólin var hæst á lofti lagði
Valdimar Ingi sáttur upp í
hinztu för, umvafinn sínum nán-
ustu. Fregnin varpar leiftri til
áttunda áratugarins þegar ég
rakst á samlanda mína á Picca-
dilly, en allir vorum við að fara á
sama fótboltaleik, þannig hófust
kynni okkar, tilviljun eða hvað
en margir leikirnir síðan þá. Á
þessum árum var Valdimar
kennari í hinu forna þorpi Eyr-
arbakka, en síðasta aldarfjórð-
unginn eða svo vann hann hjá
starfsmannahaldi Samskipa,
heyrði ég að hann gæti þulið all-
ar kennitölur utan að, ekki svo
lítið ef rétt er.
Við starfslok hafði hann áform
um framtíð sína, en ytri aðstæð-
ur lokuðu því og á sama veg fór
með sjötugsafmælið síðastliðið
haust. Áður hafði hann greinst
með mein sem virtist í fyrstu
ekki illkynja en ekki allra að
ráða í skuggaskil og í vorkyrrð-
inni birtist bleikt ský á himni, þá
systir hans Elsa tjáði mér að
bróðirinn hefði verið fluttur í
skyndi á sjúkrahús og nú var
bara ein leið eftir.
Valdimar átti æviláni að
fagna, fyrir utan góða fjölskyldu
og vinfengi við marga var hann
gleðimaður á góðum stundum og
farsæll í störfum, stundum við
krefjandi aðstæður sem hann
leysti ávallt vel með jafnlyndi
sínu og festu. Hann nýtti frítíma
sinn vel til ferðalaga og áhuga-
mála, var aflgjafi í stjórn Óháða
safnaðarins, stundaði golf og var
virkur áhagandi Vals á Hlíðar-
enda í meira en hálfa öld, svo
fátt eitt sé nefnt.
Með þessum fáu orðum kveðj-
um við feðgarnir góðan mann
sem auðgaði mannlífið hvar sem
hann kom og teljum okkur það
til tekna að hafa notið samveru
hans og vináttu í áranna rás.
Blessuð sé hans minning.
Gunnar Valvesson.
Valdimar
Ingibergur
Þórarinsson
- Fleiri minningargreinar
um Valdimar Ingiberg Þór-
arinsson bíða birtingar og
munu birtast í blaðinu næstu
daga.