Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.07.2021, Page 4
FRÉTTIR VIKUNNAR
4 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 11.7. 2021
Þ
au óvæntu tíðindi spurðust út
að sósíalistaforinginn Gunn-
ar Smári Egilsson hefði látið
undan þrýstingi félaga sinna og fall-
ist á að taka sæti á framboðslista
flokksins í haust ef eftir yrði leitað.
Síðustu skoðanakannanir benda til
þess að flokkurinn nái þremur
mönnum á þing.
Fornminjar í Stöðvarfirði benda til
þess að Íslendingar hafi snemma
verið á undan sinni samtíð, því þar
hafa menn numið land töluvert fyr-
ir landnám eða í kringum 800.
Bjarni F. Einarsson fornleifafræð-
ingur telur þó réttara að tala um
landnýtingu, vísbendingar séu um
að þar hafi menn aðeins haft sum-
arsetu.
Upplýst var að Reykjavíkurborg
hefði keypt skemmu við Kleppsveg,
sem áður hýsti kynlífshjálpar-
tækjaverslunina Adam & Evu, og
ætli að kosta milljarði króna til þess
að breyta henni í leikskóla. Ódýrara
væri að jafna hana við jörðu og
byggja nýtt.
Mikill samdráttur er í þorskveiðum
á Atlantshafi á sama tíma og sam-
keppnishæfni Kínverja hefur dalað,
sem gæti orðið til þess að hækka
verð á þeim gula.
Bann við einnota plastvöru tók gildi
um helgina, en þar á meðal eru
plasthnífapör, drykkjarrör og fleira,
en eins verður óheimilt að afhenda
einnota plastílát með matvöru nema
tekið sé fyrir það aukagjald.
. . .
Eldfjallafræðingar klóra sér í
hausnum yfir því að ekki er gott
samræmi milli sýnilegrar virkni
gígsins í Geldingadölum og hraun-
flæðisins. Möguleg ástæða kann að
vera breytingar efst í gosrásinni.
Erlendir fjölmiðlar fjölluðu lofsam-
lega um styttingu vinnuvikunnar á
Íslandi, en þær fréttir byggðust á
skýrslu áhugasamtaka um tilrauna-
verkefni ríkisins og Reykjavíkur-
borgar 2015-2019. Þar var hins veg-
ar minna rætt um erfiðleika við
innleiðinguna og aukinn kostnað.
Læknar segja smithættu af völdum
kórónuveirunnar hafa minnkað með
bólusetningu, en hún sé þó enn til
staðar. Þyngri ferðamannastraumur
til landsins geri ný smit einnig lík-
legri.
Bandaríska sendiráðið í Ósló hefur
verið í lamasessi í heimsfaraldrinum,
sem hefur komið í veg fyrir að norsk-
ir námsmenn komist vestur um haf.
Sendiráðið á Íslandi hefur hins veg-
ar ekki átt í slíkum vandræðum, svo
norskum námsmönnum í nauðum
hefur verið bent á að ferðast hingað
til að fá rétta stimpla í vegabréfið.
Miklar framfarir eru fyrirhugaðar í
endurvinnslu hjá Sorpu, sem felst í
því að krefjast glærra plastpoka ut-
an um ruslið, en láta þá sem koma
með svarta poka borga 500 kr. auka-
gjald fyrir þann hégóma.
Framlög úr ríkissjóði til vinnumála
og atvinnuleysis reyndust 5,3 millj-
örðum króna lægri árið 2020 en ráð
var fyrir gert. Hins vegar fóru ör-
orkubætur nokkuð fram úr áætlun.
Þjóðhátíðarnefnd ÍBV ákvað að falla
frá því að fá Ingólf Þórarinsson veð-
urguð til þess að stýra brekkusöng á
Þjóðhátíð í sumar eftir að fjölmargar
ásakanir um ósæmilegt athæfi á
hendur honum voru birtar á félags-
miðlum.
Skrásetjara varð það á hér í liðinni
viku, að greina frá því að enn hefði
ekki bólað á lúsmýi í landinu. Prent-
svertan var ekki þornuð þegar
lúsmýið gerði hressilega vart við sig
og ber hann þess merki.
. . .
Það styttist í kosningar eins og best
sást á því að samgönguráðherra og
borgarstjóri kynntu enn ein áformin
um lagningu Sundabrautar. Þau
eiga þó ekki að ganga fram fyrr en
báðir verða komnir úr embætti. Og
ekki nema félagshagfræðileg grein-
ing liggi fyrir um brúarsmíðina,
hvað sem það nú er.
Sigmar Guðmundsson, frambjóð-
andi Viðreisnar, telur að heilbrigð-
ismálin verði stærsta kosningamálið
í haust, en staðfesti að flokkur sinn
hefði Evrópumálin enn á oddinum,
þar á meðal bindingu íslensku krón-
unnar. Hann vildi þó ekki segja á
hvaða gengi festa skyldi krónuna við
evru, en sagði að það yrði klárt fyrir
kosningar.
Isavia telur að aftur séu komnar for-
sendur fyrir stækkun flugstöðvar-
innar í Keflavík, þar sem nú komi
þangað fleiri en tíu þúsund farþegar
á dag. Þegar eru nú 20 flugfélög,
sem stunda áætlunarflug um völlinn.
Sinubrunar í Heiðmörk í vor hafa
ekki haft jafnslæm áhrif og margir
óttuðust, en þar er þegar farið að
gróa yfir á stórum svæðum.
Íslenskur fáni, sem áritaður var af
herra Sveini Björnssyni forseta og
seldur á góðgerðaruppboði í Dan-
mörku eftir lok síðari heimsstyrj-
aldar, var keyptur af Vinafélagi
Þjóðminjasafnsins og verður afhent-
ur safninu síðar í sumar.
. . .
Í skýrslu Efnahags- og framfara-
stofnunarinnar (OECD) um íslenskt
efnahagslíf kemur fram að þrátt fyr-
ir kórónukreppuna hafi efnahags-
úrræði stjórnvalda reynst vel og að
nú væri óhætt að reikna með öfl-
ugum efnahagsviðsnúningi og bull-
andi hagvexti. Það á ekki við í flest-
um öðrum löndum OECD.
Kaupfélag Skagfirðinga kynnti 200
milljóna króna framlag sitt til ým-
issa samfélagslegra verkefna í sveit-
arfélaginu Skagafirði og Akrahreppi
á næstu tveimur árum. Kaupfélagið
vakti einnig athygli fyrir örlæti til
efnalítilla í kórónukreppuni.
Óvissa ríkir um tilraunastöðina á
Keldum eftir að ríkið eftirlét
Reykjavíkurborg Keldnalandið sem
framlag til Borgarlínunnar.
Birna Einarsdóttir, bankastjóri Ís-
landsbanka, andæfði þeim, sem
gagnrýnt hafa sölu á hlutum í bank-
anum, og sagði frumútboð og skrán-
ingu hafa heppnast afar vel. Verð-
lagningin hafi byggt á alþjóðlega
viðurkenndum aðferðum.
Ruslpoki fannst við Kambana, sem í
voru meðal annars beinaleifar. Við
athugun reyndust það ekki hafa ver-
ið mannabein.
Líf er að færast í Miðbæ Reykjavík-
ur á ný, en salan í verslunum er þó
enn um helmingi minni en var árið
2019. Kaupmenn eru þó ánægðir og
bjartsýnir á framhaldið, en veit-
ingamenn mala.
. . .
Háls-, nef- og eyrnalæknir var svipt-
ur lækningaleyfi vegna ónauðsyn-
legra aðgerða, sem hann hafði fram-
kvæmt og sent reikninga vegna til
Sjúkratrygginga.
Forstjórar Ölgerðarinnar og Coca
Cola á Íslandi láta vel af sínum hag,
enda er sala á gos- og bjórmarkaði
meiri en spáð hafði verið. Stefnir í
met hjá Ölgerðinni og kókið selst
víst hvergi betur í Evrópu.
Rætt er um sameiningu Skaga-
byggðar og Skagastrandar nyrðra,
en samtals búa þar 570 sálir. Í liðn-
um mánuði höfnuðu íbúar þeirra auk
Blönduóss og Húnavatnshrepps
sameiningu.
Tveimur flugumferðarstjórum var
sagt upp störfum hjá dótturfélagi
Isavia, vegna gruns um að hafa
nauðgað nemanda í flugumferðar-
stjórn eftir samkvæmi fyrir ári.
Samtök ferðaþjónustunar (SAF)
efast um heimildir landeigenda til
gjaldtöku án þess að neitt komi á
móti og eru þar einkum að ræða um
lendingargjöld vegna þyrlna við
Geldingadali.
Guðlaugur Þór Þórðarson utanrík-
isráðherra segir að bæði Íslendingar
og Bretar vilji dýpka enn á sam-
skiptum og viðskiptum landanna, að
ekki verði látið staðar numið við þann
fríverslunarsamning, sem gerður var
þeirra í millum fyrir skömmu.
Tveir útlendingar, sem hér voru í
leyfisleysi, voru ginntir á skrifstofu
Útlendingastofnunar, þar sem þeir
voru handteknir og sendir úr landi.
Ásakanir komu fram um að þeir
hefðu verið beittir harðræði við hand-
tökuna, en ríkislögreglustjóri segir
myndefni af atvikinu ekki styðja að
valdbeitingin hafi verið óhófleg.
Sala lausasölulyfja hófst í Staðar-
skála í upphafi mánaðar og líður
Hrútfirðingum almennt mun betur.
Lögregla veitti jeppa eftirför í
Reykjavík, en honum var m.a. ekið á
ofsahraða á röngum vegarhelmingi
á Geirsgötu. Bílstjórinn nam staðar
á Sæbraut eftir að eitt dekkjana
sprakk, en hann reyndist vera góð-
kunningi lögreglunnar undir annar-
legum áhrifum.
Kosningar
nálgast
Dagur B. Eggertsson borgarstjóri og Sigurður Ingi Jóhannsson samgönguráðherra undirrituðu enn eina yfirlýsinguna um
Sundabraut, sem ef til vill kemur fyrir heimsslitin, en þó ekki nema að uppfylltum ýmsum óljósum skilyrðum.
Morgunblaðið/Eggert
4.7.-9.7.
Andrés Magnússon
andres@mbl.is