Morgunblaðið - Sunnudagur - 11.07.2021, Blaðsíða 17
sem komið er virðist helst liggja í lofti og standa upp
úr öðrum hverjum manni, að ekkert sérstakt muni
gerast í þessum kosningum, enda ekki kosið um neitt
sérstakt.
Og ekki verður reyndar séð að neinn hafi neitt á
móti því að svo sé!
En sú tilfinning gæti ýtt undir það að menn færu
ekki á kjörstað nema þeir hefðu alls ekkert annað
skárra við tíma sinn að gera.
Það er ekki óþekkt að flokkar tilkynni að þessi eða
hinn flokkurinn sé útilokaður til samstarfs. Það er
hins vegar hvimleiður kækur og derringslegur. Helst
er að skilja slíkt tal svo, að sá flokkur sem úthýst er,
sé óralangt fyrir neðan virðingu þess sem hefur kom-
ið sér upp þessu afbrigði af einelti.
Stundum er líkast því að útilokunarflokkurinn telji
sig bólusettan fyrir flokki eða flokkum sem hann til-
nefnir sem „óstjórntæka.“
Við útilokum!
Samfylkingin, systurflokkur Viðreisnar, tilkynnti á
lokaspretti þingstarfanna að tveir flokkar væru úti-
lokaðir til samstarfs af hennar hálfu. Þetta var sér-
staklega athyglisvert, því að fram að því hafði hvergi
komið fram að nokkur væri að sækjast sérstaklega
eftir samstarfi við Samfylkingu. Enda óljóst eftir
hverju er þar að slægjast. Reyndar háttar svo til um
systurflokkana tvo, að þeir hafa aðeins eitt mál í sínu
farteski hvor. Og svo vill til að það er sama málið,
þannig að systurflokkarnir tveir eru aðeins sam-
anlagt með eitt mál til að leggja í púkk með öðrum
flokkum. Þetta mál snýst um að leggjast til fóta hjá
ESB og varla nokkur sála með viti hér á landi, og má
sennilega hafa heiminn undir, sérstaklega að viðra
sig undir bandalagið það. Ekki er vitað hvað systur-
flokkunum gengur til, en svo að getið sé í eyður vilja
þeir sjálfsagt tryggja að í framtíðar veirukrísu geti
enginn séð um kaup á bóluefni nema ESB. Það gekk
svo æðislega síðast. Stóri fréttnæmi atburðurinn að
öðru leyti um þetta samband er að það gengu nærri
70 milljónir manna úr því á einu bretti og vegnar svo
miklu betur eftir en áður. Allar spár um ógn og skelf-
ingu gufuðu upp eins og dögg fyrir sólu daginn eftir
að útgangan gekk í gildi. Og þó gerði hið fráskilda
samband allt sem það gat til að gera útgönguna erf-
iða, sem það hafði engan rétt til að gera.
En frjáls og fullvalda þjóð blæs bara á það.
Vandinn fyrir slíka útilokunarflokka er að þeir fá
ekki að njóta sinnar óskammfeilni og síns derrings,
þegar svo háttar til að enginn flokkur á við þá alvar-
legt erindi, enda það eina sem þeir hafa að bjóða er
löngu komið út yfir síðasta söludag, súrt og kekkjótt.
Vinstri grænir upplifðu óvænt á eigin skrokki, hinn
mikla sannleika, sem þeir höfðu klökkir sungið sem
ástarjátningu og heitstrengingu, ljóðlínur skáldsins
góða: „Hefnist þeim er svíkur sína huldumey,
honum verður erfiður dauðinn.“
Allt gekk það eftir.
Dettur þeim í Samfylkingu í hug að Vinstri grænir
vilji enn brenna sig í sömu sár, blindaðir af hrævar-
loga og hökti aftur sömu óláns erinda og mæti enn,
eins og óvitar, sínum óljúfa örlaga dómi?
Sá yrði í það sinn endanlegur.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
11.7. 2021 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 17