Morgunblaðið - Sunnudagur - 01.08.2021, Blaðsíða 15

Morgunblaðið - Sunnudagur - 01.08.2021, Blaðsíða 15
síðustu tuttugu og fimm ár en það þurfti heimsfaraldur til að Hrafnhildur staldraði lengur við í heimalandinu. Ertu þá flutt heim? „Nei, í rauninni ekki. Ég kom hingað í Covid með Úrsúlu, dóttur mína, sem er fjórtán ára og hún fór í IB international-deildina í Landa- kotsskóla. En nú fékk hún inngöngu í lista- og hönnunarskóla í New York og byrjar þar í haust. Ég er ekkert búin með New York, ég elska þessa borg og á fullt eftir! Þar verð ég í vetur og svo þarf maður að æfa sig áfram í æðruleysinu í þessu ástandi sem er í heim- inum, ástandi sem maður hefur ekki stjórn á. Við þurfum bara að haga seglum eftir vindi. Sýningar sem frestuðust vegna Covid voru nokkrar settar á september; ég er að sýna í Danmörku, Þýskalandi og Kanada, en ég næ ekki að fara sjálf nema til Danmerkur og þar verður sýningin opnuð í lok ágúst,“ segir hún. Alltaf Íslendingur „Það er spælandi að komast ekki, en ég þyrfti til dæmis að vera í sóttkví í Kanada þannig að allt er breytingum háð.“ Höfuðstöðin verður í höndum Lilju sem verður eitthvað áfram á landinu en hún býr líka í New York. „Vinnunni fylgja talsverð ferðalög og ég er alltaf með annan fótinn á Íslandi og verð það áfram. Hér er fjölskyldan mín og ég er ekkert hætt að vera Íslendingur. Þegar við opnum hér í Höfuðstöðinni ráðum við fólk til að reka stað- inn. Svo er ég í raun bara fimm tíma í burtu,“ segir hún. Við setjumst upp á efri hæð þar sem Lilja situr við tölvuna við vinnu sína. Blaðamanni verður að orði að það líti út fyrir að Hrafnhild- ur hafi nóg að gera í listinni, og nú hafi hún bætt við sig þeirri vinnu að opna Höfuðstöðina. Ertu í 200% vinnu? „Mér myndi aldrei detta í hug að gera þetta ef ég hefði ekki Lilju mér til trausts og halds!“ segir hún og þær hlæja báðar. „Ég ýti undir aðgerðir eins og að opna lista- setur. Ég er listrænn framleiðandi og vinn með skapandi fólki að viðskiptahliðinni í þeirra rekstri. Ég rek fyrirtækið Artik Creatives og hef unnið með Hrafnhildi í fimm ár sem fram- leiðandi og eins konar framkvæmdastjóri Shoplifter, og nú bætist við Höfuðstöðin,“ seg- ir Lilja. „Við erum að fjárfesta í þessu saman úr eig- in vasa og erum að vona að Kickstarter- verkefnið gangi upp,“ segir Lilja og sýnir blaðamanni Kickstarter-síðuna en þar má finna til sölu derhúfur, boli, prentverk og líka listaverk, eins og það sem Hrafnhildur kallar Broskalla. Einnig er fyrirhugaður fjáröfl- unarviðburður þar sem Björk mun þeyta skíf- um, en vegna stöðunnar á veirunni er dagsetn- ingin enn óákveðin. „Allt sem við söfnum rennur beint í fram- kvæmdir en kostnaðurinn er mikill. Við viljum opna hægt og rólega. Við byrjum á að opna með léttum veitingum og bíðum bara eftir leyf- unum,“ segir Lilja. Kom Hrútey á kortið Í Hrútey við Blönduós má finna sýninguna Boðflennu; sýningu á útilistaverkum Shop- lifter sem opnuð var í júníbyrjun og mun standa út ágúst. Sýningin er unnin í samstarfi við listahjónin Áslaugu Thorlacius, myndlist- armann og skólastjóra Myndlistaskóla Reykjavíkur, og Finn Arnar Arnarsson mynd- listarmann, og eru þau sýningarstjórar Boð- flennu. „Fjölskylda Áslaugar á sveitabæ á Blöndu- ósi og þau hafa sett þar upp sýningar árlega. Þau langaði að setja upp sýningu í Hrútey og buðu mér að gera útilistaverk. Ég hef verið að bíða eftir tækifæri til að gera verk utandyra og er þetta í fyrsta sinn sem ég geri það. Ég vildi sýna fólki að ég get líka unnið í smáu; það þarf ekki allt að vera risastórt. Ég hef oft lýst verk- um mínum sem yfirgengilegri náttúru, ýktri útgáfu af náttúru. Því kallaði ég sýninguna Boðflenna, því ég planta verkunum út í alvöru náttúru þar sem þau geta átt í samtali við hana,“ segir Hrafnhildur. „Ég gerði stóra súlu og bætti svo inn í, víða um eyjuna, hári sem ég hef unnið á ólíkan hátt. Þetta var leikur með efniviðinn og náttúruna. Það sem gerist þegar þú sérð aðskotahlut, þá ferðu að skoða náttúruna öðruvísi. Það var meiriháttar gaman að vinna að þessari sýningu og aðsóknin hefur verið mjög góð. Ég held ég hafi sett Hrútey á kortið,“ segir Hrafnhildur og skellihlær. Alltaf í eyjum! Ferill Hrafnhildar tók stökk þegar hún sýndi á Feneyjatvíæringnum fyrir Íslands hönd. „Það gerði rosalega mikið fyrir mig á al- þjóðavísu. Verkið vakti mikla athygli sýning- argesta og alþjóðapressu. Almenningur lagði virkilega lykkju á leið sína til að sjá verkið, sem var úti í Giudecca-eyju. Alltaf í eyjum! Hrútey, Ísland og svo er Manhattan jú líka eyja; ég verð að vera nálægt vatni,“ segir hún og hlær. „Það er alltaf skemmtilegt að vera aðeins út úr, því það að skoða verk mín má vera vegferð. Verkin mín eru lituð af því að ég elst hér upp og bý hér til 25 ára aldurs, og síðan að ég hafi búið 25 ár í New York. Verkin eru með rætur héðan en bera einnig merki ofgnóttar stór- borgarinnar þar sem öllu ægir saman; heimi litríkra neonljósa,“ segir Hrafnhildur. „Mér fannst nauðsynlegt fyrir mig sem skapandi einstaklingur að fara til New York á sínum tíma í poppkúltúrinn og ég finn mig vel í þeim tíðaranda. Ég vinn með sama efni og not- að er í hárlengingar, sem er beint úr dægur- menningunni, en bý svo til textílverk úr þeim. Þannig tengi ég verkin alltaf við manneskjuna, sem ég held að sé alltaf til staðar í myndlist minni. Nafnið á verkinu Chromo Sapiens vísar í raun til áhorfandans en það er hann sem læt- ur verkið lifna við með því að vera inni í verk- inu. Það er húmor í verkunum en ég tek vinn- una grafalvarlega þó ég taki henni ekkert hátíðlega, því lífið væri bara ekki eins skemmtilegt.“ Lilja skýtur inn í að það sé vægt til orða tek- ið að ferill Shoplifter hafi farið á flug eftir Fen- eyjatvíæringinn. „Við vorum í stanslausri vinnu frá maí 2019 og þar til Covid kom, með sýningar úti um all- an heim.“ Hrafnhildur samsinnir því. „Við erum ekki búnar að stoppa og það má kannski ekki segja að Covid hafi fært manni nauðsynlega hvíld á ferðalögin. Mig var farið að langa svolítið að vera kjur. Líka svo ég gæti unnið að minni verkum, sem fólk vildi eignast, og njóta sín á heimilum frekar en flennistórar innsetningar. Ég hef ekki haft mikinn tíma fyrir þá vinnu sem ég nýt virkilega, því það hefur verið stöðug eftirspurn eftir stórum inn- setningum í sýningarsali víðs vegar um heim. Sem er að sjálfsögðu dásamlegt, en hitt situr þá á hakanum,“ segir Hrafnhildur en hún vinn- ur einmitt um þessar mundir að stóru verki sem verður í eigu Listasafns Reykjavíkur. „Það er eins og meðalsnjóhús í laginu og fólk gengur þar inn í litadýrð. Þetta verður eins og hugleiðsluhof, en það er eitthvað við alla þessa liti sem lætur fólki líða vel og lætur það finna fyrir aukinni hamingju. Vandamálin fá að hverfa og fólk gleymir sér um stund, því þetta er í raun svo æpandi og skært, en á svo mjúkan hátt, því áferðin er þannig. Þetta er svolítið eins og að vera faðmaður af ljúfum loðfíl.“ Stress er Satan Náðir þú að hvíla þig á þessum veirutímum? „Sko, ég náði að vera kjur. Ég var svo búin á því að ég fór á Heilsustofnunina í Hveragerði í hálfan mánuð. Ég er ekki með „off-takka“. Þegar maður er myndlistarmaður þá er maður eitt með vinnunni, og mér finnst sérstaklega gaman í vinnunni. Ég veit ekkert hvenær ég fer í frí,“ segir Hrafnhildur og segir heimsfar- aldurinn ekki hafa haft áhrif á sköpunina sjálfa. „Það hægði á hlutum. Við Lilja vinnum samt aldrei níu til fimm; við erum alltaf í vinnunni,“ segir Hrafnhildur, en hún hefur nú dvalið á Ís- landi í eitt og hálft ár. „Í tuttugu og fimm ár hef ég aldrei verið hér svona lengi í einu; upplifað fjórar árstíðir í röð. Ég er ekkert búin að fara heim til New York og er farin að sakna borgarinnar,“ segir hún. „Svo komu braggarnir upp í hendurnar á okkur og það var bara að hrökkva eða stökkva,“ segir hún og segir þessa hugmynd aldrei hafa komið til ef ekki hefði skollið á heimsfaraldur. „Að því leyti hafði Covid áhrif á verk mín og ég gat gert útilistasýningu í Hrútey á vegum Á Kleifum, klárað ýmis verk og gert alls kyns til- raunir. Þannig að þetta hefur verið blessun í dulargervi. Eða blessun í læknasloppi?“ segir hún hugsi. „Svo hef ég getað verið miklu meira með fjölskyldunni, foreldrum mínum sem standa við bakið á mér í gegnum allt sem á gengur, þannig að þetta hefur verið kærkomið tímabil þrátt fyrir allt.“ Um leið og hún sleppur orðinu grípur hún um snjallúrið sitt sem var farið að titra. „Æ, það er bara að segja mér að anda! Ég hlýði því, enda er nýja mottóið mitt: Stress er Satan!“ Hrafnhildur Arndóttir og Lilja Baldursdóttir vinna náið saman og hafa gert í fimm ár. Ljósmynd/Frosti Gnarr Hrafnhildur, Shoplifter, sýnir útilistaverk í Hrútey og stendur sýningin út ágúst. Morgunblaðið/Einar Falur Höfuðstöðin er í bröggunum í Ártúnsbrekku, en Hrafnhildur og Lilja vildu hafa nafnið íslenskt. Ljósmynd/Hjalti Karlsson ’ Þetta eru ekki höfuðstöðvar, heldur Höfuðstöðin. Hárið vex á höfðinu, við erum á Höfð- anum, á Rafstöðvarvegi. Svo er höfuðstöðin sjöunda orkustöðin samkvæmt jógafræðum. Þar býr víst sælan. 1.8. 2021 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 15

x

Morgunblaðið - Sunnudagur

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Morgunblaðið - Sunnudagur
https://timarit.is/publication/1078

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.