Feykir


Feykir - 30.09.2020, Blaðsíða 9

Feykir - 30.09.2020, Blaðsíða 9
Húnakaffi, nýtt bakarí á Blönduósi Brynjar Þór fær mikið hrós fyrir brauðin og kökurnar Húnakaffi er lítið handverksbakarí á Blönduósi sem Brynjar Þór Guðmunds- son setti á fót í sumar eftir miklar vangaveltur og hvatningu bæjarbúa. Brauðin þykja afbragðsgóð og eykst vöruúrvalið með hverri vikunni sem líður. Feykir hafði samband við Brynjar Þór sem sagði frá tilurð bakarísins og framtíðarhorfur. Brynjar segir hugmyndina að nafninu vera gamla eða frá því um 2005. „Þegar ég var í bak- aranámi og var að spjalla við samnemendur mína um bakarí og nafnagiftir fannst mér nafnið bara nokkuð flott en þá vorum við pabbi og mamma með Bakaríið á Blönduósi. Þegar ég sat einn heima á 31. afmælis- deginum mínum 2017, þá nýlega skilinn og hafði tapað forræðisdeilu og allt bara í rugli, og velti fyrir mér hvert lífið hefði farið, fór ég að hugsa aftur í tímann og þá kviknaði áhuginn. En eftir um tvo mánuði slokknaði sú pæling, skortur á húsnæði og vesen við að finna vélar og tæki svo ég lagði það á hilluna og hélt áfram með lífið. En svo veturinn 2018 þá svona datt upp allt það sem ég hefði viljað og ég ákvað bara að láta vaða, stofnaði fyrirtækið og fékk leiguverð í gamla Ömmukaffi. En svo ákváðu eigendurnir að selja frekar en að leigja og reyndist það vera full stór biti fyrir mig með standsetningu og vélakaupum. Hélt ég bara ótrauður áfram og fékk á end- anum húsnæði í gömlu bygg- ingavöruversluninni og flestar af þeim vélum sem mig vantaði fundust hratt og vel,“ segir Brynjar aðspurður um tilurð bakarísins. Eitthvað gengu fram- kvæmdir hægt vegna skorts á iðnaðarmönnum svo Brynjar tók til hendinni og henti sér sjálfur í framkvæmdir. Bakaríið var svo opnað mánudaginn 27. júlí í sumar eftir mikið baks, eins og hann segir sjálfur. Öll plön eiga það til að klikka „Sennilega er þetta bara sambland af fortíðarþrá og ævintýramennsku sem setur þetta verkefni af stað í bland við það að fólk var orðið þreytt á lélegu brauðaúrvali hér á svæð- inu. Svo fékk ég mikla hvatningu til að fara af stað.“ Heimildir Feykis herma að nýja bakaríið hafi fengið gríðar- góðar móttökur og hefur Brynjar fengið mikið hrós fyrir brauðin sem og kökurnar. „Salan fór vel af stað. Þó vill maður alltaf fá meira svo hægt sé að bæta við fólki og fjölga störfum á svæðinu. Eins og staðan er í dag hefur heil- hveitibrauðið verið vinsælast og svo þriggjakorna- og sólblóma- brauðið.“ Brynjar auglýsti á Face- booksíðu sinni eftir því hvað fólk vildi helst sjá nýtt í vöru- úrvalinu og segir hann það hafa verið gert til þess að ýta við fólki og leyfa því að taka svolítið þátt í þeirri ákvarðanatöku. „Niður- stöðurnar voru þær að ég þarf sennilega að skella mér í tækja- kaup en kleinur, ástapungar og annað sambærilegt sem þarfn- ast djúpsteikingarpotts voru ofarlega þar. Nokkrir töluðu um að ég ætti að fara að senda á skagfirska efnahagssvæðið en sennilega sleppi ég því í bili. Það sem ég hef einna helst lært á þessu er að öll plön eiga það til að klikka eða tefjast vegna furðulegustu hluta þannig að núna er það bara að byggja upp fyrirtækið og svo freista þess að ná inn á Vestursýsluna þegar þannig liggur við. Að öðru leyti er það bara að vera með góðar vörur á góðu verði og styrkja sig þannig áfram. Er svo sem að horfa í kringum mig með tækifæri og það kemur í ljós hvernig fer.“ Nafnið Húnakaffi bendir til þess að um kaffihús sé að ræða en svo er víst ekki og segir Brynjar það helgast af því að aðgengi sé ekki nógu gott eins og er en ætlunin sé þó að taka yfir húsnæðið sem Teni er í í dag. „Hver veit hvernig spilast úr þessum málum. Ætlunin var ekki að fjölga kaffisöluaðilum á svæðinu heldur taka einn yfir, þannig að núna er ég bara að spila þetta eftir hendinni og sjá hvernig það gengur,“ segir Brynjar í lokin. Feykir óskar Brynjari og Húnakaffi til hamingju og velfarnaðar í framtíðinni. VIÐTAL Páll Friðriksson Bakarinn í Húnakaffi, Brynjar Þór Guðmundsson, við opnun bakarísins í sumar. MYND AF FACEBOOK Heimildamynd eftir Óskar Pál Sveinsson frumsýnd á laugardaginn Á móti straumnum sýnd á RIFF RIFF kvikmyndahátíð í Reykjavík var sett þann 24. september sl. og stendur fram á sunnudag, 4. október, en boðið er upp á úrval alþjóðlegra kvikmynda, viðburða og pallborðsumræðna í Bíó Paradís, Norræna húsinu og á netinu. Auk hefðbundinna bíósýninga í Bíó Paradís er boðið upp á yfir 100 myndir frá öllum heimshornum í gegnum netið. Á móti straumnum, mynd Óskars Páls Sveinssonar um transkonuna Veigu Grétars- dóttur sem siglir á kajak í kringum Ísland, verður frumsýnd nk. laugardag kl. 18. Veiga segir á Facebook-síðu sinni að hún hafi verið stödd í bókabúðinni á Ísafirði fyrir tveimur árum þegar hún fékk símtal frá Óskari Páli sem hafði áhuga á að gera heimildamynd um ferð hennar í kringum landið og hana sjálfa. „Þetta er búið að vera skemmtilegt ferðalag, lærdómsríkt en jafn- framt erfitt að rifja upp allt sem ég fór í gegnum í mínu kynleiðréttingarferli fyrir framan myndavélina. Nú, tveimur árum seinna, er afraksturinn tilbúinn og verður myndin frumsýnd 3. október á Riff kvik- myndahátíðinni,“ skrifar hún. Í kynningu á myndinni á heimasíðu RIFF segir að myndin sé táknræn og greini samtímis frá ferðinni í kynleiðréttingarferlinu og svo frá róðrinum á kajak þar sem glímt er við náttúruna um hvor hefur betur. Myndin lýsir innri baráttu Veigu um líf eða dauða, hvort sem er í lífinu sjálfu eða ein úti á kajak. Feykir hafði samband við Skagfirðinginn listræna, Óskar Pál Sveinsson, og spurði frétta af verkefninu en Á móti straumnum er fyrsta heimildamynd hans sem leikstjóri. Hann hefur þó unnið við nokkrar aðrar myndir bæði sem kvikmyndatökumaður og meðframleiðandi. Hvernig kom það til að þú fórst í þetta verkefni? Ég frétti af þessari kajak ferð hennar Veigu fyrir tveimur árum síðan og hafði þá áður heyrt hennar persónulegu sögu. Ég sá strax fyrir mér að þarna mætti flétta tvær magnaðar átakasögur í eina áhugaverða mynd. Í kynningu á myndinni segir: „Samhliða tekst hún á við sjálfa sig í kynleiðréttingarferlinu og gefur myndin innsýn í innri baráttu Veigu um líf eða dauða hvort sem er í lífinu sjálfu eða ein úti á kajak.“ Hvernig var að vera hluti af því þegar einstaklingur tekst á við slíkt persónulegt verkefni ásamt hinu? Það var vissulega krefjandi á köflum, það gat tekið á fyrir Veigu að rifja upp erfiða hluti úr fortíðinni og það þurfti að nálgast þetta af nærgætni og virðingu. Það voru ekki síður miklar áskoranir að mynda kajak hringferðina en á sama tíma heilmikið ævintýri. Þetta endaði í þriggja mánaða útilegu hjá mér í fyrra. Hvað var erfiðast við myndina eða verkefnið? Ég held að það hafi verið að eiga við hið síbreytilega veður okkar sem gerir allar tökur utandyra, og hvað þá úti á sjó, ansi hressandi á köflum. Hvað er á döfinni hjá þér? Ég er að vinna að nýrri mynd með ljósmyndaranum Ragnari Axelssyni eða Rax. Ég er búinn að vera að ferðast með honum um Grænland og fylgja honum út á ísinn þar sem hann er að mynda efni í sína nýjustu bók. Bókin og myndin fjalla um eina af aðal hetjum norðurslóða, grænlenska sleðahundinn. /PF Skagfirðingurinn Óskar Páll Sveinsson vinnur nú að nýrri mynd með ljósmyndaranum Ragnari Axelssyni eða Rax. MYND: ? 37/2020 9

x

Feykir

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Feykir
https://timarit.is/publication/1151

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.