Morgunblaðið - 10.09.2021, Qupperneq 27
ÍÞRÓTTIR 27
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 10. SEPTEMBER 2021
_ Aron Pálmarsson, fyrirliði ís-
lenska karlalandsliðsins í handknatt-
leik og leikmaður Álaborgar í Dan-
mörku, fór meiddur af velli í leik
liðsins gegn Ringsted í dönsku úr-
valsdeildinni. Danski miðillinn Nor-
djyske greinir frá því að Aron hafi
fundið fyrir eymslum í mjöðm og því
hafi verið tekin ákvörðun um að taka
hann af velli eftir tuttugu mínútna
leik.
Aron mun gangast undir frekari
læknisskoðun síðar þar sem alvar-
leiki málsins mun að öllum líkindum
koma betur í ljós.
_ Framtíð Kolbeins Sigþórssonar,
landsliðsmanns í knattspyrnu, hjá
sænska félaginu Gautaborg skýrist í
næstu viku samkvæmt sænska net-
miðlinum Fotboll Direkt.
_ Alþjóðaólympíunefndin hefur tek-
ið þá ákvörðun að meina íþróttafólki
frá Norður-Kóreu að keppa fyrir
hönd Norður-Kóreu á næstu Vetr-
arólympíuleikum sem munu fara
fram í nágrannaríkinu Kína á næsta
ári. Keppnisbannið virðist vera sett á
í refsingarskyni fyrir að taka ekki
þátt í nýafstöðnum Ólympíuleikum í
Tókýó. Þangað sendi Norður-Kórea
sem sagt enga keppendur. Sá mögu-
leiki verður hins vegar væntanlega
fyrir hendi að íþróttafólk frá Norður-
Kóreu sem nær lágmarki fyrir Vetr-
arólympíuleikana fái að keppa á leik-
unum undir ólympíufánanum.
_ Jón Axel Guðmundsson skilaði
sínu hjá Bologna í deildabikarkeppn-
inni í körfuknattleik á Ítalíu í gær en
úrslitin voru ekki góð. Bologna fékk
skell gegn Venezia 67:95. Jón Axel
skoraði níu stig og var þriðji stiga-
hæstur hjá Bologna.
Hann tók einnig fjögur fráköst og
gaf tvær stoðsendingar. Jón Axel
hefur að undanförnu stigið sín
fyrstu skref með Bologna en hann
lék í Þýskalandi á síðasta tímabili.
_ Serbinn Novak Djokovic er kom-
inn í undanúrslit á Opna bandaríska
meistaramótinu í tennis eftir örugg-
an sigur gegn Ítalanum Matteo Ber-
rattini í fjórðungsúrslitum í New
York í Bandaríkjunum. Djokovic tap-
aði fyrsta settinu 7:5 eftir upp-
hækkun en vann næstu þrjú sett 6:2,
6:2 og loks 6:3 og einvígið 3:1.
Djokovic mætir ólympíumeistaranum
Alexander Zverev í undanúrslitum á
morgun en Djokovic hefur unnið öll
þrjú risamót tímabilsins til þessa;
Opna franska meistaramótið, Opna
ástralska meistaramótið og Wimble-
don-mótið.
Takist honum að vinna Opna banda-
ríska meistaramótið verður hann
fyrsti karlinn til að vinna slemmuna
en hin þýska Steffi Graf afrekaði
það í kvennaflokki árið 1988.
Eitt
ogannað
HANDBOLTI
Gunnar Egill Daníelsson
gunnaregill@mbl.is
Markvörðurinn stóri og stæðilegi,
Viktor Gísli Hallgrímsson, er þrátt
fyrir að vera aðeins 21 árs gamall að
hefja sitt sjötta tímabil í meistara-
flokki í handknattleik karla. Þrjú
þeirra voru hjá uppeldisfélaginu
Fram en fyrir tveimur árum söðlaði
hann um og hóf að reyna fyrir sér í
atvinnumennsku hjá danska úrvals-
deildarfélaginu GOG. Í upphafi vik-
unnar var svo tilkynnt að Viktor
Gísli myndi ganga í raðir franska
stórliðsins Nantes að loknu tíma-
bilinu sem er nýhafið. Samningur
hans við GOG rennur einmitt út þá
og því heldur Viktor Gísli til Nantes
á frjálsri sölu næsta sumar.
„Þetta leggst bara mjög vel í mig.
Ég er mjög spenntur fyrir þessu.
Þetta er geggjaður klúbbur og það
er aðallega bara spenningur hjá
mér,“ sagði Viktor Gísli í samtali við
Morgunblaðið. Skrefin sem hann er
að taka á ferlinum virðast þaul-
hugsuð og því lék blaðamanni for-
vitni á að vita hvort allt væri ekki
hreinlega að fara eftir áætlun. „Jú
klárlega. Það var alltaf markmiðið
að fara eitthvað annað eftir árin
þrjú í Danmörku og það er allavega
að ganga upp núna. Það er bara
gaman,“ sagði Viktor Gísli.
Fleiri lið sýndu áhuga á að kló-
festa hann. „Já vissulega en Nantes
bauð upp á það sem mig langar að
fá út úr þessu, sem er að komast í
góða deild og fá spiltíma í Meist-
aradeildinni. Þetta leit þannig út að
ég fengi mesta spiltímann og besta
tækifærið til þess að verða aðal-
markvörður þar. Það er mikilvægt,“
útskýrði Viktor Gísli.
Geggjað að spila Evrópuleiki
Auk þess að vera A-landsliðs-
maður frá því að hann var aðeins 17
ára gamall og hafa tekið þátt í topp-
baráttu í dönsku úrvalsdeildinni tvö
tímabil í röð hefur Viktor Gísli feng-
ið dýrmæta reynslu í Evrópu-
keppni, en GOG komst alla leið í
átta liða úrslit í Evrópudeildinni á
síðustu leiktíð. Þar féll liðið úr leik
gegn pólska liðinu Wisla Plock.
„Það er búið að vera geggjað og það
er geðveikt gaman að hafa farið
langt og fengið að spila erfiða leiki.
Þegar við lendum á móti þessum lið-
um frá Austur-Evrópu þá hentar
það okkur ekkert mjög vel,“ sagði
hann.
„Við eigum svolítið erfitt með
þyngdina og styrkinn hjá þessum
liðum. Það hefur svona orðið okkur
að falli, það gerði það líka í fyrra.
En það var geggjað tækifæri að fá
að taka þátt í þessari keppni,“ bætti
Viktor Gísli við, en á fyrsta tímabili
hans lék GOG í Meistaradeild Evr-
ópu og komst liðið ekki upp úr riðli
sínum á meðan tvö félög frá Austur-
Evrópu gerðu það, Dinamo Búkar-
est og áðurnefnt Wisla Plock.
Vel hefur gengið hjá Viktori Gísla
hingað til hjá GOG, bæði honum
sjálfum og liðinu. Á fyrsta tímabili
hans lenti GOG í öðru sæti í barátt-
unni um Danmerkurmeistaratitilinn
eftir einvígi við Álaborg. Síðastliðið
haust varð liðið svo bikarmeistari í
frestaðri keppni frá fyrsta tímabili
Viktors Gísla og fylgdi því eftir með
deildarmeistaratitli síðastliðið vor.
GOG tókst hins vegar ekki að kom-
ast í úrslitaeinvígi gegn Álaborg
annað tímabilið í röð.
„Vegna Covid voru tvær bikar-
keppnir. Við unnum fyrri sem var í
raun og veru árið á undan. Þannig
að tæknilega urðum við bikarmeist-
arar og deildarmeistarar á síðasta
tímabili,“ útskýrði Viktor Gísli. Því
er ekkert því til fyrirstöðu að setja
markið hátt á nýhöfnu tímabili. „Við
erum búnir að styrkja okkur vel og
erum með umtalsvert betra lið en í
fyrra. Menn eru spenntir fyrir því
að reyna að ná lengra í Evr-
ópudeildinni heldur en planið var í
fyrra, af því að við komumst svo
langt þá. Mönnum leist vel á þetta
og fannst mjög gaman. Markmiðið
er að ná sem lengst þar.
Svo er það auðvitað að reyna að
vinna Danmerkurtitilinn, menn eru
búnir að bíða lengi eftir því og í
fyrra vorum við mjög nálægt því.
Við toppuðum bara á vitlausum tíma
á meðan Álaborg toppaði einmitt á
réttum tíma og spilaði mjög vel í
lokin. Við þurfum að reyna að tíma-
setja það aðeins betur og ná
kannski úrslitarimmu við Álaborg í
lok tímabilsins,“ sagði hann.
Er hægt að skáka Álaborg?
Spurður hvort GOG geti skákað
Álaborg á lokatímabili hans í Dan-
mörku, sagði Viktor Gísli: „Ef við
lendum ekki í alvarlegum meiðslum
og toppum á réttum tíma þá eigum
við alveg möguleika. Þeir eru nátt-
úrlega með örlítið meiri breidd og
kannski aðeins meiri reynslu. Það
getur aðeins sagt til sín þegar tíma-
bilið er svona langt. En ég vil alla-
vega trúa því að við getum unnið
þá.“ Beðinn um að líta aðeins lengra
til framtíðar og fara yfir markmið
sín með Nantes og íslenska landslið-
inu á komandi árum stóð ekki á
svörum: „Ég vil fá að spila í Meist-
aradeildinni og standa mig vel þar.
Ég vil reyna að spila sem mest og
tryggja mig sem aðalmarkvörð hjá
Nantes.
Með landsliðinu er raunverulega
það sama uppi á teningnum, að
reyna að verða 100 prósent fyrsti
markvörður þar og ná góðum ár-
angri. Við erum með helvíti gott lið
á leiðinni, það eru margir ungir leik-
menn að koma upp. Þessi kyn-
slóðaskipti sem er búið að tala um
mjög lengi eru ekki alveg búin en
eru komin vel á veg og margir búnir
að öðlast góða reynslu. Við þurfum
bara að fá aðeins meiri spiltíma
saman og þá fer þetta að koma,“
sagði Viktor Gísli að lokum í samtali
við Morgunblaðið.
Viktor Gísli valdi franska
liðið að vel athuguðu máli
- Landsliðsmarkvörðurinn færir sig frá GOG til Nantes á næsta ári
- Væntingar um að verða aðalmarkvörður Nantes - Lið GOG orðið sterkara
AFP
Vítakast Vítaskyttur fyllast eflaust kvíða á vítalínunni andspænis Viktori Gísla Hallgrímssyni.
FH, Afturelding og Stjarnan
tryggðu sér öll sæti í 8-liða úrslitum
bikarkeppni karla í handknattleik
með sigrum í 16-liða úrslitum í gær.
FH vann nauman 27:26-sigur á
nágrönnum sínum og erkifjendum í
Haukum. Þá marði Afturelding
ríkjandi bikarmeistara ÍBV, 29:28.
Stjarnan vann svo þægilegan 28:24-
sigur gegn Gróttu þar sem Björg-
vin Þór Hólmgeirsson fór hamför-
um og skoraði 11 mörk.
FH mætir Víkingi/Val, Aftureld-
ing mætir Mílunni/Fjölni og Stjarn-
an mætir KA í 8-liða úrslitunum.
Þrjú úrvalsdeild-
arlið eru úr leik
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Markahæstur Björgvin Hólmgeirs
skoraði 11 mörk fyrir Stjörnuna.
Cloé Lacasse skoraði þrennu þegar
Benfica tryggði sér sæti í riðla-
keppni Meistaradeildar Evrópu
kvenna í knattspyrnu í gær með
4:0-sigri á Twente. Benfica sigraði
samtals 5:1 í rimmu liðanna.
Cloé fékk íslenskan ríkisborgara-
rétt fyrir nokkrum árum en hér
heima lék hún með ÍBV og var einn
marksæknasti leikmaður íslensku
úrvalsdeildarinnar.
Apollon Limassol féll hins vegar
úr keppni þegar liðið tapaði fyrir
Zhytlobud en Þórdís Hrönn Sigfús-
dóttir var í liði Limassol.
Cloé Lacasse
skoraði þrennu
Morgunblaðið/Árni Sæberg
Þrenna Cloé Lacasse lék með ÍBV
áður en hún hélt til Portúgals.