Morgunblaðið - 11.09.2021, Page 28
28 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 11. SEPTEMBER 2021
D
ídó var full af ást – og hatri.
Nafn hennar hefur verið al-
þekkt á Íslandi á 13. öld. Í
Tristrams sögu (sjá Tungu-
takspistil 11.7. ’20), einni af okkar áhrifa-
mestu ástarsögum, er hennar getið (í
þágufalli!) á þessa leið:
„Því að það er kvenna lunderni að þær
virða meir vilja sinn fullkominn en mund-
angshóf, girnast oft það þær kunna ekki
fá, en hafna því mörgu og fyrirlíta það er
þær heimilt eiga; svo sem féll Dídóni er
svo mjög unni að hún brenndi sig inni þá
er unnusti hennar fór frá henni er kominn
var af öðru landi.“
Hver var þessi Dídó sem elskaði svona
heitt?
Saga hennar er sögð í snilldarverki hins
rómverska Virgils (70-19 f.Kr.) um Eneas,
sem lagði grundvöllinn að Rómaborg.
Dídó var kóngsdóttir í Týrus, höfuð-
borg Fönikíu sem var orðin mikið sigl-
ingaveldi. En þaðan varð hún að flýja eftir
að konungurinn bróðir hennar myrti eiginmann hennar til að komast
yfir auð hans. Hún komst reyndar undan með auðinn og stofnaði Kar-
þagóborg á norðurströnd Afríku og eignaðist með klókindum mikið
landsvæði þar. Í ekkjustandi sínu niðurlægði hún þá afrísku ættar-
höfðingja sem báðu hennar.
Þá kom Eneas óvænt til skjalanna. Hann hafði orðið skipreika í
óveðri á flótta sínum til Ítal-
íu frá hinni föllnu Tróju-
borg. Skip hans voru löskuð
og hann og menn hans áttu
hinni ungu ekkju líf sitt að
launa.
Það tókust ástir með
Eneasi og Dídó.
En guðirnir höfðu ætlað Eneasi annað hlutverk en að verða undir-
gefinn drottningarmaður í Karþagó. Hann sveik lífgjafa sinn, skildi
hana eftir í sárum og hélt til fyrirheitna landsins.
Dídó hafði þá engin umsvif; hún kom sér fyrir á logandi bálkesti í
höllinni og lagði sig í gegn með sverði, sem Eneas hafði gefið henni, og
þuldi um leið ástmanni sínum herfilegar bölbænir. Hún gat ekki afbor-
ið þá hugsun að verða úthrópuð meðal þegna sinna sem skækja og
þurfa auk þess að þola háðsglósur fyrri biðla og biðja einhvern þeirra
auðmjúklega að ganga að eiga sig.
Í hugarvíli sínu sagði hún meðal annars (4. bók): „Ó, að ég hefði mátt
lifa frjáls eins og villt dýr merkurinnar, án hjónabands, og vera laus
undan þessari skömm.“
Þessi frásögn Virgils um Dídó og Eneas barst sem sinueldur norður
um alla Evrópu, og er fyrrnefnt söguljóð af Tristram og Ísönd undir
augljósum áhrifum þaðan.
En er ekki athyglisvert að mesti kvenskörungur hetjukvæða okkar,
Brynhildur Buðladóttir, sé Dídó endurborin? Brynhildur elskaði og
hataði. Hún sængaði með Sigurði Fáfnisbana utan hjónabands og þá
kom sverð við sögu eins og frægt er orðið. Og eftir að hún hafði verið
svikin „miðlaði hún sig mækis eggjum“ [lagði sig sverði] eins og segir í
Sigurðar kviðu skömmu (47.v.); lík hennar var síðan brennt á báli í
samræmi við hennar hinstu ósk.
Þannig er frægasta ástarsaga eddukvæðanna endurómur ástarsög-
unnar í einu af meistaraverkum rómverskrar fornaldar.
Dídó og Brynhildur
Tungutak
Baldur Hafstað
hafstad.baldur@gmail.com
Dídó og Brynhildur.
H
agstofa Íslands telur að Covid-faraldurinn
hafi leitt til annars mesta samdráttar í lands-
framleiðslu okkar Íslendinga. Vegna farald-
ursins löguðu stjórnvöld hér og í nágranna-
löndunum stjórn ríkisfjármála að nýjum, erfiðum
aðstæðum. Nú þegar sést vonandi fyrir endann á sótt-
varnahömlum birtast víða vangaveltur um framhaldið,
hvort snúið verði til sömu stjórnarhátta og áður eða róið
á ný mið.
Hér á landi bendir margt til þess að um hraðan efna-
hagsbata verði að ræða enda sé haldið rétt á málum.
Sömu sögu er að segja um Bandaríkin. Hægari vexti er
spáð innan ESB.
Faraldurinn varð til þess að ríkissjóði Íslands var
beitt af miklum þunga til að pestin ylli ekki óbætan-
legum skaða á efnahagslegum grunnstoðum. Auðveldaði
sterk staða ríkissjóðs í upphafi allar ákvarðanir um
þetta efni auk bjartsýni Bjarna Benediktssonar, efna-
hags- og fjármálaráðherra, á að þessi beiting á ríkisfjár-
málunum leiddi til þess að hjólin
færu hratt af stað að nýju þegar
slaknaði á hömlunum.
Á undraskömmum tíma hefur
atvinnulífið svo tekið kipp eins og
sjá má á þjóðlífinu og heyra á öll-
um ársfundum samtaka og opin-
berra stofnana sem efnt er til um
þessar mundir.
Rannís, rannsóknamiðstöð Ís-
lands, hélt ársfund sinn fimmtu-
daginn 9. september. Þar fagnaði Katrín Jakobsdóttir
forsætisráðherra því hve vel hefði miðað við fjármögnun
rannsókna- og þróunarverkefna á kjörtímabilinu enda
hefði ríkisstjórnin sett skýr markmið um það í sáttmála
sinn.
Fyrstu og skýrustu umskiptin í íslensku atvinnulífi
eftir aðildina að evrópska efnahagssvæðinu (EES) árið
1994 urðu á sviði rannsókna og þróunar. Í áranna rás
hafa íslenskir vísindamenn og sérfræðingar svo staðið að
öflugum og samkeppnisfærum umsóknum í evrópska
rannsóknasjóði.
Á sjö ára fresti er þessum sjóðum sett markmið og
lauk einu slíku tímabili í fyrra. Þá greiddu íslensk stjórn-
völd 80 milljónir evra í sameiginlega sjóðinn en til Ís-
lendinga og samstarfsmanna þeirra um umsóknir runnu
styrkir sem námu um 140 milljónum evra.
Sé litið á þetta sem mælikvarða um gæði rannsókna
hér á landi geta þeir sem að þeim vinna vel við unað. Á
fáum sviðum eru kröfur um gæði umsókna meiri en þeg-
ar sótt er í evrópsku sjóðina. Samkeppnin er gífurlega
hörð. Að þessari staðreynd verður að huga á öllum stig-
um íslenska skóla- og menntakerfisins. Sé slegið af kröf-
um innan þess bitnar þjálfunarleysi, til dæmis við að
þreyta próf, á nemendum síðar þegar reynir á sam-
keppnishæfni og úthald.
Sé litið á hlutfall útgjalda til rannsókna og þróunar
miðað við verga landsframleiðslu er Ísland nú í 7. sæti
meðal Evrópulanda. Hallgrímur Jónasson, forstjóri
Rannís, sagði á ársfundinum að nú mætti eygja að því
markmiði yrði náð að útgjöld vegna þessa málaflokks
yrðu 3% af landsframleiðslu.
Þegar peningastefnunefnd kynnti vaxtaákvörðun sína
25. ágúst 2021 sagðist Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri
afar bjartsýnn á efnahagshorfur til skamms tíma. Að
einhverju leyti gæti farsóttin reynst „blessun í dular-
gervi“. Ferðaþjónustan hætti að vera jafn yfirgnæfandi
og áður þar sem aðrar greinar sæktu í sig veðrið. Taldi
hann að nú hæfist nýtt framfaraskeið þjóðarinnar.
Vegna þessara orða er nærtækast að líta til hugverka-
iðnaðarins svonefnda, fjórðu stoðar efnahags- og at-
vinnulífsins, rannsókna, þróunar og nýsköpunar.
Í fyrra námu útflutningstekjur hugverkaiðnaðar um
158 milljörðum króna – 103% meira en árið 2013. Hlut-
deild hugverkaiðnaðar í útflutn-
ingstekjum fór úr 7,4% í nær
16%.
Þetta má meðal annars rekja til
þess að nú fá fyrirtæki endur-
greiðslu úr ríkissjóði til að standa
undir hluta rannsókna- og þróun-
arkostnaðar.
Þórdís Kolbrún Reykfjörð
Gylfadóttir nýsköpunarráðherra
lýsir þessum endurgreiðslum sem
einni stærstu stuðningsaðgerð sögunnar við nýsköp-
unarstarf fyrirtækja hér á landi.
Árið 2020 var endurgreiðsluhlutfallið 35% í stað 20%
áður. Þá hækkaði þak á endurgreiðslum úr 600 millj-
ónum í 1.100 milljónir króna. Rannís telur að fjárstreymi
úr ríkissjóði til stuðnings við rannsóknir, þróun og ný-
sköpun muni af þessum sökum aukast úr 5,2 milljörðum
króna fyrir árið 2019 í um 10 milljarða fyrir árið 2020.
Ekkert af þessu gerist af sjálfu sér. Stjórnmálamenn
verða að móta stefnu og taka ákvarðanir um fram-
kvæmd hennar. Vilji til að stofna til opinberra útgjalda
til stuðnings framtaki einkaaðila sem uppfylla gegnsæ
opinber skilyrði verður að vera fyrir hendi.
Hvati af þessu tagi á ekki aðeins við um nýsköpun.
Hann snýst til dæmis einnig um endurgreiðslu á virð-
isaukaskatti til þeirra sem fá iðnaðarmenn til að endur-
bæta eigið húsnæði sitt.
Á þessum stuðningi er ekki eðlismunur og fjárstuðn-
ingi við bændur, sjálfstæða atvinnurekendur, til að
tryggja skynsamlega nýtingu lands og búsetu í því öllu.
Á þeirri ráðstöfun skattfjár sem hér er lýst og áform-
um Pírata um að taka milljarða að láni til tilraunastarfs
með svonefndum borgaralaunum er hins vegar regin-
munur. Svo að ekki sé minnst á tilboð Sósíalistaflokksins
um „stóru húsnæðisbyltinguna“, byggingu 30 þúsund
íbúða á tíu árum.
Hér hafa kjósendur skýrt val í kosningunum eftir
tvær vikur á milli raunhæfra aðgerða í þágu þjóðarhags
og yfirboða í anda lýðskrums. Ríkisstjórnin tók skyn-
samlegar efnahagsákvarðanir vegna faraldursins og
vonandi verður framhald á þeim að honum loknum.
Bjartsýni í efnahagsmálum
Í kosningunum eftir
tvær vikur er auðvelt
að velja milli ólíkra leiða í
efnahagsmálum: raunhæfar
aðgerðir eða loftkastala.
Björn Bjarnason
bjorn@bjorn.is
Sumar fréttir eru svo óvæntar
og stórar, að allir muna, hvar
þeir voru, þegar þeim bárust þær.
Árið 1963 var ég tíu ára lestrar-
hestur á Laugarnesvegi 100. Hin-
ar fjölmörgu bækur á heimili for-
eldra minna nægðu mér ekki, svo
að ég laumaðist oft upp til vina-
fólks okkar í sama stigagangi og
grúskaði í bókum. Ég sat þar við
lestur síðdegis föstudaginn 22.
nóvember, þegar annar sonur
hjónanna í íbúðinni kom að mér og
kallaði: „Hefurðu heyrt fréttirnar?
Þeir hafa skotið Kennedy!“ Öllum
var brugðið.
Haustið 1997 var ég á leið til
Torino, þar sem ég skyldi vera
gistifræðimaður í nokkra mánuði.
Að morgni sunnudagsins 31. ágúst
var ég nýlentur í Mílanó (sem
fornmenn kölluðu Melansborg) og
í leigubíl á leið til járnbrautar-
stöðvarinnar. Lágvært útvarp á
ítölsku var í gangi. Skyndilega
hrópaði ökumaðurinn: „Díana
prinsessa er látin! Hún lenti í bíl-
slysi!“ Ég var forviða. Það var
ótrúlegt, að þessi þokkadís væri
öll.
Þriðjudaginn 11. september
2001 var ég nýkominn á gistihús í
Bratislava í Slóvakíu, þar sem
halda átti svæðisþing Mont Peler-
in-samtakanna, alþjóðasamtaka
frjálslyndra fræðimanna. Laust
eftir klukkan þrjú síðdegis hringdi
bandarískur kunningi í mig. Hann
var í uppnámi: „Komdu upp í
íbúðina til mín og horfðu á sjón-
varpið með mér. Það er verið að
gera loftárás á New York!“ Ég
trúði ekki mínum eigin eyrum.
„Eins og í kvikmynd?“ sagði ég.
„Já, en þetta er ekki kvikmynd,
þetta er veruleiki,“ svaraði hann.
Ég fór upp í íbúð hans, við feng-
um okkur drykki og blönduðum
sterkt, settumst fyrir framan sjón-
varpið og horfðum þöglir á árás-
irnar í beinni útsendingu. Þegar
áfengisbirgðir þraut úr kæliskápn-
um í íbúð hans, náði ég í það, sem
til var í mínu herbergi.
Ólíkt hörmulegum andlátum
Kennedys og Díönu markaði árás-
in á Bandaríkin tímamót. Þetta
var í fyrsta skipti, sem fjandmenn
höfðu ráðist inn í landið sjálft. En
hryðjuverkasamtökin Al-Kaida
höfðu vanmetið styrk Bandaríkj-
anna, sem lögðu þau að velli á
nokkrum misserum, þótt ekki hafi
þeim tekist með öllu að uppræta
þau. Enginn skyldi samt vanmeta
þennan styrk.
.Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is
Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð
Fyrir tuttugu árum
Íbúðir sem upp-
fylla skilyrði um
hlutdeildarlán
Berjateigur 17-23, 250 Garði
Nánari upplýsingar á skrifstofu s. 420 6070 eða eignasala@eignasala.is
Nýjar fullbúnar og vandaðar 3ja herbergja íbúðir í
raðhúsi á einni hæð, með sólpalli, sem snýr í vestur.
ATH. Umsóknartímabil
hlutdeildarlána HMS er til 15. sept.
Berjateigur 17 82,9 m2 Seld
Berjateigur 19 82,9 m2 36.900.000.-
Berjateigur 21 82,9 m2 36.900.000.-
Berjateigur 23 82,9 m2 Seld
Jóhannes Ellertsson
Löggiltur fasteignasali – s. 864 9677
Júlíus M Steinþórsson
Löggiltur fasteignasali – s. 899 0555
Afhending í nóvember 2021