Morgunblaðið - 27.08.2021, Page 18
18 MINNINGAR
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 27. ÁGÚST 2021
✝
Sigurður Krist-
jánsson fæddist
á Löndum í Stöðv-
arfirði 11. febrúar
1931. Hann lést á
líknardeild Land-
spítalans 17. ágúst
2021.
Sigurður var
sonur hjónanna
Kristjáns Þor-
steinssonar, f. 19.
febrúar 1905, d. 19.
apríl 1977, og Aðalheiðar Sigríð-
ar Sigurðardóttur, f. 3. ágúst
1903, d. 16. maí 1988.
Systkini Sigurðar eru: Þor-
steinn, f. 12. febrúar 1927, d. 13.
maí 1998, Guðrún, f. 13. júlí
1929, og Brynhildur, f. 3. októ-
ber 1932, d. 12. febrúar 2021.
Sigurður giftist hinn 26. des-
ember 1956 eiginkonu sinni,
Jónínu Herborgu Eiríksdóttur,
f. 6. nóvember 1931 á Syðra-
Lóni í Þistilfirði. Foreldrar
vélanámskeiði Fiskifélags Ís-
lands sem haldið var í Neskaup-
stað.
Á árunum 1951-1957 var hann
að mestu vélstjóri á fiskibátum
frá Höfn í Hornafirði, Sandgerði
og Keflavík. Á árunum 1957-
1967 var hann farmaður í milli-
landasiglingum hjá Skipadeild
Sambandsins, þar var hann báts-
maður á Helgafelli.
Árið 1967 réðst hann til ný-
stofnaðrar álverksmiðju á Ís-
landi, ÍSAL, og fór á þeirra veg-
um til náms til Steg í Sviss. Var
hann þar í námi og þjálfun í eitt
ár. Jónína og börnin dvöldu þar
með honum hluta tímans. Við
heimkomu tók hann við starfi yf-
irverkstjóra í skaut- og ker-
smiðju í Straumsvík. Starfaði
hann hjá ÍSAL í 30 ár, þar til
hann fór á eftirlaun.
Sigurður var mikill bridge-
spilari og tók þátt í ótal keppn-
um um allt land, keppti meðal
annars fyrir ÍSAL í bridge.
Hann var einnig mikill veiði-
maður. Einnig ferðuðust þau
Jónína mikið um landið.
Útför verður gerð frá Lang-
holtskirkju í dag, 27. ágúst 2021,
klukkan 11.
hennar voru Eirík-
ur Þorsteinsson, f.
16. febrúar 1905, d.
8. maí 1976, og
Anna Guðmunds-
dóttir, f. 23. apríl
1914, d. 24. desem-
ber 1999.
Börn Sigurðar
og Jónínu eru: 1)
Anna Sigríður, f.
1956, gift Tryggva
Þormóðssyni, eiga
þau eina dóttur, Kristrúnu, f.
1975. 2) Aðalheiður Steinunn, f.
1961, gift Guðmundi Lárussyni,
eiga þau þrjú börn, Önnu, f.
1983, Steinunni, f. 1986, og Sig-
urð, f. 2001. 3) Eiríkur, f. 1966.
Barnabarnabörnin eru fimm.
Sigurður ólst upp á Löndum í
Stöðvarfirði og tók þar þátt í
sjómennsku með föður sínum
frá 15 ára aldri. Hann stundaði
nám við Eiðaskóla árin 1948 og
1949. Síðan lauk hann mótor-
Í dag kveð ég með söknuði
Sigga tengdaföður minn.
Það voru svo sem ekki miklir
kærleikar með okkur Sigga er við
hittumst fyrst, snemma morguns
fyrir nær 50 árum, er ég skilaði
frumburðinum heim. Siggi að
leggja af stað til vinnu og Anna
kona mín að sækja skólatöskuna
sína. Það rættist þó fljótt úr sam-
bandi okkar. Ég kynntist því fljótt
að Siggi vildi hafa röð og reglu á
hlutunum, stundum broslega mik-
ið, hann útvegaði mér sumarstarf
hjá ÍSAL og við urðum samferða
til vinnu á morgnana, þá var allt í
föstum skorðum, þrjú högg á
dyrnar til að vekja strákinn, rist-
að brauð, ostur og marmelaði,
kaffi og svo af stað.
Hann gat verið einstaklega
stríðinn, svo mjög að ýmsum sveið
undan en allt var það þó mein-
laust og í gamni gert, þegar hann
sat glottandi við að æsa menn upp
í umræðum t.d. um stjórnmál.
Hann var alla tíð glæsilegur og
flottur, „töffari“ má segja, en
ábyrgur og vildi standa fyrir sínu
og styðja sína. Þess nutum við
Anna þegar við vorum að brölta
við að stofna heimili og ala upp
barn og fórum svo til náms í Kali-
forníu. Það var okkur því mikil
ánægja þegar „tengdó“ komu í
heimsókn til okkar í LA. Þá gát-
um við snúið við taflinu og sýnt
þeim svolítið horn af Ameríku.
Siggi var mikill veiðimaður,
frábær skytta og lunkinn að ná
stórum fiskum. Ferðir sem við
tveir fórum á gæsaveiðar á
„Trukknum“, húsbíl þeirra, eru
mér sérlega minnisstæðar. Þar
naut ég þess að hlusta á hann
segja sögur, frá unglingsárunum,
ævintýrum í fjarlægum höfnum
og sögur af hundinum Pílu, því
þrátt fyrir veiðiáhuga var hann
einstakur dýravinur og þegar við
komum heim frá Ameríku með
hundinn okkar „Lucky“ urðu þeir
óaðskiljanlegir félagar.
Sameiginleg ferðalög öll þessi
ár standa upp úr, eins og „píla-
grímsferð“ til Þýskalands, Sviss
og N-Ítalíu, á staðina sem voru
þeirra heimahagar er Siggi nam
álframleiðslu á vegum ÍSAL,
íbúðarhúsið í St. German, álverk-
smiðjur og kunnuglegt umhverfið
þar sem sem þau dvöldu saman
1968. Sigling um ár og vötn Norð-
austur-Þýskalands á húsbát í ró-
legheitum þar sem við skoðuðum
lítil þorp og undarlega staði
gamla A-Þýskalands eins og okk-
ur hentaði, þar naut hann sín vel.
Samband þeirra Sigga og Lillu
var einstaklega fallegt og farsælt,
alltaf samtaka í öllu því sem rak á
fjörur þeirra í lífinu. Ræktuðu
tengsl við fjölskyldu og ættboga í
báðar ættir. Hann var sérlega
fróður um ættmenni sín og gat
rakið tengsl langt aftur.
Fyrir fáeinum vikum var Siggi
svo hress að hann ók bíl, verslaði
og sá um heimilið fyrir þau tvö,
hélt þá öllu í röð og reglu enda
honum eðlislægt, en fór svo að
finna fyrir máttleysi og vanlíðan,
lagður inn á spítala til rannsókna
en versnaði stöðugt. Í ljós kom
ólæknandi mein. Það dró svo
hratt af honum uns hann var flutt-
ur á líknardeild hvar hann lést
stuttu síðar. Það gerði Siggi fljótt
og vel eins og honum var lagið,
held honum hafi ekki hugnast að
vera upp á aðra kominn til lengd-
ar.
Kærar þakkir fyrir samfylgd-
ina og heilræðin sem hafa dugað
mér og mínum vel.
Góða ferð og guð veri með þér
hvert sem þú nú heldur.
Tryggvi Þormóðsson.
Ljúfar eru stundir
er áttum við saman.
Þakka ber Drottni
allt það gaman.
Skiljast nú leiðir
að farinn ert þú.
Við hittast munum aftur
það er mín trú.
Hvíl þú í friði
í ljósinu bjarta.
Ég kveð þig að sinni
af öllu mínu hjarta.
(Maren Jakobsdóttir)
Þegar ég kveð bróður minn
minnist ég með þakklæti æskuár-
anna. Við fæddumst og ólumst
upp á Löndum í Stöðvarfirði.
Lönd eru jörð yst við fjörðinn
norðanmegin. Fallegir kletta-
veggir með blómabrekkum fyrir
neðan eru í hálfhring kringum
túnið, en hinum megin er hafið
með allan sinn fjölbreytileika.
Stundum leikur báran létt við
fjörustein og hins vegar getur
verið brim með ólgu og hávaða
sem flæðir upp á tún og ber með
sér þara og grjót. Hinum megin
fjarðarins er Kambanesið en í
vesturátt blasir við fögur og
glæsileg fjallasýn með Mosfelli og
Súlum.
Lönd hafa verið í eigu sömu
ættar frá 1887 þegar langafi og
langamma okkar Sigga keyptu
jörðina. Þau voru Kristján Þor-
steinsson, f. 1847, d. 1931, og Mar-
grét Höskuldsdóttir, f. 1851, d.
1916.
Þegar við erum að alast upp er
þríbýli í Löndum, 10 börn, allt
frændfólk. Við fórum í skólann í
þorpinu sem var 30 mínútna
gangur. Sem unglingar vorum við
mikið í handbolta og strákarnir
líka í fótbolta. Íþróttavöllurinn
var milli þorpsins og Landa. Ung-
mennafélagið Súlan var mjög gott
félag og gerði mikið fyrir unga
fólkið. Í okkar uppeldistíð var for-
maður félagsins Guðmundur
Björnsson.
Pabbi okkar var sjómaður og
gerði út bátinn frá Löndum.
Bræður mínir Siggi og Steini
byrjuðu ungir sjóróðra. Foreldrar
okkar fluttu til Reykjavíkur 1957,
þá vorum við systkinin öll búsett í
Reykjavík. Í dag býr enginn á
Löndum, þessum fallega stað, en
húsin standa öll og eru mest notuð
á sumrin.
Gott samband var hjá fjöl-
skyldum okkar Sigga en sérstak-
ur áhugi er hjá mörgum að spila
bridge. Við Siggi spiluðum oft hjá
félagi eldri borgara í Reykjavík.
Ég og fjölskylda mín vottum
Jónínu, Önnu Sigríði, Aðalheiði,
Eiríki og fjölskyldum þeirra inni-
lega samúð.
Við geymum minningu um góð-
an mann í hug okkar og biðjum
honum blessunar á nýjum leiðum.
Guðrún Kr. Jörgensen.
Á fyrstu árum mínum hjá
skipadeild Sambandsins, á sjö-
unda áratugnum, heyrði ég Sigga
Kristjáns getið fyrst þegar ég var
spurður hvort ég hefði ekki verið
með honum á Helgafellinu en svo
var ekki því hann var farinn til
annarra starfa í landi er ég kom
þar um borð. Í spurningunni fann
ég virðingu fyrir þessum báts-
manni sem ég hafði ekki kynnst
enn þá. Þegar ég var svo sendur á
Helgafellið tók ég eftir því hve því
skipi hafði verið betur sinnt í við-
haldi og umhirðu en systurskipi
þess Arnarfelli, sem ég hafði ver-
ið á lengst af áður, en þessi skip
voru þá orðin nokkuð við aldur,
en „veldur hver á heldur“ í upp-
hafi. Dagleg umhirða var í um-
sjón og verkstjórn bátsmanns að
mestu leyti. Ef hann brást þá
markaði aldur fyrr á skipið en
ella.
Það var svo áratug seinna að
fundum okkar Sigurðar bar sam-
an þegar tilvonandi eiginkona
mín bauð foreldrum sínum kynn-
ingu á mér. Stóð ég þá frammi
fyrir honum og Jónínu, sem mér,
eftir nokkrar matskenndar
spurningar og ljúffengan steiktan
silung, fannst taka mér vel, sem
reynst hefur síðan rétt mat. Á
þessum árum var Siggi yfirverk-
stjóri yfir skaut- og kersmiðjunni
hjá Ísal í Straumsvík þar til hann
hætti störfum og fór á eftirlaun.
Allar götur frá því við kynnt-
umst í stofunni hjá þeim hjónum í
Karfavogi hefur mér fundist vin-
skapurinn vaxa og þroskast.
Við spjall í áranna rás kom
fram hjá honum starfssaga hans
sem byrjaði við ýmsan veiðiskap
frá heimilinu á Löndum við
Stöðvarfjörð og til fiskveiða með
bróður sínum og föður á trillunni
hans í úfnum sjó í stórstraumi eða
í logni í niðaþoku.
Við spjall í eldhúsinu eða stof-
unni í Karfavogi var Siggi stund-
um að ráða krossgátu. Það vakti
aðdáun mína að fylgjast með hon-
um skrifa með penna á meðan
hann hélt uppi samræðum án
þess að missa þráðinn í samtal-
inu. Ekki varð ég var við að hann
leiðrétti röð með röngu orði enda
voru þau ekki til staðar, slík var
yfirsýnin á verkefnið. Hann var
einnig góður bridge-spilari og tók
þátt í mótum með góðum árangri.
Þetta sýndi mér að verkstjórn
þarf yfirsýn mannþekkjara.
Nokkrum sinnum fórum við
fjölskyldan í ferðir saman auk
þess að dvelja reglulega í sum-
arhúsinu í Flatey. Einu sinni í
eins konar endurkynningarferð
til Valais-kantónu í Sviss þar sem
Siggi hafði verið árið 1957 í námi
og þjálfun í álveri Alusuisse við
borgina Steg í efri Rónardal. En
þar dvaldi fjölskyldan saman í
hálft ár. Þetta var afskaplega
skemmtileg ferð sem Siggi leiddi
af stakri vandvirkni þar sem farið
var í fyrri fótspor fjölskyldunnar
og rifjaðar upp minningar frá
dvölinni. Svo var það á áttatíu og
fimm ára afmælisári þeirra hjóna
að við fórum saman í viku báts-
siglingu á vatnaleiðum Norður-
Þýskalands til að skoða og njóta
„víðerna“ vatnasvæðanna í bland
víð dreifbýlisþorpin. Þá varð ljóst
að hann hafði ekki gleymt þýsk-
unni frá Sviss. Síðasta ferð okkar
með Sigga var farin í vor í sum-
arbústað á Suðurlandi. Ljóst var
að mátturinn hjá Sigga fór þverr-
andi og var svo nokkuð dag frá
degi þar til hann lést 17. ágúst.
Við fjölskyldan kveðjum mæt-
an mann.
Guðmundur Lárusson.
Þegar við Sigurður vorum
strákar áttum við heima í Lönd-
um í Stöðvarfirði, ásamt hópi af
krökkum. Bærinn Lönd er um-
girtur af háum klettum sem var
gaman að spreyta sig að klifra í
og oft var farið með færið út á
klöpp til að reyna að veiða fisk.
Enda varð Sigurður síðar heil-
mikill veiðimaður á fisk og fugl.
Einn daginn bað hann mig að
koma með sér að hitta hrepp-
stjórann því hann ætlaði að sækja
um skotvopnaleyfi, sem hann og
fékk.
Við krakkarnir í Löndum höfð-
um gott samband við krakkana í
þorpinu og mynduðum við strák-
arnir handboltalið sem keppti á
handboltamóti Austurlands.
Fimm af okkur voru einmitt af-
komendur sr. Guttorms Vigfús-
sonar, síðasta prests í Stöð.
Fyrsta mótið sem við unnum var
haldið á Eiðum á Fljótsdalshér-
aði. Veðrið var einkar gott þessa
daga og völlurinn nýr. Sigurður
var einmitt á leið í nám við Al-
þýðuskólann á Eiðum þetta haust
en pabbi hans Kristján hafði verið
þar í námi á fyrstu árum skólans.
Þá var skólastjóri Ásmundur
Guðmundsson.
Næstu handboltamótin voru
haldin á Eskifirði, Norðfirði og
Stöðvarfirði. Við unnum þau öll og
félagið vann bikar til eignar.
Síðan liðu árin og þessi hópur
dreifðist,en við Sigríður kona mín
héldum góðu sambandi við þau
Sigurð og Jónínu. Stundum komu
þau við hjá okkur á Eiðum eftir
veiðiferðir á Norðausturlandinu.
Ferðalag með þeim inn á Lóns-
öræfi er mér einnig ofarlega í
huga. Mæltum við okkur mót í
Stafafelli í Lóni en þau voru á
stórum og góðum bíl. Á þessari
leið þurftum við að fara yfir
Skyndidalsá sem var í töluverðum
vexti. Sigurður fór út og athugaði
hvar best væri að fara yfir ána.
Fórum við yfir þar sem hann taldi
best, og allt gekk vel. Við stopp-
uðum þegar við komum upp á
bakkann og meðan Sigurður hug-
aði að bílnum hlóð ég litla vörðu.
Síðan héldum við áfram upp á
Illakamb, skildum bílinn eftir,
löbbuðum niður í Múlaskála og
fórum yfir Jökulsá í Lóni á göngu-
brú. Um kvöldið spiluðum við
Bridge og gengum daginn eftir
inn í dalinn og skoðuðum um-
hverfið. Þegar við lögðum af stað
heim hafði enn vaxið í Skyndidals-
ánni og flaut yfir bakkana. En upp
úr vatninu stóð varðan við þann
stað sem Sigurður hafði talið
bestan og fórum við þar yfir.
Sigurður var rólegur maður,
athugull og greiðvikinn. Það var
alltaf gott að leita til þeirra hjóna.
Hjá þeim áttum við hjónin ósjald-
an griðastað þegar leið okkar lá til
Reykjavíkur meðan við bjuggum
fyrir austan. Eftir að við fluttum í
bæinn urðu samskiptin meiri, inn-
lit, spilakvöld og spjall og er það
allt þakkað nú að leiðarlokum. Við
söknum hans og hann var góður
frændi.
Lífið hér á jörðinni er eins og
fljót með sitt upphaf og endi, sem
um leið er upphaf til nýs lífs. Ég
trúi að Sigurður, jafn athugull og
hann var, finni besta vaðið á
mörkum hins jarðneska og eilífa
þar sem kærleikur Krists ræður
ríkjum, kærleikurinn sem fellur
aldrei úr gildi.
Einar Þ. Þorsteinsson.
Sumarið 1967 þegar álverið í
Straumsvík var í byggingu var
auglýst eftir verkstjórum og yf-
irmönnum. Sigurður Kristjáns-
son var einn þeirra sem ráðnir
voru til starfa. Hann fór um
haustið ásamt 25 öðrum í eins árs
langa starfsþjálfun við álverið í
Steg í Sviss. Við komuna þangað
hófst þriggja mánaða bóklegt
námskeið. Það var átak fyrir hálf-
fertugan manninn að setjast aftur
á skólabekk eftir að hafa lokið vél-
stjóranámi mörgum árum áður.
Kennslan fór fram á þýsku sem að
vísu var túlkuð en reyndi samt á
úthald nemendanna. Jafnframt
starfsfræðslunni var boðið upp á
þýskukennslu. Sigurður var góð-
ur námsmaður, háttvís og vel lið-
inn. Hann var valinn sem yfir-
verkstjóri að bóklega hlutanum
loknum. Þá tók við níu mánaða
starfsnám við framleiðslu á áli
Einnig var boðið upp á starfs-
kynningu við mörg álver Alusu-
isse í Evrópu. Við heimkomuna
aðstoðaði Sigurður við undirbún-
ing gangsetningar álversins og
byggði upp starfsemi ker- og
skautsmiðju. Hann var farsæll í
starfi, traustur liðsmaður og vel
liðinn af samstarfsmönnum.
Hann starfaði við álverið allt þar
til hann fór á eftirlaun. Samstarf
okkar Sigurðar var alla tíð
ánægjulegt og gefandi.
Við Erla áttum ánægjulegar
samverustundir með honum og
Jónínu, konu hans. Við sendum
henni og fjölskyldu innilegar sam-
úðarkveðjur.
Við söknum góðs vinar og ósk-
um honum heilla á nýjum lendum.
Ingvar Pálsson.
Sigurður
Kristjánsson
✝
Anna Lilja
Pálsdóttir
fæddist í Kópavogi
29. maí 1955. Hún
lést á líknardeild
Landspítalans í
Kópavogi 20. ágúst
2021.
Foreldrar henn-
ar voru Páll Merkúr
Aðalsteinsson bif-
reiðastjóri, f. 15.5.
1927, d. 3.12. 2014,
og Guðrún Ester Björnsdóttir, f.
22.11. 1928, d. 10.8. 2000.
Bræður Önnu Lilju eru Björn
Sigurpáll, f. 5.1. 1949, og Sæ-
mundur, f. 13.3. 1959.
Anna Lilja kynntist árið 1980
eftirlifandi maka
sínum, Arnþóri
Ævarssyni, doktor í
sameindalífeðlis-
fræði, f. 23.9. 1963.
Foreldrar hans eru
Ævar Már Axels-
son, f. 22.6. 1943, og
Jórunn Andersen, f.
16.9. 1944.
Barn Önnu Lilju
og Arnþórs er Þor-
gerður Ösp arki-
tekt, f. 19.9. 1989, maki Grettir
Ólafsson hugbúnaðarverkfræð-
ingur, f. 10.1. 1989. Barn þeirra
er Óríon Reginn, f. 9.9. 2019.
Anna Lilja flutti til Hvera-
gerðis árið 1960 þar sem hún ólst
upp. Hún lauk gagnfræðaprófi
frá gagnfræðaskóla Hvera-
gerðis. Nítján ára fór hún sem
au pair til Chicago í Bandaríkj-
unum. Hún vann að ýmsum
störfum á Íslandi, m.a. á skrif-
stofu Hans Petersen um árabil
og sem vatnsnuddari á Heilsu-
stofnun NLFÍ í Hveragerði. Ár-
ið 1985 flytjast Anna Lilja og
Arnþór búferlum til Lundar í
Svíþjóð. Anna Lilja stundaði
nám við Kommunala Vuxenhög-
skolan í Lundi og starfaði einnig
við Vipeholms Sjukhus auk
fleiri starfa. Árið 1996 flyst fjöl-
skyldan til Seattle í Bandaríkj-
unum þar sem þau dvelja fram
til ársins 1999 þegar Anna Lilja
og Arnþór setjast að í Hvera-
gerði á ný þar sem þau hafa bú-
ið síðan í Haukafelli, Heiðmörk
21.
Útförin fer fram frá Hvera-
gerðiskirkju í dag, 27. ágúst
2021, klukkan 15.
Þegar ég hugsa um Önnu Lilju
þá brosi ég í gegnum tárin. Ég
brosi því hún var svo skemmtileg
og orðheppin og græt því ég mun
sakna hennar sárt. Þegar ég
kynntist henni fyrir tæpum fjöru-
tíu árum, voru þau Arnþór nýfar-
in að vera saman og ástin sem
sveif allt um kring fór ekki fram
hjá neinum. Hún var töffara-
stelpa, gerði við bíla og elskaði
mótorhjól en farartækin áttu
helst að vera blá. Blár var uppá-
haldsliturinn hennar og heimilið
hennar og fataskáparnir bera
þess merki.
Anna Lilja var svo margt, blíð
og viðkvæm, ákveðin, stóð fast á
sínu, þoldi ekki óréttlæti og
hvæsti stundum svolítið á mann
en það risti ekki djúpt. Hún var
vinur í raun og heiðarleg, benti
manni á ólíkar hliðar á málunum
sem maður gat svo velt fyrir sér.
Þegar hún sagði mér að hún
ætti von á barnabarni leyndi
gleðin sér ekki og hún ljómaði
alltaf þegar hún talaði um „litlu
tásurnar“ í Ameríku, eins og hún
kallaði Óríon Regin. Það er sárt
að hún skuli ekki fá lengri tíma
með honum en þau voru dugleg að
tala saman með tækninni. Það var
henni mikils virði að fá að knúsa
hann áður en hún kvaddi. Ég veit
að Gogga mun halda minningu
mömmu sinnar á lofti svo hann
gleymi ekki ömmu sinni.
Síðustu árin voru Önnu Lilju
mjög erfið vegna veikinda en hug-
urinn skýr. Hún nennti helst ekki
að tala um veikindin og maður
þurfti að draga það upp úr henni
hvernig henni leið í raun. Hún
vildi frekar tala um heimsmálin
og pólitík, hún var gallharður pí-
rati og talaði alltaf um „píratana
sína“.
Elsku vinkona, það er sárt að
kveðja og samverustundir okkar,
þá sérstaklega undanfarna mán-
uði, mun ég geyma í hjarta mínu.
Ég gæti skrifað svo mikið
meira en finn að ég er að verða
væmin og það viltu ekki.
Ég lýk þessu því með síðustu
orðum okkar við hvor aðra þegar
við kvöddumst í síðasta sinn í
þessu lífi, fyrir aðeins örfáum
dögum.
Mér þykir svo vænt um þig.
Þín
Hallfríður (Halla).
Anna Lilja
Pálsdóttir