Morgunblaðið - 22.11.2021, Qupperneq 28

Morgunblaðið - 22.11.2021, Qupperneq 28
28 MENNING MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 22. NÓVEMBER 2021 120 OG 200 LJÓSA INNI- OG ÚTISERÍUR Við Fellsmúla | Reykjavík | Sími: 585 2888 | rafmark.is Kíktu á nýju vefverslunina okkar rafmark.is Hér birtist brot úr inngangi Arthúrs Björgvins Bollasonar að þýðingunni. IV Hýperíon var eina skáldsagan sem Friedrich Hörlderín samdi. Hann varð fyrst og fremst þekktur sem ljóðskáld. Og þó að Hýperíon sé að nafninu til „skáldsaga“, þá er hún, eins og hér hefur komið fram, ekki neinn venjulegur „róman“. Margir hafa frekar viljað kalla hana „ljóð- sögu“, enda er hún á löngum köflum fremur í ætt við óbundið ljóð en eiginlega frásögn. Sem ljóðskáld hafði Hölderlín sömu- leiðis ákveðna sérstöðu í bókmenntum síns tíma. Ljóðin sem hann samdi á fyrstu skáldskaparárum sínum voru flest ort undir hefðbundnum bragar- háttum. Efnisvalið var líka oftast í svipuðum anda og tíðkaðist hjá helstu skáldum þessa tíma. Mörg af elstu kvæðum Hölderlíns bera svip af ljóðum Friedrichs Schiller, enda fór Hölderlín ekki leynt með dálæti sitt á skáldskap þess síðarnefnda. Áhugi skáldsins fyrir menningu Forngrkikkja, sem lýst var hér að framan, birtist okkur líka í mörgum ljóðum þess sem ort eru undir forn- klassískum bragarháttum. Síðar á sínum skamma ferli, eða eftir alda- mótin 1800, fór Hölderlín í auknum mæli að nýta sér það ljóðform sem Þjóðverjar kalla „freie Rhythmen“ og Hannes Pétursson, skáld og þýð- andi, valdi að kalla á íslensku „óbundið hljóðfall“. Eins og Hannes bendir á í formála að þýðingum sínum á ljóðum Höld- erlíns, fóru ljóð hans „ekki með him- inskautum á 19. öld, þótt metin væru mikils af sumum“. Hjá einstökum þýskum samtímahöfundum, svo sem Clemens Brentano og Achim von Arnim, sem báðir tilheyrðu svoköll- uðum „Heidelberg-skáldahópi“, var hann t.d. í miklum metum. Þannig lét Brentano hafa það eftir sér 1814 að Hýperíon væri að sínum dómi ein frábærasta bók sem skrifuð hefði verið í Þýskalandi, jafnvel í heim- inum öllum. Seinni hluta 19. aldar og fram á annan áratug þeirrar tuttugustu var Hölderlín eins konar „huldumaður“ í þýskum bókmenntum. Þetta breytt- ist þegar þýski textafræðingurinn Norbert von Hellingrath hóf útgáfu á verkum skáldsins 1913. Hellin- grath, sem var menntaður í fornmál- unum, fékk áhuga fyrir Hölderlín þegar hann rakst á handrit að óbirt- um þýðingum þess síðarnefnda á kveðskap eftir gríska skáldið Pind- ar, sem var uppi á 6. öld f.Kr., á borgarbókasafninu í Stuttgart. Þar fann hann líka handrit að nokkrum lofsöngvum („Hymnen“) eftir Höl- derlín, sem voru ortir um og eftir aldamótin 1800, síðustu árin sem skáldið var enn í andlegu jafnvægi. Þessi uppgötvun textafræðingsins olli töluverðu fjaðrafoki í hópi þýskra skálda og menntamanna. Vinur Hellengraths, skáldið Stefan George, var stórhrifið af lofsöngvum Hölderlíns og hvatti Hellingrath til þess að ganga frá heildarútgáfu á verkum þess. Hún kom út á árunum 1913-1917. Það var kaldhæðni örlag- anna að Hellingrath lifði ekki þau frábæru viðbrögð sem heildar- útgáfan fékk því hann féll í orust- unni við Verdun árið 1916. Frá því að verk Hölderlíns voru „uppgötvuð“ á nýjan leik hafa þau notið gríðarlegra vinsælda og verið þýdd á fjölda tungumála. Það er til marks um viðtökur skáldverka Hölderlíns í enskumælandi heim- inum, að rithöfundurinn W.H. Aud- en, sem er Íslendingum að góðu kunnur, mun hafa látið þau orð falla að skáldsagan Hýperíon væri full- komnasta birtingarmynd rómatísku stefnunnar sem hann hefði nokkurn tíma lesið. Og ekki er hægt að skiljast við við- tökur Hölderlíns í öðrum löndum án þess að nefna þær viðtökur sem hann hefur fengið hjá Íslendingum. Lengsta og nánast eina greinar- gerðin um skáldverk Hölderlíns sem birst hefur á íslensku er ritgerð eftir bandaríska bókmenntafræðinginn P.M. Mitchell (1916-1999) sem birt- ist í Tímariti Máls og menningar ár- ið 1950. Greinarhöfundur ræðir al- mennt um efni skáldverka Hölder- líns og viðtökur þeirra. Hann nefnir m.a. að Hölderlín hafi verið kallaður „skáld handa skáldum“, enda sé „nokkur heimagengni í bragar túni“ nauðsynleg til að skilja ljóðin hans. Og vegna þess að Íslands sé „land skáldanna“ þykir honum sæta furðu að ljóð Höderlíns skuli ekki vera kunnari hér en þau eru. Í lokin bendir hann síðan á að í flestum menningarlöndum öðrum vinni bókmenntaunnendur nú að því að tryggja stöðu Hölderlíns í bók- menntum landa sinna. Greininni lýk- ur á þessum orðum: „Og það er hvorki af skyldurækni né virðingu við mikið fortíðarskáld, heldur vegna þess að skáldskapur Hölder- lins er nútízkur, lifandi og hvorki bundinn öld né ártali.“ Í bókinni Svanhvít, sem kom út árið 1877 og hefur að geyma ljóða- þýðingar Matthíasar Jochumssonar og Steingríms Thorsteinssonar, er að finna tvö efnismikil ljóð eftir Hölderlín, „Vegfarann“ og „Til upp- himins“, í þýðingu Steingríms. Það er skemmtileg tilviljun að þegar Hölderlín sendi Friedrich Schiller handrit að fyrra bindi skáldsög- unnar Hýperíon lét hann fylgja með handrit að einmitt þessum tveimur kvæðum sem hann bað Schiller að lesa yfir og segja sér hvað honum fyndist. Schiller var svolítið óráðinn og ákvað að senda skáldbróður sín- um Goethe kvæðin til umsagnar. Goethe var ekki ósáttur við ljóðin, en fannst þau þó nokkuð viðamikil. Í svar sínu til Schillers lagði hann til að Schiller brýndi fyrir þessu unga skáldi að velja sér frekar yrkisefni, sem væru smærri í sniðum, og þar sem hann þyrfti að spreyta sig meira á „að draga upp myndir af fólki“. Það er í raun athyglisvert að Steingrímur Thorsteinsson skuli hafa þýtt þessi ljóð eftir Hölderlín á íslensku, einmitt á þeim tíma þegar áhugi á ljóðum þess síðarnefnda liggur í láginni í Þýskalandi. Það er skýr vísbending um að Steingrímur hafi verið einstaklega vel heima í þýskum bókmenntum þessa tíma. Auk þess verður að nefna að Stein- grímur hefur augljóslega næman skilning á kveðskap hins þýska skáldbróður síns. Og eins og fram kemur í Ævisögu Steingríms eftir Hannes Pétursson, þá er líka „aðdá- unarvert, hvernig Steingrímur rek- ur sundur hina flóknu málsmeðferð Hölderlins og stílar hugsunina á nýj- an leik, bláþráðalaust“. Löngu eftir að Svanhvít kom út þýddi Helgi Hálfdanarson nokkur kvæði eftir Hölderlín, með miklum ágætum, eins og fram kom hér að framan. Þá hefur Kristján Árnason snúið einu ljóði Hölderlíns á ís- lensku. Sá sem lagt hefur mest af mörk- um til að kynna ljóð Hölderlíns fyrir íslenskum lesendum er þó skáldið Hannes Pétursson. Árið 1997 kom út lítið kver, Lauf súlnanna, sem minnst var á hér að framan og hefur að geyma þýðingar Hannesar á nokkrum þekktum kvæðum eftir hinn þýska skáldbróður sinn. Án þess að það verði tíundað nán- ar hér má telja víst að sem ljóðskáld sé Hannes Pétursson nátengdari Hölderlín en flest önnur íslensk skáld. Það má nefna að náttúru- myndir Hannesar minna um margt á þá sýn á nátturuna sem er að finna í ljóðum Hölderlíns. Bæði þessi líka „skynjun“ skáldanna tveggja á nátt- úrunni og ýmislegt fleira, svo sem næmleiki Hannesar fyrir blæbrigð- um hins þýska ljóðmáls, veldur því að Hannes Pétursson er ekki aðeins kallaður, heldur beinlínis útvalinn til að þýða ljóð Hölderlíns á íslensku. Um leið og það blasir við að þýð- ingar Hannesar á ljóðum Hölderlíns eru unnar af miklu listfengi, má líka benda á að kvæðið sem Hannes orti sjálfur um þennan þýska skáld- bróður sinn ber vott um óvenju næma innlifun Hannesar í ljóð Höld- erlíns. Það hlýtur að teljast vafamál að nokkurt íslenskt skáld fyrr og síðar hafi reist erlendum skáldbróður sín- um annan eins bautastein. Í þessu meitlaða ljóði sem Hannes kallar „Andspænis Hölderlín“ rekur hann með undraverðu skáldlegu innsæi alla fínustu þræðina sem ljóð Höld- erlíns eru ofin úr. Í fyrsta erindinu yrkir Hannes um vandasama notkun málsins í ljóðum Hölderlíns, en sá síðarnefndi beitti málinu meðvitað á óvenjulegan hátt í skáldskap sínum til að túlka „hinn nýja boðskap“ sem hann taldi sig vera boðbera fyrir. Þetta „nýja“ ljóðmál krefst þess að lesendur hafi vissa „heimagengni í bragar túni“, enda leiðir skáldið lesandann inn í áður óþekkta heima, handan mann- legs máls. Þar er harla fátt um kunn- ugleg kennileiti, heldur bíða lesand- ans hér „að því er virðist, vörðulaus fjallstig hugans“. Hver fylgir þér alla leið inn í ljómann af hæðum? Hver leggur með þér á brattann handan við málið að því er virðist, vörðulaus fjallstig hugans? Vegur til yztu myrkra – þræddur í kvæðum! Lýsingin á þeim örðugleikum sem fylgja því að finna leiðina inn í tor- ræðan ljóðheim skáldsins er enn út- færð í næsta erindi kvæðisins þar sem „staðlaus djúpin þar sem nóttin á heima“ koma við sögu. Að því búnu rekur skáldið Hannes nokkur helstu yrkisefni sem fyrir koma í ljóðum Hölderlíns en mörg af ljóðum hans fjalla einmitt um stemninguna í frið- sælu þýsku „dalaþorpunum“ þar sem skáldið horfir á bóndans hvíld að dagsverki loknu hlustar á kornið og vinviðarteinunginn gróa. Og í nokkrum þekktum ljóðum Hölderlíns fylgjum við skáldinu eftir þegar það borgir skoðar á bökkum fljótanna þekku Það á ekki síst við lofkvæðið fræga sem Hölderlín orti um borg- ina Heidelberg á Rínarbökkum, og fyrr var nefnt, auk rómaðs kvæðis um háskólaborgina Tübingen, á bökkum árinnar Neckar, sem gegndi, eins og fram hefur komið, veigamiklu hlutverki í lífi skáldsins. Tregablandinn óður til ástarinnar, náttúrunnar og fegurðarinnar Bókarkafli |Þýska skáldið Friedrich Hölderlin var uppi á pólitískum og menningarlegum umbrotatímum í Evrópu. Eftir hann liggja einhver fegurstu ljóð sem ort hafa verið á þýska tungu. Hýperíon er eina prósaverkið sem hann lauk við á skömmum skáldferli sínum og birtist nú í þýðingu Arthúrs Björgvins Bollasonar. Skáldið Friedrich Hölderlin. Þýðandi Arthúr Björgvin Bollason.

x

Morgunblaðið

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.