Morgunblaðið - 30.11.2021, Blaðsíða 14
14
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 30. NÓVEMBER 2021
Hægt er að lýsa skoðun á ritstjórnargreinum Morgunblaðsins á http://www.mbl.is/mogginn/leidarar/
Ekki er unnt
að segja að
endurnýjað
stjórnarsamstarf
ríkisstjórnarflokk-
anna þriggja hafi
komið verulega á
óvart. Það er ekki
heldur hægt að
segja að ráðherraliðið komi
mjög á óvart, þó að einhverjir
hafi lyft brún yfir einum og ein-
um eða hvar þeim var niður
komið. Það er frekar að spyrja
megi spurninga um hringlið
með ráðuneytin, misskyn-
samlega verkefnaflutninga og
flatneskjulegar nafnabreyt-
ingar, sem um margt bera meiri
keim af pólitískri hentisemi og
sýndarmennsku en þörf. Og
hvað varð um matvælaráðu-
neytið sem hvarf?
Það sem kom mest á óvart
var hversu lengi viðræðurnar
stóðu, sérstaklega þó í ljósi hins
loðna stjórnarsáttmála, sem
kynntur var um helgina. Þar er
talað í löngu máli um helstu
stefnumið og jafnvel aðgerðir,
en flest er það nú ákaflega al-
mennt orðað eða fyrirsjáanlegt.
Margt má telja til hefðbundinna
húsverka hvaða ríkisstjórnar
sem væri, en annað er tekið upp
af óskalistum flokkanna í kosn-
ingabaráttu, jafnvel þannig að
þar kann sumt hæglega að
stangast á.
Formenn ríkisstjórnarflokk-
anna kynntu að eitt helsta verk-
efni þeirra væri að koma ríkis-
fjármálunum í samt lag aftur
eftir heimsfaraldurinn um leið
og lífskjör landsmanna væru
tryggð. Það skal gert undir
kjörorðunum Vöxtur til vel-
sældar. Það er skynsamleg
nálgun við þann vanda, sem að
steðjar, en Íslendingar eiga all-
an kost á að leysa. Það verður
gert með vexti og verðmæta-
sköpun í atvinnulífi, sem er
grundvöllur þeirrar velsældar,
sem Íslendingar búa við og geta
aukið til muna.
Það skýtur því skökku við
þegar stjórnarsáttmálinn er
lesinn og hinn rauði þráður
hans verður ljós. Þar er í hverj-
um kafla lagt á ráðin um aukin
ríkisumsvif: hvernig ríkisvaldið
hyggist skakka leikinn í nafni
jöfnunar, aðgerðum hins opin-
bera í þágu nýsköpunar, grænni
fjárfestingu fyrir þess til-
stuðlan, stuðningi við öflugar
stoðir atvinnulífsins (!), efla
almannaþjónustu og útiloka
ekki skattalækkanir ef ríkis-
fjármálin leyfa, skattkerfið
verði notað til tekjujöfnunar og
ríkið verði til taks í kjara-
viðræðum, samkeppnisstaða
fyrirtækja bætt en um leið á að
efla eftirlitsiðnaðinn og skýra
leiðbeiningarhlutverk hans,
sem á stundum hefur verið á
mörkum þess sem lög leyfa.
Ekki skal efað að allt er þetta
af góðum hug sagt, en margt
ber þess vitaskuld merki að ver-
ið sé að friða fólk í
öllum flokkum og
óvíst að það standi
til að láta verða af
því öllu. Í stjórnar-
sáttmálanum er
líka margt, sem
bæði má heita
skynsamlegt og
næsta óumdeilt. Eftir stendur
samt þessi rauði þráður um enn
frekari vöxt hins opinbera, sem
er hreint ekki til þess fallinn að
auðvelda atvinnulífinu að ná
vopnum sínum á ný, nú þegar
mest ríður á og miklu skiptir að
það geti verið snart í snún-
ingum.
Eigi að draga einhverja lær-
dóma af kórónufaraldrinum og
kórónukreppunni, þá er það
helst, að ekki reyndust öll kerfi
hins opinbera jafn vel undirbúin
og vonir stóðu til. Á hinn bóginn
stóðst atvinnulífið prófið með
sóma. Það aðlagaði sig nýjum
og kaldranalegum veruleika á
undrahraða, meðal annars með
dyggum stuðningi stjórnvalda,
tók umsvifalaust og möglunar-
laust upp sóttvarnarráðstafanir
svo að hópsmit mega heita nær
óþekkt á vinnustöðum, fyrir-
tæki brugðust skjótt við og gáfu
lækningatæki þegar þeirra var
þörf, en þekkingarfyrirtæki á
borð við Íslenska erfðagrein-
ingu og Controlant sýndu hvers
þau voru megnug, svo öll þjóðin
er bæði þakklát og stolt af þeim
í senn.
Þess vegna má heita merki-
legt að nú þegar faraldurinn
hefur staðið yfir í nánast tvö ár,
þá skuli það enn vera fyrsta og
oft eina svar stjórnmálamanna
við hverjum vanda og viðfangs-
efni lífsins, að þar þurfi meiri
ríkisafskipti, meiri áætlana-
gerð, fleiri nefndir og meiri út-
gjöld.
Ríkisvaldið getur ekki átt
svarið við öllu og það er ekki
svarið við öllu. Íslendingar
þekkja það af biturri reynslu
líkt og velflestar aðrar þjóðir,
að stjórnmálamönnum lætur
ekki vel að stunda veðmál með
atvinnulífið, hvort sem þar er
veðjað á einstakar greinar,
einstök fyrirtæki, þeim ívilnað
eftir starfsmannafjölda eða
bágri framleiðni. Slíkur
áætlunarbúskapur stjórnmála-
manna og feykilegra faglegra
en ábyrgðarlausra vitringa
þeirra er ekki aðeins dæmdur
til þess að mistakast, heldur
þrengir hann að tækifærum
frumkvöðla, fólks sem fyrir-
tækja, og skilur minna eftir hjá
þeim til þess að fjárfesta í nýj-
um tækifærum, þekkingu og
uppgötvunum.
Vilji ríkisstjórnin vöxt til vel-
sældar færi betur á því að ríkis-
valdið héldi að sér höndum. Það
er nóg af vinnufúsum höndum
og verk að vinna. En til þess að
atvinnulífið og hagkerfið vaxi
þarf svigrúm, ekki kæfandi
faðmlag.
Vilji ríkisstjórnin
vöxt til velsældar
færi betur á því að
ríkisvaldið héldi að
sér höndum}
Rauði þráðurinn
E
ftir að hafa legið yfir texta í tvo
mánuði birtu formenn Vinstri-
grænna, Framsóknar- og Sjálf-
stæðisflokks stjórnarsáttmála
annars ráðuneytis Katrínar
Jakobsdóttur á fyrsta sunnudegi í aðventu.
Við yfirlestur flaug mér í hug að forystufólk
stjórnarflokkanna hefði ef til vill haft of rúm-
an tíma til að dunda sér við textann en ekki
varið nógum tíma í að ydda pólitíska hugsun,
útfæra aðgerðir og forgangsraða verkefnum.
Stærstu pólitísku tíðindin í sáttmálanum
eru þau að þunginn í stjórnarsamstarfinu fær-
ist til Sjálfstæðis- og Framsóknarflokksins,
þótt formaður VG sé áfram í verkstjór-
astólnum í forsætisráðuneytinu. Það er greini-
lega ekki lengur flokkað til pólitískrar dygðar
í Vinstri-grænum að standa vaktina í heil-
brigðis- og umhverfismálunum. Ríkisstjórnin
ætlar ekki að hrófla við kerfi auðlindanýtingar og setja
fiskveiðistjórnunarkerfið í nefnd. Hún hefur einnig gefist
upp á því verkefni að breyta stjórnarskránni. Um leið og
stjórnarflokkar lofa því að efla almannaþjónustuna er
ekki að finna í hinum langa stjórnarsáttmála nein svör
við því hvernig skuli endurreisa opinbera heilbrigð-
iskerfið, tryggja fjármögnun og mönnun til framtíðar.
Uppstokkun stjórnarráðsins er allrar athygli verð en
ekki er jafn ljóst hvaða tilgangi sumar breytingarnar
þjóna. Hafi ég skilið þetta rétt þá eiga menntamál nú
heima í fjórum ráðuneytum og í raun búið að leggja
mennta- og menningarmálaráðuneytið niður í núverandi
mynd. Fjölgun ráðuneyta hentar þriggja flokka sam-
starfinu vel og gefur fleiri stóla við ríkisstjórn-
arborðið en þó ekki nógu marga til að
ráðherrakapall Sjálfstæðisflokksins gangi upp.
Um kjör þeirra efnaminnstu er fátt sagt
annað en að þau eigi að batna eins og annarra,
með vexti og velsæld eins og þar stendur.
Kjaragliðnunin sem orðið hefur á milli lægstu
launa og örorkulífeyris er ekki nefnd einu
nafni. Fátækt einstæðra foreldra, nær alltaf
mæðra, og barna þeirra er ekki skenkt hálf
hugsun. Á einum stað var minnst á barnabæt-
ur sýndist mér. Ég fann engar raunhæfar til-
lögur um að bæta kjör þeirra efnaminnstu í
okkar samfélagi í nýjum stjórnarsáttmála.
Endurkoma Sjálfstæðisflokksins í umhverf-
isráðuneytið, sem nú má einnig kenna sig við
loftslag og orku, veldur áhyggjum. Ljóst er að
sjálfstæðismenn telja þá einu leið færa í bar-
áttunni við hamfarahlýnun að stuðla að orku-
skiptum í samgöngum. Þau þurfa vissulega að eiga sér
stað en við flóknu úrlausnarefni dugar ekki ein allsherj-
arlausn. Margt þarf að koma til og líklega má fagna því
sérstaklega að nefndar eru „hágæða almennings-
samgöngur“, það sem við hin köllum borgarlínu, í sátt-
málanum.
Hinn ylvolgi og orðmargi stjórnarsáttmáli liggur fyrir.
Nú er þess beðið að ný ríkissjórn sýni á spilin í fjárlaga-
frumvarpinu.
Þórunn
Sveinbjarnar-
dóttir
Pistill
Ylvolgur og óljós sáttmáli
Höfundur er þingkona Samfylkingarinnar –
jafnmaðarmannaflokks Íslands.
thorunn.sveinbjarnardottir@althingi.is
STOFNAÐ 1913
Útgáfufélag: Árvakur hf., Reykjavík.
Ritstjóri:
Davíð Oddsson
Aðstoðarritstjóri:
Karl Blöndal
Ritstjóri og framkvæmdastjóri:
Haraldur Johannessen
BANDARÍKIN
Kristján H. Johannessen
khj@mbl.is
N
ú þegar Joe Biden
Bandaríkjaforseti og
Kamala Harris varafor-
seti skrapa botninn í
fylgismælingum þar vestra greina
fjölmiðlar frá því að mikill titringur
ríki innan Hvíta hússins. Á göngum
eru menn sagðir hvísla að uppi sé sú
hugmynd að tilnefna Harris til emb-
ættis dómara við hæstarétt Banda-
ríkjanna. Ekki sé að óbreyttu hægt
að stilla henni upp sem forsetaefni
demókrataflokksins árið 2024. Sýna
kannanir nú reglulega forsetann
með undir 40% fylgi og varaforset-
ann með einungis 28%.
Einn þeirra fjölmiðla sem hafa
gert sér mat úr flókinni stöðu demó-
krataflokksins er The Telegraph. Í
umfjöllun þeirra kemur m.a. fram að
þótt kjaftasaga um dómaraembætti
sé e.t.v. langsótt þá varpi tilvist
hennar engu að síður ljósi á þá von-
litlu stöðu sem Biden-stjórnin upp-
lifir sig nú í. Meðal þess sem forset-
inn og hans menn hafa þurft að
glíma við eru síhækkandi verðbólga,
pattstaða í ýmsum innanríkismálum
og alþjóðleg niðurlæging og van-
traust í kjölfar brotthvarfs herafla
Bandaríkjanna frá Afganistan.
Fyrir um viku sendi Hvíta húsið
frá sér yfirlýsingu þess efnis að hinn
79 ára gamli Joe Biden muni aftur
gefa kost á sér til embættis árið
2024. Hér ber að hafa í huga að ekki
er liðið ár frá því að hann tók við
embætti og hafa fáir ef nokkur
Bandaríkjaforseti sent svo snemma
frá sér viljayfirlýsingu til framboðs.
Stjórnmálaskýrendur segja sumir
þetta vera augljóst veikleikamerki
hjá forsetanum. Hann sé með þessu
útspili að reyna að stappa stálinu í
stuðningsmenn sína sem horfa fram
á dvínandi stuðning við stjórnina.
Langtum óvinsælli en Cheney
Fjölmiðillinn CNN fjallaði ný-
verið um það sem hann kallar mikla
togstreitu á milli Kamölu Harris og
Hvíta hússins. Sagðist hann vera
með nærri 30 heimildarmenn, ýmist
núverandi eða fyrrverandi starfsfólk
Hvíta hússins og demókrataflokks-
ins, sem telja að verið sé að koma í
veg fyrir framtíðarmöguleika henn-
ar til forsetaembættisins.
„Það er ítrekað verið að koma
henni í þá stöðu að takast á við von-
laus málefni sem henta ekki hennar
hæfileikum,“ hefur miðillinn eftir
ónafngreindum heimildarmanni sem
eitt sinn tilheyrði starfsliði Harris.
Þá eru einnig uppi raddir sem segja
að starfslið varaforsetans hafi ítrek-
að brugðist henni og það hafi leitt til
gagnrýni á Harris sjálfa. Hvað sem
öllu baktjaldamakki líður er ljóst að
fylgistölur gætu verið mun betri.
Fréttasíða Los Angeles Times
hefur tekið saman fylgistölur fimm
fyrrverandi varaforseta og borið
þær saman við fylgi Kamölu Harris.
Séu fyrstu 309 dagar í embætti
bornir saman kemur í ljós að Harris
skorar lægra en þeir allir. Þannig er
hún 5,3% neðar en Mike Pence (í
embætti 2017-2021); 18% neðar en
Joe Biden (í embætti 2009-2013);
53,2% neðar en Dick Cheney (í emb-
ætti 2001-2005) og 40% neðar en Al
Gore (í embætti 1993-1997).
Sé aftur litið til kjaftasögunnar
sem getið var hér í upphafi um sæti í
hæstarétti er ágætt að spyrja hvort
upp geti komið sú staða á næstu
þremur árum að skipa þurfi dómara.
Stutta svarið er: já. Í réttinum sitja
níu dómarar og er elstur þeirra
Stephen Breyer, 83 ára og skipaður í
tíð Bills Clintons. Hætti hann er
ekki útilokað að Biden-
stjórnin vilji skipa ungan
dómara og þá er Kamala
Harris, fyrrverandi ríkis-
saksóknari Kaliforníu,
vissulega valkostur.
Mun titringurinn
valda óvæntu útspili?
Donald Trump, fv. Bandaríkja-
forseti, minnti á sig um nýliðna
þakkargjörðarhátíð þegar hann
sagði hluti aftur verða frábæra,
eða „great“. Með orðanotkun-
inni vísaði hann til fyrri slag-
orða sinna í kosningum til emb-
ættis forseta; „Gerum Banda-
ríkin frábær á ný“ og „Höldum
Bandaríkjunum frábærum“.
„Uppi er mjög áhugaverður
tími í okkar landi, en hafið ekki
áhyggjur, við verðum frábær
aftur og við gerum það saman,“
sagði Trump. „Bandaríkjunum
mun aldrei mistakast og við
munum aldrei leyfa þeim að
þróast í ranga átt.“
Þetta er
ekki í fyrsta
skipti sem
Trump gefur í
skyn að hann
muni bjóða
sig fram til
forseta á ný og
eflaust ekki í
síðasta
skipti
heldur.
Minnti á sig á
þakkargjörð
FORSETINN FYRRVERANDI
Donald Trump
AFP
Demókratar Forseti og varaforseti mælast nú lágt í fylgiskönnunum.