Morgunblaðið - Sunnudagur - 07.11.2021, Page 6
VETTVANGUR
6 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 7.11. 2021
FORNUBÚÐIR 12, HAFNARFIRÐI | S: 555 0800 | SIGN@SIGN.IS | SIGN.IS
N
ú ætla ég ekki að þykjast vera ein-
hver David Attenborough en ég get
þó sagt, með nokkurri vissu, að
kettir eru stórkostlega merkileg dýr. Þeir
eru sjálfstæðir, einstakir og skemmtilegir.
Það hefur verið sýnt fram á með fjölda
rannsókna að gæludýr styrkja ónæmiskerfi.
Ekki síst kettir sem fá að fara út. Þeir
minnka líkur á ofnæmi og astma. Fyrir utan
að fólk sem á ketti er almennt með lægri
blóðþrýsting, líður betur og kvíðir minna.
Kettir hafa líka mjög góð áhrif á fólk með
Alzheimer. Svo gerir það börnum gott að
alast upp með dýrum. Það vita allir.
En umfram allt eru þeir frjálsir. Þeir eru
frjálsir til að tala við eigendur sína þegar
þeir vilja, þeir eru frjálsir til að leggja sig
þar sem þeim hentar og þeir eiga að vera
frjálsir til að fara út þegar þeir vilja.
Þetta ættu allir að skilja en svo óheppi-
lega vill til að sjö af ellefu bæjarfulltrúum
Akureyrar virðast ekki hafa gert sér grein
fyrir því. Þar var í það minnsta samþykkt
að kettir þurfi nauðsynlega að vera inni.
Lausaganga katta er sem sagt bönnuð á Ak-
ureyri.
Í þessu er svokallað sólarlagsákvæði sem
þýðir að reglurnar taka ekki gildi fyrr en
eftir þrjú ár. Það kemur reyndar ekki fram
hvað eigi að gera við útikisa þá. Það er í
það minnsta ljóst að á sumum heimilum
verður ekki svo gott að opna glugga.
Mér er ekki sama þegar fólki dettur
svona vitleysa í hug. Í fyrsta lagi er ég
kattavinur og tel mig skilja þessi dýr og í
öðru lagi er ég tengdasonur Akureyrar og
hef tekið það hlutverk alvarlega. Það er
reyndar óvíst að ég endist lengi sem slíkur
ef þetta ágæta fólk ætlar að taka upp á því
að elta Húsvíkinga í þessari vitleysu.
Það er varla hægt að segja frá vinnu-
brögðunum við þetta. Þeim fannst nefnilega
svo flókið að finna skilgreiningar þegar þau
ætluðu að breyta samþykkt um kattahald að
það var bara ákveðið að banna lausagöngu
katta alveg. Það eru aldrei góðar fréttir
þegar yfirvöld ákveða að banna eitthvað af
því að það er svo „flókið“ að finna lausn á
því.
Helstu ástæðurnar munu vera að kettir
séu að pissa og kúka í blómabeð og þeir
veiði fugla. Nú verð ég að nefna, hafi það
farið framhjá ykkur, að flestir kettir gera
stykki sín heima hjá sér og ef þeir gera það
annars staðar þá moka þeir yfir. Flest önn-
ur dýr láta það ógert. (Ég velti því reyndar
fyrir mér hvort þessir örnafælnu bæjar-
fulltrúar hafi líka hugsað sér að banna
lausagöngu og -flug gæsa. Það eru nú
aldeilis raðskítandi sóðafuglar.)
Það er vissulega rétt að kettir eru rán-
dýr. Þeir eiga
það til að veiða
fugla sem þeir
færa eigendum
sínum gjarnan.
Það er leiðinlegt
og stundum
pínu sorglegt en svona er náttúran. Þetta er
ekki gerendameðvirkni. Þetta er eðli þeirra
en það er hægt að gera þeim erfiðara fyrir
með bjöllum og litríkum kraga.
En mig langar til að benda Akureyringum
á eitt: Ef þið hafið svona miklar áhyggjur af
fuglum þá get ég bent ykkur á ýmislegt
annað sem drepur fugla. Mér dettur til
dæmis í hug skotveiðimenn, en líka flug-
vélar. Kannski sérstaklega flugvélar sem
fljúga á flugvöll sem er staðsettur við eitt
stærsta varpland Reykjavíkur, Vatnsmýr-
ina. Það hefur nefnilega lengi verið eitt
helsta baráttumál Akureyringa að flugvöll-
urinn í Reykjavík þurfi að vera límdur við
miðbæinn.
Nú má kannski efast um umboð mitt til
samninga. En ég er samt til í að gera samn-
ing við meirihluta bæjarstjórnar Akureyrar.
Við Reykvíkingar skulum hafa þennan flug-
völl sem þið viljið endilega hafa í miðbænum
okkar, gegn því að þið leyfið köttum að hafa
sína hentisemi. Því þannig á það að vera.
’
Það eru aldrei góðar fréttir
þegar yfirvöld ákveða að
banna eitthvað af því að það er
svo „flókið“ að finna lausn á því.
Á meðan ég man
Logi Bergmann
logi@mbl.is
Samningurinn
F
yrir stuttu síðan gekk ég sem
oftar út á Suðurgötuna í
Reykjavík, geri það nær dag-
lega. Þá sá ég að í graseyjuna á milli
akreina götunnar höfðu verði grafnar
holur með jöfnu millibili. Sú spurning
vaknaði hvort verið gæti að til stæði
að setja niður tré þarna? Þar sem ég
hef mjög ákveðna skoðun á mik-
ilfengleik og fegurð Suðurgötunnar
ákvað ég að kanna hversu djúpt ristu
yfirlýsingar borgarfulltrúa um
grenndarkynningu, samráð og íbúa-
lýðræði.
Nú kann vel að vera að fyrir því sé
almennur vilji að fá þarna myndarleg
tré. Ef svo væri yrði ég að sjálfsögðu
að sætta mig við þá niðurstöðu. En
svo gæti líka ver-
ið að mitt sjón-
armið hefði mik-
inn stuðning og
þá væri varla
óeðlilegt að borg-
aryfirvöld tækju
tillit til þess og
endurmætu
áform sín í því ljósi.
Hvað um það ég ákvað að láta á
þetta reyna og sendi erindi í þar til
gerða gátt hjá Reykjavíkurborg.
Fékk ég vélrænt svar sem staðfesti
móttöku á málaleitan minni.
Skal nú rakið hvernig þetta gekk
fyrir sig.
Í vélrænu svari sínu endurtekur
borgin erindi mitt á eftirfarandi hátt:
„Ábendingin sem þú sendir:
Grímshagi 6, 107 Reykjavík
Þetta er í bland spurning og ábend-
ing. Ég bý á Grímshaga, hliðargötu
Suðurgötunnar í Reykjavík. Fegurð
Suðurgötu er ótvíræð. Þegar ekið er
suður þessa miklu götu blasir Keilir
við henni miðri. Þetta er stórkostleg
sjón sem hrífur mig á hverjum degi
og hefur alla tíð gert.
Nú sé ég að búið er að grafa holur á
eyjuna miðja og spyr hvort eigi að
girða eða gróðursetja þar tré. Hið síð-
ara fyndist mér mikið óráð í ljósi þess
sem ég hef hér sagt. Vildi ég koma
því sjónarmiði á framfæri. Þarf svona
nokkuð ekki að fara í einhvers konar
grenndarkynningu – varla minna mál
en að setja kvist á húsþak?
Gott þætti mér að fá viðbrögð.
Vélrænt svar borgarinnar: Ef þú
hefur frekari spurningar þá má alltaf
hringja í þjónustuver í síma 4 11 11
11.“
Í þessu fyrsta vélræna svari var er-
indi mitt sem sagt endurtekið og mér
boðið að hringja í þjónustuver. Ég
ákvað að bíða eftir svari borgarinnar
við erindi mínu.
Svo kom hið eiginlega svar frá
Reykjavíkurborg og var svohljóð-
andi:
„Takk aftur fyrir að senda ábend-
inguna Grímshagi 6, 107 Reykjavík til
Reykjavíkurborgar.
Henni hefur nú verið lokað á eft-
irfarandi hátt:
planta trjám“
Ég set engan punkt því ég vil hafa
þetta nákvæmt.
Þetta var skondin reynsla eða eig-
um við kannski frekar að segja lær-
dómsrík?
Ég ákvað að láta það eiga sig að
hringja í þjónustuverið því á vettvang
hafði mætt vinnuflokkur til að hola
niður trjám svo langt sem augað
eygði, Keili til lítillar hrifningar grun-
ar mig. En það sem ég hefði spurt í
þjónustuverinu ef ég hefði á annað
borð hringt í
það, er hvers
vegna þetta væri
gert, væri það ef
til vill til kolefn-
isjöfnunar? Væri
þetta hlutskipti
Suðurgötunnar í
viðureign mann-
kyns við loftslagsvána? Nú vissi ég
alla vega að ekki væri gróðursett lýð-
ræðisins vegna. Eða vegna þess að
vilji væri til að sýna fólki lágmarks-
kurteisi í samskiptum.
En ég leyfi mér að spyrja í fullri al-
vöru: Væri ekki rétt að svona mikið
inngrip í umhverfið sem þetta óneit-
anlega er á þessu svæði þurfi að fara í
grenndarkynningu?
En hvað um það, ég ætla að taka
gleði mína á ný enda fengum við íbú-
arnir tækifæri til að gefa mismunandi
framkvæmdum punkta í atkvæða-
greiðslu nýlega. Ég studdi að komið
yrði upp sjóbaðsaðstöðu við Ægisíðu.
Valdi það umfram leikvöll fyrir aldr-
aða. Fyrir miðri Ægisíðunni í grennd
við Grímsstaðavörina má í seinni tíð
sjá fólk ganga niður í fjöruna til að
taka sundsprett. Nánast í beinni línu
niður af Suðurgötunni voru á sínum
tíma búningsklefar fyrir sjóbaðendur
í Sundskálavör. Þar lærði móðir mín
að synda, en hún ólst upp í Hóla-
brekku sem stendur við Suðurgöt-
una. Sjósund er með öðrum orðum
ekki alveg nýtt af nálinni við þessa
fallegu strandlengju.
Það sem verður nýtt er heimsborg-
arlegt yfirbragð Suðurgötunnar. Á
mörgum breiðgötum erlendra stór-
borga hefur einmitt verið plantað
trjám. Það kemur vel út. En vel að
merkja, þar hafa menn engan Keili.
Látið reyna á
íbúalýðræði
Úr ólíkum
áttum
Ögmundur Jónasson
ogmundur@ogmundur.is
’
Væri þetta hlutskipti
Suðurgötunnar í við-
ureign mannkyns við lofts-
lagsvána? Nú vissi ég alla
vega að ekki væri gróður-
sett lýðræðisins vegna.
Á umferðareyjuna á Suðurgötu
hafa verið gróðursett tré og
munu þau skyggja á Keili sem
blasir við fyrir enda götunnar.