Morgunblaðið - 07.12.2021, Side 28
28 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 7. DESEMBER 2021
Höfum opnað á Selfossi
komdu og skoðaðu úrvalið í glæsilegum sýningarsal okkar
GÆÐI ÞJÓNUSTA ÁBYRGÐ
www.tengi.is
Kópavogur – Smiðjuvegur 76
Akureyri – Baldursnes 6a
Selfoss – Austurvegur 69
414 1000
414 1050
414 1040
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Þetta eru fyrstu tónleikar mínir í
Hafnarborg, en svo skemmtilega vill
til að ég er nýflutt í Hafnarfjörðinn.
Mér þykir afar vænt um hversu vel
er tekið á móti mér,“ segir Hrafn-
hildur Árnadóttir Hafstað sópran
sem kemur fram á hádegistónleikum
í Hafnarborg í dag, þriðjudag, kl. 12
ásamt Antoníu Hevesi píanóleikara
sem verið hefur listrænn stjórnandi
tónleikaraðarinnar frá upphafi.
Tónleikarnir fara fram á efri hæð
Hafnarborgar þar sem nú stendur
yfir sýningin Lengi skal manninn
reyna, sem er yfirlitssýning á verk-
um eftir Þorvald Þorsteinsson. „Það
er einstaklega gaman að syngja í
þessum sal með þessari skemmti-
legu sýningu,“ segir Hrafnhildur
þegar blaðamaður náði tali af henni
að lokinni æfingu í gærmorgun.
Spurð um efnisskrá tónleika dags-
ins segist Hrafnhildur munu syngja
nokkrar aríur og eitt sönglag eftir
Tosti. „Sönglagið er ítalskt og upp-
fullt af ljóðrænum trega. Þetta er
mjög þekkt lag sem er aðallega flutt
af tenórum,“ segir Hrafnhildur kím-
in. „Aríurnar eiga það allar sameig-
inlegt að það er ákveðinn ævintýra-
blær yfir þeim öllum. Ég syng
tunglaríu Rúsölku úr samnefndri
óperu eftir Dvorák,“ segir Hrafn-
hildur og bendir á að sagan um Rú-
sölku sé keimlík sögunni af litlu haf-
meyjunni eftir H.C. Andersen.
„Rúsalka er vatnadís sem verður
ástfangin af prinsi og fórnar rödd
sinni til að eiga möguleika á að gift-
ast honum. Ég syng aríuna Vilja
Lied úr Kátu ekkjunni eftir Lehár.
Arían fjallar um skógardís sem tælir
til sín karlmenn. Þriðja arían er
„Klänge der Heimat“ úr Leðurblök-
unni eftir Strauss þar sem Rosalinde
er stödd á grímuballi og þykist vera
frá Ungverjalandi.“
Spurð á hvaða tungumáli dagsins
henni þyki best að syngja svarar
Hrafnhildur um hæl að sér finnist
þýskan þægilegust en tékkneskan
snúnust. „Ég bý reyndar að því að
fyrir nokkrum árum gafst mér tæki-
færi til að vinna aríu Rúsölku með
tékkneskum stjórnanda sem hjálp-
aði mér bæði með framburðinn og
músíkölsku nálgunina, sem gaf mér
heilmikið sjálfstraust til að syngja
þessa aríu.“
Þess má að lokum geta að aðgang-
ur er ókeypis. Aðeins er pláss fyrir
50 gesti og ríkir grímuskylda. Miða
þarf að bóka í síma 585-5790.
Ljósmynd/Áslaug Íris Friðjónsdóttir
Sönggleði Antonía og Hrafnhildur brugðu á leik innblásnar af sýningu Þorvaldar Þorsteinssonar í Hafnarborg.
Ævintýrablær yfir aríum
- Hrafnhildur Árnadóttir Hafstað kemur fram með
Antoníu Hevesi á hádegistónleikum í Hafnarborg í dag
„Sextíu kíló af sólskini er lyga-
söguglettið eldgos af óhemjandi frá-
sagnargleði,“ segir í dómi Henriette
Bacher Lind í Jyllands-Posten þar
sem skáldsaga Hallgríms Helgason-
ar fær fullt hús. Skáldsagan kom út í
Danmörku í þýðingu Kims Lembek í
byrjun mánaðar og hefur hlotið afar
góðar viðtökur rýna.
„Manni er brjálæðislega vel
skemmt – kraumar af hlátri og fyllist
hryllingi – frá upphafi til enda, þeg-
ar alvitur sögumaður fer með mann
inn í dimma og þrönga torfbæi, upp
á dekk á vaggandi hákarlaskipi, nið-
ur í slímuga síldarlest eða inn í fínt
prestssetur,“ skrifar Lind og bendir
á að þótt þroskasaga Gests sé í for-
grunni sé „skáldsagan fjársjóðskista
af litríkum persónum, sem á einn eða
annan hátt endurspegla árekstur
gamla og nýja heimsins.“ Segir hún
að frá Hallgrími „streymir orðsnilld
og myndlíkingar sem hitta í mark.
Hann leikur sér með tungumálið,
beygir það og teygir svo unun sé,“
skrifar Lind.
Merete Reinholdt, rýnir hjá Berl-
ingske, gefur bókinni fimm stjörnur
af sex mögulegum. „Aðeins
Íslendingur – og mögulega aðeins Ís-
lendingurinn Hallgrímur Helgason –
getur fléttað saman yfirgripsmikilli
sögu þjóðar sinn-
ar og minni sögu
drengs í ólgandi
ljóðræna sam-
tímasögu með
bæði húmor og
músíkalítet og
sérstakt form af
harðsoðnum van-
mætti sem gegn-
umgangandi
tóna,“ skrifar
Reinholdt og hrósar litríku persónu-
galleríinu og kraftmiklu tungumáli
þessarar epísku frásagnar. Danski
þýðandinn, Lembek, fær sérstakt
hrós hjá Reinholdt fyrir afbragðs-
þýðingar sínar á öllum nýyrðum
Hallgríms.
Erik Skyum-Nielsen, rýnir hjá
Information sem notar ekki stjörnu-
gjöf í dómum sínum, hrósar þýðand-
anum Lembek sérstaklega fyrir það
hversu vel húmorinn skili sér yfir
Atlantshafið. Segir hann Hallgrím
„sem sögumann búa yfir mælsku í
umframmagni“ og grunar að höf-
undur hafi valið „síldarævintýrið
sem tækifæri til að skjóta Tívolí-
flugeldum með orðum“. Segir hann
lesendur undrandi verða vitni að
„ævintýralegri uppfinningasemi“
höfundar.
„Eldgos af óhemj-
andi frásagnargleði“
- Sextíu kíló af sólskini í Danmörku
Hallgrímur
Helgason
Grimmd og glæpir eru af ýmsum
toga og yfirleitt endurspegla glæpa-
sögur dekkri hliðar mannlífsins, þar
sem ofbeldi ræður för. Steindór
Ívarsson nálgast glæpina
frá góðu hliðinni með fyrir-
gefninguna að leiðarljósi í
sögunni Þegar fennir í spor-
in með þeim árangri að hið
fallega verður ljótleikanum
yfirsterkara, ástin nær yfir-
höndinni yfir glæpnum.
Lífið er margbrotið, en
þegar öllu er á botninn
hvolft skiptir ekkert meira máli en
trú, von og kærleikur. Enginn er
fullkominn og í öllum stéttum leyn-
ast svartir sauðir. Þegar fennir í
sporin er ekki aðeins saga um glæpi
heldur falleg frásögn um þolendur
og gerendur, þar sem sannleikurinn
er sagna bestur.
Prestar um víða veröld hafa orðið
uppvísir að viðbjóðslegum glæpum
en ekki er þar með sagt að alhæfa
megi um alla kirkjunnar þjóna á
sama hátt. Þeir eru samt breyskir og
hafa sinn kross að bera, rétt eins og
aðrir þegnar samfélagsins. Séra
Róbert Meier, aðalpersóna sögunn-
ar, hefur borið harm sinn í hljóði
sem kaþólskur prestur í Þýskalandi í
44 ár, en óvænt Íslandsför opnar all-
ar flóðgáttir, fortíðin verður ljóslif-
andi og hefur áhrif um alla framtíð.
Það er kúnst að fyrirgefa þannig
að hugur fylgi máli, því það getur
verið auðvelt að særa en erfitt að
viðurkenna að rangt hafi verið við
haft. Því sem liðið er verður
ekki breytt, en til þess að
öðlast frið í hjartanu þarf að
trúa á hið góða og fyrirgefa
eigin misgjörðir og annarra.
Fyrirgefningin er helstu per-
sónum í blóð borin og í henni
felst trú á betra líf. Það er
ekki lítils virði.
Viðbjóðurinn er aldrei
langt undan og sumum verður ekki
bjargað en umhyggja, ást og kær-
leikur skína í gegn og ráða för, þeg-
ar allt kemur til alls. Þegar fennir í
sporin á því erindi til allra, því þrátt
fyrir ofbeldið og misgjörðirnar sem
fram koma er það hið góða í fólki
sem heldur lífinu gangandi. Því má
aldrei gleyma og þess vegna er þessi
bók svo kærkomin.
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Kær Það er „hið góða í fólki sem heldur lífinu gangandi. Því má aldrei
gleyma og þess vegna er þessi bók svo kærkomin,“ segir um bók Steindórs.
Glæpir og fyrir-
gefning syndanna
Skáldsaga
Þegar fennir í sporin bbbbm
Eftir Steindór Ívarsson.
Innb. 240 bls. Ástríkur 2021.
STEINÞÓR
GUÐBJARTSSON
BÆKUR