Morgunblaðið - 13.12.2021, Qupperneq 29
MENNING 29
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 13. DESEMBER 2021
Nánari upplýsingar um sýningartíma á sambio.is
TRYGGÐU ÞÉR
MIÐA INNÁ
@CliffordMovie
CliffordMovie.com
#CliffordMovie
ÞVÍ MEIRA SEM ÞÚ ELSKAR HANN
ÞVÍ STÆRRI VERÐUR HANN.
KEMUR Í BÍÓ MEÐ ÍSLENSKU TALI
10. DESEMBER
94%
Frábær ný Fjölskyldumynd frá Disney
sýnd með Íslensku og Ensku tali
SÝNDMEÐ ÍSLENSKU, ENSKU OG PÓLSKU TALI
JÓLAMYND
Silja Björk Huldudóttir
silja@mbl.is
„Tilurð margra bóka minna má
rekja til þess að ég hef heyrt eða les-
ið eitthvað sem mér hefur orðið
minnisstætt og hefur haldið áfram
að sækja á hugann. Fyrir um áratug
heyrði ég viðtal við gamlan mann að
norðan sem 1947 var kvaddur upp
ásamt fleiri alþýðumönnum vegna
þess að flugvél hafði týnst í mikilli
þoku og leitarflugmaður taldi sig
hafa séð brak hátt uppi í fjalli. Leit-
arhópurinn lagði af stað algjörlega
óviðbúinn því að í fjallshlíðinni biðu
þeirra 30 látnir Íslendingar,“ segir
Einar Kárason um tilurð nóvell-
unnar Þung ský sem hann hefur sent
frá sér. Í inngangi bókarinnar kem-
ur fram að frásögnin sé sótt í flug-
slys sem varð 1947 þegar farþegavél
fórst í Héðinsfirði, en öllu er þó
breytt og aukið við sem þurfa þykir.
Þannig eru persónurnar hreinn
skáldskapur auk þess sem sagan er
látin gerast nokkrum árum síðar.
Efni sem leitaði á mig
„Þegar ég heyrði viðtalið á sínum
tíma fannst mér svo merkilegt
hvernig hann sagði frá þessu. Þótt
meira en fimmtíu ár væru liðin frá
atburðinum mundi hann ótrúlegustu
smáatriði. Þegar hann sagði frá því
sem erfitt var að verða vitni að
heyrðist hvernig hann þurfti að beita
röddinni til þess að koma í veg fyrir
að hún brysti,“ segir Einar og rifjar
upp að hann hafi hugsað mikið um
þessa frásögn en alls ekki séð fyrir
sér hvernig hann gæti notað efnið í
skáldsögu. „En efnið hélt áfram að
leita á mig og þá fór ég að leita
ýmissa leiða til að geta unnið með
það,“ segir Einar og tekur fram að
þótt hann noti slysið 1947 sem
kjarna sögunnar hafi hann lesið sér
til um önnur flugslys og fléttað inn í
frásögn sína. „Ég tók mér síðan það
bessaleyfi að fara með efnið hingað
og þangað, búa til allar þessar per-
sónur og láta persónur bjargast,“
segir Einar og tekur fram að skrifin
hafi kostað sig töluverð heilabrot.
Þung ský er önnur nóvellan sem
þú sendir frá þér þar sem hamfara-
saga er í forgrunni, en 2018 kom
Stormfuglar sem byggist á atburð-
um á Nýfundnalandsmiðum í febr-
úar 1959, þegar íslenskir togarar á
karfaveiðum lentu í mannskæðu fár-
viðri í fimbulkulda. Hvað er það við
hamfarasöguna sem heillar þig sem
höfund?
„Það sem heillar mig og ég finn að
gæti verið nálægt mínum styrk-
leikum er óvenjulegt fólk og stórir
atburðir. Hjá sumum af mínum
uppáhaldshöfundum liggur snilld
þeirra í því að gera hversdagslega
atburði og andrúmsloft að mikilli
ljóðrænu,“ segir Einar og bendir á
að hann sé til dæmis mikill aðdáandi
Knuts Hamsun. „Ég segi stundum
að eftir því sem minna gerist í bók-
um hans því betri verði þær. Mínir
hæfileikar liggja ekki í því að búa til
ljóðrænu út úr litlu. Frekar að hafa
stóra atburði og reyna samtímis að
draga úr öllu, því þeir mega ekki
verða of stórir.“
Lýsingar þínar á viðbrögðum
þeirra sem koma fyrstir á slysstað
eru afar trúverðugar. Það liggur því
beint við að spyrja hvort þú hafir
unnið mikla rannsóknarvinnu í þeim
efnum til að geta skrifað svona?
„Ég fann á lýsingum mannsins í
fyrrnefndu viðtali hvað þetta var
honum erfitt og sló hann út af laginu.
Sem höfundur reyni ég eðlilega að
setja mig í þessi spor. Ég er alveg
viss um að væri maður í sömu að-
stæðum væri fyrsta viðbragðið ann-
aðhvort að hníga niður hágrátandi
eða reyna að koma sér í burtu sem
fyrst. Samt sem áður veit maður að
skyldan kallar,“ segir Einar og rifjar
upp að mennirnir sem að slysstað
komu á sínum tíma hafi ekki verið
þjálfaðir björgunarsveitarmenn sem
undirbúnir hafi verið undir andlega
erfiðar aðstæður. „Lenskan hér áður
fyrr var að ef eitthvað var erfitt þá
átti bara að þegja um það og reyna
að gleyma. En svona reynsla fer
ekki svo auðveldlega út úr kerfinu,
eins og heyrðist svo skýrt í viðtalinu.
Hann mundi allt í smáatriðum og
upplifði atburðina greinilega mjög
dramatískt þó svona langt væri um
liðið,“ segir Einar og tekur fram að
þótt hann hafi ekki rannsakað sér-
staklega áfallafræði hafi hann kynnt
sér aspergerheilkenni vel til að geta
skrifað aðalsöguhetjuna, Theodór,
með trúverðugum hætti. Tekur hann
fram að hann hafi löngum heillast af
fólki sem er öðruvísi og á einhverju
rófi. „Mér finnst slíkt fólk mjög
spennandi þar sem það hefur ein-
hverja aðra skynjun en við.“
Ljósmóðir spennandi týpa
Þung ský, líkt og Stormfuglar þar
á undan, hverfist að stærstum hluta
um reynslu karla. Þú skrifar engu að
síður nokkrar mikilvægar konur inn
í bókina, t.d. ljósmóðurina Ethel.
„Þessi ljósmóðir er týpa sem mér
hefur þótt geysilega spennandi,“
segir Einar og rifjar upp að fyrir
nokkrum árum hafi hann í Land-
námssetrinu sett upp sögusýningu
sem nefndist Íslenskar hetjur. „Ein
af söguhetjunum var ljósmóðir að
norðan sem hét Jakobína Svanfríður
Jensdóttir Stæhr sem Guðrún
Björnsdóttir frá Kornsá skrifaði um
í bókinni Íslenskar kvenhetjur. Mér
fannst Jakobína sem týpa svakalega
skemmtileg og ákvað að nota hana
þar sem hún er ein af mínum uppá-
haldskarakterum, ekki síst vegna
þess hversu tilsvör hennar voru oft
góð,“ segir Einar og tekur fram að
honum hafi þótt fyndið um daginn
þegar einhver hafði á orði að Ethel í
bók hans væri aðeins of ýkt vegna
tilsvara sinna. „Þetta er hins vegar
gott dæmi um það hvernig raun-
veruleikinn getur verið ýktari en
skáldskapurinn.“
Aðspurður segist Einar sennilega
ekki búinn að leggja hamfarasög-
urnar alveg á hilluna. „Þegar ég fatt-
aði hvað nóvelluformið hentar þess-
um sögum vel sá ég strax í hendi
mér að þetta væri tilvalinn þrí-
leikur,“ segir Einar og tekur fram að
hann sé þegar kominn með hug-
mynd að næstu bók en venju sam-
kvæmt skrifi hann ekkert í desem-
ber heldur setjist við skriftir 1.
janúar. „Það styttist í nýtt ár,“ segir
Einar og upplýsir að hann muni í
næstu bók sennilega „horfa út á haf-
flötinn án þess þó að horfa til skips“,
segir Einar leyndardómsfullur.
Morgunblaðið/Unnur Karen
Reynsla „Svona reynsla fer ekki svo auðveldlega út úr kerfinu,“ segir Einar Kárason um reynslu þeirra sem eru
fyrstir á slysstað. Í nýjustu bók sinni fjallar hann um örlagaríkan björgunarleiðangur við erfiðar aðstæður.
Skrif sem kostuðu töluverð heilabrot
- Einar Kárason sendir frá sér nóvelluna Þung ský - Fjallar um flugslys og björgunarleiðangur við
erfiðar aðstæður - Bókin lauslega byggð á sönnum atburði - Horfir yfir hafflötinn í næstu frásögn