Morgunblaðið - 29.12.2021, Page 16

Morgunblaðið - 29.12.2021, Page 16
16 MINNINGAR MORGUNBLAÐIÐ MIÐVIKUDAGUR 29. DESEMBER 2021 ✝ Sölvi Sölvason fæddist á Siglu- firði 28. október 1998. Hann lést á blóðlækningadeild Landspítalans 19. desember 2021. Foreldrar Sölva eru Sölvi Sölvason og Sigríður Karls- dóttir. Systkini hans eru Finnur Ingi, f. 2.7. 1994, og Þórhildur, f. 12.9. 1995. Sölvi ólst upp á Siglufirði og gekk þar í grunnskóla. Eftir það fór hann í Menntaskólann á Tröllaskaga og út- skrifaðist þaðan sem stúdent. Sölvi fór til Danmerkur í lýðháskóla. Þaðan lá leiðin í hesta- fræði við Háskól- ann á Hólum. Útförin fer fram frá Siglufjarðar- kirkju í dag, 29. desember 2021, klukkan 13. Streymt verður frá útförinni á streyma.is/solvi Hlekkur á streymi: https://www.mbl.is/andlat Elsku besti Sölvi, það er erfitt að trúa því að þú sért farinn frá okkur. En eftir sitjum við full af harmi og sorg að skrifa minn- ingarorð um elsku drenginn okkar sem var búinn að berjast svo hetjulega í þrjú ár. Við vor- um alltaf svo viss um að hann myndi vinna þessa baráttu því hann sýndi svo mikið hugrekki og jákvæðni og fór í gegnum þennan tíma af svo miklu æðru- leysi, sem sýndi kannski best hans persónuleika. Sölvi var mjög sjálfstæður og fór ávallt sínar eigin leiðir og var aldrei að tvínóna við hlutina eða velta þeim of lengi fyrir sér. Hann var vinmargur og vel lið- inn bæði af jafnöldrum sínum og þeim sem eldri voru, hann hafði einstakt lag á að gefa sér tíma fyrir þá sem minna máttu sín. Það var alltaf stutt í glaðværð og hlátur. Hann átti einstakt samband við ömmu sína og afa á Sigló og þá sérstaklega ömmu sína, hann var henni mjög traustur og voru þær margar kvöldstundirnar sem þau áttu saman heima á Laugaveginum. Það var oftast svarið þegar hann var eitthvað að fara út á kvöldin og hann var spurður hvert hann væri að fara: „Ég er að fara til ömmu.“ Þegar hann var yngri átti fót- boltinn allan hans hug og stund- aði hann fótboltaæfingar af krafti. Snemma varð hann mikill Liverpool-aðdáandi og smátt og smátt var hann búinn að smita alla fjölskylduna til að verða grjótharðir stuðningsmenn Liv- erpool. Eftir því sem Sölvi varð eldri beindist áhugi hans æ meir að hestamennsku. Hann var það heppinn að fá tækifæri til að stunda reiðmennsku og tamn- ingar og vissi hann fátt betra en að ríða út í sveitinni á góðum hesti. Sölvi var einstakur bróðir og vinur systkina sinna og leituðu þau oft til hans ef eitthvað var sem þau höfðu ekki lausn á eða bara til að hlæja og hafa gaman því það var aldrei neitt vanda- mál hjá honum, hann leit alltaf á björtu hliðarnar á öllum málum. Elsku Sölvi, við trúum því að amma þín og afi hafi tekið vel á móti þér og umvefji þig allri sinni ást og hlýju, það kæmi okkur ekki á óvart að þið gædd- uð ykkur á heitum pönnukökum. Söknuðurinn er mikill og tilhugsunin svo óbærilega erfið um að hafa þig ekki hjá okkur með fallega brosið þitt og smit- andi hláturinn sem var svo ein- kennandi fyrir þig. Hvíl í friði elsku drengurinn okkar. Mamma og pabbi. Elsku Sölvi minn, bróðir og besti vinur. Það eru forréttindi að hafa fengið að fylgja þér í gegnum lífið í 23 ár og ég er þakklát fyrir hvað við áttum ein- stakt samband. Alltaf varstu til staðar, alveg sama hvað og alltaf var best að leita til þín því þú hafðir svör og lausnir við öllu. Oftar en ekki sagðir þú við mig „Þórhildur, af hverju ertu að spá svona mikið í þessu, þetta redd- ast“ en það lýsir þér frekar vel, tókst lífið alls ekki of alvarlega. Þú fetaðir ótroðnar slóðir í líf- inu; hvað aðrir höfðu um það að segja eða voru að gera skipti þig engu máli. Þú varst alltaf svo ekta, algjörlega þú sjálfur, svo fallegur og með hjarta úr gulli. Gæðastundirnar sem við höfum átt eru svo margar, þú peppaðir alltaf það að vera að gera eitt- hvað, hafa gaman og upplifa ein- hver ævintýri. Eitt af því sem stendur upp úr er þegar þú komst í heimsókn til mín til Danmerkur, það voru svo skemmtilegir dagar sem við átt- um. Það er svo erfitt og vont að hugsa til þess að þú sért farinn elsku bróðir, en minning þín er það dýrmætasta sem ég á. Ég á mér þá ósk að þú fáir alla þína drauma uppfyllta, algjörlega áhyggjulaus eftir mikla og harða baráttu síðustu þrjú ár. Takk fyrir allt elsku Sölvi minn, ég elska þig. Þín systir, Þórhildur Sölvadóttir. Sölvi Sölvason bróðir minn verður borinn til grafar í dag, 29. desember, og sit ég hér við tölvu að skrifa minningargrein um mikilvægasta hlekkinn í keðju okkar fjölskyldunnar. Það er nokkuð sem enginn á að þurfa að ganga í gegnum nema gamall sé, en raunin er sú að Sölvi hef- ur kvatt okkur einungis 23 ára gamall. Það eru engin orð sem lýsa þeirri nístandi sorg og spyr ég mig hvernig almættið ætlast til þess að ég eigi að geta haldið áfram lífinu, lífinu sem í mínum kolli var skipulagt að einu leyti og það var að við bræður færum í gegnum það hönd í hönd. Ég varð þess heiðurs aðnjót- andi að við bræður vorum alltaf nánir, höfðum hestamennskuna að sama áhugamáli, í hesthúsinu þótti okkur gott að vera, ým- islegt prófað og pælt við að ná því sameiginlega markmiði að gera það besta úr hverju hrossi. Við bræðurnir bjuggum saman á Akureyri í tvo vetur og starfaði Sölvi við tamningar. Bjössi frændi bjó með okkur fyrri vet- urinn og áttum við yndislegar stundir í Brekkugötu 33. Nærvera Sölva var einstök og það var aldrei neitt vesen, svo auðvelt að þykja vænt um hann og elska af öllu hjarta. Það átt- um við Bjössi sameiginlegt; þeg- ar Sölvi var farinn inn að sofa á kvöldin fórum við inn hvor á eft- ir öðrum og kysstum hann á ennið góða nótt. Sölvi var eðl- isslakur ungur maður og máttu sambýlingarnir ekki klikka á því að ýta í hann á morgnana til að mæta í vinnu. Viðbrögðin voru alltaf þau sömu; opnaði augun með bros á vör og gaf eitt blikk, „jájá veriði rólegir“, stóð upp og klæddi sig í hestagallann, greiddi í gegnum hárið sem hann hafði niður á axlir með hendinni áður en hann startaði bimmanum og hélt sína leið. Sölvi varð fljótt vinsæll á Ak- ureyri, eignaðist vini á öllum aldri og fangaði athygli kven- þjóðarinnar svo vel að þeir sem eldri voru í sambúðinni voru þekktir sem bróðir Sölva og frændi Sölva. Hann þurfti ekki að hafa neitt fyrir því að kynn- ast fólki og fá það til að líka við sig, hann bara var hann sjálfur, hafði hlýja nærveru og bros sem alla bræddi, sanngjarn en hafði sínar skoðanir og stóð fastur á þeim en aðrir máttu hafa sínar skoðanir í friði. Sölvi var alltaf tilbúinn að að- stoða mig við hvað sem ég tók mér fyrir hendur og var hann af- ar óeigngjarn á tímann þegar ég hafði tekið of mikið að mér, sama hversu lítil eða stór verk- efnin voru. Sölvi var greiðvikinn og mátti ekkert aumt sjá; var fyrsti mað- ur til að taka upp hanskann fyrir þá sem minna máttu sín. Þau voru ófá símtölin sem hann hringdi: Sæll, heyrðu, verðum við ekki að hjálpa þessum eða græja þetta fyrir þennan, hann er í hálfgerðu klandri? Sölvi var maður gleðinnar og vissi fátt skemmtilegra en að vera umvafinn góðum vinum og var alltaf til í hvað sem til stóð, svo lengi sem það yrði létt stemning og fumlaus uppátæki í fyrirrúmi. Það var gaman að fara með Sölva út á lífið, hann þekkti svo marga og settist yf- irleitt þar sem þétt sætaskipan var af fallegum stelpum. Sölvi minn takk fyrir allt. Það verður vont að þurfa að ganga restina af lífsins vegi án þín. Elska þig mest af öllu, Finnur. Nú kveðjum við Sölva „litla“ frænda okkar í hinsta sinn. Sorgin er ofsalega mikil. Þetta er svo ósanngjarnt, sárt og erfitt að skilja tilganginn. Hann var yngstur af okkur frændsystkin- unum. Við höfum alla tíð verið samrýmdur hópur og alltaf gam- an þegar við hittumst. Það verð- ur erfitt að hittast næst. Sölvi var yndislegur drengur, bros- mildur og gaman að vera í kringum hann. Hann var mikill hestamaður enda ekki langt að sækja það. Hann barðist hetju- lega í veikindum sínum og aðdá- unarvert að sjá fjölskylduna standa þétt saman á erfiðum tímum. Elsku Sölvi, Sigga, Finnur Ingi og Þórhildur, við vottum ykkur okkar dýpstu samúð. Er sárasta sorg okkur mætir og söknuður huga vorn grætir þá líður sem leiftur úr skýjum ljósgeisli af minningum hlýjum. (H.J.H.) Með saknaðarkveðju frá frændsystkinum, Sigurlaug Ragna Guðnadóttir. Það er þyngra en tárum taki að kveðja elsku Sölva frænda svo langt fyrir aldur fram. Elsku hjartans drengurinn, Sölvi litli eins og hann var kallaður, er nú horfinn af lífsins sviði allt of snemma eftir erfiða baráttu við illvígan fjanda. Ósanngjarnt er það orð sem sífellt fer í gegnum huga minn þessa síðustu daga, hjartasárið er djúpt og tárin mörg. Sölva verður sárt saknað af mörgum, fjölskyldu, vinum og samferða- mönnum. Vel gerður ungur maður, alltaf stutt í hláturinn sem var svo smitandi og alltaf brosti hann skærasta brosinu. Það var einstakt að fylgjast með þeim frændum öllum sem áttu svo dýrmætan vinskap, aldur skipti litlu og alltaf var stutt í glens og grín, og við hin gátum svo hlegið að vitleysunni. Þau eru þung sporin sem við fjölskyldan göngum í dag, það veitir mér huggun að hugsa til þess að amma Sigga, afi Sölvi og Kolur taki á móti þér hlýjum faðmi og að þú þeytist um á fáki fögrum í eilífðinni. Elsku Sölvi, Sigga, Finnur og Þórhildur, orð eru fátækleg á stundu sem þess- ari. Ég votta ykkur mína dýpstu samúð á þessum erfiða tíma, minningin um ljúfan brosmildan dreng mun alltaf lifa með okkur. Hvernig stóð á því Að loginn slokknaði svo fljótt Og kólguský dró fyrir sól? Stórt er spurt, en svarafátt Stundum virðist allt svo kalt og grátt. Þá er gott að ylja sér við minninganna glóð, Lofa allt sem ljúfast var meðan á því stóð En það er ótrúlegt hve vindur getur snúist alveg ofurskjótt. Og svo er hljótt. Allt sem var og allt sem er. Eftirleiðis annar heimur hér. Það er sagt að tíminn muni græða hjartasár en sársaukinn þó hverfur tæpast alveg næstu ár. (Stefán Hilmarsson) Hanna Sigríður frænka. Ástkær frændi minn og vinur, missirinn er mikill og margbrot- inn því við áttum eitthvað alveg sérstakt, æðri tengingu, skilning sem engin orð ná utan um. Ég man það líkt og það hafi gerst í gær, er við riðum út fjörðinn í átt að Selvíkurvita, yf- ir blómengi og mýrarfláka á sumarsólstöðum júnímánaðar. Þar var ætlunin að halda kyrru fyrir með hálmstrá í munni og njóta glæsilegs sjónarspils út- hafs og sólar sem við flestöll könnumst við. Mér leið eins og við værum í sömu erindum, í leit að svörum sem lágu handan við sjóndeildarhringinn. Við hefðum getað riðið í algleymingi fram til dögunar ef landfræðilegar að- stæður fjarðarins hefðu leyft. Ég man brosið þitt blíða, blandið ævintýraþrá sem og ástríðu á lífinu. Lífinu sem við ætluðum svo sannarlega að njóta og lifa í þeim sama al- gleymingi og umvafði okkur í reiðtúrnum góða. Sömu leið fórum við gangandi á veikindadögum þínum og rifj- uðum upp túrinn forðum, þar sem sama bros, sama ákefð ríkti yfir þinni fallegu nærveru þrátt fyrir að þú værir hernuminn af meinvætti þeim sem því miður var búinn að festa sig í sessi stóðst þú teinréttur og óðst sömu lækjarsprænur og sömu mýrarfláka og við höfðum riðið nokkrum árum fyrr þegar allt lék í lyndi. Einu ári síðar héldum við frændur af stað í austurátt að kanna nýjar slóðir, nánar tiltek- ið um Rangárvallasýslu og áfram austur eftir sandauðnum Suðurlands að Höfn í Horna- firði. Hugfangnir af náttúruauði landsins, með stolt í hjarta. Á ferðalaginu áttu sér stað stór- skemmtileg atvik sem jafnframt endurspegluðu manngerð þína á einstakan hátt. Stundir eins og þegar þið bræður genguð undir Skógafoss þar sem fossúðinn og geislar haustsólar mynduðu fal- legan regnboga. Þú brostir þínu breiðasta á því augnabliki og gekkst hæglátum skrefum gegn- votur til baka í átt að sólu, hlæj- andi meðan stöðugur vatnsúðinn dundi yfir og hrakti fólk þvers og kruss. Það var mikið líf þenn- an daginn því einni klukkustund síðar vorum við frændur komnir á fjórhjól um sanda Sólheima- jökuls. Þá var ekki að sjá að um veikan mann væri að ræða, þar sem ekið var hér um bil á ólög- legum hraða meira eða minna alla ferðina. Við hoppuðum hæð okkar af gleði á milli þess sem skipst var á sögum. En þegar síga tók á seinni hluta hvers dags og til náttstaðar var komið, sá ég svo miklu betur hve hrjáður þú varst í raun. Það var aðdáun- arvert að fylgjast með þér og barráttu þinni. Einfaldlega vegna þess að þú hélst í sömu gildi og þú barst með þér frá blautu barnsbeini. Göfug gildi sem einkenndust af einstöku æðruleysi og virðingarverðri auðmýkt gagnvart náunganum. Þinn hetjuskapur og andleg hreysti er mér og öðrum til fyr- irmyndar. Enn og aftur heyri ég álengd- ar hófadyninn, þar sem fax hest- anna sveiflast í takt við grósku- mikið hár þitt, upplýst af sólargeislum júnímánaðar. Taktfastar hreyfingar, maður- inn og hestur, glaðvært bros þitt sem veitir mér fullkominn innri frið. Þetta er sú mynd öðrum fremur sem ég mun geyma í hjarta mínu. Elsku Sölvi, minning þín lifir. Þinn vinur, Guðni Brynjólfur Ásgeirsson. Sölvi kom til Akureyrar eftir stúdentspróf 2017 og fór að vinna hjá okkur. Hann starfaði bæði á Dýraspítalanum og þjálf- aði hestana í hesthúsinu. Falleg- ur, hress og skemmtilegur strákur frá Siglufirði sem tengdist okkur strax sterkum böndum. Frábær starfsmaður, vinnusamur, bóngóður og ljúfur í allri umgengni. Hann var mikill dýravinur og flinkur á hesti, hafði keppt frá barnsaldri og keppti hér hjá Létti með góðum árangri. Hann reið út með okkur og fórum við saman í margar hestaferðir. Hann varð góður félagi okkar allra og var einstaklega gaman að vera með Sölva, hann var brosmildur, yfirvegaður og mjög fyndinn. Hann eignaðist góðan vina- hóp hér á Akureyri og áttu Þóra og Pálína margar góðar stundir í skemmtanalífinu með Sölva. Framtíðin var björt og lífið að hefjast þegar hann veikist skyndilega og greinist með hvít- blæði fyrir þremur árum. Bar- átta hans við krabbameinið var hörð, hann fór í gegnum merg- skipti tvisvar og mikil sorg fyrir ungan dreng að vera kippt út úr félagslífi, skóla og vinnu í blóma lífsins. Við fylgdumst með á hlið- arlínunni og glöddumst er vel gekk og var því höggið þungt í haust er sjúkdómurinn tók skyndilega öll völd. Þá var hann á leiðinni í HA og hlakkaði mikið til að hefja skólagöngu að nýju. Harmafregnin um andlát Sölva barst okkur rétt fyrir jólin og síðan hefur hugur okkar ver- ið með hans góðu fjölskyldu. Þau fylgdu honum gegnum allt ferlið, nánd þeirra, ást og um- hyggja var einstaklega falleg. Við samhryggjumst ykkur innilega í þessari miklu sorg og harmi. Minning þín lifir með okkur alla tíð, elsku Sölvi. Elfa, Höskuldur, Þóra og Pálína. Sölvi Sölvason Elskulegur faðir okkar, tengdafaðir, afi og langafi, INGÞÓR BJÖRNSSON pípulagningameistari, lést á Hrafnistu, Sléttuvegi 3, miðvikudaginn 8. desember. Útförin fer fram frá Fossvogskirkju í dag, miðvikudaginn 29. desember, klukkan 13. Streymt verður frá athöfn á www.streyma.is. Krafist er hraðprófs við athöfn. Ólöf Ingþórsdóttir Guðbjörn Sævar Garðar Ingþórsson Ingibjörg Óladóttir Sigríður Ingþórsdóttir Benedikt Ingþórsson Mirjam van Schijndel Hjörtur Ingþórsson Þórunn Einarsdóttir barnabörn og barnabarnabörn Okkar ástkæri JÓN HELGI HJÖRLEIFSSON frá Gilsbakka, Raftahlíð 41, Sauðárkróki, lést á sjúkrahúsinu á Akureyri miðvikudag- inn 22. desember, í faðmi fjölskyldunnar. Útför fer fram frá Sauðárkrókskirkju miðvikudaginn 12. janúar klukkan 14. Vegna fjöldatakmarkana verða aðeins hans nánustu viðstaddir athöfnina. Streymt verður frá athöfninni á facebook-síðu Sauðárkrókskirkju. Kristín Ingadóttir Rósa Björk Jónsdóttir Kevin Martin Ingi Guðmundsson Oddný Ragna Pálmadóttir Þórir Guðmundsson Ingibjörg Sólrún Indriðadóttir og barnabörn Elsku mamma, amma og langamma, SOFFÍA EMELÍA RAGNARSDÓTTIR, Smiðsbúð 1, Garðabæ, lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 17. desember. Í ljósi aðstæðna hefur útförin farið fram í kyrrþey. Hlýjar þakkarkveðjur til starfsfólks Báruhrauns. Linda Dögg Reynisdóttir Íris Lóa Eyjólfsdóttir Viktoría Karlsdóttir Soffía Kristín og Laura Morgunblaðið birtir minning- argreinar endurgjaldslaust alla útgáfudaga. Óheimilt er að taka efni úr minningar- greinum til birtingar í öðrum miðlum nema að fengnu sam- þykki. Skil | Þeir sem vilja senda Morg- unblaðinu greinar eru vinsamlega beðnir að nota innsendikerfi blaðsins. Smellt á Morgunblaðs- lógóið í hægra horninu efst og við- eigandi liður, „Senda inn minning- argrein,“ valinn úr felliglugg- anum. Einnig er hægt að slá inn slóðina www.mbl.is/sendagrein Minningargreinar

x

Morgunblaðið

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Morgunblaðið
https://timarit.is/publication/58

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.