Morgunblaðið - 13.01.2022, Side 26
26 FRÉTTIR
Innlent
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 13. JANÚAR 2022
SVIÐSLJÓS
Guðmundur Magnússon
gudmundur@mbl.is
Þegar Erla Dóris Halldórsdóttir
hjúkrunarfræðingur birtist á göng-
um Landspítalans í Fossvogi í full-
um skrúða, sérstökum hlífðarbún-
ingi með húfu, hanska og gleraugu
til að verjast smiti af völdum kór-
ónuveirunnar, með sjúkling sér við
hlið, eru þeir sem á vegi verða fljótir
að forða sér. Enginn vill smitast af
þessari skæðu
farsótt sem hald-
ið hefur sam-
félaginu í heljar-
greipum í
næstum tvö ár.
Starfsmenn spít-
alans vita að Erla
er á leið frá Co-
vid-göngudeild-
inni í Birkiborg,
steinsnar frá að-
albyggingunni, og á sóttvarnadeild-
ina þar sem tekið verður á móti
sjúklingnum.
Erla Dóris á að baki langa starfs-
reynslu sem hjúkrunarfræðingur en
hún er líka hámenntuð í annarri há-
skólagrein, sagnfræði, lauk doktors-
prófi 2016 og hefur á stuttum tíma
sent frá sér þrjár bækur, sem allar
byggjast á grundvallarrannsóknum
hennar í heilbrigðissögu, um karla í
ljósmæðrastarfi á Íslandi fyrr á tíð,
um holdsveiki og nú síðast um jólin
bók um mislinga en sú hættulega
farsótt herjaði um aldir á íslenskt
samfélag.
Aftur í hjúkrunarfræðina
„Eftir doktorspróf í sagnfræði
hélt ég satt að segja að allir vegir
stæðu opnir fyrir mig og sagn-
fræðiverkefnin myndu hrúgast að
mér en svo var ekki. Ég hélt einnig
að ég myndi komast í rannsóknar-
verkefni á vegum sagnfræðideildar
Háskóla Íslands en svo reyndist alls
ekki. Það olli mér miklum von-
brigðum,“ segir Erla. Hún sneri sér
að hjúkrunarfræðinni aftur og hefur
nú starfað á Covid-göngudeildinni í
nær tvo mánuði, í hlutastarfi og á
dagvöktum. „Ég tel það mikið gæfu-
spor fyrir mig að starfa á þessari
deild bæði sem hjúkrunarfræðing og
sagnfræðing. Við lifum á sögulegum
tímum vegna smitsjúkdóms sem
geisar nú um allan heim. Ég er mjög
ánægð í vinnunni og þar nýtist sér-
fræðiþekking mín, gjörgæslu-
hjúkrun.“
Þekktu ekki orsakirnar
„Fyrr á tíð vissu læknar ekki hvað
það var sem olli smitsjúkdómum, en
þeir vissu að sjúkdómar gætu borist
á milli manna, annaðhvort með
snertingu eða við öndun. Þeir vissu
bara ekki hvað það var sem olli
þessu – það var talað um „sóttar-
eitur“ enda kom vírus-hugtakið ekki
til sögunnar fyrr en á 20. öld,“ segir
Erla. Hún segir að læknar og stjórn-
völd hafi ýmislegt gert til að stemma
stigu við hættulegum smitfar-
öldrum. Þegar á 18. öld þurftu skip
sem sigldu til Íslands að hafa með-
ferðis heilbrigðisvottorð þar sem
skipstjórar sóru eið að því að í skip-
um þeirra væru hvorki skipverjar né
farþegar með mislinga eða bólusótt.
Dæmi er um það frá árinu 1792 að
heilbrigðisvottorðs hafi verið krafist
innanlands þegar ferðast var á milli
landshluta. „Það var gert eftir misl-
ingafaraldur sumarið 1791,“ segir
Erla.
Tilskipun um sóttvarnir
Árið 1805 var gefin út tilskipun
um sóttvarnir þar sem m.a. kemur
fram að skip með vörur innanborðs
og skipverja frá stöðum þar sem
smitsóttir geisuðu þurftu að gera sig
auðþekkjanleg með því að draga upp
grænan fána.
„Ef sóttarsýkt skip leitaði til lands
vegna vatnsskorts eða vistarskorts
mátti leyfa skipverjum að sækja
vatn og vistir en tekið var fram í til-
skipuninni að þeir skyldu halda sig
50 skrefum frá innbúum landsins,“
segir Erla.
Reykjavík í sóttkví 1905
Erla segir að í byrjun maí 1905 hafi
Reykjavík í fyrsta skipti verið sett í
sóttkví vegna mislinga. Sóttarbanninu
hafi verið aflétt 7. júní sama ár. Eng-
inn mátti fara úr bænum nema hann
hefði fengið mislinga. Stór faraldur
gekk líka árið 1882 og nokkrir minni
síðar. „Það varðaði sektum að brjósta
þessa sóttkví – það eru tveir dómar um
þrjá unga karlmenn sem brutu þetta
bann og hlutu fangelsisdóm,“ segir
Erla.
Talið er að mislingar hafi fyrst bor-
ist til Íslands árið 1644, en um það er
lítið vitað. Traustar heimildir eru aftur
á móti um mislinga í lok 18. aldar þeg-
ar um 200 Íslendingar létust af völdum
farsóttarinnar, og oft á 19. öld þegar
hún tók mikinn toll. Þannig bárust
mislingar til dæmis til Hafnarfjarðar
vorið 1846, með mislingaveikum skip-
verja frá Danmörku. Er talið að um
tvö þúsund manns hafi látið lífið í þess-
um faraldri. „Mislingasóttin barst í
Bessastaðskóla á Álftanesi þar sem 40
ungir skólapiltar bjuggu og stunduðu
nám. Þeir veiktust allir og eru taldir
hafa borið mislingasóttina um allt land.
Þeir voru sendir heim úr skólanum
veikir,“ segir Erla.
Hún segir að annar mislingafar-
aldur hafi borist til Íslands í byrjun
maí 1882. Þá kom mislingaveikur
smiður, Helgi Helgason, frá Kaup-
mannahöfn. Vörður var settur við
heimili hans því hann skyldi vera í ein-
angrun en fjölskylda hans braut þá
einangrun. Í þessum mislingafaraldri
er talið að um 1.700 manns hafi dáið,
þar af um 200 í Reykjavík einni um
sumarið, bæði börn og fullorðnir.
Bóluefnið kom árið 1924
Erla segir að fyrsta efnið sem not-
að var til bólusetninga við mislingum
hér á landi, svokallað misl-
ingaserum, hafi komið til sögunnar
árið 1924. „Bólusetning fyrir misl-
ingum hófst miklu fyrr en áður var
almennt kunnugt og átti þetta misl-
ingaserum, sem unnið var úr blóði
einstaklinga sem voru nýstaðnir upp
úr mislingasótt, eftir að bjarga lífi
tuga manna hér á landi á 20. öld,“
segir Erla. Þetta mislingaserum
virkaði aðeins í nokkrar vikur hjá
þeim sem ekki höfðu fengið mislinga
og það kom fyrir að endurtaka þurfi
bólusetningar með þessu mislinga-
serumi. Það var aðeins gefið þegar
mislingar bárust til Íslands. Fólk
sem var að jafna sig eftir mislinga
var beðið um að gefa blóð þannig að
hægt væri að útbúa bóluefnið. Því
var sprautað undir húð hjá þeim sem
ekki höfðu fengið mislinga.
Erla segir að á síðustu öld hafi
margir mislingafaraldrar gengið hér
á landi. Á árunum frá 1940 til 1960
voru hér stórir faraldrar. „Árið 1962
kom Margét Guðnadóttir, prófessor
í læknisfræði og veirusérfræðingur,,
því til leiðar að bólusetningar með
lifandi veikluðu efni úr mislingaveiru
hófust hér á landi. Bólusetning gegn
mislingum varð svo að föstum lið í
bólusetningu barna hér á landi árið
1976.“
Erla segir að eftir þetta hafi þeim
sem smituðust af mislingum farið
fækkandi. Ekkert andlát hafi verið
af völdum mislinga hér frá árinu
1967 en þá létust fjórir af völdum
sjúkdómsins. Búið sé að útrýma
mislingum hér á landi en árið 2019
hafi þó lítill mislingafaraldur gengið
hér á landi þegar níu einstaklingar,
börn og fullorðnir, fengu sjúkdóm-
inn.
Forða sér þegar ég birtist!
- Erla Dóris Halldórsdóttir er hjúkrunarfræðingur á Covid-deild Landspítalans og doktor í sögu
- Hún hefur á stuttum tíma sent frá sér þrjú grundvallarrit um íslenska heilbrigðissögu
Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Sagnfræði Erla Dóris Halldórsdóttir, hjúkrunarfræðingur á Covid-göngudeild Landspítalans í Fossvogi, er einnig
doktor í sagnfræði og hefur unnið að brautryðjandarannsóknum í íslenskri heilbrigðissögu.
Einvalalið Erla Dóris með samstarfskonum á Covid-göngudeild Landspít-
alans í Fossvogi. Þar hefur verið mikill erill í faraldrinum síðustu tvö ár.
Covid Erla Dóris Halldórsdóttir í
fullum skrúða á göngudeildinni.