Morgunblaðið - 17.01.2022, Qupperneq 13
FRÉTTIR 13Erlent
MORGUNBLAÐIÐ MÁNUDAGUR 17. JANÚAR 2022
KATTAFÓÐUR
Fiskislóð • Bíldshöfði • Smáratorg • Helluhraun • Baldursnes
www.gaeludyr.is
Maðurinn sem lést eftir að hafa
haldið fjórum í gíslingu í bænahúsi
gyðinga í Colleyville í Texas hét
Malik Faisal Akram og var 44 ára
Breti. Gíslarnir fjórir voru leystir
úr gíslingu ómeiddir á laugardag
við mikinn létti margra. Joe Biden,
forseti Bandaríkjanna, sagði að
gíslatakan hefði verið hryðjuverk
og vill hann auka framlög til bar-
áttunnar á móti gyðingahatri.
Samkvæmt upplýsingum frá
bandarísku alríkislögreglunni FBI
bendir allt til þess að Akram hafi
verið einn að verki. Biden neitaði
að tjá sig um ástæðu gíslatök-
unnar en virtist staðfesta fréttir
fjölmiðla í landinu, en þeir telja að
Akram hafi viljað frelsi hryðju-
verkamannsins Aafia Siddiqui,
pakistansks taugasérfræðings sem
einnig er þekktur sem „Kona Al-
Kaída“.
Liz Truss, utanríkisráðherra
Bretlands, fordæmdi gíslatökuna
og sagði hana vera hryðjuverk og
hatursglæp gegn gyðingum.
Siddiqui var fyrsta konan sem
yfirvöld í Bandaríkjunum grunuðu
að væri tengd hryðjuverkasamtök-
unum Al-Kaída og var hún hand-
sömuð í Afganistan árið 2008.
Tveimur árum síðar var hún
dæmd í 86 ára fangelsi fyrir til-
raun til dráps á bandarískum her-
mönnum.
Siddiqui er nú í haldi í Fort
Worth í Texas-ríki. Lögfræðingur
hennar segir að Siddiqui hafi eng-
an þátt átt í gíslatökunni og að
hún fordæmi hana.
Ekki hefur komið fram hvort
sérsveitin hafi skotið Akram eða
hvort hann hafi svipt sig lífi, en
bresk stjórnvöld ætla að aðstoða
lögregluyfirvöld í Bandaríkjunum
við rannsókn málsins. logis@mbl.is
AFP
Hryðjuverk Gíslatakan vakti óhug
meðal gyðinga og almennings.
Gíslatökumaður-
inn var breskur
- Gíslarnir
sluppu ósærðir
Stefán Gunnar Sveinsson
sgs@mbl.is
Risastór sprenging í eldfjallinu
Hunga Tonga-Hunga Ha’apai á
eyjunni Tonga á laugardaginn olli
gríðarmiklum skaða í höfuðborg-
inni Nuku’alofa. Þá sendi spreng-
ingin flóðbylgjur af stað, og varð
þeirra vart um mestallt Kyrrahaf,
frá Japan til vesturstrandar
Bandaríkjanna. Mældust hæstu
flóðbylgjurnar í Síle, og voru þær
um 1,74 metra háar.
Enn var ekki ljóst hversu mikill
skaðinn var af sprengingunni, þar
sem mestöll fjarskipti við eyjuna
lágu niðri í gær. Jacinda Ardern,
forsætisráðherra Nýja-Sjálands,
sagði eftir að hún heyrði í sendi-
ráði landsins í Tonga, að ljóst væri
að Nuku’alofa hefði orðið fyrir
gríðarmiklum skaða af völdum
flóðbylgju, sem sögð var hafa náð
allt að 1,2 metra hæð. Þá lá þykkt
öskulag yfir borginni og mengaði
öskufallið vatnsból borgarinnar.
Bæði Ástralía og Nýja-Sjáland
ætla að senda eftirlitsvélar til eyj-
arinnar um leið og aðstæður leyfa,
og eru ríkin einnig að undirbúa
neyðaraðstoð handa íbúum eyjar-
innar. Þá hafa Bandaríkjamenn,
Sameinuðu þjóðirnar og Alþjóða-
heilbrigðisstofnunin einnig heitið
því að veita Tongabúum aðstoð
sína.
Sprengingin heyrðist í Alaska
Af gervihnattamyndum mátti sjá
hvernig eldfjallið spúði ösku og
reyk nokkra kílómetra upp í loftið,
og stóð gosið yfir í að minnsta
kosti átta mínútur. Samkvæmt
mati jarðfræðistofnunar Banda-
ríkjanna var gosið á við jarð-
skjálfta sem væri 5,8 að stærð.
Drunurnar sem fylgdu gos-
sprengingunni voru svo öflugar að
þær heyrðust í Alaska, sem er
nærri 10.000 kílómetra frá Tonga.
Vitnaði jarðfræðistofnun Alaska-
háskóla í eldfjallafræðinginn David
Fee, sem sagði að einungis væri
vitað um tvö önnur eldgos sem
hefðu náð að senda hljóðbylgjur
svo langa leið, annars vegar eld-
gosið í Krakatá árið 1883, og svo
eldgosið í Novarupta í Alaska árið
1912.
Þá námu loftþrýstingsmælar í
Fife í Skotlandi einnig þrýsting frá
sprengingunni. Sagði veðurathug-
unarstöðin þar á Twitter-síðu sinni
að það væri nær ótrúlegt að hugsa
til þess mikla krafts sem gæti sent
höggbylgju hálfa leið kringum
hnöttinn.
Tveir látnir í Perú
Ekki var vitað um nein dauðsföll
í Tonga vegna gossins. Í Perú lét-
ust hins vegar tvær konur á laug-
ardaginn, en þær drukknuðu eftir
að risaflóðbylgja lenti á bænum
Lambayeque, rúmlega 10.600 kíló-
metra frá Tonga. Létu stjórnvöld í
Perú loka 22 höfnum í norður- og
miðhluta landsins vegna flóð-
bylgna sem stöfuðu frá sprenging-
unni.
Sprengingin olli
gríðarmiklum skaða
- Drunurnar frá eldgosinu heyrðust alla leið til Alaska
AFP
Eldgos Þessi mynd úr japanska Himawari-8 gervihnettinum sýnir hvernig askan reis upp í loft á laugardaginn.
Stjórnvöld í Úkraínu lýstu því yfir í
gær að þau hefðu sönnunargögn um
að Rússar hefðu staðið á bak við
gríðarmikla netárás sem lamaði
helstu vefsíður stjórnvalda á föstu-
daginn.
„Öll gögn benda til þess að Rúss-
land hafi staðið að árásinni,“ sagði í
yfirlýsingu upplýsingaráðuneytis
Úkraínu, sem sakaði um leið stjórn-
völd í Moskvu um að stunda svokall-
aðan „blendingshernað“ gegn úkra-
ínsku samfélagi, og að árásinni hefði
meðal annars verið ætlað að grafa
undan trausti almennings til stjórn-
valda.
Rússar hafa hafnað öllum ásök-
unum um að netárásin hafi komið úr
þeirra ranni. Dmitrí Peskov, tals-
maður Vladimírs Pútíns Rússlands-
forseta, sagði við CNN-sjónvarps-
stöðina að Úkraínumenn kenndu nú
Rússum um allt sem aflaga færi,
meira að segja veðrið.
Árásirnar beindust að um 70 mis-
munandi vefsíðum á vegum úkra-
ínskra stjórnvalda og skildu tölvu-
þrjótarnir meðal annars eftir
skilaboð á rússnesku, úkraínsku og
pólsku: „Verið hrædd og búist við
hinu versta.“
SBU, leyniþjónusta Úkraínu,
sagði að tekist hefði að laga allar síð-
ur og að skaðinn væri í minna lagi.
Tölvurisinn Microsoft varaði hins
vegar við því að árásin gæti valdið
enn meiri skaða en óttast var í
fyrstu, en sérfræðingar fyrirtækisins
hafa rannsakað kóðann sem notaður
var til árásanna.
Sagði í yfirlýsingu á bloggsíðu
fyrirtækisins að spilliforritið sem
notað var þættist vera fjárkúgunar-
forrit, en í raun væri hlutverk þess
að gera þær tölvur sem hlaða því nið-
ur óvirkar með öllu. Þá væri mjög
sennilegt að mun fleiri stofnanir
hefðu orðið fyrir barðinu á forritinu
en þær 70 sem búið var að greina frá.
Reiðubúnir fyrir allt
Jake Sullivan, þjóðaröryggis-
ráðgjafi Bandaríkjanna, sagði við
CBS-sjónvarpsstöðina í gær að
Bandaríkjastjórn hygðist ráðfæra
sig við bandamenn sína um næstu
skref, eftir að viðræður síðustu viku
náðu ekki að draga úr spennunni
sem nú er við landamæri Úkraínu.
„Aðalatriðið er að við erum til-
búnir hvað sem gerist,“ sagði Sulli-
van. „Ef Rússar vilja halda áfram
með viðræður, erum við algjörlega
tilbúnir til þess í takt við bandamenn
okkar og félaga. Ef Rússar vilja feta
stíg innrásar og stigmögnunar, erum
við tilbúnir fyrir það líka, með kröft-
ugt svar.“
Jens Stoltenberg, framkvæmda-
stjóri Atlantshafsbandalagsins, skor-
aði í gær aftur á Rússland að draga
herlið sitt frá landamærunum að
Úkraínu. Sagði Stoltenberg banda-
lagið reiðubúið til að setjast niður
með Rússum og hlusta á áhyggjur
þeirra, en Rússar hafa lýst því yfir að
þeim standi ógn af stækkun banda-
lagsins í austurátt.
Dmytro Kuleba, utanríkis-
ráðherra Úkraínu, sendi hins vegar
frá sér yfirlýsingu í gær um að Úkra-
ínumenn og vesturveldin væru að
undirbúa þær refsiaðgerðir sem
gripið yrði til ef til innrásar kæmi. Þá
væri verið að íhuga skref til að auka
varnarsamstarf Úkraínumanna við
vestræn ríki. „Ef Pútín vill vita hvers
vegna nágrannar hans vilja ganga í
NATO, þarf hann bara að horfa í
spegilinn,“ sagði Kuleba í yfirlýsing-
unni.
Segja Rússa bera
ábyrgð á netárás
- Pútín þurfi að „horfa í spegilinn“
AFP
Spennustig Úkraínskir hermenn
vakta jarðsprengjusvæði í Donetsk-
héraði í austurhluta landsins.