Morgunblaðið - 25.02.2022, Síða 29
MENNING 29
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 25. FEBRÚAR 2022
Nánari upplýsingar um sýningartíma á sambio.is
TRYGGÐU ÞÉR
MIÐA INNÁ
SÝND MEÐ ÍSLENSKU TALI
SÝND MEÐ ÍSLENSKU TALI
Skáldsögurnar Aprílsólarkuldi eftir
Elísabetu Kristínu Jökulsdóttur og
Truflunin eftir Steinar Braga eru til-
nefndar til Bókmenntaverðlauna
Norðurlandaráðs 2022 fyrir Íslands
hönd. Þetta var tilkynnt í Gunnars-
húsi í gær. Landsbundnar dóm-
nefndir tilnefna í ár samtals 14 verk
til verðlaunanna, en sameiginleg
norræn dómnefnd velur vinnings-
hafa ársins og verða verðlaunin
afhent við hátíðlega athöfn í
Helsinki 1. nóvember í tengslum við
þing Norðurlandaráðs. Verðlauna-
hafinn hlýtur verðlaunagripinn
Norðurljós og 300 þúsund danskar
krónur sem samsvarar rúmum 5,7
milljónum íslenskra króna.
Frá Álandseyjum er tilnefnd
skáldsagan Hem eftir Karin
Erlandsson. Frá Danmörku eru til-
nefndar skáldsögurnar Om udregn-
ing af rumfang (I, II og III) eftir
Solvej Balle og Adam i Paradis eftir
Rakel Haslund-Gjerrild. Frá Finn-
landi eru tilnefndar skáldsögurnar
Eunukki eftir Kristinu Carlson og
Röda rummet eftir Kaj Korkea-aho.
Frá Færeyjum er tilnefnd ljóðabók-
in Sólgarðurin eftir Beinir Bergs-
son. Frá Grænlandi er tilnefnd
ljóðabókin Arkhticós Dolorôs eftir
Jessie Kleemann. Frá Noregi eru
tilnefndar skáldsögurnar Dette er G
eftir Inghill Johansen og Jente, 1983
eftir Linn Ullmann. Frá samíska
málsvæðinu er tilnefnd ljóðabókin
Beaivváš mánát eftir Mary
Ailonieida Sombán Mari. Frá
Svíþjóð eru tilnefndar skáldsög-
urnar Löpa varg eftir Kerstin
Ekman og Den dagen den sorgen
eftir Jesper Larsson.
Gæðir efnivið sinn töfrum
Íslensku dómnefndina skipa
Kristján Jóhann Jónsson, Silja
Björk Huldudóttir og Soffía Auður
Birgisdóttir, sem er varamaður. Í
umsögn þeirra um Aprílsólarkulda
segir: „Í bókinni beitir Elísabet
aðferðum skáldskaparins til að rann-
saka hvað gerðist þegar hún seint á
áttunda áratug síðustu aldar, þá um
tvítugt, veiktist af geðhvörfum og
upplifði vanmátt og skömm sem hún
hefur notað stóran hluta ævinnar til
að rannsaka og miðla í list sinni.
Sagan hverfist um Védísi sem á
þröskuldi fullorðinsáranna verður
fyrir því áfalli að missa föður sinn,
en reynist ófær um takast á við þær
tilfinningar sem því fylgja. Andlát
föðurins neyðir hana nefnilega ekki
aðeins til að horfast í augu við for-
gengileika manneskjunnar heldur
það hvernig uppvöxturinn á alkóhól-
íseruðu heimili með tilheyrandi felu-
leikjum út á við, óreiðu, hildarleik,
æðisköstum móðurinnar og fjarlægð
í samskiptum hefur mótað persónu-
leika hennar og tilfinningalíf. Hún er
alin upp við það að nota tungumálið
til að blekkja sjálfa sig og aðra, til að
segja ekki það sem hún meinar og
meina ekki það sem hún segir.
Frá blautu barnsbeini hefur henni
þannig verið innrætt að bæla niður
allar tilfinningar og frysta, því ekk-
ert er eins hættulegt og tilfinningar.
Treginn sem herjar á Védísi eftir
föðurmissinn er þannig litaður reiði
og eftirsjá, sem hún veit ekki hvern-
ig hún á að höndla eða tjá. Loks
flækist það fyrir henni að syrgja föð-
ur sem henni finnst að hún hafi í
reynd misst löngu áður – eða mögu-
lega aldrei átt. Stærsta sorgin í lífi
Védísar felst nefnilega í því að hún
fékk aldrei að upplifa áhyggjuleysi
æskunnar sem barn. […] Lýsing
Elísabetar á því hvernig Védís miss-
ir smám saman tengslin við raun-
veruleikann vegna veikinda sinna og
telur sig heyra og sjá margvísleg
skilaboð í umhverfinu sem eru öðr-
um hulin er meistaralega vel útfærð.
Lausbeislaður stíllinn og húm-
orinn sem á yfirborðinu ríkir geymir
þunga undiröldu. Naívur og tær
textinn kallast í fagurfræði sinni
sterklega á við barnið sem Védís
fékk aldrei að vera, en reynir í van-
mætti sínum að hlúa að. Elísabet
fjallar á tilfinninganæman og ljóð-
rænan hátt um vandmeðfarið efni og
gæðir efnivið sinn töfrum sem lætur
engan ósnortinn.“
Þverstæður nútímans
Í umsögn dómnefndar um Trufl-
unina segir: „Skáldsagan Truflunin
fjallar um lítið svæði sem er öðru vísi
en umheimurinn. Það getur að mati
yfirvalda ekki gengið. Þetta er fram-
tíðarsaga og söguformið er notað til
þess að brjóta þverstæður samtím-
ans til mergjar. Hið truflaða svæði
nær yfir þær götur í miðbæ Reykja-
víkur sem bera nöfn hinna fornu
guða ásatrúarmanna, Óðinsgata
skiptir þar að sjálfsögðu miklu máli,
einnig Óðinstorg og Óðinsvé. […]
Hið eiginlega viðfangsefni þess-
arar bókar er að í tölvuvæddum
heimi hefur vitund okkar verið teygð
yfir allan umheiminn, tengd alnetinu
og þannig séð erum við öll að breyt-
ast í örlítið mismunandi útgáfur af
eins konar samvitund. Sérkenni okk-
ar sópast burtu með straumi tækn-
innar. Hver treystir sér til að stað-
hæfa að hann sé einstakur eða
frábrugðinn öðrum? Samt hefur ein-
staklingshyggja ef til vill aldrei risið
jafn hátt og hún gerir nú. Þver-
stæður nútímans láta ekki að sér
hæða. Spurningarnar sem vakna við
lestur þessarar bókar eru viðamikl-
ar meginspurningar, meðal annars
um vísindasiðgæðið og nútímann.
Sumar þeirra eru vel kunnar: hve-
nær verður gervigreindin svo öflug
að hún verði ekki skilin frá greind
mannsins. Ef eftirlíkingin af greind
mannsins verður alfullkomin, verður
hún þá ekki jafnframt fullkomnari
en sú greind sem hver og einn hefur
fengið úthlutaða? Í kvikmyndum og
bókmenntum er oft lýst átökum milli
manna annars vegar og ofurtölva/
sæborga eða geimvera hins vegar.
Þeirri viðureign lýkur yfirleitt með
naumum sigri mannsandans sem
byggist oftast á hæfileika mannsins
til þess að elska og trúa, – en hver
segir að ekki sé hægt að læra það
líka?“
Auki menningarsamkennd
Bókmenntaverðlaun Norður-
landaráðs fagna 60 ára afmæli sínu í
ár en þau hafa verið veitt síðan 1962
fyrir fagurbókmenntaverk sem sam-
ið er á einu af norrænu tungumál-
unum. Það getur verið skáldsaga,
leikverk, ljóðabók, smásagna- eða
ritgerðasafn sem uppfyllir strangar
kröfur um bókmenntalegt og list-
rænt gildi. Markmið verðlaunanna
er að auka áhuga á menningar-
samkennd Norðurlanda og að veita
viðurkenningu fyrir framúrskarandi
starf á sviði lista.
Þess má geta að allar tilnefndar
bækur ársins eru aðgengilegar á
frummálunum á bókasafni Norræna
hússins. Þar má einnig nálgast allar
vinningsbækur frá upphafi. Skrif-
stofa Bókmenntaverðlauna Norður-
landaráðs hefur verið til húsa í Nor-
ræna húsinu frá 2014. Allar nánari
upplýsingar um verðlaunin má nálg-
ast á vefnum: norden.org/is/
bokmenntaverdlaunin.
Morgunblaðið/Eggert
Gleðistund Sigþrúður Gunnarsdóttir hjá Forlaginu tók við blómum fyrir hönd Steinars Braga sem ekki átti heim-
angengt, og Embla Garpsdóttir, sonardóttir Elísabetar Kristínar Jökulsdóttur, hélt á blómunum fyrir ömmu sína.
Elísabet og Steinar Bragi tilnefnd
- Tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs 2022 - Samtals eru 14 verk tilnefnd í ár
- Verðlaunin verða veitt í Helsinki 1. nóvember - Framlag Íslands Aprílsólarkuldi og Truflunin